Mynd: Bára Huld Beck

Hafréttarstofnun á að gera rannsóknaráætlanir og sinna ráðgjöf en gerir hvorugt

Tvö ráðuneyti hafa lagt Hafréttarstofnun Íslands til rúmlega 200 milljónir króna frá því að hún var sett á laggirnar árið 1999. Í samningi um tilurð hennar er kveðið á um að stofnunin sinni ákveðnum verkum. Í svörum við fyrirspurnum Kjarnans um eðli starfseminnar kemur fram að hún hafi aldrei sinnt hluta þeirra og að breyta ætti samningnum þannig að þær kvaðir yrðu felldar brott úr honum.

Árið 1999 var ákveð­ið  að setja á fót Haf­rétt­ar­stofnun Íslands með samn­ingi und­ir­rit­uðum af Páli Skúla­syni rektor Háskóla Íslands, Hall­dóri Ásgríms­syni utan­rík­is­ráð­herra og Þor­steini Páls­syni sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra. Þeim samn­ingi hefur tví­vegis verið breytt lít­il­lega, árin 2002 og 2006, en að uppi­stöðu er hann eins. 

Samn­ing­ur­inn til­tekur hvaða hlut­verk Haf­rétt­ar­stofnun hefur og hvernig henni er ætlað að ná mark­miðum sín­um. Ráðu­neytin tvö sem stóðu að stofn­un­inni hafa lagt henni til 205,2 millj­ónir króna í fram­lög og styrki á líf­tíma henn­ar, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá stjórn stofn­un­ar­inn­ar. 

Í samn­ingum um starf­semi Haf­rétt­ar­stofn­unar segir að mark­mið hennar sé meðal ann­ars að „treysta þekk­ingu á rétt­ar­reglum á sviði haf­rétt­ar“ og „skal hún jafn­framt vera til ráðu­neytis í álita­málum sem upp koma á sviði haf­réttar og varða hags­muni Íslands.“

Til að ná mark­miðum sínum á Haf­rétt­ar­stofnun meðal ann­ars að gera rann­sókn­ar­á­ætl­anir og fram­kvæma þær. 

Í svörum við umfangs­miklum fyr­ir­spurnum Kjarn­ans um starf­semi Haf­rétt­ar­stofn­unar kemur hins vegar fram að stofn­unin hafi hvorki sinnt ráð­gjaf­ar­hlut­verk­inu sem samn­ing­ur­inn kveður á um né gert eina ein­ustu rann­sókn­ar­á­ætlun á þeim rúmum tveimur ára­tugum sem hún hefur starf­að. 

Óraun­hæft að gera rann­sókn­ar­á­ætl­anir

Kjarn­inn spurði Háskóla Íslands og þau ráðu­neyti sem fjár­magna starf­semi Haf­rétt­ar­stofn­unar ýmissa spurn­inga um starf­semi henn­ar, meðal ann­ars um hvernig stofn­unin upp­fyllti ofan­greind mark­mið. Fyr­ir­spurnin var send á utan­rík­is­ráðu­neyt­ið, atvinnu­vega­ráðu­neytið og til rekt­ors Háskóla Íslands. Björg Thoraren­sen, pró­fessor við laga­deild Háskóla Íslands og for­maður stjórnar Haf­rétt­ar­stofn­un­ar, svar­aði fyr­ir­spurn­inni fyrir hönd þeirra aðila. 

Í þeim svörum kom fram að það hefði reynst óraun­hæft að gera rann­sókn­ar­á­ætl­anir á vett­vangi Haf­rétt­ar­stofn­unar vegna þess hversu þröngur stakkur stofn­un­inni væri snið­inn, þrátt fyrir að gerð slíkra áætl­ana væri á meðal helstu verk­efna henn­ar. „Stofn­unin hef­ur[...]frá upp­hafi lagt meg­in­á­herslu á fræðslu­starf. Hins vegar hefur stofn­unin eftir megni stundað og stutt við rann­sóknir á sviði haf­rétt­ar, m.a. með útgáfu rita og birt­ingu fræði­greina ásamt styrkjum til fram­halds­náms, þ.á m. dokt­ors­náms, og til útgáfu rita á sviði haf­rétt­ar.“ 

Átti að gegna ráð­gjaf­ar­hlut­verki en gerði það aldrei

Sam­kvæmt samn­ingi um til­urð Haf­rétt­ar­stofn­unar segir að hún skuli „jafn­framt vera til ráðu­neytis í álita­málum sem upp kunna að koma á sviði haf­réttar og varða hags­muni Íslands.“

Í 2. grein laga um Háskóla Íslands er til­tekið að háskóli sé „sjálf­stæð mennta­stofnun sem sinnir kennslu, rann­sókn­um, varð­veislu þekk­ing­ar, þekk­ing­ar­leit og sköpun á sviðum vís­inda, fræða, tækni­þró­unar eða lista. Hlut­verk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekk­ingar og færni til nem­enda og sam­fé­lags­ins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja inn­viði íslensks sam­fé­lags og stöðu þess í alþjóð­legu til­lit­i.“ 

Við­mæl­endur sem Kjarn­inn ræddi við, sem starfa innan háskóla­aka­dem­íu, töldu að það gæti verið ósam­rým­an­legt að stofnun sem heyri undir háskóla, og á þar með að vera sjálf­stæð, gæti veitt rík­inu ráð­gjöf í álita­málum sem kæmu upp og vörð­uðu „hags­muni Íslands“. Þá væri verið að taka hags­mun­ina fram yfir sjálf­stæð­ið. 

Kjarn­inn spurði Haf­rétt­ar­stofnun um hvað fælist í ráð­gjaf­ar­hlut­verki fyrir íslenska rík­ið. Í svari stjórn­ar­for­manns stofn­un­ar­innar sagði að þrátt fyrir orða­lag þar af lút­andi í samn­ingnum sem Haf­rétt­ar­stofnun gerði árið 2006 við Háskóla Íslands og þau ráðu­neyti sem fjár­magna starf­semi henn­ar, þá hefði stofn­unin aldrei gengt ráð­gjaf­ar­hlut­verki fyrir stjórn­völd. „Um­rætt ákvæði og nokkur önn­ur, m.a. um ráðn­ingu sér­fræð­inga til stofn­un­ar­innar og gerð rann­sókn­ar­á­ætl­ana, eru óraun­hæf sökum þess hve þröngur stakkur stofn­un­inni er snið­inn. Hefur verið rætt innan stjórnar um að breyta þurfi samn­ingnum að þessu leyti til að færa hann nær raun­veru­legri starf­semi og má ætla að við­kom­andi ákvæði verði felld brott við næstu end­ur­skoðun samn­ings­ins.“

Í svari við spurn­ingu um hvernig það sam­rýmd­ist sjálf­stæð­is­hlut­verki háskóla að veita rík­is­vald­inu ráð­gjöf um hags­muna­gæslu var ekki tekin afstaða til þeirra mögu­legu hags­muna­á­rekstra, heldur ítrekað að Haf­rétt­ar­stofnun hefði aldrei getað gegnt ráð­gjafa­hlut­verki vegna þess að of litlir fjár­munir hafi runnið til henn­ar. 

Ráðu­neyt­is­stjórar í stjórn

Sam­kvæmt gögnum sem Kjarn­inn hefur undir höndum þá hafa ráðu­neyt­is­stjórar setið í stjórn Haf­rétt­ar­stofn­un­ar, að minnsta kosti um tíma, frá árinu 2013. Aðspurð um hvernig það sam­rýmd­ist lögum um Háskóla Íslands að full­trúar fram­kvæmda­valds­ins sætu í stjórn háskóla­stofn­unar sem hefur skil­greint sjálf­stætt hlut­verk sam­kvæmt lög­um, sagði Björg að það væri rétt að ráðu­neytin tvö sem stæðu að stofn­un­inni hefðu stundum til­nefnt ráðu­neyt­is­stjóra sem full­trúa sína í stjórn henn­ar. „Það lýsir fyrst og fremst vilja þess­ara ráðu­neyta sem fara með mál­efni tengd haf­rétti til þess að skipa full­trúa af sinni hálfu sem hafa bæði yfir­sýn og sér­stakan áhuga á haf­rétt­ar­mál­efn­um. Nú er stjórn stofn­un­ar­innar skipuð emb­ætt­is­mönnum sem ráðu­neytin hafa til­nefnt og  hafa með höndum störf á sviði haf­rétt­ar­mála. Ráðu­neyt­is­stjórar hafa ekki setið í stjórn­inni um nokk­urt skeið. Þeir full­trúar ráðu­neyt­anna, sem sitja í stjórn, vinna ásamt full­trúum Háskól­ans að ákvarð­ana­töku á grund­velli fag­legrar þekk­ingar sinn­ar, en auk þess hefur stjórnin eft­ir­lit með því hvernig fjár­veit­ingum stofn­un­ar­innar er var­ið. Það er ekki til þess fallið að ógna sjálf­stæði Háskól­ans á nokkurn hátt.“

Hafréttarstofnun hefur meðal annars styrkt lagadeild Háskóla Íslands.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Enn fremur svar­aði Björg því til að það sam­rýmd­ist fylli­lega lögum um Háskóla Íslands og hlut­verki hans í íslensku sam­fé­lagi og stefnu Háskóla Íslands að efna til sam­starfs við stjórn­völd og fyr­ir­tæki um rann­sóknir og kennslu á grund­velli sam­starfs­samn­inga. Það væri einnig í sam­ræmi við lögin að full­trúar þess­ara aðila sætu í sam­eig­in­legum stjórnum eða nefndum og ráðum tengdum stjórn verk­efna. Háskól­inn gerði það með marg­vís­legum hætti á fag­legum for­send­um, ýmist ­með skipu­lögðum fyr­ir­lestrum, ráð­stefnum og kynn­ingum á vís­inda­starfi eða á vett­vangi stofn­ana eins og Haf­rétt­ar­stofn­un­ar, Alþjóða­mála­stofn­un­ar, Félags­vís­inda­stofn­un­ar, Raun­vís­inda­stofn­un­ar, Hug­vís­inda­stofn­un­ar, með starf­rækslu rann­sókna­setra Háskól­ans á lands­byggð­inni. Það gæti líka gerst í nánu sam­starfi við aðra, svo sem Land­spít­ala, Hjarta­vernd, Heilsu­gæsl­una, sveit­ar­fé­lög, Hag­stof­una, Sið­fræði­stofnun og Þjóð­minja­safn­ið. „Það er því ekki óeðli­legt, þegar komið er á stofn­unum eða sam­starfs­verk­efnum með aðilum utan Háskól­ans, að þeir eigi full­trúa í sam­eig­in­legri stjórn til þess að marka stefnu eða áherslur í slíkum verk­efn­um, en á sama tíma er fag­leg aðkoma og akademískt sjálf­stæði þeirra starfs­manna Háskól­ans sem vinna að rann­sóknum eða verk­efnum fyrir eða á vegum slíkra stofn­ana tryggt. Sem dæmi um stofn­un, þar sem full­trúar frá ráðu­neyti og sveit­ar­fé­lögum hafa setið í stjórn og einnig veitt fjár­fram­lög, má nefna Alþjóða­mála­stofnun Háskóla Íslands.“

Yfir 200 millj­ónir króna úr rík­is­sjóði

Alls hafa 199,4 millj­ónir króna runnið til Haf­rétt­ar­stofn­unar frá því að hún var sett á fót árið 1999 frá tveimur ráðu­neyt­um, utan­rík­is­ráðu­neyt­inu og því ráðu­neyti sem hefur farið með sjáv­ar­út­vegs­mál hverju sinni. Frá árinu 2016 og út síð­asta ár voru árleg fram­lög utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins 8,9 millj­ónir króna og frá atvinnu­vega- og nýsköp­un­ar­ráðu­neyt­inu komu 2,7 millj­ónir króna. 

Til við­bótar við ofan­greind fram­lög hefur þró­un­ar­sam­vinnu­skrif­stofa utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins veitt stofn­un­inni styrki til að standa straum af kostn­aði vegna styrkja til full­trúa frá þró­un­ar­ríkj­um, aðal­lega til að taka þátt í nám­skeiði Ródos-aka­dem­í­unnar í haf­rétti. Sam­an­lagt hefur það fram­lag verið 5,8 millj­ónir króna á árunum 2018 og 2019. 

Allt í allt hefur hið opin­bera því kostað til 205,2 millj­ónum króna í Haf­rétt­ar­stofnun frá því að henni var komið á.  

Tómas H. Heiðar er forstöðumaður Hafréttarstofnunar.

Tómas H. Heiðar hefur verið for­stöðu­maður Haf­rétt­ar­stofn­unar frá árinu 2002. Hann starf­aði áður sem þjóð­rétt­ar­fræð­ingur utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins og er sér­fræð­ingur í haf­rétti. Starfið er 25 pró­sent hluta­starf og sá ráðn­ing­ar­samn­ingur sem nú er í gildi við Tómas er frá 1. jan­úar 2005. 

Tómas, sem búið hefur í Argent­ínu, var kjör­inn dóm­ari við Alþjóð­lega haf­rétt­ar­dóm­inn til níu ára á fundi aðild­­ar­­ríkja haf­rétt­­ar­­samn­ings Sam­ein­uðu þjóð­anna þann 11. júní 2014. Hann er því sam­hliða eini starfs­maður Haf­rétt­ar­stofn­un­ar, sem hefur það hlut­verk sam­kvæmt samn­ingi um starf­semi sína að ráð­leggja íslenskum stjórn­völdum og dóm­ari við alþjóð­legan dóm­stól sem hefur það hlut­verk að úrskurða um álita­mál sem kunna að koma upp á sviði haf­réttar og varða hags­muni Íslands.

Kjarn­inn spurði hvort ráðu­neytin sem fyr­ir­spurnin var send á, og fjár­magna starf­semi Haf­rétt­ar­stofn­un­ar, sæju enga hags­muna­á­rekstra í þess­ari stöðu. Í svari Bjargar sagði að Tómas gegndi hluta­starfi sem for­stöðu­maður akademískrar stofn­unar við Háskóla Íslands og væri starfs­maður Háskól­ans, en ynni ekki hjá fram­kvæmd­ar­vald­inu. „Þess ber að geta að algengt er að dóm­arar við Alþjóð­lega haf­rétt­ar­dóm­inn sinni akademískum störfum sam­hliða dóm­ara­starf­inu, sem ekki er fullt starf, og hafa þessi störf verið talin fylli­lega sam­rým­an­leg.“

Sagði forstöðumanninn hafa hótað sér

Í maí 2016 fjölluðu Kastljós og Stundin um samskipti Tómasar H. Heiðar, forstöðumanns Hafréttarstofnunar Íslands, við Bjarna Má Magnússon, doktor í hafrétti og nú prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Samskiptin snerust um að Bjarni Már, sem þá var lektor, hafði sent tölvupóst til forstöðumannsins til að kanna hvort að Hafréttarstofnun myndi vilja styrkja ferð hans til Sjanghæ í Kína þar sem hann ætlaði að flytja erindi á alþjóðlegri ráðstefnu um hafréttarmál.

Erindið fjallaði um landgrunnsmál Kínverja og hvernig þeir gætu náð fram hagsmunum sínum í gegnum alþjóðlega dómstóla. Í kjölfarið áttu þeir samskipti í gegnum síma. Í einum svarpósta sinna, sem sendur var þann 17. mars 2015 úr netfangi Tómasar hjá utanríkisráðuneytinu, sem hann notaðist við þrátt fyrir að vera orðinn dómari við Alþjóðlega hafréttardómstólinn, skrifaði Tómas að hann vildi endilega vita „ sem allra fyrst hver niðurstaða þín er hvað fyrirlesturinn varðar. Ég tel ljóst að með fyrirhuguðum fyrirlestri myndurðu óhjákvæmilega brenna ýmsar brýr að baki þér.“

Í öðrum pósti sem Tómas sendi Bjarna Má daginn eftir sagði meðal annars: „Ég var búinn að útskýra málið fyrir þér í símtali og ég taldi að þú hefðir skilið alvöru málsins. Svo virðist ekki vera og ég skal því árétta kjarna málsins. Eins og titill fyrirhugaðs erindis þíns ber með sér felur það í sér hvatningu til kínverskra stjórnvalda um að beita sér gegn landgrunnskröfum strandríkja á norðurslóðum til að standa vörð um alþjóðlega hafsbotnssvæðið. Augljóst ætti að vera að slíkt samræmist ekki íslenskum hagsmunum.“

Bjarni Már hafnaði þeirri skoðun Tómasar að erindið ógnaði íslenskum hagsmunum og gerði honum ljóst að honum þætti „ámælisvert að þú reynir, í nafni íslenska ríkisins að beita akademískan starfsmann háskóla hótunum. Þú hlýtur að gera þér grein fyrir hversu alvarlegt það er.“

Tómas hafnaði því í svarpósti að hafa beitt Bjarna Má hótunum, en síðar, eftir að Bjarni Már sendi kvörtun til utanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands, baðst hann afsökunar á málinu og sagði í þeirri afsökunarbeiðni að hann hefði átt að synja erindinu, þar sem það gengi gegn hagsmunum Íslands. Stjórn Hafréttarstofnunar taldi enn fremur að samskiptin hefðu verið óheppileg þar sem það væri stjórnar, ekki forstöðumanns, að taka ákvörðun um styrkveitingar.

Í nýbirtum reglum Hafréttarstofnunar um styrkveitingar segir orðrétt: „Stjórn Hafréttarstofnunar tekur ákvörðun um allar styrkveitingar að fengnum tillögum forstöðumanns stofnunarinnar.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði síðar í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið að það væri ótækt að rannsóknarstofnanir á vegum Háskóla Íslands drægi umsækjendur um styrki í dilka eftir því hvort fræðilegar niðurstöður þeirra samræmist eða samræmdist ekki „íslenskum hagsmunum“.

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Haf­rétt­ar­stofnun þá voru laun og launa­tengd gjöld for­stöðu­manns­ins á árunum 2016 og 2017 um fjórð­ungur af þeim tekjum sem henni var skammtað árlega, eða rétt undir þremur millj­ónum krónum árlega. 

Árið 2018 juk­ust tekjur stofn­un­ar­innar umtals­vert vegna hærri styrkja en laun og launa­tengd gjöld for­stöðu­manns­ins voru rétt rúm­lega þrjár millj­ónir króna. Lík­legt verður að telja að við­bót­ar­styrkt­ar­greiðslur hafi verið í tengslum við alþjóða­ráð­stefnu um haf­rétt­ar­mál sem Haf­rétt­ar­stofnun efndi til ásamt Haf­mála­stofnun Suð­ur­-Kóreu sum­arið 2018, sem 127 manns frá 45 löndum sótt­u. 

Tvenns konar styrkir

Haf­rétt­ar­stofnun veitir tvenns konar náms­styrki, ann­ars vegar til þátt­töku í árlegu nám­skeið­i Ródos-aka­dem­í­unnar í haf­rétti og hins vegar til fram­halds­náms. Stofn­unin hefur veitt alls 64 þátt­tak­endum frá Íslandi styrk til þátt­töku í nám­skeið­i Ródos-aka­dem­í­unnar í haf­rétti sem heldur þriggja vikna nám­skeið í haf­rétti á Ródos, Grikk­landi, í júlí ár hvert.

Styrk­ur­inn nær til þátt­töku­gjalds, far­gjalds og gisti­kostn­aðar með hálfu fæði og nemur nú rúm­lega hálfri milljón króna. Stofn­unin veitir auk þess þátt­tak­endum frá þró­un­ar­ríkjum styrki til þátt­töku í nám­skeið­inu sem eru oft hærri vegna hárra far­gjalda. 

Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík og doktor í hafrétti.
Mynd: Aðsend

Kjarn­inn óskaði eftir upp­lýs­ingum um hvernig því fjár­magni sem stofn­unin hefur fengið úr opin­berum sjóðum hefur verið ráð­staf­að. Á meðal þess sem óskað var eftir að fá sund­ur­liðað voru launa­greiðsl­ur, sem getið er hér að ofan, veittir styrkir, annar rekstr­ar­kostn­aður og keyptar aug­lýs­ing­ar. Auk þess var farið fram á að fá upp­lýs­ingar um hvar þær aug­lýs­ingar voru keyptar og hvað hafi verið greitt fyrir hverja þeirra. 

Í svari Bjargar sagði að stærstur hluti fjár­magns Haf­rétt­ar­stofn­unar hafi runnið til fastra útgjalda­liða sem eru styrkir til þátt­tak­enda í nám­skeiði Ródos-aka­dem­í­unnar í haf­rétti, fram­lag til Laga­deildar HÍ og laun til for­stöðu­manns. „Þá hefur verið breyti­legt milli ára hver hefur verið kostn­aður af ráð­stefnu­haldi, styrkjum til útgáfu eða styrkjum til fram­halds­náms.“

Kjarn­inn óskaði einnig eftir upp­lýs­ingum um hverjar úthlut­un­ar­reglur Haf­rétt­ar­stofn­unar væru vegna styrk­veit­inga, en gögn sem hann hefur undir höndum sýna að fyrri fyr­ir­spurnum um slíkt hafi verið svarað með því að slíkar reglur lægju ekki fyr­ir. 

Í svari Bjargar sagði hins vegar að regl­urnar væru aðgengi­legar á nýrri heima­síðu stofn­un­ar­inn­ar, sem sett var í loftið í byrjun októ­ber 2019. Engin dag­setn­ing er á skjali þar sem regl­urnar eru birt­ar. 

Styrkur til laga­deildar

Haf­rétt­ar­stofnun hefur styrkt stöðu akademísks starfs­manns við laga­deild Háskóla Íslands á sviði auð­linda­réttar um tvær millj­ónir króna á ári. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem Kjarn­inn hefur undir höndum voru síð­ustu tveir samn­ingar milli Haf­rétt­ar­stofn­unar og laga­deild­ar­innar gerðir á sama tíma og tveir akademískir starfs­menn laga­deildar Háskóla Íslands sátu í stjórn Haf­rétt­ar­stofn­un­ar. Í samn­ing­unum segir meðal ann­ars að Haf­rétt­ar­stofnun standi „straum af hluta kostn­aðar af stöðu dós­ents í auð­linda­rétti við laga­deild.“

Heimasíða sett í loftið tveimur áratugum eftir stofnun

Þegar Kjarninn vann að undirbúningi að fyrirspurn sinni seint á síðasta ári var ekki hægt að finna neinar upplýsingar um starfsemi Hafréttarstofnunar á netinu. Síðan þá hefur verið sett í loftið heimasíða þar sem helstu upplýsingar um þá starfsemi eru tíundaðar. Í svörum við fyrirspurn Kjarnans kom fram að sú síða hefði verið sett í loftið þann 4. október 2019.

Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur Hafréttarstofnun auglýst styrkveitingar sínar og ráðstefnuhald töluvert í Morgunblaðinu. Kjarninn óskaði eftir því að fá sundurliðaðar upplýsingar um keyptar auglýsingar. Í svari stjórnarformanns stofnunarinnar kom fram að reikningar hennar geymdu ekki „nákvæma sundurliðun á kostnaði á borð við auglýsingakostnað eins og spurt er um.“

Eftir að Kjarnanum barst svar við fyrirspurn sinni síðla árs í fyrra hefur Hafréttarstofnun einu sinni auglýst styrki til náms í Hafrétti. Það var gert um síðustu helgi og birtist auglýsing þess efnis í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Var þar vísað inn á nýju heimasíðuna svo hægt yrði að nálgast frekari upplýsingar.

Í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um þessa styrki sagði að Háskóli Íslands hefði lengi haft það á stefnu­skrá sinni að afla sér­tekna með gerð sam­starfs­samn­inga bæði við fyr­ir­tæki og stjórn­völd og að það sam­ræmd­ist stefnu skól­ans. Þeir sem vinni að rann­sóknum innan vís­inda­starfs skól­ans hefðu til þess fullt akademískt frelsi, án þess taka fyr­ir­mælum frá sam­starfs­að­ilum í þeim efn­um. Styrkur frá Haf­rétt­ar­stofnun til kennslu í haf­rétti og auð­linda­rétti birt­ist aðeins þannig að áður­nefndar tvær millj­ónir króna rynni árlega til rekst­urs Laga­deild­ar. Sá styrkur hefði hins vegar aldrei verið for­senda ráðn­ingar í til­tekið starf við deild­ina. „Þetta fé er ekki sér­greint innan deild­ar­inn­ar, en deildin skuld­bindur sig til að halda uppi kennslu í þessum grein­um. Ekki er óeðli­legt að kenn­arar í haf­rétti og auð­linda­rétti séu þeir sem mesta fag­þekk­ingu hafa á haf­rétt­ar­mál­efnum og sitji einnig sem full­trúar laga­deildar í stjórn Haf­rétt­ar­stofn­un­ar, en reyndar hefur sú staða ekki verið uppi und­an­farin ár.“

Kenn­arar í haf­rétti og auð­linda­rétti við Laga­deild hefðu því enga beina hags­muni haft af styrknum sem Haf­rétt­ar­stofnun veitir og því væri ekki óeðli­legt að þeir hefðu setið í stjórn Haf­rétt­ar­stofn­un­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar