Tvö þrotabú banka sömdu við endurskoðendur um bætur – Eitt gerði það ekki
Það var niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að endurskoðendur föllnu bankanna hefðu brugðist og að rannsaka ætti þá sérstaklega. Engin endurskoðandi var hins vegar ákærður vegna reikninga bankanna. Tvö þrotabú, Glitnis og Landsbankans, sóttu umtalsverðar skaðabætur til endurskoðenda sinna. Kaupþing ákvað að gera það ekki.
Tvö af þremur þrotabúum stóru föllnu bankanna, Glitnir og Landsbanki Íslands, hafa gert samkomulag við endurskoðendur sína frá því fyrir hrun sem fela í sér að fyrirtækin greiddu háar bætur fyrir þann skaða sem þau ollu með því að brjóta gegn lög- og samningsbundnum skyldum sínum. Í báðum tilvikum var um að ræða trúnaðarsamkomulag þar sem upphæðir voru ekki tilgreindar og endurskoðandinn, sem í báðum tilvikum var PwC, viðurkenndi ekki sekt. En borgaði samt.
Í tilfelli þriðja bankans, Kaupþings, var það lengi til rannsóknar að stefna KPMG vegna endurskoðunar á ársreikningi bankans á árinu 2007 og 2008. Um tíma var stefna vegna þessa í undirbúningi hjá skilanefnd eða slitastjórn bankans. En svo gerðist ekkert.
Nú hefur Kjarninn fengið staðfest hjá Kaupþingi ehf., félagi utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka, að ekkert samkomulag hafi verið gert við KPMG. Og einn eigenda KPMG hefur sagt það opinberlega að ekki hafi verið sótt að fyrirtækinu vegna ársreiknings Kaupþings fyrir árið 2007.
Spurt en enginn svör
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, lagði nýverið fram fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hann fer fram á að fá að vita hvort þrotabú Kaupþings, Glitnis og Landsbanka Íslands hafi sóst eftir bótum frá þeim endurskoðunarfyrirtækjum sem árituðu reikninga þeirra misserin fyrir hrun.
Ef slíkar bætur hafi verið greiddar vildi Þorsteinn vita hvort að þrotabúin fengið slíkar bætur með samningum eða dómum.
Í svari Bjarna, sem birt var 13. nóvember, var spurningunni ekki svarað með þeim rökum að þau „þrotabú og fyrirtæki sem um ræðir hafa hvorki verið í eigu ríkisins né hafa þau veitt almenningi opinbera þjónustu á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings. Þrotabú föllnu bankanna tengdust óbeint hlutverki og starfsemi ríkisins vegna eignarhalds ríkisins á tveimur endurreistum bönkum og áætlun stjórnvalda um losun gjaldeyrishafta en þau tengsl hafa ekki leitt til þess að ráðuneytið eða stofnanir þess búi yfir þeim upplýsingum sem um er spurt.“
Fengu vel greitt
Það voru gjöful viðskipti að sinna endurskoðun fyrir íslensku bankana fyrir bankahrun. PwC, sem endurskoðaði bæði Glitni og Landsbankann, fékk alls greitt 1.435 milljónir króna fyrir þá vinnu á árunum 2007 og 2008. KPMG, sem endurskoðaði Kaupþing, fékk 933 milljónir króna greitt fyrir á árunum 2007 og 2008.
Öll þrotabú föllnu bankanna stefndu endurskoðunarfyrirtækjunum og fóru fram á bætur vegna þess að endurskoðunarfyrirtækin hefðu vitað af slæmri stöðu bankanna þegar þeir kvittuðu upp á heilbrigði þeirra við gerð árs- og árshlutareikninga. Samið hefur verið um málalok hjá tveimur þrotabúum en algjör leynd hvílir yfir því sem fram fór hjá hinu þriðja.
Engin búanna hafa hins vegar viljað greina frá því hvort eða hversu mikið endurskoðunarfyrirtækin, eða tryggingafélög þeirra, hafi greitt í bætur fyrir að hafa sýnt af sér meinta vanrækslu við endurskoðun á ársreikningum bankanna þriggja fyrir árið 2007 og árshlutareikningum þeirra vegna fyrri hluta árs 2008.
Glitnir fékk hundruð milljóna
Sáttir náðust milli Glitnis og PwC í nóvember 2013. Trúnaður ríkti um upphæðina sem PwC greiddi en í umfjöllun Kjarnans um hana þá kom fram að PwC hefði greitt hundruð milljóna króna til að komast hjá málshöfðun sem hinn fallni banki hafði höfðað á hendur PwC á Íslandi og í Bretlandi. Samkomulagið var gert „án viðurkenningar sakar“. Það snerist því um að endurskoðunarfyrirtækið greiddi bætur án þess að hafa viðurkennt að hafa gert nokkuð rangt.
Málið sem Glitnir hafði höfðað gegn PwC var ekkert smámál. Í stefnu þess, sem birt var í mars 2012 voru sérstaklega tilgreind fimm atriði þar sem PwC átti að hafa brotið gegn lög- og samningsbundnum skyldum sínum. Í fyrsta lagi hefði PwC ekki upplýst um að stjórnendur Glitnis hefðu veitt útlán til innbyrðis tengdra aðila langt umram leyfileg hámörk, í öðru lagi leynt útlánaáhættu bankans til aðila sem töldust tengdir, í þriðja lagi veitt stórfelld útlán til fjárvána eignarhaldsfélaga, í fjórða lagi vanrækt afskriftarskyldu sína og í fimmta lagi vanrækt að upplýsa um þá gríðarlega miklu fjárhagslegu hagsmuni sem bankinn var með í eigin bréfum með þeim afleiðingum að eigið fé hans var verulega of hátt skráð.
Lögmaður Glitnis í málinu vitnaði mikið til þess í stefnunni að Fjármálaeftirlitið hefði gert athugasemdir við PwC á árunum 2007 og 2008 vegna þess að ekki hafi verið gerð „fullnægjandi grein fyrir viðskiptum venslaðra aðila við bankann. Til þess flokks féllu „félög sem Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnaði“, en hann var einn stærsti eigandi bankans fyrir hrun. Var þar vísað til Baugs, FL Group og aðila sem tengdust þeim samsteypum.
Landsbankinn samdi í trúnaði
Í mars 2017 var greint frá samkomulagi sem náðst hafði milli þrotabús Landsbanka Íslands og PwC. Málið tengdist störfum PwC fyrir Landsbankann fyrir hrunið. Dómsmál var höfðað í árslok 2012 og var farið fram á 100 milljarða króna skaðabætur vegna meints tjóns sem fyrirtækið átti að hafa valdið með rangri ráðgjöf og óvandaðri vinnu, sem bitnaði á fyrirtækinu og kröfuhöfum þess. Þá hafi PwC ekki getið sérstaklega um háar lánveitingar Landsbankans til helstu eigenda hans og félaga í þeirra eigu, þ.e. feðganna Björgólfs Thors Björgólfssonar og Björgólfs Guðmundssonar.
Í tilkynningu frá þrotabúi Landsbankans vegna þessa sagði að það sé væri mat þrotabúsins og PwC að sáttin væri ásættanleg fyrir báða aðila.
Engin upphæð var nefnd í tilkynningunni en í kynningu sem haldin var fyrir kröfuhafa bankans síðar var greint frá því að um væri að ræða „ótilgreinda upphæð“ sem PwC hafði greitt.
Kaupþing ekki sótt bætur
Nánast ekkert hefur heyrst af því hvort að Kaupþing hafi farið í aðgerðir gegn KPMG. Samkvæmt svari Kaupþings ehf., félags utan um eftirstandandi eignir bankans, við fyrirspurn Kjarnans hefur ekkert samkomulag verið gert.
Í bókinni Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út fyrir ári síðan, var haft eftir Sæmundi Valdimarssyni, annars þeirra endurskoðenda sem skrifaði undir ársreikning Kaupþings 2007 og meiðeiganda hjá KPMG, að frá því að Kaupþing féll hefði ársreikningur hans verið rannsakaður af ýmsum aðilum. Þar á meðal væri slitastjórn og skilanefnd bankans, Fjármálaeftirlitið og sérstakur saksóknari með aðstoð sérfræðinga. „Nú 10 árum síðar, eftir allar þær skoðanir sem reikningurinn hefur fengið, hefur ekki verið sótt að okkur vegna hans. Að okkar mati segir það talsverða sögu og vart er hægt að fá betri staðfestingu á því að ársreikningurinn gefi glögga mynd og sé án verulegra annmarka, eins og fram kemur í áritun okkar á ársreikninginn.“
Því virðist sem að Kaupþing hafi ekki sótt bætur vegna endurskoðunar KPMG á reikningi bankans. Bætur sem hin þrotabú föllnu stóru íslensku bankanna sóttu á sína endurskoðendur, og fengu.
Bankinn var gjaldþrota löngu áður en hann fór í þrot
Það vekur athygli þar sem rannsóknir á endurskoðun Kaupþings, sem framkvæmd var fyrir embætti sérstaks saksóknara og unnin af sérfræðingum á sviði reikningsskila, sýndu þá niðurstöðu að bankinn hafi verið gjaldþrota í lok árs 2007 hið síðasta.
Niðurstaða sérfræðinganna sem framkvæmdu rannsóknina var sú að hvorki stjórn, framkvæmdastjórn né endurskoðendur Kaupþings gátu staðið við yfirlýsingar sem framsettar voru í ársreikningi fyrir árið 2007 þess efnis að hann gæfi glögga mynd af rekstri og efnahag bankans né að hann væri saminn í samræmi við lög og staðla um gerð reikningsskila fyrir fyrirtæki sem skráð væri á markað.
Þvert á móti komust þeir að þeirri niðurstöðu að ársreikningurinn væri beinlínis rangfærður að verulegum hluta. Það þýddi að þeir sem lásu ársreikninginn fengu ekki upplýsingar um rekstur og efnahag Kaupþings sem gátu talist áreiðanlegar. Því lægi fyrir að þeir sem báru ábyrgð á ársreikningnum hefðu sameiginlega villt um fyrir hluthöfum og kröfuhöfum Kaupþings og samfélaginu öllu.
Í þeim sagði að alvarlegir ágallar hafi verið voru á reikningsskilum bankans fyrir það ár. Svo alvarlegir að í stað þess að eigið fé bankans væri jákvætt um mörg hundruð milljarða króna átti það að vera neikvætt. Og uppfyllti þar af leiðandi ekki sett skilyrði fyrir því að starfa. Kaupþing hefði átt að skila inn starfsleyfi sínu samkvæmt gögnunum.
Það gerði bankinn ekki heldur hélt áfram að starfa fram í október 2008, og ýkti um leið gríðarlega það tjón sem starfsemi bankans olli á endanum hluthöfum og kröfuhöfum. Á þessum mánuðum sem bankinn starfaði ólöglega voru líka framin fjölmörg og alvarleg efnahagsbrot sem búið er að dæma helstu stjórnendur Kaupþings til fangelsisvistar fyrir.
Endurskoðendur ekki ákærðir
Í niðurstöðuhluta rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslu hennar, sem kom út í apríl 2010, var fjallað um þátt endurskoðenda. Þar sagði að skort hefði á að endurskoðendur stóru íslensku bankanna sinntu nægilega skyldum sínum við endurskoðun reikningsskila þeirra, sérstaklega þegar kom að rannsókn þeirra og mati á virði útlána til stærstu viðskiptavina þeirra, meðferð á hlutabréfaeign starfsmanna og fyrirgreiðslu banka til ýmissa til að kaupa hlutabréf í sjálfum sér. Nefndin fór fram á að endurskoðendur bankanna yrðu rannsakaðir sérstaklega.
Það var gert en ákveðið var að höfða ekki sakamál á grunni þeirra rannsókna. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og áður sérstakur saksóknari, sagði í viðtali í október 2018 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut að ástæðan væri sú að erfitt væri að koma þessum málum fyrir dóm. „Það helgaðist af mjög mörgum atriðum. Það voru fyrst og fremst alþjóðlegir reikningsskilmálar sem vöfðust fyrir okkur og innleiðing þeirra, vegna þess að sumir þeirra eru ekki innleiddir í íslenskan rétt fyrr en eftir hrunið í raun og veru. Þannig að menn mátu það sem svo að við myndum lenda í vandræðum með að fá sakfellingu í þannig málum.“
Koma til baka og ráða sömu endurskoðendur
Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, skrifaði grein í Vísbendingu í maí á þessu ári þar sem hann hann fjallaði um endurkomu þeirra einstaklinga sem hefðu tekið
virkan þátt í fjármálaævintýrinu á árunum 2003 til 2008 að snúa aftur til landsins.
Gylfi sagði að peningum hefði í mörgum tilvikum verið komið undan á árunum 2007 og 2008 og það fjármagn væri nú að skila sér til baka, samhliða því að það væri búið að gera þrotabú hinna föllnu banka upp. Líklegt væri að a.m.k. einn öflugur banki yrði í eigu þessara aðila innan ekki langs tíma ef það hefði ekki gerst þá þegar.
Vandinn væri sá að rekstur bankanna fyrir 2008 hafi verið ámælisverður eins og margir refsidómar bæru vitni um. Ekki væru öll kurl komin til grafar um þann rekstur. „Endurskoðendur gegndu lykilhlutverki í því að láta bókfært eigið fé margfaldast á fáum árum en hafa ekki sýnt neina iðrun í þeim efnum. Misvísandi uppgjör voru forsenda þess að bankakerfið margfaldaðist að stærð á stuttum tíma og féll m.a. vegna þess að eigið fé var ekki raunverulegt heldur búið til með bókhaldsbrellum og bankarnir of stórir til þess að ríkið gæti komið þeim til bjargar. Það er því fyrirsjáanlegt að sömu aðilar komi sumir aftur til sögunnar, ráði sömu endurskoðendur sem fyrr og reynir þá mikið á fjármálaeftirlit.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur