Pexels - Open source myndasöfn

Óábyrgt að gera einstaklinga ábyrga

Stjórnvöld hafa hingað til hvatt til vistvænnar neyslu og þannig reynt að takast á við loftslagsvandann án þess að ógna hagvexti. Vistvæn neysla mun hins vegar ekki bjarga neyslufrekustu þjóð í heimi.

Lofts­lags­vand­inn er mest aðkallandi vanda­mál sam­tím­ans. Þrátt fyrir alvar­leika og umfang lofts­lags­mála hefur efna­hags­vöxtur verið meg­in­mark­mið stjórn­valda á síð­ustu ára­tug­um. Til að við­halda hag­vexti hafa stjórn­völd ein­fald­lega tek­ist á við umhverf­is­vanda­mál innan þeirra aðstæðna sem mark­að­ur­inn hefur skap­að. Þannig hafa stjórn­völd hvatt ein­stak­linga til að halda áfram að neyta, bara á vist­vænni máta en fyrr, og því fylgja ýmsar tak­mark­an­ir.

Sam­spil kap­ít­al­isma og lofts­lags­breyt­inga

Lofts­lags­breyt­ingar af manna­völdum ógna mann­lífi, líf­ríki og vist­kerfum um allan heim með for­dæma­lausum hætti. Alþjóða­sam­fé­lagið er farið að gera sér grein fyrir þess­ari ógn og því hafa verið gerðir fjöl­margir samn­ingar sem miða að því að draga úr lofts­lags­breyt­ingum af manna­völdum eða eins og farið er að kalla það; lofts­lags­ham­för­um. Samn­ing­arnir eru síðan lag­aðir að þeim ríkjum sem eru aðilar að samn­ingnum en í gegnum tíð­ina hefur til­hneig­ingin í stefnu­mótun verið sú að færa ábyrgð­ina yfir á ein­stak­ling­inn.

Þrátt fyrir að umhverf­is­mál hafi fengið sífellt meiri athygli og ríki skuld­bindi sig til að fylgja eftir mark­miðum alþjóða­samn­inga hefur efna­hags­vöxtur verið meg­in­mark­mið stjórn­valda á seinni ára­tugum tutt­ug­ustu ald­ar­inn­ar. Áherslan á hag­vöxt er afleið­ing kap­ít­al­ískrar hug­mynda­fræði en sam­kvæmt henni er hag­vöxtur und­ir­staða félags­legrar vel­sæld­ar. Hag­vöxtur hefur gjarnan verið not­aður sem mæli­kvarði á hversu mikil vel­sæld ríkir í sam­fé­lagi, þá í formi vergrar lands­fram­leiðslu. Þannig er sam­fé­lagið alltaf betur statt með meiri auð, sama hvernig þeim auð er ráð­staf­að. Kap­ít­al­ismi er ríkj­andi hug­mynda­fræði í flestum stjórn­kerfum sam­tím­ans og því hefur verið tek­ist á við umhverf­is­vanda­mál innan hug­mynda­fræði kap­ít­al­ism­ans og þeirra aðstæðna sem mark­að­ur­inn hefur skap­að.

Upp úr tutt­ug­ustu öld­inni var neyslu­hyggja orðin ríkur þáttur í dag­legu lífi fólks í hinum vest­ræna heimi og hefur hún í raun þró­ast sam­hliða kap­ít­al­ism­an­um. Neyslu­hyggja er í raun ákveð­inn lifn­að­ar­háttur sem ein­kenn­ist af óhóf­legri og ónauð­syn­legri neyslu, þ.e. neyslu sem er meiri en það sem telst nauð­syn­legt til lífs­við­ur­vær­is. Þannig má segja að neyslu­hyggjan gefi kap­ít­al­ism­anum lög­mæti því það er jú neyslan sem drífur áfram hag­vöxt.

Þessi meg­in­á­hersla á hag­vöxt sem byggir á einka­neyslu veldur gríð­ar­legum ágangi á auð­lindir jarðar og hefur leitt til flestra af þeim umhverf­is­vanda­málum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Sam­kvæmt mæl­ingum á vist­fótspori, þ.e. hversu mikið af nátt­úru­legum gæðum mann­kynið notar í neyslu sína, náði jörðin þol­mörkum seint á sjö­unda ára­tug tutt­ug­ustu ald­ar. Ljóst er að neyslan er komin vel umfram þol­mörk jarðar en þrátt fyrir það hefur neysla og ágangur á auð­lindir sífellt auk­ist.

