Varnir Kviku gegn peningaþvætti í lagi árið 2017 en í ólagi árið 2019
Fjármálaeftirlitið hefur framkvæmt tvær athuganir á peningaþvættisvörnum Kviku banka frá árinu 2017. Í þeirri fyrri var niðurstaðan að bankinn hefði staðist prófið. Í þeirri nýju féll hann á því.
Í mars 2017 birti Fjármálaeftirlitið niðurstöðu úr athugun sinni á peningaþvættisvörnum Kviku banka. Í henni fólst að Kvika væri með þær varnir í viðunandi ástandi. Sérstaklega var tekið fram að framkvæmd Kviku við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína væri almennt viðunandi.
Á föstudag, 20. desember 2019, var birt niðurstaða úr nýrri athugun, sem hófst rúmum tveimur árum eftir að þeirri fyrri lauk. Nú var niðurstaðan sú að fjölmargar brotalamir væru í peningaþvættisvörnum Kviku. Meðal annars kom fram að Kvika hafi ekki getað sýnt fram á að bankinn sannreyndi upplýsingar sem gefnar væru um raunverulega eigendur fjármuna eða félaga sem væru í viðskiptum við bankann.
Þessi niðurstaða er því algjörlega á skjön við þá sem Fjármálaeftirlitið birti 2017, en í millitíðinni hafði Ísland fengið á sig áfellisdóm frá alþjóðlegu samtökunum Financial Action Task Force (FATF) fyrir að vera með verulega lakar varnir gegn peningaþvætti. Þrátt fyrir margháttaðar úrbætur tókst Íslandi ekki að laga þá stöðu nægilega hratt og í október 2019 var Ísland sett á gráan lista samtakanna.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var það sannarlega ekki þannig að Kvika hefði skyndilega sofnað á verðinum á milli athuganna. Þvert á móti hefur verið bætt verulega í allt eftirlit þar innanhúss á undanförnum árum.
Þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi meðal annars verið að skoða sama tímabil í starfsemi Kviku í báðum athugunum þá komst það samt sem áður að því að nánast allt hafi verið viðunandi árið 2017, en að brotalamir væru mjög víða rúmum tveimur árum síðar.
Gáfu Kviku góða einkunn 2017
Á árinu 2017, áður en að áfellisdómur FATF lá fyrir, framkvæmdi Fjármálaeftirlitið athuganir á peningaþvættisvörnum ýmissa eftirlitsskylda aðila. Á meðal þeirra voru nokkrar fjármálastofnanir. Þar á meðal var einn viðskiptabanki, Kvika banki.
Eftirlitið lauk athugun á Kviku banka í febrúar 2017. Í niðurstöðu þeirrar athugunar, sem er dagsett 14. mars 2017 og er ekki hálf blaðsíða að lengd, segir að í athuguninni hafi verið lögð sérstök áhersla á könnun Kviku á „áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína, reglubundið eftirlit með samningssambandinu við viðskiptamenn, tilkynningarskyldu og þjálfun starfsfólks.“
Niðurstöður athugunarinnar hafi verið byggðar á upplýsingum og gögnum sem aflað var við athugunina og stöðunni eins og hún var á þeim tíma sem athugunin fór fram.
Í niðurstöðunni segir að það hafi verið mat Fjármálaeftirlitsins að framkvæmd Kviku við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína, reglubundið eftirlit með þeim, tilkynningarskyldu og þjálfun starfsfólks væri almennt viðunandi. Nokkrar ábendingar hafi verið settar fram um atriði sem betur mætti fara. En heilt yfir stóðst Kvika banki prófið. Rúmum tveimur árum, og einni falleinkunn frá FATF, síðar sá Fjármálaeftirlitið tilefni til að taka Kviku banka, og alla hina bankanna, til nýrrar athugunar.
Þekktu ekki raunverulega eigendur
Fjármálaeftirlitið hóf aðra athugun sína á Kviku banka á nokkrum árum í maí 2019 og henni lauk núna í desember. Í þetta sinn varð niðurstaðan allt önnur, þrátt fyrir að meðal annars sama tímabil hafi verið skoðað og í fyrri athuguninni.
Samkvæmt niðurstöðunni, sem var birt seint á föstudag eftir lokun markaða á síðasta virka degi fyrir Þorláksmessu, telur Fjármálaeftirlitið að skortur hafi verið á skjalfestingu á mati á áreiðanleika upplýsinga og að innan bankans hafi ekki verið sýnt fram á að upplýsingar um raunverulega eigendur hafi almennt verið metnar með sjálfstæðum hætti.
Þá segir í niðurstöðu eftirlitsins að öflun upplýsinga um raunverulega eigendur viðskiptavina sem komu upphaflega í viðskipti við Virðingu hf., sem síðan rann saman við önnur fjármálafyrirtæki til að mynda Kviku, hafi verið ófullnægjandi. „Í tveimur tilvikum sönnuðu viðskiptamenn ekki á sér deili við upphaf samningssambands,“ segir í niðurstöðunni.
Kerfi Kviku vegna reglubundins eftirlits með samningssambandi við viðskiptamenn var ófullnægjandi en þess er getið í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins að bankinn hafði hafið innleiðingu á nýju kerfi þegar athugunin fór fram. Að endingu var það einnig niðurstaða eftirlitsins að skortur væri á að upplýsingar um viðskiptamenn bankans væru uppfærðar reglulega.
Fjármálaeftirlitið taldi hins vegar ekki tilefni til að gera athugasemdir við innri reglur og ferla, eftirlitskerfi vegna alþjóðlegra þvingunaraðgerða og einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eða úrtak á skýrslum vegna rannsókna á grunsamlegum viðskiptum og tilkynningum til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
Brotalamir hjá öllum bönkunum
Fjármálaeftirlitið gerði ekki bara athugasemdir við stöðu mála hjá Kviku, heldur allra hinna viðskiptabankanna líka. Sérstaklega gerði eftirlitið athugasemdir við mat þeirra allra á upplýsingum um raunverulega eigendur fjármuna eða félaga sem eru, eða hafa verið, í viðskiptum við þá. Í niðurstöðum eftirlitsins á athugun eftirlitsins á peningaþvættisvörnum þeirra eru gerðar athugasemdir við þeir hafi ekki metið upplýsingar um raunverulega eigendur með sjálfstæðum hætti.
Niðurstaða athugunar eftirlitsins á Arion banka var birt í maí en niðurstöður vegna athugunar á hinum þremur bönkunum ekki birt fyrr en seint síðastliðinn föstudag, 20. desember.
Í tilfelli Landsbankans, sem er í ríkiseigu, lauk athugun í október en niðurstaðan þrátt fyrir það ekki birt fyrr en tveimur mánuðum síðar. Athugun á Kviku banka og Íslandsbanka lauk núna í desember.