Fallinn risi mætir örlögum sínum
„Verst geymda leyndarmál Hollywood“ var afhjúpað haustið 2017 og hrinti af byltingu kenndri við metoo. Reynsla yfir hundrað kvenna er sú sama: Harvey Weinstein nýtti sér yfirburðastöðu sína til að áreita þær og beita ofbeldi. Réttarhöldin yfir manninum sem kallaður var risi kvikmyndanna eru loks hafin.
Svartur bíll með skyggðum rúðum rennir upp að dómshúsi á Manhattan í New York-borg. Hópur sterklegra karla hópast að og áhyggjusvipur færist yfir andlit þeirra er farþeginn í aftursætinu stígur út með erfiðismunum. Þetta virðist gamall maður, þunnhærður og tekinn í andliti. Hann styður sig við göngugrind, lítur allt að því ringlaður í kringum sig á mannfjöldann sem raðar sér beggja vegna við hann. Mennirnir sterklegu grípa undir handleggi hans og aðstoða hann við næstu skref.
Næstu skref eru inn í dómssal þar sem maðurinn í fylgd verjenda sinna mætir saksóknara og teymi hans, dómara og tólf kviðdómurum. Ákæran er lesin upp. Hún er í fimm liðum. Hann er sakaður um að hafa brotið gegn tveimur konum, ákærður fyrir tvær nauðganir og önnur kynferðisbrot sem og kynferðislega misneytingu, þ.e. að hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína til að koma fram vilja sínum.
Réttarhöldin
yfir kvikmyndaframleiðandanum valdamikla, Harvey Weinstein, eru hafin.
Harvey Weinstein er 67 ára. Hann stofnaði kvikmyndafyrirtækið Miramax ásamt bróður sínum og framleiddi fjölda sjónvarpsþátta og stórmyndir á borð við Pulp Fiction og Shakespeare in Love. Starf hans fólst ekki aðeins í að velja réttu handritin og réttu leikstjórana heldur einnig réttu leikarana. Völd hans í Hollywood voru gríðarleg, nánast ævintýraleg. Hann þótti hafa sérstakt auga fyrir hæfileikum og vegna þessarar áhrifamiklu stöðu sinnar gat hann gert óþekkt fólk að stórstjörnum á einni nóttu.
Og það gerði hann. Ungar fyrirsætur fengu hlutverk í sjónvarpsþáttum, aðrar konur fengu vinnu á bak við tjöldin hjá Miramax. Enn aðrar fengu svo stóra tækifærið í kvikmyndum einmitt vegna hans. Kóngsins í Hollywood.
Líkt og kóngum sæmir hafði hann hirð í kringum sig. Hirð lögfræðinga, aðstoðarmanna og annarra sem hlýddu hans fyrirmælum í hvívetna. Þetta fólk létti honum lífið, hljóp þegar því var sagt að hlaupa. Stökk þegar því var sagt að stökkva.
Enda tókst Weinstein þrátt fyrir mikið annríki, eiginkonu og börn, að taka fullan þátt í skemmtanalífi ríka og fræga fólksins. Hann mætti kampakátur og brosandi á kvikmyndahátíðir og aðra viðburði um allan heim. Bjó á lúxushótelum og flaug reglulega yfir Atlantshafið til formlegra og óformlegra funda.
Hann flaug hátt. Skýjum ofar. En brotlendi svo harkalega.
„Sönnunargögnin munu varpa skýru ljósi á að maðurinn sem situr þarna var ekki aðeins risinn í Hollywood heldur nauðgari,“ sagði Meghan Hast, einn saksóknarinn í málinu gegn honum, í opnunarræðu sinni í dómshúsinu á Manhattan í síðustu viku.
Weinstein hafði nefnilega ekki aðeins notað völd sín til að láta drauma ungra kvenna rætast. Hann hafði að sögn saksóknarans notað þau til að níðast á þeim. Og ofbeldið var kerfisbundið og viðgekkst árum og áratugum saman. Til að koma sínu fram við fórnarlömb sín naut hann aðstoðar hirðar sinnar; aðstoðarmanna og lögfræðinga. Þetta fólk ýmist þagði yfir því sem það vissi um hegðun hans eða hjálpaði honum beinlínis.
Án þeirra hefði honum ekki tekist svo lengi sem raun ber vitni að koma í veg fyrir að flett yrði opinberlega ofan af „verst geymda leyndarmáli Hollywood“.
Afhjúpunin hófst með birtingu greina í New York Times og New Yorker haustið 2017. Fram stigu konur, þekktar leikkonur meðal annars, sem greindu frá ósæmilegri hegðun hans og meintum ofbeldisbrotum.
Hver frásögnin á fætur annarri rataði í fjölmiðla. Þær voru flestar á sama veg: Weinstein var vingjarnlegur, ráðagóður og lofaði að hjálpa þeim á framabrautinni. En sú hjálp var ekki ókeypis, beint eða óbeint gaf hann það í skyn að kynferðislegir greiðar væru það gjald sem yrði að greiða. „Þú ert svo æðisleg, ég réð bara ekki við mig,“ á hann að hafa sagt við eina konuna sem varð fyrir barðinu á honum.
Hann gekk mislangt gagnvart þeim. Sumar þeirra saka hann um nauðgun og önnur kynferðisbrot. Aðrar um kynferðislega áreitni af ýmsu tagi.
Fréttirnar mörkuðu stórkostleg tímamót; upphaf „metoo“-byltingarinnar. Upphafið er rakið til leikkonunnar Alyssu Milano sem kvatti konur sem orðið hefðu fyrir áreitni og ofbeldi að skrifa „me too“ á samfélagsmiðla.
Að minnsta kosti 105 konur hafa síðan þá stigið fram og sagt frá hegðun kvikmyndaframleiðandans í sinn garð. Brot gegn aðeins tveimur þeirra eru hins vegar hluti af ákæru saksóknara New York-borgar. Margar þeirra fóru í einkamál gegn honum, kröfðust skaðabóta.
En hvernig gerðist það eiginlega, eftir allt sem á undan var gengið? Voru þær þá allan tímann á eftir peningum og athygli, líkt og verjendur Weinsteins og hans stuðningsmenn höfðu haldið fram?
Aldeilis ekki.
Nokkrir þættir skýra þessa niðurstöðu. Í fyrsta lagi eru mörg hinna meintu brota fyrnd samkvæmt bandarískum lögum, áttu sér stað allt frá áttunda áratug síðustu aldar. Í öðru lagi voru þau framin í öðrum ríkjum Bandaríkjanna en New York og öðrum löndum sem flækir saksóknina. Í þriðja lagi fólust þau fjölmörg í margvíslegri kynferðislegri áreitni sem refsilöggjöfin tekur ekki almennt á.
Þær konur sem þá eftir standa hafa svo ekki allar viljað ákæra. Á því eru aftur ýmsar skýringar, meðal annars þær að alveg frá upphafi var ljóst að þær sem gengju svo langt myndu ekki eiga sjö dagana sæla. Hrein martröð myndi taka við. Allt líf þeirra yrði afhjúpað, skrumskælt. Allt sem þær hefðu sagt og gert, allt sem þær hefðu ekki sagt og gert, yrði notað gegn þeim af verjendum Weinsteins. Höfðu þær átt í „vingjarnlegum“ samskiptum við hann eftir meint brot? Höfðu þær „grætt“ á samskiptum sínum við hann, fengið frama og ýmis fríðindi? Hafði þeim raunverulega liðið illa, átt erfitt uppdráttar eða kannski hlegið, brosað, notið lífsins?
Að lenda í þeirri hakkavél sem konur er kæra kynferðisbrot þurfa oft að ganga í gegnum í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum, í skýrslutökum hjá lögreglu og í dómssal, er ekki aðlaðandi á nokkurn hátt. Við því voru konurnar varaðar af lögmönnum sínum og saksóknurum. Margar treystu sér ekki til að ganga í gegnum þann vítiseld.
En einhverjar urðu að taka af skarið. Og saksóknararnir urðu að velja þær vel. Þeir vildu ekki að verjendur Weinsteins gætu grafið eitthvað upp sem myndi spilla öllu málinu. Til dæmis ekki vinkonu sem myndi segja að kynferðisleg samskipti hans og konunnar hefðu verið með samþykki beggja. Eins og gerðist í tilfelli einnar konunnar sem upphaflega ákærði Weinstein. Þó að hún hafi staðfastlega sagt vinkonuna ljúga dugði það ekki til. Áhættan var of mikil.
Að lokum var Weinstein ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur konum: Miriam Haleyi og Jessica Mann.
Nei, nei, nei
Haleyi var aðstoðarmaður við framleiðslu Miramax á sjónvarpsþáttunum Project Runway. Weinstein er sakaður um að hafa neytt hana til munnmaka í íbúð sinni á Manhattan árið 2006.
Haleyi var kynnt fyrir Weinstein í fyrsta sinn við frumsýningu kvikmyndarinnar The Aviator árið 2004. Í kjölfarið fékk hún vinnu við framleiðslu sjónvarpsþátta úr smiðju Miramax. Er Haleyi greindi fyrst opinberlega frá ofbeldinu árið 2017 sagði hún aðdragandann þann að Weinstein hefði ákaft vilja hitta hana en hún lengi neitað. Hún hafi að lokum samþykkt að koma til fundar í íbúð hans í Soho-hverfinu í New York. „Það leið ekki á löngu þar til hann var farinn að sýna kynferðislega tilburði. Ég sagði „nei, nei, nei“ en hann gafst ekki upp,“ sagði Haleyi. „Hann var mjög ákveðinn og beitti líkamlegum yfirburðum.“ Hann hafi svo neytt hana til munnmaka.
Tveir liðir ákærunnar á hendur Weinstein snúa að þessu. Hann er ákærður fyrir kynferðislega misneytingu og alvarlegt kynferðisbrot.
Verjendur Weinsteins hafa reynt að sýna fram á að kynferðisleg samskipti þeirra hafi verið með vilja beggja. Þeir hafa til dæmis sagt að í kjölfar fundar þeirra hafi Haleyi sent aðstoðarmanni hans skilaboð sem „sýni augljóslega“ að hún vildi halda áfram að hitta hann.
„Hæ! Var bara að velta fyrir mér hvort það væri komið í ljós hvort að Harvey hefði tíma til að hitta mig áður en hann fer? X Miriam.“
X-ið segja verjendurnir tákna koss.
Lögfræðingar Haleyi segja hins vegar að verjendur Weinsteins dragi allt of miklar ályktanir út frá þessum stuttu skilaboðum.
Úr smábæ til Los Angeles
Hin konan var nafngreint í fyrsta sinn í síðustu viku. Hún heitir Jessica Mann og starfar sem hárgreiðslumeistari. Saksóknarinn Meghan Hast sagði í opnunarræðu sinni að Weinstein hefði nauðgað Mann á hótelherbergi í New York árið 2013. Þá var hún ung og dreymdi um að verða leikkona.
Mann ólst upp í smábæ í Washington-ríki. Hún hitti Weinstein í fyrsta sinn í veislu í Los Angeles er hún var 25 ára. Þangað hafði hún flutt til að freista gæfunnar. Hann sagði hana eiga framtíðina fyrir sér í leiklistinni og að hann gæti gefið henni stórt hlutverk í kvikmynd. Það var lygi, að sögn saksóknarans.
Mann segir að Weinstein hafi beitt sig kynferðisofbeldi, meðal annars nauðga henni, í þrígang á næstu árum.
Verjendur Weinsteins hafa lýst sambandi þeirra sem „ástríku“ og hafa birt skilaboð frá Mann máli sínu til stuðnings: „Ég elska þig, ég mun alltaf gera það,“ skrifaði hún til Weinsteins í febrúar árið 2017. Þá sagðist henni mislíka að vera ekkert annað en hjásvæfa (e. booty call) og lét broskall fylgja þeirri setningu.
Verjendurnir gera mikið úr því að konurnar tvær, sem og aðrar sem lýst hafa kynnum sínum af Weinstein, hafi ekki sagt frá ofbeldinu strax. Þær hafi jafnvel ekki gert það fyrr en mörgum árum síðar. Þetta sanni að samskiptin hafi verið með vilja beggja.
Að mati saksóknaranna er þetta einmitt alrangt. Eitt af því sem þeir ætla að sanna er að vegna valds síns í kvikmyndaheiminum og víðar í samfélaginu hafi Weinstein beint og óbeint haft í hótunum við konurnar, haft starfsframa þeirra í höndum sér. Því sé ekki að undra að þær hafi veigrað sér við að segja frá. Þeir ætla að sanna slíka misneytingu og hvernig hann hafi komið vilja sínum fram við tugi kvenna með kerfisbundnum hætti á að minnsta kosti þriggja áratuga tímabili.
Til þess að gera það þurftu þeir að fá leyfi dómarans fyrir því að aðrar konur sem sakað hafa Weinstein um ofbeldi og áreitni mættu koma fyrir dóminn sem vitni. Leyfið fékkst, þrátt fyrir miklar mótbárur verjendateymisins.
Mann og Haleyi verða því ekki þær einu sem munu tjá sig um gjörðir hans.
Ein þessara kvenna er Sopranos-leikkonan Annabella Sciorra. Hún segir að Weinstein hafi nauðgað sér árið 1993. Saga hennar var sú sem hleypti umræðunni allri af stað er hún birtist í New Yorker í október árið 2017. Sciorra kærði Weinstein ekki og segir hann hafa haldið áfram að áreita sig í mörg ár.
Þessi meintu brot hans gegn henni eru fyrnd en saksóknararnir telja að vitnisburður hennar muni sýna brotamynstrið sem hann stundaði í áratugi. Einn verjenda Weinsteins sagði hins vegar í opnunarræðu sinni í síðustu viku að vinkona leikkonunnar, sem einnig verður kölluð fyrir dóminn sem vitni, muni segja frá því að Sciorra hafi á sínum tíma sagst hafa samþykkt kynmökin.
Fórnarlambið er Weinstein
„Herra Weinstein er hvorki nauðgari né sérfræðingur í blekkingum,“ sagði einn verjenda hans, Damon Cheronis, við upphaf réttarhaldanna. Konurnar allar hafi átt í samböndum við hann með ýmsum hætti til að ná frama. Öll hafi þessi samskipti verið með samþykki þeirra. Því til sönnunar verði lagðir fram tugir tölvupósta frá konunum sem sýni meðal annars að samskipti þeirra hafi verið „vingjarnleg“.
Með öðrum orðum: Weinstein hafi verið fórnarlambið, ekki þær.
Margar kvennanna hafa lýst því að þær hafi ekkert aðhafst, ekki kært eða sagt frá, þar sem þær óttuðust afleiðingarnar. Óttuðust að verða útskúfaðar, úthrópaðar, að þær myndu splundra fjölskyldum sínum, missa vini sína og vinnuna.
Harvey Weinstein mun ekki eiga sjö dagana sæla í bráð. Er réttarhöldunum í New York lýkur mun hann þurfa að mæta í annan dómssal. Daginn sem réttarhöldin hófust á Manhattan tilkynntu saksóknarar í Los Angeles að hann væri ákærður fyrir að nauðga einni konu og brjóta kynferðislega með öðrum hætti gegn annarri á tveggja daga tímabili í borginni árið 2013.
„Við teljum að sönnunargögn muni sýna að sakborningurinn notaði völd sín og áhrif til að ná til fórnarlamba sinna og beita þau svo ofbeldi,“ sagði saksóknarinn Jackie Lacey er hún tilkynnti um ákvörðunina aðeins nokkrum klukkustundum eftir að fyrsta degir réttarhaldanna í New York-borg lauk.
Skoða fleiri mál valdamikilla manna
Lacey setti á fót aðgerðahóp árið 2017 sem hafði það hlutverk að fara ofan í saumana á meintum kynferðisbrotum þekktra og valdamikilla manna í Los Angeles, mekka kvikmyndaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Aðgerðarhópurinn hefur skoðað fjörutíu slík mál en aðeins eitt þeirra hefur enn sem komið er leitt til ákæru. Mál Harvey Weinstein.
Ekki er búist við því að kvikmyndaframleiðandinn setjist sjálfur í vitnastúkuna í réttarhöldunum í New York. Þau munu að öllum líkindum standa yfir í tvo mánuði.
Verði hann sakfelldur gæti hann átt lífstíðarfangelsisdóm yfir höfði sér.