Lofts­lags­ham­farir eiga því rætur sínar að rekja til þess hvernig efna­hags­kerfið er upp­byggt og hvernig ein­stak­lingar haga sínu dag­lega lífi. Hið kap­ít­al­íska hag­kerfi gerir ráð fyrir auknum hag­vexti frá ári til árs og þetta kerfi má ekki við því að neysla ein­stak­linga drag­ist saman því það myndi leiða til minni hag­vaxtar og sam­kvæmt hug­mynda­fræði kap­ít­al­ism­ans, minni félags­legrar hag­sæld­ar. Þar sem lífstíll okkar leiðir til lofts­lags­breyt­inga er auð­velt að skilja hvernig stjórn­mála­menn hafa að miklu leyti gert ein­stak­linga ábyrga fyrir kolefn­is­fótspor­inu og mótað stefnur í takt við það.

Þessi megináhersla á hagvöxt sem byggir á einkaneyslu veldur gríðarlegum ágangi á auðlindir jarðar og hefur leitt til flestra af þeim umhverfisvandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Pexels

Vist­væn neysla 

Árið 1992 var ráð­stefna Sam­ein­uðu þjóð­anna um umhverfi og þróun haldin í Rio de Jan­eiro. Þar var Ramma­samn­ingur Sam­ein­uðu þjóð­anna um lofts­lags­ham­farir (UN­FCCC) sam­þykkur af 155 ríkjum og Evr­ópu­sam­band­inu. Með Ramma­samn­ingnum var Stað­ar­dag­skrá 21 (Agenda 21) m.a. sett á lagg­irnar og stefnan var sett á sjálf­bæra þróun til að tryggja kom­andi kyn­slóðum við­un­andi lífs­skil­yrð­i. 

Frá því að Stað­ar­dag­skrá 21 var hrint í fram­kvæmd hefur áhersla í stefnu­mótun að miklu leyti verið á vist­væna fram­leiðslu og neyslu hjá mörgum ríkj­um, Evr­ópu­sam­band­inu og frjálsum félaga­sam­tök­um. Stjórn­völd hafa hvatt til vist­vænnar neyslu­hyggju (e. green consu­m­er­is­m), t.d. með því að upp­lýsa neyt­endur um umhverf­is­á­hrif vöru eða þjón­ustu og hvetja þá til að kaupa umhverf­is­vott­aðar vörur eða vörur í fyr­ir­ferð­ar­minni pakkn­ing­um, með stöðlum og vott­unum fyrir umhverf­is­vænum fram­leiðslu- og end­ur­vinnslu­ferl­u­m. 

Stefna stjórn­valda hefur hingað til ekki miðað að því að draga úr neyslu enda myndi það minnka hag­vöxt. Þannig er ábyrgðin sett í hendur ein­stak­linga án þess að hag­vext­inum sé ógn­að.

Neytendur eru ábyrgir fyrir því að viðhalda hagvexti en eiga samtímis að vera drifkrafturinn í átt að sjálfbærara samfélagi.


Vist­væn neyslu­hyggja vísar til þess að neyt­endur reyni að tak­marka umhverf­is­á­hrif sem verða til við fram­leiðslu, dreif­ingu, notk­un, end­ur­nýt­ingu og urðun á vöru sem þeir kaupa. Dæmi um slíka neyslu er t.d. þegar neyt­andi kaupir raf­magns­bíl í stað­inn fyrir bens­ín­bíl, velur umhverf­is­vott­aðar vör­ur, vörur í fyr­ir­ferð­ar­litlum pakkn­ingum eða tekur upp umhverf­is­vænna matar­æði. Þessu skal þó ekki rugla saman við sjálf­bæra neyslu. Hug­takið sjálf­bær neysla vísar til þess að neysla jarð­ar­búa sé ekki meiri en svo að auð­lindir jarðar geti staðið undir henni til lengri tíma. 

Sjálf­bær neysla miðar þannig að því að breyta kerf­inu í heild sinni en hins vegar snýr vist­væn neysla í meg­in­dráttum að því að breyta fram­leiðslu­ferl­inu og vör­unni sem óhjá­kvæmi­lega verður að neyta. Það að neyta vöru eða þjón­ustu sem er umhverf­is­vottuð er vissu­lega betri kostur en ekki. Það leiðir hins vegar ekki til minni neyslu, sem er nauð­syn­leg ef ná á mark­miði um sjálf­bæra þró­un. Neyt­endur eru ábyrgir fyrir því að við­halda hag­vexti en eiga sam­tímis að vera drif­kraft­ur­inn í átt að sjálf­bær­ara sam­fé­lag­i. 

Með því að hvetja til vist­vænnar neyslu­hyggju er gert ráð fyrir því að hægt sé að ná umhverf­is­mark­miðum án of mik­illa rík­is­af­skipta og nei­kvæðra áhrifa á efna­hags­kerf­ið. Með öðrum orðum að hægt sé að leysa umhverf­is­vanda­málin með lög­máli mark­að­ar­ins því með­vit­aðir neyt­endur muni taka upp­lýstar ákvarð­anir með hags­muni umhverf­is­ins í huga.

Tak­mark­anir vist­vænnar neyslu­hyggju

Þrátt fyrir aukna áherslu á upp­lýs­ingar til neyt­enda um t.d. umhverf­is­merk­ingar hefur efn­is­leg neysla und­an­farin ár stöðugt auk­ist. Því má leiða líkur að því að það sé tak­mörkuð lausn að treysta á vist­væna neyslu ein­stak­linga sem lausn á lofts­lags­vand­an­um.

Í fyrsta lagi má nefna vanda­mál sam­eig­in­legra aðgerða, þ.e. að ein­stak­lings­fram­takið er tak­mörk­unum háð. Ekki er víst að ein­stak­lingar séu til­búnir að fórna ákveðnum þæg­indum og gæðum fyrir umhverf­isá­vinn­ing. Ágóð­inn við að breyta hegðun er að öllum lík­indum smá­vægi­legur og honum er jafn­framt deilt með öll­um.

Í öðru lagi getur svokölluð Þver­sögn Gidd­ens (e. Gidd­ens’s Para­dox) haft áhrif á aðgerðir ein­stak­linga þegar kemur að því að takast á við lofts­lags­ham­far­ir. Kenn­ingin varðar aðgerða­leysi ein­stak­linga og stjórn­valda við lofts­lags­vand­an­um. Hún vísar til þess að þar sem hættan á lofts­lags­breyt­ingum er ekki nálæg, áþreif­an­leg eða sýni­leg í dag­legu lífi fólks getur það leitt til aðgerða­leys­is. Þá hefur fólk til­hneig­ingu til að sitja aðgerða­laust þangað til áhrifin verða sýni­leg eða aðkallandi, líkt og raunin er á Íslandi. Þetta leiðir til þess að ekki er gripið til aðgerða fyrr en það er orðið of seint.

Síð­ast en ekki síst getur ein­stak­lings­fram­takið leitt til svo­kall­aðra end­ur­kasts­á­hrifa (e. rebound effect). End­ur­kasts­á­hrif vísa til þess að sá sparn­aður sem hlýst vegna nýrrar tækni eða meiri orku­nýtni getur leitt til þess að neysla eykst og þannig dregst úr orku­sparn­að­inum sem hefði ann­ars náðst. Sem dæmi má nefna ein­stak­ling sem kaupir spar­neytn­ari bíl til að eyða minna elds­neyti en endar á því að keyra meira vegna þess að bíll­inn er svo spar­neyt­inn. 

Rafmagnsbíll
Pexels

Þar af leið­andi næst í raun eng­inn orku­sparn­að­ur. Einnig geta end­ur­kasts­á­hrif átt sér stað þegar lægra verð leiðir til breyt­inga á eft­ir­spurn eftir vöru eða þjón­ustu, til dæmis ef fjár­magnið sem safn­ast upp við það að reka spar­neyt­inn bíl er notað til að borga fyrir utan­lands­ferð. Ef end­ur­kasts­á­hrif eru tekin til greina virð­ist ávinn­ingur þess að breyta eða draga úr neyslu ein­stak­linga ekki hafa jafn mikil áhrif og margir gera sér vonir um. 

Bjelle, Steen-Ol­sen og Wood komust að því í rann­sókn sinni á norskum neyt­endum að breyt­ingar á neyslu­hegðun geta dregið úr kolefn­is­fótspori ein­stak­linga um allt 58 pró­sent. Þegar tekið er mið af end­ur­kasts­á­hrif­unum er ávinn­ing­ur­inn hins vegar ein­ungis 24 til 35 pró­sent minni los­un. Árið 2004 rann­sak­aði Eva C. Alfreds­son end­ur­kasts­á­hrif breyttra neyslu­hátta á sænskum heim­il­um. Hún komst að því að end­ur­kasts­á­hrif vegna matar­æð­is, ferða­laga og hús­næð­is­mála voru um 35 pró­sent. Þar sem græn­met­is­fæði krefst minni orku­notk­unar í fram­leiðslu, leiðir til minni los­unar á gróð­ur­húsa­loft­teg­undum og er ódýr­ara en kjöt­matar­æði ætti breyt­ing í átt að slíku matar­æði að vera skil­virk leið fyrir neyt­endur til að minnka kolefn­is­fót­spor sitt. 

Hins vegar komst Alfreds­son að því að þeim fjár­munum sem spör­uð­ust með breyt­ingu á matar­æði var varið í aðra neyslu­flokka sem eru orku- og kolefn­is­frek­ir. Sam­kvæmt nið­ur­stöðum hennar var stærstum hluta þeirra fjár­muna varið í ferða­lög. End­ur­kasts­á­hrifin við að breyta matar­æði voru því allt að 200 pró­sent, þ.e. breyt­ingin leiddi til bakslags. Aug­ljóst er að nauð­syn­legt er að breyta neyslu­hegðun ein­stak­linga til að takast á við lofts­lags­ham­farir en einnig er nauð­syn­legt að taka til­lit til end­ur­kasts­á­hrifa.

Neyslu­drifið kolefn­is­fót­spor Íslend­inga

Gjarnan er litið á Ísland sem „græna“ þjóð þegar kemur að orku­notkun og umhverf­is­mál­um. Orku­notkun Íslands er að lang mestu leyti sjálf­bær þar sem not­aðir eru end­ur­nýj­an­legir orku­gjafar og er því Ísland gjarnan talin fyr­ir­mynd þegar kemur að umhverf­is­málum í alþjóða­sam­fé­lag­in­u. Þegar kemur að því að fást við lofts­lags­vanda­mál á Íslandi virð­ist hins vegar lítið til­lit tekið til þess að losun Íslands stafar helst af neyslu ein­stak­linga. 

Þrátt fyrir sér­stöðu Íslands hvað end­ur­nýj­an­lega orku­gjafa varðar eru flestar vörur sem Íslend­ingar neyta fram­leiddar í öðrum löndum þar sem ekki hefur farið end­ur­nýt­an­leg orka í fram­leiðsl­una. Neyslu­drifið kolefn­is­fót­spor (e. consum­ption-ba­sed car­bon foot­print) er mæli­kvarði sem horfir til allra umhverf­is­á­hrifa í lífs­ferli vöru og yfir­færir að lokum los­un­ina á neyt­and­ann. 

Neyslu­drifið kolefn­is­fótspor, NDKF, getur því hjálpað til við að mæla og skilja losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda með til­liti til neyslu­hegð­un­ar. Jack Challis Clar­ke ­gerði rann­sókn á NDKF Íslend­inga og er rann­sóknin jafn­framt sú fyrsta sem gerð hefur verið af þessu tagi hér á landi. Þau komust að því að NDKF Íslands er stærra en flestra ann­arra Evr­ópu­ríkja. Þá er NDKF hér á landi 55 pró­sent stærra en svæð­is­bundnar útblást­urs­mæl­ingar gefa til kynna. Svæð­is­bundnar útblást­urs­mæl­ingar hafa hins vegar legið til grund­vallar hjá stjórn­völdum þegar mark­mið um að minnka útblástur gróð­ur­húsa­loft­teg­unda hafa verið sett. 

Sem sagt, jafn­vel þótt að Íslandi myndi takast að standa við skuld­bind­ingar Par­ís­ar­sátt­mál­ans (sem margt bendir til að verði erfitt) þá er sam­kvæmt útblást­urs­mæl­ingum ekki tekið til­lit til neyslu á varn­ingi sem er fram­leiddur í fjar­lægjum lönd­um. Þegar ekki er tekið til­lit til los­unar vegna inn­flutn­ings eru rík­ari þjóðir í raun að telja sér trú um að þau séu að minnka útblástur á meðan útblástur á heims­vísu eykst.

Þegar ekki er tekið tillit til losunar vegna innflutnings eru ríkari þjóðir í raun að telja sér trú um að þau séu að minnka útblástur á meðan útblástur á heimsvísu eykst.
Pexels

Ísland hefur sett sér háleit mark­mið þegar kemur að alþjóða­samn­ing­um. Hins vegar virð­ist vera hæg­ara sagt en gert að ná settum mark­miðum en til dæmis tókst Íslandi ekki að stand­ast við skuld­bind­ingar Kyoto-­bók­un­ar­innar frá 1997. Ísland setti sér ný, metn­að­ar­full mark­mið með Par­ís­ar­samn­ingnum og var með fyrstu ríkjum heims til að skrifa undir samn­ing­inn. 

Þá hefur Ísland sett sér það mark­mið að draga úr losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda um 40 pró­sent fyrir árið 2030 miðað við árið 1990. Enn­fremur er sam­kvæmt stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dóttur stefnan sett á kolefn­is­hlut­laust Ísland í síð­asta lagið árið 2040. Sam­kvæmt Hag­fræði­stofnun gæti heild­ar­út­streymi frá Íslandi hins vegar auk­ist um 53 til 99 pró­sent fyrir árið 2030. Þrátt fyrir metn­að­inn í orði er því ólík­legt að Ísland nái að standa við skuld­bind­ingar Par­ís­ar­samn­ings­ins, jafn­vel þótt að skuld­bind­ing­arnar taki ekki NDKF með í reikn­ing­inn.

Einkaneyslan er meginvandamálið en það að gera neytendur ábyrga fyrir því að leysa loftslagsvandann er ekki raunhæft.

Af fram­an­gefnum ástæðum er ljóst að það eru miklar tak­mark­anir á því að treysta á að lofts­lags­vand­inn verði leystur með breyttri neyslu­hegðun ein­stak­linga. Mark­miðið hér er þó ekki að gera lítið úr ein­stak­lings­fram­tak­inu heldur ein­ungis að sýna fram á tak­mark­an­irnar sem fylgja því að treysta á vist­væna neyslu­hyggju ein­stak­linga. 

Ágangur á auð­lindir jarðar er löngu kom­inn að þol­mörkum og neyslu­hyggja er vanda­mál sem nauð­syn­legt er að taka á. Þrátt fyrir að neyt­endur velji vörur sem fram­leiddar hafa verið á umhverf­is­vænni máta en ella er ekki þar með sagt að neyslan sé umhverf­is­væn þar sem í raun öll fram­leiðsla hefur með ein­hverjum hætti nei­kvæð áhrif á umhverf­ið. Það sem við þurfum að gera er að minnka neyslu og það all­veru­lega. 

Einka­neyslan er meg­in­vanda­málið en það að gera neyt­endur ábyrga fyrir því að leysa lofts­lags­vand­ann er ekki raun­hæft. Hegðun okkar innan kap­ít­al­íska kerf­is­ins mun hafa tak­mörkuð áhrif og er vist­væn neyslu­hyggja einmitt breyt­ing á hegðun innan kerf­is­ins. Efna­hags­kerfið eins og við þekkjum það í dag er ein­fald­lega ósam­rým­an­legt við líf­væn­lega jörð. Rót­tækra kerf­is­breyt­inga er þörf og því er full ástæða fyrir rík­is­inn­grip ef raun­veru­lega á að takast á við vand­ann.



Skýr­ing er byggð á BA rit­gerð höf­undar í stjórn­mála­fræði. Rit­gerðin hlaut verð­laun fyrir fram­úr­skar­andi loka­rit­gerð í stjórn­mála­fræði sem var skilað 2018. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar