Mynd: 123rf.com

Ríkustu 238 fjölskyldur landsins eiga 260 milljarða króna

Alls eiga ríkustu fimm prósent landsmanna 40,8 prósent alls eigin fjár sem til er í landinu. Eigið fé ríkasta 0,1 prósent þeirra hefur aukist um 98 milljarða króna frá árinu 2010.

Ríkasta 0,1 prósent framteljenda áttu 260,2 milljarða króna í lok árs 2018 í eigin fé. Um er að ræða alls 238 fjölskyldur. Alls jókst eigið fé þeirra – eignir þegar búið er að draga frá allar skuldir – um 23,6 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hefur eigið fé ríkasta 0,1 prósent landsmanna aukist um 98 milljarða króna, eða 68 prósent. 

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um skuldir og eignir landsmanna sem birt var síðdegis í gær á vef Alþingis. 

Þar segir enn fremur að fimm prósent ríkustu Íslendingarnir, alls 11.900 fjölskyldur, hafi átt eigið fé upp á 1.864 milljarða króna um síðustu áramót. Það er 218 milljörðum krónum meira en hópurinn átti í árslok 2017 og rúmlega tvöföld sú upphæð sem hann átti í árslok 2010. Frá því ári hefur milljörðunum í eigu þessa hóps fjölgað um 970.  Þessi hópur átti 40,8 prósent af öllu eigið fé landsmanna í lok síðasta árs, sem þýðir að hin 95 prósent fjölskyldna í landinu áttu 59,2 prósent þess. 

Ríkasta eitt prósent landsmanna, alls 2.380 fjölskyldur, áttu alls 802,1 milljarð króna í lok síðasta árs, tæplega 84 milljörðum krónum meira en árið áður. Auður þessa hóps hefur aukist um 353 milljarða króna frá árslokum 2010, eða um 78 prósent. 

Hlutfallslega lækkar hlutur allra ofangreindra hópa lítillega af heildareigin fé þjóðarinnar milli ára.

3.179 nýir milljarðar frá 2010

Kjarninn greindi frá því í október að eigið fé Íslendinga hækkaði um 641 milljarða króna í fyrra. Það er næst mesta hækkun sem átt hefur stað í vexti á eigin fé frá því að Hagstofa Íslands hóf að halda utan um þær tölur. Metið var sett á árinu 2017 þegar eigið fé Íslendinga jókst um 760 milljarða króna.

Uppgangur síðustu ára hefur skilað því að eigið fé lands­manna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 millj­arðar króna í lok árs 2010 í að vera 4.744 milljarðar króna um síðustu áramót. Hann hefur aldrei verið meiri.

Til hafa orðið 3.179 milljarðar króna í nýju eigin fé í íslensku samfélagi á þessum örfáu árum. Það hefur rúmlega þrefaldast. 

Af þessum milljörðum króna sem orðið hafa til frá árinu 2010 hafa 1.379 milljarðar króna farið til efstu tíu prósent landsmanna, sem telur 22.213 fjölskyldur. Það þýðir að 43 prósent alls nýs auðs hefur endað hjá þessum hópi.

Eigið fé vanmetið hjá ríkum

Eigið fé ríkustu hópa landsmanna er stórlega vanmetið. Öll verðbréfaeign (hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur) er nefnilega metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði.

Það þýðir að ef verðbréf í t.d. hlutafélögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum tölum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur til að mynda hækkað um vel yfir 20 prósent frá því snemma í janúar 2019 og um 40 prósent frá byrjun árs 2015. Það er enda eðli verðbréfa að þau eiga að hækka í verði. Ef það væru ekki væntingar um slíkt þá myndi enginn kaupa þau. 

Þessi hópur er líka líklegastur allra til að eiga eignir utan Íslands sem koma ekki fram í tölum Hagstofunnar, en áætlað hefur verið að íslenskir aðilar eigi hundruð milljarða króna í aflandsfélögum sem ekki sé gert grein fyrir. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar