Pexels - Open source myndasöfn

Óábyrgt að gera einstaklinga ábyrga

Stjórnvöld hafa hingað til hvatt til vistvænnar neyslu og þannig reynt að takast á við loftslagsvandann án þess að ógna hagvexti. Vistvæn neysla mun hins vegar ekki bjarga neyslufrekustu þjóð í heimi.

Loftslagsvandinn er mest aðkallandi vandamál samtímans. Þrátt fyrir alvarleika og umfang loftslagsmála hefur efnahagsvöxtur verið meginmarkmið stjórnvalda á síðustu áratugum. Til að viðhalda hagvexti hafa stjórnvöld einfaldlega tekist á við umhverfisvandamál innan þeirra aðstæðna sem markaðurinn hefur skapað. Þannig hafa stjórnvöld hvatt einstaklinga til að halda áfram að neyta, bara á vistvænni máta en fyrr, og því fylgja ýmsar takmarkanir.

Samspil kapítalisma og loftslagsbreytinga

Loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna mannlífi, lífríki og vistkerfum um allan heim með fordæmalausum hætti. Alþjóðasamfélagið er farið að gera sér grein fyrir þessari ógn og því hafa verið gerðir fjölmargir samningar sem miða að því að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum eða eins og farið er að kalla það; loftslagshamförum. Samningarnir eru síðan lagaðir að þeim ríkjum sem eru aðilar að samningnum en í gegnum tíðina hefur tilhneigingin í stefnumótun verið sú að færa ábyrgðina yfir á einstaklinginn.

Þrátt fyrir að umhverfismál hafi fengið sífellt meiri athygli og ríki skuldbindi sig til að fylgja eftir markmiðum alþjóðasamninga hefur efnahagsvöxtur verið meginmarkmið stjórnvalda á seinni áratugum tuttugustu aldarinnar. Áherslan á hagvöxt er afleiðing kapítalískrar hugmyndafræði en samkvæmt henni er hagvöxtur undirstaða félagslegrar velsældar. Hagvöxtur hefur gjarnan verið notaður sem mælikvarði á hversu mikil velsæld ríkir í samfélagi, þá í formi vergrar landsframleiðslu. Þannig er samfélagið alltaf betur statt með meiri auð, sama hvernig þeim auð er ráðstafað. Kapítalismi er ríkjandi hugmyndafræði í flestum stjórnkerfum samtímans og því hefur verið tekist á við umhverfisvandamál innan hugmyndafræði kapítalismans og þeirra aðstæðna sem markaðurinn hefur skapað.

Upp úr tuttugustu öldinni var neysluhyggja orðin ríkur þáttur í daglegu lífi fólks í hinum vestræna heimi og hefur hún í raun þróast samhliða kapítalismanum. Neysluhyggja er í raun ákveðinn lifnaðarháttur sem einkennist af óhóflegri og ónauðsynlegri neyslu, þ.e. neyslu sem er meiri en það sem telst nauðsynlegt til lífsviðurværis. Þannig má segja að neysluhyggjan gefi kapítalismanum lögmæti því það er jú neyslan sem drífur áfram hagvöxt.

Þessi megináhersla á hagvöxt sem byggir á einkaneyslu veldur gríðarlegum ágangi á auðlindir jarðar og hefur leitt til flestra af þeim umhverfisvandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Samkvæmt mælingum á vistfótspori, þ.e. hversu mikið af náttúrulegum gæðum mannkynið notar í neyslu sína, náði jörðin þolmörkum seint á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Ljóst er að neyslan er komin vel umfram þolmörk jarðar en þrátt fyrir það hefur neysla og ágangur á auðlindir sífellt aukist.

Loftslagshamfarir eiga því rætur sínar að rekja til þess hvernig efnahagskerfið er uppbyggt og hvernig einstaklingar haga sínu daglega lífi. Hið kapítalíska hagkerfi gerir ráð fyrir auknum hagvexti frá ári til árs og þetta kerfi má ekki við því að neysla einstaklinga dragist saman því það myndi leiða til minni hagvaxtar og samkvæmt hugmyndafræði kapítalismans, minni félagslegrar hagsældar. Þar sem lífstíll okkar leiðir til loftslagsbreytinga er auðvelt að skilja hvernig stjórnmálamenn hafa að miklu leyti gert einstaklinga ábyrga fyrir kolefnisfótsporinu og mótað stefnur í takt við það.

Þessi megináhersla á hagvöxt sem byggir á einkaneyslu veldur gríðarlegum ágangi á auðlindir jarðar og hefur leitt til flestra af þeim umhverfisvandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Pexels

Vistvæn neysla 

Árið 1992 var ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun haldin í Rio de Janeiro. Þar var Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagshamfarir (UNFCCC) samþykkur af 155 ríkjum og Evrópusambandinu. Með Rammasamningnum var Staðardagskrá 21 (Agenda 21) m.a. sett á laggirnar og stefnan var sett á sjálfbæra þróun til að tryggja komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði. 

Frá því að Staðardagskrá 21 var hrint í framkvæmd hefur áhersla í stefnumótun að miklu leyti verið á vistvæna framleiðslu og neyslu hjá mörgum ríkjum, Evrópusambandinu og frjálsum félagasamtökum. Stjórnvöld hafa hvatt til vistvænnar neysluhyggju (e. green consumerism), t.d. með því að upplýsa neytendur um umhverfisáhrif vöru eða þjónustu og hvetja þá til að kaupa umhverfisvottaðar vörur eða vörur í fyrirferðarminni pakkningum, með stöðlum og vottunum fyrir umhverfisvænum framleiðslu- og endurvinnsluferlum. 

Stefna stjórnvalda hefur hingað til ekki miðað að því að draga úr neyslu enda myndi það minnka hagvöxt. Þannig er ábyrgðin sett í hendur einstaklinga án þess að hagvextinum sé ógnað.

Neytendur eru ábyrgir fyrir því að viðhalda hagvexti en eiga samtímis að vera drifkrafturinn í átt að sjálfbærara samfélagi.

Vistvæn neysluhyggja vísar til þess að neytendur reyni að takmarka umhverfisáhrif sem verða til við framleiðslu, dreifingu, notkun, endurnýtingu og urðun á vöru sem þeir kaupa. Dæmi um slíka neyslu er t.d. þegar neytandi kaupir rafmagnsbíl í staðinn fyrir bensínbíl, velur umhverfisvottaðar vörur, vörur í fyrirferðarlitlum pakkningum eða tekur upp umhverfisvænna mataræði. Þessu skal þó ekki rugla saman við sjálfbæra neyslu. Hugtakið sjálfbær neysla vísar til þess að neysla jarðarbúa sé ekki meiri en svo að auðlindir jarðar geti staðið undir henni til lengri tíma. 

Sjálfbær neysla miðar þannig að því að breyta kerfinu í heild sinni en hins vegar snýr vistvæn neysla í megindráttum að því að breyta framleiðsluferlinu og vörunni sem óhjákvæmilega verður að neyta. Það að neyta vöru eða þjónustu sem er umhverfisvottuð er vissulega betri kostur en ekki. Það leiðir hins vegar ekki til minni neyslu, sem er nauðsynleg ef ná á markmiði um sjálfbæra þróun. Neytendur eru ábyrgir fyrir því að viðhalda hagvexti en eiga samtímis að vera drifkrafturinn í átt að sjálfbærara samfélagi. 

Með því að hvetja til vistvænnar neysluhyggju er gert ráð fyrir því að hægt sé að ná umhverfismarkmiðum án of mikilla ríkisafskipta og neikvæðra áhrifa á efnahagskerfið. Með öðrum orðum að hægt sé að leysa umhverfisvandamálin með lögmáli markaðarins því meðvitaðir neytendur muni taka upplýstar ákvarðanir með hagsmuni umhverfisins í huga.

Takmarkanir vistvænnar neysluhyggju

Þrátt fyrir aukna áherslu á upplýsingar til neytenda um t.d. umhverfismerkingar hefur efnisleg neysla undanfarin ár stöðugt aukist. Því má leiða líkur að því að það sé takmörkuð lausn að treysta á vistvæna neyslu einstaklinga sem lausn á loftslagsvandanum.

Í fyrsta lagi má nefna vandamál sameiginlegra aðgerða, þ.e. að einstaklingsframtakið er takmörkunum háð. Ekki er víst að einstaklingar séu tilbúnir að fórna ákveðnum þægindum og gæðum fyrir umhverfisávinning. Ágóðinn við að breyta hegðun er að öllum líkindum smávægilegur og honum er jafnframt deilt með öllum.

Í öðru lagi getur svokölluð Þversögn Giddens (e. Giddens’s Paradox) haft áhrif á aðgerðir einstaklinga þegar kemur að því að takast á við loftslagshamfarir. Kenningin varðar aðgerðaleysi einstaklinga og stjórnvalda við loftslagsvandanum. Hún vísar til þess að þar sem hættan á loftslagsbreytingum er ekki nálæg, áþreifanleg eða sýnileg í daglegu lífi fólks getur það leitt til aðgerðaleysis. Þá hefur fólk tilhneigingu til að sitja aðgerðalaust þangað til áhrifin verða sýnileg eða aðkallandi, líkt og raunin er á Íslandi. Þetta leiðir til þess að ekki er gripið til aðgerða fyrr en það er orðið of seint.

Síðast en ekki síst getur einstaklingsframtakið leitt til svokallaðra endurkastsáhrifa (e. rebound effect). Endurkastsáhrif vísa til þess að sá sparnaður sem hlýst vegna nýrrar tækni eða meiri orkunýtni getur leitt til þess að neysla eykst og þannig dregst úr orkusparnaðinum sem hefði annars náðst. Sem dæmi má nefna einstakling sem kaupir sparneytnari bíl til að eyða minna eldsneyti en endar á því að keyra meira vegna þess að bíllinn er svo sparneytinn. 

Rafmagnsbíll
Pexels

Þar af leiðandi næst í raun enginn orkusparnaður. Einnig geta endurkastsáhrif átt sér stað þegar lægra verð leiðir til breytinga á eftirspurn eftir vöru eða þjónustu, til dæmis ef fjármagnið sem safnast upp við það að reka sparneytinn bíl er notað til að borga fyrir utanlandsferð. Ef endurkastsáhrif eru tekin til greina virðist ávinningur þess að breyta eða draga úr neyslu einstaklinga ekki hafa jafn mikil áhrif og margir gera sér vonir um. 

Bjelle, Steen-Olsen og Wood komust að því í rannsókn sinni á norskum neytendum að breytingar á neysluhegðun geta dregið úr kolefnisfótspori einstaklinga um allt 58 prósent. Þegar tekið er mið af endurkastsáhrifunum er ávinningurinn hins vegar einungis 24 til 35 prósent minni losun. Árið 2004 rannsakaði Eva C. Alfredsson endurkastsáhrif breyttra neysluhátta á sænskum heimilum. Hún komst að því að endurkastsáhrif vegna mataræðis, ferðalaga og húsnæðismála voru um 35 prósent. Þar sem grænmetisfæði krefst minni orkunotkunar í framleiðslu, leiðir til minni losunar á gróðurhúsalofttegundum og er ódýrara en kjötmataræði ætti breyting í átt að slíku mataræði að vera skilvirk leið fyrir neytendur til að minnka kolefnisfótspor sitt. 

Hins vegar komst Alfredsson að því að þeim fjármunum sem spöruðust með breytingu á mataræði var varið í aðra neysluflokka sem eru orku- og kolefnisfrekir. Samkvæmt niðurstöðum hennar var stærstum hluta þeirra fjármuna varið í ferðalög. Endurkastsáhrifin við að breyta mataræði voru því allt að 200 prósent, þ.e. breytingin leiddi til bakslags. Augljóst er að nauðsynlegt er að breyta neysluhegðun einstaklinga til að takast á við loftslagshamfarir en einnig er nauðsynlegt að taka tillit til endurkastsáhrifa.

Neysludrifið kolefnisfótspor Íslendinga

Gjarnan er litið á Ísland sem „græna“ þjóð þegar kemur að orkunotkun og umhverfismálum. Orkunotkun Íslands er að lang mestu leyti sjálfbær þar sem notaðir eru endurnýjanlegir orkugjafar og er því Ísland gjarnan talin fyrirmynd þegar kemur að umhverfismálum í alþjóðasamfélaginu. Þegar kemur að því að fást við loftslagsvandamál á Íslandi virðist hins vegar lítið tillit tekið til þess að losun Íslands stafar helst af neyslu einstaklinga. 

Þrátt fyrir sérstöðu Íslands hvað endurnýjanlega orkugjafa varðar eru flestar vörur sem Íslendingar neyta framleiddar í öðrum löndum þar sem ekki hefur farið endurnýtanleg orka í framleiðsluna. Neysludrifið kolefnisfótspor (e. consumption-based carbon footprint) er mælikvarði sem horfir til allra umhverfisáhrifa í lífsferli vöru og yfirfærir að lokum losunina á neytandann. 

Neysludrifið kolefnisfótspor, NDKF, getur því hjálpað til við að mæla og skilja losun gróðurhúsalofttegunda með tilliti til neysluhegðunar. Jack Challis Clarke gerði rannsókn á NDKF Íslendinga og er rannsóknin jafnframt sú fyrsta sem gerð hefur verið af þessu tagi hér á landi. Þau komust að því að NDKF Íslands er stærra en flestra annarra Evrópuríkja. Þá er NDKF hér á landi 55 prósent stærra en svæðisbundnar útblástursmælingar gefa til kynna. Svæðisbundnar útblástursmælingar hafa hins vegar legið til grundvallar hjá stjórnvöldum þegar markmið um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda hafa verið sett. 

Sem sagt, jafnvel þótt að Íslandi myndi takast að standa við skuldbindingar Parísarsáttmálans (sem margt bendir til að verði erfitt) þá er samkvæmt útblástursmælingum ekki tekið tillit til neyslu á varningi sem er framleiddur í fjarlægjum löndum. Þegar ekki er tekið tillit til losunar vegna innflutnings eru ríkari þjóðir í raun að telja sér trú um að þau séu að minnka útblástur á meðan útblástur á heimsvísu eykst.

Þegar ekki er tekið tillit til losunar vegna innflutnings eru ríkari þjóðir í raun að telja sér trú um að þau séu að minnka útblástur á meðan útblástur á heimsvísu eykst.
Pexels

Ísland hefur sett sér háleit markmið þegar kemur að alþjóðasamningum. Hins vegar virðist vera hægara sagt en gert að ná settum markmiðum en til dæmis tókst Íslandi ekki að standast við skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar frá 1997. Ísland setti sér ný, metnaðarfull markmið með Parísarsamningnum og var með fyrstu ríkjum heims til að skrifa undir samninginn. 

Þá hefur Ísland sett sér það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030 miðað við árið 1990. Ennfremur er samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur stefnan sett á kolefnishlutlaust Ísland í síðasta lagið árið 2040. Samkvæmt Hagfræðistofnun gæti heildarútstreymi frá Íslandi hins vegar aukist um 53 til 99 prósent fyrir árið 2030. Þrátt fyrir metnaðinn í orði er því ólíklegt að Ísland nái að standa við skuldbindingar Parísarsamningsins, jafnvel þótt að skuldbindingarnar taki ekki NDKF með í reikninginn.

Einkaneyslan er meginvandamálið en það að gera neytendur ábyrga fyrir því að leysa loftslagsvandann er ekki raunhæft.

Af framangefnum ástæðum er ljóst að það eru miklar takmarkanir á því að treysta á að loftslagsvandinn verði leystur með breyttri neysluhegðun einstaklinga. Markmiðið hér er þó ekki að gera lítið úr einstaklingsframtakinu heldur einungis að sýna fram á takmarkanirnar sem fylgja því að treysta á vistvæna neysluhyggju einstaklinga. 

Ágangur á auðlindir jarðar er löngu kominn að þolmörkum og neysluhyggja er vandamál sem nauðsynlegt er að taka á. Þrátt fyrir að neytendur velji vörur sem framleiddar hafa verið á umhverfisvænni máta en ella er ekki þar með sagt að neyslan sé umhverfisvæn þar sem í raun öll framleiðsla hefur með einhverjum hætti neikvæð áhrif á umhverfið. Það sem við þurfum að gera er að minnka neyslu og það allverulega. 

Einkaneyslan er meginvandamálið en það að gera neytendur ábyrga fyrir því að leysa loftslagsvandann er ekki raunhæft. Hegðun okkar innan kapítalíska kerfisins mun hafa takmörkuð áhrif og er vistvæn neysluhyggja einmitt breyting á hegðun innan kerfisins. Efnahagskerfið eins og við þekkjum það í dag er einfaldlega ósamrýmanlegt við lífvænlega jörð. Róttækra kerfisbreytinga er þörf og því er full ástæða fyrir ríkisinngrip ef raunverulega á að takast á við vandann.


Skýring er byggð á BA ritgerð höfundar í stjórnmálafræði. Ritgerðin hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerð í stjórnmálafræði sem var skilað 2018. 

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar