Mynd: EPA

Hernaðaruppbygging á norðurslóðum nær nú til Íslands

Ísland hefur stóraukið framlag sitt til varnarmála, ásamt því að Atlantshafsbandalagið hefur aukið viðveru sína á Íslandi til muna.

Banda­ríkja­menn ætla sér að stór­auka hern­að­ar­lega við­veru sína á norð­ur­slóðum og koma upp nýrri norð­ur­slóða­deild innan banda­ríska hers­ins. Rússar hafa einnig aukið hernað sinn á síð­ustu árum og hefur við­vera NATO á Íslandi auk­ist til muna. Ísland jók enn fremur fram­lag sitt til varn­ar­mála um 37 pró­sent frá því í fyrra.

Rík­is­stjórn Trump æltar sér að auka hern­að­ar­við­veru sína á norð­ur­slóð­um. Hún ætlar að koma á nýrri norð­ur­slóða­deild innan banda­ríska hers­ins, efla örygg­is­við­veru sína á norð­ur­slóð­um, styrkja her sinn á svæð­inu, halda her­æf­ingar og byggja upp ísbrjóta sína, að því er kom fram í ræðu Mike Pompeo, utan­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna, þann 6. maí síð­ast­lið­inn á sam­komu Norð­ur­skauts­ráðs­ins í Rovaniemi í Finn­land­i. 

Ræðan rugg­aði bátnum innan ráðs­ins svo vægt sé til orða tek­ið. Sagði hann norð­ur­slóðir áður hafa verið svæði sam­vinnu og rann­sókna, nú væru norð­ur­slóðir hins vegar orðnar að svæði valda­bar­áttu og sam­keppni. Nú væri nýtt upp­haf stra­tegískrar sam­keppni og nýrra ógna. Hann sagði enn fermur norð­ur­slóðir hafa miklar auð­lind­ir, til dæmis 13 pró­senta allrar óupp­götv­aðrar olíu, 30 pró­senta óupp­götv­aðs gass, auk margra jarð­málma, gulls og dem­anta. Aðgengi að auð­lind­unum væri nú meira en áður vegna bráðnun og hop­unar íss. 

Vilja tak­marka getu Kína og Rúss­lands

Hags­munir Banda­ríkj­anna á norð­ur­slóðum eru sér­stak­lega að tak­marka getu Kína og Rúss­lands á norð­ur­slóðum að því er kemur fram í nýrri skýrslu Varna­mála­ráðu­neytis Banda­ríkj­anna.

Pompeo tók einmitt Kína sér­stak­lega fyrir í ræðu sinni í Norð­ur­skauts­ráð­inu, en Kína hefur stöðu áheyrn­ar­að­ila innan Norð­ur­skauts­ráðs­ins ásamt tólf öðrum ríkj­um, svo sem Frakk­lands, Ind­lands, Jap­ans, Bret­lands og fleiri ríkja. Pompeo sagði efa­semdir um raun­veru­legan til­gang veru Kína á norð­ur­slóð­um. Nú skil­greini Kína sig sem „nær­ríki norð­ur­slóða“ en hann líti svo á að ein­ungis séu til norð­ur­slóð­ar­ríki og ríki sem ekki séu norð­ur­slóð­ar­ríki, eng­inn þriðji flokkur sé til. 

Hann sagði þar að auki Kína ekki hafa til­kall til neins þrátt fyrir að það skil­greini sig sem „nær­ríki norð­ur­slóða.“ Pompeo sagði að áætlun Kína að gera sigl­inga­leið um norð­ur­slóðir sem hluta af Belti og braut væri leið kín­verskra stjórn­valda að þróa mik­il­væga inn­viði á norð­ur­slóðum og jafn­vel koma upp lang­tíma örygg­is­við­veru (e. security pres­ence) á svæð­inu.

Rússar auka hernað sinn á norð­ur­slóðum

Í fyrr­nefndri skýrslu varna­mála­ráðu­neytis Banda­ríkj­anna er því haldið fram að þörf sé á að nútíma­væða eld­flauga­varnir og varnir gegn lang­dregnum flaugum á norð­ur­slóð­um. Varn­ar­mála­ráðu­neytið vill enn fremur auka sjó­eft­ir­lit á haf­svæð­inu milli Íslands, Græn­lands og Bret­land, það er hjá hinu svo­kall­aða GIUK bili. Það falli vel að núver­andi verk­efnum NATO á Íslandi. Í skýrsl­unni segir enn fremur að hætta sé á ákveð­inni keðju­verkun frá öðrum svæð­um. Til að mynda geti spenna milli Banda­ríkj­anna og Rúss­lands eða Kína í öðrum heims­svæðum smitað út frá sér og skapað spennu á milli þeirra á norð­ur­slóð­um.

Sergei Kis­lyak, öld­unga­deild­ar­þing­maður rúss­neska þings­ins og fyrrum sendi­herra Rúss­lands í Banda­ríkj­un­um, sagði á Arctic Circle í Hörpu í októ­ber síð­ast­liðnum að stór hluti norð­ur­slóða væri á yfir­ráða­svæði Rúss­lands þar sem her­leysi myndi bitna á öryggi lands­ins, að því er kemur fram í frétt Morg­un­blaðs­ins. Hann sagði enn fremur að norð­ur­slóðir væru fjár­sjóðs­kista nátt­úru­auð­linda sem hægt væri að nýta.

Hernaðaruppbygging Rússlands. Á kortið vantar NATO hernaðarinnviði.
Mynd: Dan Sullivan

Rússar hafa vissu­lega aukið hernað sinn á norð­ur­slóð­um. Í við­tali við For­eign Policy benti Dan Sulli­van, banda­rískur öld­unga­deild­ar­þing­mað­ur, á að á síð­ustu árum hafi Rússar aukið hernað sinn á norð­ur­slóðum gíf­ur­lega. Rússar hafi opnað 14 nýja flug­velli, 16 hafn­ir, 40 ísbrjóta og fjögur ný herteymi á norð­ur­slóð­um.

Jens Stol­ten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, sagði á fyr­ir­lestri í Nor­ræna hús­inu 11. júní síð­ast­lið­inn að aukin hern­að­­ar­­upp­­­bygg­ing Rússa á norð­­ur­slóð­um, með auknum her­­stöðv­­um, kaf­bátum og auk­inni hern­að­­ar­­legri loft­um­­ferð, valdi banda­lag­inu sér­­stak­­lega áhyggj­u­m. 

Ísland hluti af hern­að­ar­upp­bygg­ingu á norð­ur­slóðum

Banda­ríkin munu auka fjár­magn til mann­virkja­upp­bygg­inga á Kefla­vík­ur­flug­velli um sjö millj­arða króna en Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráð­herra, sagði þó í við­tali við Morg­un­blaðið að á Íslandi yrði ekki her­seta á nýjan leik. 300 millj­ónum verður hins vegar varið í upp­bygg­ingu á innviðum vegna skuld­bind­inga Íslands í NATO. For­sæt­is­ráð­herra sagði enn fremur að aukin hern­að­ar­um­svif á Norð­ur­höfum ættu að vera Íslend­ingum áhyggju­efni. Katrín sagði einnig við­veru her­manna hafa auk­ist á Íslandi og að hún hafi verið mikil síð­ustu tvö ár.

Í við­tali við Kast­ljós þann 25. júní síð­ast­lið­inn sagði hún að „auð­vitað hljótum við öll að hafa áhyggjur af þeim auknu hern­að­ar­um­svifum sem við sjáum í norð­ur­höfum og sér­stak­lega því Ísland hefur lagt sig fram að vera alltaf málsvari frið­sam­legra lausna á alþjóða­vett­vang­i.“

Fram­lag Íslands til varn­ar­mála hefur hækkað síð­ustu ár

Í fyrra hækk­uðu fram­lög Íslands til varn­ar­mála um 37 pró­sent. Fram­lög Íslands til varn­­ar­­mála árið 2019 eru 2.185 millj­­ónir króna miðað við 1.592 millj­­ónir króna árið 2017. Þetta kemur fram í skýrslu ut­an­­rík­­is­ráð­herra um utan­­­rík­­is­­mál og alþjóða­­mál sem lögð var fyrir Alþingi í apríl 2019.

Í svari frá utan­­­rík­­is­ráðu­­neyt­inu við fyr­ir­­spurn Kjarn­ans kom fram að auknar fjár­­heim­ildir mála­­flokks­ins megi skýra að mestu af fjórum verk­efn­um: 127 millj­­ónir króna voru veittar til­ end­­ur­nýj­unar á rat­­sjár­­kerfi og stjórn­­­stöðv­­­ar­­kerfi. Alls 60 millj­­ónir króna fóru í að efla ­samn­ings­bund­inn gist­i­­ríkja­­stuðn­­ing og 50 millj­­ónir króna megi svo rekja til reglu­bund­inna varnaræf­inga í sam­ræmi við varn­­ar­á­ætlun Atl­ants­hafs­­banda­lags­ins. Að lokum voru 35 millj­­ónir veitt­ar til samn­ings­bund­ins við­halds varn­­ar­­mann­­virkja. 

Stærstur hluti fjár­­­magns­ins fer til almenns rekst­­urs Land­helg­is­­gæsl­unnar og  Kefla­vík­­­ur­flug­­völls eða 1.519 millj­­ónir króna. 217 millj­­ónir króna fara í sam­­stöð­u­að­­gerð­­ir.

Í skýrsl­u utan­rík­is­ráð­herra er grund­­völlur varna Íslands sagður vera aðildin að Atl­ants­hafs­­banda­lag­inu og varn­­ar­­samn­ing­­ur­inn við Banda­­ríkin frá 1951. Þar er vöxtur útgjalda sagður „helg­­ast af vax­andi skuld­bind­ingum sem Ísland hefur tek­ist á hendur innan Atl­ants­hafs­­banda­lags­ins og auk­inni tíma­bund­inni við­veru liðsafla banda­lags­ins á Kefla­vík­­­ur­flug­velli vegna versn­and­i ­ör­ygg­is­á­stands í Evr­­ópu, þ.m.t. á Norð­­ur­-Atl­ants­hafi.“ 

Á fyr­ir­lestri sínum í Nor­ræna hús­inu þann 11. júní síð­ast­lið­inn sagði Jens Stol­ten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, banda­lagið nú þegar hafa aukið við­veru sína á Íslandi og í kringum Ísland. NATO ríki hafi til að mynda aukið fjölda her­æf­inga í Norð­­ur­-Atl­ants­hafi. 

Mynd: Bára Huld Beck

Stjórn­­­ar­­flokkar ósam­­mála um varn­­ar­­mál

Vinstri græn eru á móti sam­starf­inu í NATO, að því er kom fram í máli for­sæt­is­ráð­herra í við­tali við Kast­ljós þann 25. júní síð­ast­lið­inn. Hún sagði Vinstri græn engu að síður hafa tekið þá ákvörðun að fylgja Þjóðar­ör­ygg­is­stefnu Íslands þar sem það „er auð­vitað hlut­skipti stjórn­mála­manna að þurfa stundum að fylgja lýð­ræð­is­legum vilja, sér­stak­lega þegar um er að ræða eina stjórn­mála­flokk­inn sem er and­vígur aðild Íslands að Atl­ants­hafs­banda­lag­inu eins og er raunin með okkur Vinstri græn.“

Kol­beinn Ótt­ars­son Proppé, vara­for­maður þing­flokks Vinstri grænna, skrif­aði á Face­book síðu sinni 25. júní síð­ast­lið­inn að það væri grát­legt að „horfa upp á þá gegnd­ar­lausu sóun sem á sér stað í hern­að­ar­upp­bygg­ingu í heim­in­um, með fjár­munum sem mætti svo hæg­lega nýta til ann­arra og betri hluta.“ Hann skrif­aði enn fremur að hann telji að NATÓ aðild skapi þjóð­inni frekar ógn en örygg­i. 

Þessar stað­hæf­ingar eru í takt við stefnu Vinstri grænna, en þar segir skýrt: „Ekki á að leyfa her­æf­ingar í land­inu eða innan lög­­­sögu þess. Ísland og íslenska lög­­­sögu á að frið­­lýsa fyrir umferð með kjarn­orku-, sýkla- og efna­vopna í lofti, á láði og leg­i.“

Mynd: Bára Huld Beck

Í stefnu Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins segir hins vegar að aðild Íslands­ að Atl­ants­hafs­­banda­lag­inu og varn­­ar­­samn­ingur Íslands og Banda­­ríkj­anna séu „­for­­sendur þess að öryggi lands­ins sé trygg­t“

Í við­tali við Kast­ljós 12. júní síð­ast­lið­inn sagði Jens Stol­ten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, að NATO vilji að Rússar viti af fæl­ing­ar­mætti banda­lags­ins til að koma í veg fyrir að Rússar reyni að taka yfir lands­svæði ein­hvers NATO rík­is. Hann sagði mark­miðið með því ekki vera að hefja átök heldur að koma í veg fyrir átök. 

Spurður út í hlut­verk Íslands innan banda­lags­ins svar­aði Stol­ten­berg fram­lag Íslands til NATO væri mik­il­vægt þrátt fyrir að Ísland hefði ekki her. Banda­ríkja­menn hafi til að mynda eft­ir­lits­flug­vélar sem vinni frá Kefla­vík. Íslend­ingar gegni einnig mik­il­vægu hlut­verki þegar kæmi að afvopn­un. Stol­ten­berg hélt því einnig fram að Don­ald Trump styðji NATO og muni standa við heit sín í örygg­is­mál­u­m.  

Þrátt fyrir að stjórn­ar­flokkar séu ekki á einu máli er varðar þátt­töku Íslands í NATO er ljóst að við­vera her­manna hefur auk­ist á Íslandi og fram­lög Íslands til varn­ar­mála einnig. Fram­kvæmda­stjóri NATO telur Ísland gegna mik­il­vægu hlut­verki innan banda­lags­ins á sama tíma og for­sæt­is­ráð­herra lýsir yfir áhyggjum sínum af auknum hern­aði á norð­ur­slóð­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar