Mynd: Worklytics

Stærðfræði notuð sem vopn gegn launamun kynjanna

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi íslenska sprotafyrirtækisins PayAnalytics, notar stærðfræði sem vopn gegn launamun kynjanna. Hún hefur þróað hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að lækka launabil sitt.

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi íslenska sprotafyrirtækisins PayAnalytics, hlaut nýverið aðalverðlaun alþjóðlegs þings Heimssamtaka frumkvöðla- og uppfinningakvenna (GWIIN). Hún ræddi við Kjarnann um hvernig stærðfræðin getur verið notuð sem vopn gegn launamun kynjanna, hvernig hægt sé að hjálpa fyrirtækjum að lækka launabil sitt, ássamt því að ræða um karllægu akademíuna í Bandaríkjunum.

Margrét kynnti fyrir þingi GWIIN nýja hugbúnaðarlausn PayAnalytics sem hjálpar fyrirtækjum að framkvæma launagreiningar og skoða áhrif launaákvarðana til að minnka launabil kynjanna með aðgerðaráætlun og kostnaðargreiningu. Hugbúnaðurinn hjálpar fyrirtækjum að halda launabilinu lokuðu með því að gefa ráðgjöf hvað varðar nýráðningar og launabreytingar.

Margrét segir að á þingi GWIIN hafi margar áhugaverðar hugmyndir komið fram. Til að mynda voru þar konur frá Finnlandi sem hafi hannað fjölskynjunar (multi-sensory) kynningar til að kynna fyrir stjórnvöldum hvernig væri að búa í flóttamannabúðum. Einnig voru konur frá Indlandi með hugbúnað fyrir börn í grunnskólum í nýsköpun, jafnframt hafi önnur íslensk kona verið á þinginu, hún Kristín Gunnarsdóttir sem vinni með íslenska ull blandaða við silki.

Stærðfræðilíkön mæla launabil

Margrét segir hjartað í hugbúnaðinum vera fyrirtæki sem sé með launabil og viðbrögð þess við því. „Áður en við hönnuðum þennan hugbúnað voru fyrirtæki að mæla launamuninn, kannski fimm prósent eða tíu prósent, en enginn gat svarað hvað svo?,“ segir Margrét. Í kjölfarið hafi þau farið að þróa stærðfræði til þess að taka ákvarðanir um hvað þurfi að gera og hversu mikið þurfi að fjárfesta til að loka launabilinu. „Þú ert í sjö prósentum en vilt koma niður í fjögur prósent [launabil] á næstu mánuðum, hvað heldurðu að það kosti? Við erum að þróa þetta til að tækla vandamálið,“ segir hún. 

Margrét notar stærðfræði við að reikna út vandann og hvaða ákvarðanir séu bestar út frá niðurstöðunum. „Þetta byggir rauninni mest á tölfræði og bestun,“ segir hún. Hún notar aðhvarfsgreiningu við útreikninginn. „Það eru sem sagt stærðfræðilíkön. Aðferðafræðin að mæla launabilið er þekkt [...] allir sammála um það. Hvernig eigi að loka launabilinu sé hins vegar ósvarað. Það sem við gerðum er að taka þess aðferðafræði til að mæla launabil og grófum inn til þess að mæla launabilið sem kallast aðhvarfsgreining. Við tættum í sundur stærðfræðina til að skilja áhrif hvers starfsmanns á launabilið í fyrirtækjum. Hver hefur mestu áhrif á launabilið? Hverjum er verið að mismuna meira en öðrum?“ segir Margrét

Byrjaði allt sem rannsóknarverkefni

Margrét er einnig lektor við Viðskiptaháskólann í University of Maryland og byrjaði PayAnalytics sem rannsóknarverkefni. „Framkvæmdastjóri í bænum var búinn að mæla átta prósent launabil og allir ætluðu að vera meðvitaðir næstu tólf mánuði [...] ári síðar hafði ekkert breyst og hann spurði hvernig tækla ég vandamálið? Enginn hafði svar við þessari spurningu og ég hugsaði sem stærðfræðinörd að þetta er eitthvað sem ég gæti tæklað með þessari aðferðafræði.“

Ef við erum ekki á stöðugu varðbergi þá koma launabilin skríðandi til baka

Margrét segir eitt að loka launabilinu og annað að halda því lágu. „Ef þú ert ekki meðvitaður þá kemur bilið skríðandi til baka.“ Margrét segir PayAnalytics nú hafa bætt í lausnina sína aðferðum að finna út góð laun fyrir nýjan starfsmann til að innleiða í fyrirtæki til að halda þessari vegferð áfram.

„Það er búið að vera ótrúlega skemmtilegt að vinna með mannauðsstjórum úti um allan bæ. Þegar maður ræðir við mannauðsfólk þá er það með allt fólk í hausnum á sér. Þótt þú sért með frábæran mannauðsráðgjafa, þegar verið að taka þessa launaákvarðanir og þú ert ekki með gögnin fyrir framan þig þá myndast þessi ómeðvitaða hlutdrægni sem hefur þá áhrif á þessar ákvarðanir. Þess vegna verða þessi launabil til. Ef við getum hjálpað þér með þessu tóli, að setja þetta í samhengi, getum við hjálpað þér að halda því niðri og jafnvel í núlli.“

Margrét segir drauminn að koma góðum ákvörðunartólum í hendurnar á mannauðsstjórum „í fyrsta lagi til þess að ráðstafa launabili, þá er nauðsynlegt að vera með góðar áætlanir, skilja vandamálið og númer  tvö, ef við ætlum að ná þessum árangri, hvernig höldum við okkur vakandi? Það gerum við með því að vera með rauntímagögn og testa launaákvarðanir áður en við framkvæmum þær.“

„Ef Jóna eða Jón koma til þín og segjast munu hætta ef þau fá ekki hærri laun þá er hægt að slá það inn og sjá hvaða áhrif það hefur á launabilið og launastrúktúrinn. Þá geturðu tekið ákvörðun hvort þú þetta sé góð ákvörðun eða ekki,“ segir Margrét. Hún segir að sama hversu mikið maður vilji laga launabilið ef að „við erum ekki á stöðugu varðbergi þá koma launabilin skríðandi til baka.“

Margrét er til vinstri á myndinni.
Mynd: Linda Kay Gould.

Ótrúleg orka sem fer í að standa í stappi

„Ég hef alltaf verið jafnréttiskona og þurft að berjast áfram í karllægu umhverfi, sérstaklega akademíunni í Ameríku. Maður hefur oft rekist á veggi og glerþök og þurft að standa í stappi. Ég er mikil jafnréttiskona og þurft að takast á við alls konar vitleysu í þessum málum,“ segir hún.

Hún segir mikla orku starfsmanna fara í að velta sér yfir því hvort þau fái sanngjörn laun. „Ef við setjum það í samhengi, ef þú rekur fyrirtæki, að starfsmenn geti verið þess fullvissir að þeir fái sanngjörn laun annars fer rosaleg orka hjá þeim að pæla hvort þau fái sanngjörn laun,“ segir Margrét. „Það er ótrúleg orka sem fer í að standa í stappi og þú vilt frekar að starfsmenn eyði tíma sínum í starfið en að standa í stappi.“ Hún segir að í þeim störfum þar sem mikil samkeppni er um starfsfólk séu þau fyrirtæki oft komin lengst í að lágmarka kynbundinn launamun því annars fari starfsfólkið einfaldlega annað.

Margrét segir skemmtilegast við vinnu sína hversu miklir snillingar mannauðsfólk sé til hópa og að það sé afar gefandi að vinna með þeim. Það sem komi hafi mest á óvart sé hversu vel hafi gengið. „Ef maður byrjar með startup veit maður ekkert hverju maður á von,“ segir Margrét. Hins vegar hafi hún mætt miklum velvilja og að enn sé PayAnalytics skemmtilegt ævintýri. „Það er mest gefandi að sjá rannsóknarverkefni verða að einhverju sem hefur áhrif um hvernig ákvarandir eru teknar,“ bætir Margrét við.

Fikra sig inn á erlenda markaði

„Við erum að fikra okkur inn á erlenda markaði, það er stóra áherslan núna,“ segir Margrét aðspurð um hvað sé framundan hjá PayAnalytics. „Það hefur gengið rosa vel og hugbúnaðurinn er kominn á 5 tungumál. Hann er kominn inn á lista hjá þýskum ráðuneytum yfir hugbúnaðarlausnir og við erum að taka fyrstu skrefin að kynna okkur þetta í Skandinavíu og reyna að koma á fundum og samböndum,“ segir hún. „Við fengum líka markaðsstyrk frá tækniþróunarsjóði og sú vinna er til að sækja erlenda markaði og sú vinna hefst á morgun.“

Maður hefur oft rekist á veggi og glerþök og þurft að standa í stappi. Ég er mikil jafnréttiskona og þurft að takast á við alls konar vitleysu í þessum málum.

„Við fengum líka vaxtastyrk frá tækniþróunarsjóði fyrr rúmu hálfu ári sem var algjör vítamínsprauta og breytti öllu fyrir okkur. Sá styrkur hefur stutt ótrúlega vel við bakið á okkur,“ segir Margrét. „Þegar við byrjuðum á Íslandi fengum við með okkur Orkuveitu Reykjavíkur og VÍS, til að vera viss um að við værum að leysa rétt vandamál og svara réttu spurningunum. Löggjöfin er aðeins mismunandi [á milli landa]. Það þarf alltaf aðeins að aðlaga kerfið að markaði. Við reynum að finna samstarfsaðila til að testa kerfið miðað við þinn raunveruleika og  fyrsti svoleiðis kúnninn er í Nýja-Sjálandi. Það er fyrirtæki sem er bæði með starfsemi í Nýja-Sjálandi og Ástralíu og það er fyrsti þróunarkúnninn okkar.“ Margrét segir að framundan séu spennandi tímar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiInnlent