Tölvuleikjaframleiðsla er list
Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Myrkur Games þróar nýja sögudrifna tölvuleikinn The Darken. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir tölvuleikjaframleiðslu vera list ásamt því að ræða við Kjarnann um innblásturinn að leiknum og krefjandi rekstrarumhverfi.
Halldór Snær Kristjánsson er framkvæmdastjóri og einn af þremur stofnendum nýja íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Myrkur Games. Halldór ræddi við Kjarnann um uppruna fyrirtækisins, innblásturinn og listsköpunina á bak við tölvuleikinn The Darken sem Myrkur Games þróar. Enn fremur ræddi Halldór um rekstrarumhverfi smárra sprotafyrirtækja og sagði hann að ferlið hafi verið afar erfitt í byrjun.
Myrkur Games var stofnað árið 2016 af þremur nýútskrifuðum tölvunarfræðingum úr Háskóla Reykjavíkur og var Halldór þar á meðal. Í kjölfarið snéru stofnendurnir þrír sér að tölvuleikjum. „Eftir það á þá byrjum við að fara í gegnum Startup Reykjavík og Gulleggið. Þá byrjar fyrirtækið hratt að stækka eftir það, eiginlega óviljandi,“ segir Halldór.
Boltinn byrjaði að rúlla hratt og stofnendurnir byrjuðu að leggja drögin að The Darken. „Í Startup Reykjavík er mikil samkeppni á meðal umsækjenda að fá að vera eitt af tíu fyrirtækjum sem tekur þátt í viðskiptahraðlinum. Það var líka fyrsta fjárfestingin inn í fyrirtækið þegar Startup Reykjavík fjárfestir 2,4 milljónir í fyrirtækinu fyrir 6 prósent. Þetta er oftar en ekki fyrsti fjárfestirinn í fyrirtæki á algjöru grunnstigi. Varðandi Gulleggið að þá er það svipað. Það er viðskiptahugmyndakeppni í umsjón Icelandic Startup og við komumst við inn í topp tíu hópinn þar. Þá fær maður að taka þátt í framhalds partinum og öllu því sem tilheyrir innan Gulleggisins,“ segir Halldór
Listgreinar ráðandi innan fyrirtækisins
Myrkur Games hefur 14 fasta starfsmenn en einnig eru aðrir starfsmenn sem koma að verkefninu, til að mynda leikarar. „Það er svolítið erfitt að þreifa nákvæmlega á tölunni en við erum 14 sem hellum upp á kaffi á hverjum degi,“ segir Halldór. Ekki séu allir 14 föstu starfsmennirnir þó forritarar. „Það er nefninlega furðulegt að þegar fólk hugsar um tölvuleiki þá hugsar það einmitt yfirleitt um sett af forriturum og svo nokkra í einhverjum öðrum deildum, en við erum bara með tvo forritara, restin af fólkinu er að vinna í listgreinum. Við erum með tvo handritshöfunda sem eru að búa til allan leikinn.“
„Við erum með fólk í þrívíðarlist. Það er allt frá fatahönnun, umhverfishönnun, persónuhönnun, concepthönnun. Svo færum við okkur yfir í hljóð. Þar erum við með strák sem semur tónlistina og stýrir hljóðinu í öllum leiknum. Svo aðra stelpu í námi sem er starfsnemi hjá okkur sem býr til öll aukahljóðin í leiknum, það er að segja vindhljóð, sverðhljóð, stíga niður, allt þetta. Þaðan förum við í fólk sem er að búa til tæknibrellur,“ segir hann.
Sumir innan teymisins búa til persónur, aðrir búa til búninga, umhverfi, aukahluti, vopn og svo mætti lengi áfram telja. Kóðarar hanna samskiptakerfið í leiknum sem allt er mikil nákvæmnisvinna. Þar að auki er tónsmiður Myrkur Games, hann Viktor Ingi Guðmundsson, útskrifaður úr LHÍ og úr Berkeley College of Music. Í Berkeley lærði hann tónsmíði fyrir tölvuleiki, sjónvarpsefni og kvikmyndir. „Þetta er list. Það er algjörlega kreatív sköpun að búa leikinn til,“ segir Halldór.
Þetta er list. Það er algjörlega kreatív sköpun að búa leikinn til.
Kvikarar (e.animators) koma til með að vera stærsti hluti þróunardeildar leiksins því það er stór partur vinnunnar að taka upp allar hreyfingarnar samkvæmt Halldóri.
Leikurinn sá fyrsti af þremur
The Darken er sögudrifinn ævintýraleikur og aðalhlutverkið er leikið af Aldísi Amah Hamilton sem að leikur aðalpersónuna Ryn sem spilarar munu geta stýrt. „Þetta er upprunasaga þessarar hetju og þetta er fyrsti leikurinn af þríleik. Þannig að við erum að plana þrjá leiki þar sem hver leikur verður talsvert umfangsmeiri en leikurinn á undan. Í þessari sögu erum við að rekja sögu Ryn og hvernig hún mótar sér sinn fyrsta farveg í þessari fantasíu trílógíu og það sem ég get líka sagt þér er að heimurinn sem að þetta gerist innan er nýr ævintýraheimur sem við höfum ekki séð áður. Við erum að skapa þetta allt frá grunni,“ segir Halldór.
Hann segir jafnframt að heimurinn sé alveg nýr þannig að spilarar eigi ekki að búast við álfum, eða dvergum eða tröllum.
Nýjungar í tækni og ný markaðstækifæri voru innblásturinn að leiknum
Upphaf alls ferilsins var þegar stofnendurnir þrír útskrifuðust. Þeir voru afar metnaðarfullir og voru hrifnir af sögudrifnum ævintýraleikjum sem gerast í þriðju persónu.
„Við sáum ákveðið tækifæri í tækni. Það voru einhvern veginn hlutir í tækni að færast rosalega mikið áfram og eru enn þá að gera það. Það var svolítið að breyta svipmyndinni. Þannig að innblásturinn að leiknum kemur í rauninni af því að það er markaðstækifæri sem þýðir að það eru fáir svona leikir sem eru að keppa á markaði. Þeir eru svo svakalega umfangsmiklir og stórir og þeir taka svo rosalega langan tíma í framleiðslu. Ofan á það er ný tækni að þróast sem leyfir minni teymum að gera svona metnaðarsama leiki á sama tíma,“ segir Halldór.
„Þannig að við sjáum þetta og hugsum „Ha? Getum við gert þetta?“ og við byrjum í rauninni fyrst bara þrír stofnendurnir að rannsaka alla tæknina bak við þetta í marga mánuði, bæði markaðs- og tæknirannsóknir. Þannig að við eyðum svakalegum tíma í aðhlaupi að því. Svo þegar við erum búnir að því þá reynum við að skissa upp frummynd af leiknum sem tók heillangan tíma með allri tækninni og koma þessu öllu saman. Það er ekki fyrr en í byrjun árs núna sem að við í rauninni byggjum upptökuverið til þess að taka þetta allt upp. “
Þannig að við sjáum þetta og hugsum „Ha? Getum við gert þetta?“ og við byrjum í rauninni fyrst bara þrír stofnendurnir að rannsaka alla tæknina bak við þetta í marga mánuði, bæði markaðs- og tæknirannsóknir.
Söguhöfundarnir miklir aðdáendur Dungeons and Dragons
„Við þrír vorum tölvunarfræðingar, ekki neitt hæfir að segja eða skrifa sögu. En við vorum með grunnhugmynd, þetta átti að vera ævintýraheimur, átti að vera ein aðalsöguhetja sem þú spilar í gegnum og við viljum hafa breitt svið af hetjum sem þú spilar með og hittir í gegnum leikinn. Það er á þessum tíma sem við byrjum að halda það sem við köllum svona „lore-night.“
Þá bjóðum við hugmyndaríku fólki sem við þekkjum til þess að gefa endurgjöf á því sem við erum að gera og koma með hugmyndir. Einn af þeim sem mætti á slíkt kvöld var hann Magnús Friðrik sem að í rauninni kom með hugmynd sem passaði inn í þennan ramma og svo hefur hann bara mætt hérna síðan,“ segir Halldór.
Kjarninn náði að ræða stuttlega við hina tvo handritshöfunda leiksins, þá Daða Einarsson og Magnús Friðrik Guðrúnarson. Daði er lærður handritshöfundur og leikstjóri en Magnús fékk hins vegar starfið vegna þess að hann hefur lengi verið svokallaður „dungeon master“ eða dýflissu meistari í leiknum Dungeons and Dragons. Leikurinn er eins konar hlutverkaleikur og er hlutverk dýflissu meistarans að leiða leikinn áfram á hugmyndaríkan hátt.
Persónurnar leiknar af íslenskum leikurum
„Okkar ferli og það sem gerir leikinn spennandi er að við smíðum ljósmyndaskönnunar búnað sem við notum til að skanna inn alvöru leikara og búum til alvöru rafrænan tvífara af þeim í leiknum, eins og við sjáum með Aldísi sem Ryn inni í leiknum og fleiri hlutverk. Ofan á það þá byggðum við þetta upptökuver hérna og þá setjum við fólk í sérstakan galla inni í þessu risastóra rými sem er eins og stór grænskjár (green-screen) í rauninni,“ segir Halldór.
Halldór segir allan leikinn og allar hreyfingar í leiknum vera teknar upp. „Þetta er að vissu leiti mjög líkt kvikmyndaframleiðslu, bara eins og við sjáum í Hollywood.“
Rekstrarumhverfið afar erfitt í byrjun
Aðspurður segir Halldór að í fyrstu hafi rekstrarumhverfið hafa verið mjög erfitt. „Það er rosalega erfitt að láta taka mark á sér þegar maður segist vera með hugmynd að tölvuleik vegna þess að allir eru með hugmynd að tölvuleik,“ segir Halldór og hlær. „En við skildum það sem betur fer frá byrjun og við vissum það alveg að það væri engin sönnun í því fyrr en við værum komnir lengra heldur en á því stigi. Þannig að þegar við byrjum að komast lengra og lengra, það er talsverður tími frá því að við stofnuðum [fyrirtækið] þangað til við fáum fyrstu fjárfestinguna inn eftir Startup Reykjavík,“ segir Halldór.
Það er rosalega erfitt að láta taka mark á sér þegar maður segist vera með hugmynd að tölvuleik vegna þess að allir eru með hugmynd að tölvuleik.
„Startup Reykjavík kemur snemma inn á meðan við erum í rauninni þrír og bætum við okkur einum. Svo er það í rauninni ekki fyrr en á þessu ári sem að við tútnum út. En umhverfið fyrir rekstur hér er almennt séð dýrt bara eins og við höfum séð í öðrum fyrirtækjum sem er verið að fjalla um. Þá er dýrara hér á landi að borga laun og við þurfum að svara gagnvart okkar fjárfestum afhverju við erum hér en ekki annars staðar. Það sem kemur aftur á móti er að við erum mikið að skanna úr íslenskri náttúru. Við erum með mikið af íslensku fólki sem er bæði að leika og er hér, þannig að það væri erfitt fyrir okkur að flytja út,“ segir hann.
„Það eru líka nokkrir hliðarkostir sem eru ekki augljósir, til dæmis styrktarumhverfið á Íslandi er algjörlega frábært. Við höfum fengið bæði styrki frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Tækniþróunarsjóði sem að breyta rosalega miklu máli fyrir fyrirtæki sem eru ekki enn búin að ná talsverðu fjármagni eða er að vinna sig upp að talsverðu fjármagni. Það er rosalega góð ástæða til að vera hérna og styrktarumhverfi eru ekki alls staðar. Það er mjög mikilvægt að það styrkist til þess að hjálpa fyrirtækjum að komast af stað svo þau geti fengið fjárfestingar til að byggja upp metnaðarfull verkefni. Fyrir utan það eru nokkrir aðrir hlutir, eins og fyrir stór þróunarverkefni, er hægt að fá endurgreiddan vask og það er hvatning fyrir fjárfesta á Íslandi að ef þú nærð að komast í gegnum umsókn fyrir það að þá fá þeir skattinn sinn endurgreiddan fyrir þær fjárfestingar sem þeir setja í fyrirtækið. Það þýðir að það er góð ástæða fyrir fjárfesta að fjárfesta því þeir fá peninginn til baka sem frádrátt frá skatti.“
„Ekkert af þessu er sjálfgefið en breytir rosalega miklu fyrir fyrirtæki sem eru í startholunum. En við erum mjög ánægð að vera á Íslandi. Já þetta er dýrt, en svona verkefni eru dýr og þegar maður er með samansafn af hæfileika sem er rosalega sérhæfður að þá er yfirleitt samkeppnishæft sama hvar þú ert hvað þá þarft þú að bjóða í laun fyrir verkefnið. Þú getur ekki bara fundið hvern sem er því þetta er rosalega sérhæft svið,“ segir Halldór.
Búa til nýjan heim
Halldór segir að fyrirtækið skanni bæði náttúru á Íslandi og Kanada fyrir leikinn. „Ísland er svo ótrúlega ævintýralegt land og við höfum svo ótrúlega fjölbreytt landslag og þetta er eiginlega bara eins og að fara út í geim. Þetta er svo skrýtin upplifun fyrir ferðamenn sem koma hingað og sjá landslagið hérna. Við erum klárlega að reyna að nýta það eins og við getum til þess að skapa framandi landslag inni í leiknum líka. Eitthvað sem er ekki jafn kunnuglegt og fólk er vant.“
„Við skönnum einstaka hluti, mikið af þeim. Við kannski skönnum tré, steina, mögulega kletta, skönnum undirlag, skönnum áferðir. Við erum að skanna eins og bita og setjum saman í rafræna útgáfu af umhverfinu,“ segir Halldór. Það sé gert með myndavélum sem sé ekki flókið, hins vegar sé úrvinnslan flókin.
Stefna á að gefa leikinn út á ýmsum gerðum tölva
„Við erum að stefna á næstu kynslóð af leikjatölvum. Þannig að næsta Playstation sem er á leiðinni og næsta Xbox eru tvö svið sem við erum klárlega að fara á. Við erum líka að skoða Nintendo Switch. Við erum klárlega að fara að gefa út á PC og svo er núna nýjasta af öllu sem við erum líka að skoða er Google Stadia og Xcloud.“
Varðandi útgáfudag leiksins segist Halldór fyrirtækið ekki vera komið með dag sem hægt sé að festa. „Við eigum ennþá eftir að stækka fyrirtækið talsvert. Við erum núna að fara í fjármögnum til þess að stækka, en við verðum alveg upp í 30 manns fyrir allt verkefnið, bara þeir sem eru hér alla daga, fyrir utan alla sem koma aukalega.“
Hægt að skrá sig til að prófa leikinn
„Já, við erum að stefna á vonandi að vera með einhverjar prófanir. Við vitum ekki nákvæmlega hvar og hvenær. Við höfum verið að taka prófanir, svolítið að bjóða fólki í kringum okkur. Við verðum með eitthvað sýnilegt á Midgard í ár. Við erum líka að fara á GamesCom ráðstefnuna núna í Þýskalandi í lok ágúst. Það er svona hér og þar sem við fittum því inn en það mun klárlega koma sá tímapunktur sem við þurfum að vera með aggressívar prófanir á leiknum til að fá endurgjöfina til baka. Þá gætum við farið til meira almenns hóps frekar en til þessa hóps sem við leitum til.“
Halldór sýnir blaðamanni Kjarnans upptökuverið. „Hérna erum við að taka upp með leikurum og stundum ekki með leikurum. Stundum erum við að búa til hreyfingarnar sjálf, við löbbum niður því það er auðvelt,“ segir hann. Myrkur Games notar sérstakan hjálm sem tekur upp andlitshreyfingar leikara. Einnig tekur hjálmurinn upp rödd þeirra. „Þar sem við tökum upp hljóð þurftum við að hljóðeinangra allt [rýmið], hljóðeinangra frá hljóðunum frá götunni, setja dýnur svo fólk myndi ekki meiða sig því stundum er fólk í slagsmálum, bókstaflega, fyrir leikinn.“
Leita nýrra fjárfesta
„Við erum akkúrat að semja við fjárfesta og finna fleiri fjárfesta. Við erum stöðugt að leita og ég held það verði seint sem við hættum því, þetta er svo hrikalega stórt verkefni. Við erum núna að vinna með mikið af innlendum fjárfestum til þess að fjármagna áframhald á þróunarverkefninu og stækkun á teyminu. Fyrir lok árs erum við að stefna á talsverða stækkun teymisins. Allavega að vera búin að fjármagna stækkun á teyminu, það tekur svakalega langan tíma að ráða allt þetta fólk inn og það er heljarinnar vesen að finna rétt fólk í þessi verkefni sem krejast mikillar sérfræðiþekkingar og vinna með mörgum deildum með mismunandi fög,“ segir Halldór að lokum.