EPA

Kórónaveiran: Heimshorna á milli á innan við 30 dögum

Það var ekkert leyndarmál að á fiskmarkaðinum í Wuhan var hægt að kaupa margt annað en fisk. 41 hefur látist vegna veirusýkingar sem rakin er til markaðarins.

Á fiskmarkaðinum í Wuhan í Kína er ávallt þröng á þingi. Þar standa sölubásar í þéttum röðum og svæðið iðar af lífi. Viðskiptavinir velja það sem þeir setja í innkaupakörfurnar af kostgæfni. Af nógu er að taka. 

Það er hins vegar ekkert leyndarmál að á markaðnum er hægt að kaupa margt annað en fisk. Fjölmörg dýr, lifandi og dauð, eru þar til sölu: Kjúklingar og svín. Hundar og hérar. Snákar og leðurblökur. Bjórar og broddgeltir.

Það kom því ekki öllum á óvart að þar skuli hið nýja og lífshættulega afbrigði kórónaveirunnar hafa átt upptök sín í desember. Sagan segir okkur að markaðir sem þessir séu gróðrarstía fyrir allskonar sjúkdóma. 

Á slíkan markað voru upptök annarrar kórónaveiru, SARS eða HABL eins og hún var skammstöfuð á íslensku, rakin árið 2003. Sú sýking varð að heimsfaraldri og frá hausti 2003 fram á mitt sumar 2004 sýktust rúmlega 8.000 manns og þar af létust 774.

Skýringin er sú að á matarmörkuðum af þessari tegund, sem vinsælir eru í mörgum Asíulöndum, eiga veirur vegna návígis auðvelt með að smitast á milli dýra og svo í menn. 

„Það var fyrirséð að þetta myndi gerast,“ hefur Business Insider eftir Adrian Hyzler, yfirlækni hjá Healix International, fyrirtæki sem veitir ferðamönnum heilsufarslega ráðgjöf. Hann bendir á að Wuhan sé stórborg, þar búi 11 milljónir manna og smithætta sé af þeim sökum mikil. Borgin sé einnig samgöngumiðstöð, í gegnum hana ganga til að mynda járnbrautarlestir og umferð um flugvöllinn er mikil. Þegar ofan á þetta bætist markaður þar sem lifandi dýr eru í búrum við hlið kjöt- og fiskborða, sé voðinn vís.

Kínversk heilbrigðisyfirvöld telja mögulegt að veiran hafi smitast í menn frá leðurblökum.
EPA

61 árs gamall karlmaður var sá fyrsti sem lést eftir að hafa verið greindur með veirusýkinguna. Hann fór á sjúkrahús í Wuhan 27. desember vegna hita og hósta. Ástand hans versnaði hratt og hann var fluttur á annað sjúkrahús og settur í öndunarvél. Þar lést hann 9. janúar.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, fékk í lok desember fyrstu fregnir af hinum alvarlegu lungnasýkingum í Wuhan. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV.

Getur smitast manna á milli

Sennilega er veiran upprunnin í dýrum en hefur nú öðlast hæfileika til að sýkja menn. Staðfest er að veiran getur smitast manna á milli en óljóst er enn hversu smitandi hún er. Ekki er vitað hversu hátt hlutfall smitaðra fær alvarlega sýkingu eða hvaða dýr er upphaflegur hýsill veirunnar. 

Vísindamenn grunar að veiran hafi borist frá risarottum, sem hafa síðustu ár orðið nokkuð vinsæll sælkeramatur í Kína, eða leðurblökum sem sumir leggja sér einnig til munns, meðal annars í súpum.

Í gær greindu kínversk heilbrigðisyfirvöld frá því að 41 hefði látist vegna veirunnar af að minnsta kosti um 1.200 sem hafa veikst. Yngsta fórnarlambið var 36 ára gamall karlmaður. Flestir hinna látnu höfðu undirliggjandi sjúkdóma og allir nema þrír voru búsettir eða höfðu dvalið í Wuhan. 

Í morgun var svo greint frá því að meðal hinna látnu væri læknir sem sinnt hefði smituðum á sjúkrahúsi í Wuhan. CNN sagði í fréttum sínum frá því að tveggja ára barn hefði nú smitast og að milli 250-400 manns væru í alvarlegu ástandi vegna veirunnar. 

Sjúkrahús eru yfirfull og starfsfólk undir gríðarlegu álagi. Unnið er nú að því að reisa nýtt sjúkrahús í Wuhan og er stefnt að því að það verði orðið starfhæft í byrjun febrúar.

Allar samgöngur úr skorðum

Eftir að veiran var greind var markaðnum í Wuhan lokað. Til frekari aðgerða hefur verið gripið í Wuhan, meðal annars að loka flugvellinum og nú í morgun var ákveðið að banna bílaumferð um miðborgina. Aðgerðirnar ná til sífellt stærri svæða í Kína og víða hefur almenningssamgöngum verið aflýst. Hluta Kínamúrsins var einnig lokað. Nú eru áramót í Kína og milljónir hafa orðið strandaglópar.

Staðfest tilfelli í Frakklandi

 Veiran breiðist hratt út og staðfest tilfelli sýkingar af völdum hennar hafa greinst í að minnsta kosti þrettán löndum utan Kína, m.a. í Japan, Suður-Kóreu, Taílandi, Singapúr, Víetnam, Bandaríkjunum,  Ástralíu og Sádi-Arabíu. Í gær voru svo fyrstu tilfellin í Evrópu staðfest, nánar tiltekið í Frakklandi.

„Á þessari stundu eru engar vísbendingar um smit manna á milli utan Kína,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, á blaðamannafundi í Genf í gær. „En það þýðir ekki að það geti ekki gerst,“ sagði hann og bætti við: „Hafið eitt á hreinu, það er neyðarástand í Kína en þetta er ekki enn alþjóðlegt neyðarástand. Það gæti samt átt eftir að gerast.“

Enn hefur sum sé ekki verið lýst yfir að veirusýkingin sé orðin að heimsfaraldri.

Starfsmenn í verksmiðju sem framleiðir varnargrímur fyrir andlit bera framleiðsluvörurnar við störf sín.
EPA

Kórónaveirur eru nokkuð algeng orsök kvefs og öndunarfærasýkinga almennt hjá mönnum en þegar ný afbrigði berast úr dýrum í menn er þekkt að kórónaveirusýkingar geta verið alvarlegar, segir í samantekt á vef Landlæknisembættisins. Þar er bent á að flest tilfelli utan Kína hafa komið upp í Asíu en WHO og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafi hvatt sóttvarnayfirvöld um heim allan að gera ráðstafanir til að geta brugðist fljótt við ef veikin berst til fleiri landa.

Í ljósi þess hefur sóttvarnalæknir í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hafið vinnu í samræmi við fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir um alvarlega smitsjúkdóma, CBRNE, og viðbragðsáætlanir um sóttvarnir á alþjóðaflugvöllum.

Viðbrögð á Íslandi felast meðal annars í því farþegar á Keflavíkurflugvelli sem koma til landsins munu fá skilaboð þess eðlis að ef þeir eru með merki um öndunarfærasýkingu og hafa verið í Wuhan á undangengnum 14 dögum eða hafa verið í samgangi við einstaklinga með grunaða eða staðfesta sýkingu, þá þurfi að gera á þeim læknisfræðilegt mat á flugvellinum.

Einnig verða einkennalausir farþegar sem hafa verið í Wuhan beðnir um að gefa sig fram. Þessir einstaklingar geta vænst þess verða settir í sóttkví í einhverja daga.

Þessar aðgerðir miða að því að finna sýkta og hugsanlega smitaða einstaklinga sem fyrst og forða þannig frekari útbreiðslu innanlands.

Þá hafa allar heilbrigðisstofnanir á landinu verið upplýstar um hina nýju veiru og þær hvattar til að uppfæra sínar viðbragðsáætlanir og huga að sínum viðbrögðum m.a. einangrunaraðstöðu.

Heilbrigðisstarfsmaður tekur sýni af ferðamanni á flugvelli í Taívan.
EPA

Á heimasíðu embættis landlæknis hefur verið komið upp sérstakri síðu með upplýsingum og leiðbeiningum sem tengjast hinni nýju veiru, bæði fyrir almenning og heilbrigðisstarfsmenn. Þar munu verða birtar nýjustu fréttir um sýkinguna og leiðbeiningar uppfærðar eins og þurfa þykir.

Beita þarf almennu hreinlæti

Engin sérstök meðferð er til við kórónaveirusýkingum og ekki er til bóluefni gegn þessari veiki. Til að forðast smit vegna kórónuveiru, svipað og inflúensu, er mikilvægt að beita almennu hreinlæti, svo sem  handþvotti og/eða handsprittun ef ekki er aðgengi að vatni og sápu.

„Ferðalangar á svæðum þar sem þessi veiki hefur komið upp ættu að forðast umgengni við lifandi og dauð dýr, sérstaklega dýramarkaði, og veika einstaklinga. Handhreinsun eftir snertingu við yfirborð sem margir koma við, s.s. á flugvöllum, getur einnig dregið úr smithættu,“ segir í leiðbeiningum á vef embættis landlæknis.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar