Háskóli Íslands

Drangajökull verður líklega horfinn árið 2050

Niðurstöður nýrrar rannsóknar draga upp dökka mynd af framtíð Drangajökuls. Höfundar hennar telja þó að stjórnvöld hafi enn tíma til að undirbúa viðbrögð sín.

Eini jökull Vestfjarða, Drangajökull, er á hverfanda hveli. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem byggði á margþættri og nýstárlegri greiningu hóps vísindamanna, gæti svo farið að jökullinn yrði horfinn, bókstaflega gufaður upp, um árið 2050.

Það er ekki í fjarlægri framtíð þótt ártalið virðist framandi. Þangað til eru einungis þrjátíu ár.

Afar ólíklegt er að þessari þróun verði snúið við. Til þess er sá hraði sem hlýnun jarðar er að eiga sér stað á of mikill. En þó að rannsóknin dragi upp skuggalega mynd af framtíð Drangajökuls benda niðurstöðurnar til þess að stjórnvöld hafi enn tíma til að undirbúa viðbrögð sín. 

Þessar nýtilkomnu upplýsingar geta nýst til framtíðarstefnumótunar, ekki síst þeim sem koma að fyrirhuguðum vatnsaflsvirkjunum á svæðinu. Sé þeim ætlað að virkja jökulvatn þarf að vega og meta kostnaðinn við byggingu þeirra og þess líftíma sem af þeim er að vænta með tilliti til bráðnunar jökulsins.

Þetta er meðal þess sem aðalhöfundur rannsóknarinnar, fornloftslagsfræðingurinn David John Harning, segir í viðtali við Kjarnann. Rannsóknin er doktorsverkefni Davids og hluti af stærra verkefni sem Áslaug Geirsdóttir, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hefur leitt.

Rannsóknarniðurstöðurnar voru nýverið birtar í vísindatímaritinu Geophysical Research Letters. Í stuttu máli var í rannsókninni meðal annars notast við leifar af bakteríum og þörungum sem varðveist hafa í seti vatna við Drangajökul til að meta breytingar á hitastigi á svæðinu á síðustu tíu þúsund árum. Á því tímabili í jarðsögunni þegar hitastig var sambærilegt við það sem vænst er nú við lok 21. aldarinnar.

David John Harning er fornloftslagsfræðingur. Hann hefur rannsakað Drangajökul í sex ár.
Aðsend

Höfundar rannsóknarinnar notuðu svo þetta mat á þróun hitastigs, ásamt svæðisbundnum loftslagshermum og fyrirliggjandi gögnum og líkönum á þróun loftslags og jökla á Íslandi, til að spá fyrir um hop Drangajökuls.

Niðurstaðan var sem fyrr segir sú að með áframhaldandi hlýnun gæti jökullinn horfið um árið 2050.

Var fjölfarinn á árum áður

 Drangajökull er nyrsti jökull Íslands. Sérstaða hans felst einnig í því að hann er eini jökull landsins sem er í undir þúsund metra hæð yfir sjávarmáli. Hann dregur nafn sitt af Drangaskörðum, sjö mögnuðum og hrikalegum jarðlagastöflum sem ganga í sjó fram í mynni Drangavíkur á Ströndum.

Drangajökull var mjög fjölfarinn þegar Hornstrandir voru í byggð. Yfir hann héldu menn fótgangandi eða á hestum og var til dæmis fluttur rekaviður yfir jökulinn af Ströndum niður í Djúp. 

Drangajökull er eini jökull Vestfjarða. Úr honum ganga þrír aðalskriðjöklar; í Kaldalón í Djúpi, Leirufjörð í Jökulfjörðum og Reykjarfjörð á Hornströndum. Staða þessara jökulsporða hefur verið mæld nær árlega síðan 1931.
Wikipedia

Ólíkt öðrum íslenskum jöklum hefur stærð Drangajökuls haldist nokkuð stöðug síðustu ár þrátt fyrir að eldri rannsóknir hafi bent til að hann myndi hverfa á innan við hálfri öld. Þetta er líklega vegna staðsetningar jökulsins á Vestfjörðum, þar sem hann verður fyrir áhrifum frá lægra hitastigi sjávar samanborið við jöklana við suðurströndina.

Hin nýja rannsókn styrkir niðurstöður fyrri rannsókna og gefur viðbótar upplýsingar sem að sögn höfunda hennar er hægt að nota til að spá fyrir um áhrif hlýnunar loftslags á Drangajökul. Þar sem vatnsaflsvirkjanir í jökulám framleiða yfir 70% allrar raforku hér á landi er skilningur á þróun jökla sérlega mikilvægur fyrir orkuöryggi landsins.  

Áslaug Geirsdóttir, prófessor í jarðvísindum, ásamt hópi annarra vísindamanna við rannsóknir á Drangajökli.
Háskóli Íslands

Loftslags- og jökullíkön eru nauðsynleg tæki til að spá fyrir um breytingar á loftslagi næstu aldar. Til að bæta nákvæmni líkananna er hins vegar mikilvægt að prófa getu þeirra til að endurgera loftslag fortíðar eins nákvæmlega og hægt er með tiltækum gögnum.

Áhugi fornloftslagsfræðingsins Davids beinist einmitt að því að nota gögn um breytingar á loftslagi fortíðar til að spá fyrir um og setja í samhengi við það sem er að gerast í dag og kemur til með að eiga sér stað í framtíðinni.

Fortíðin notuð til að spá fyrir um framtíðina

Hann bendir á að fyrir 9 til 7 þúsund árum hafi hitastig verið sambærilegt við það sem búast má við á næstu öld. „Ef að við getum sagt til um hvernig landslagið var þá, svo sem stærð jökla, gróðurfar og gæði vatns í stöðuvötnum, þegar hitastig var af náttúrulegum orsökum hærra en það er í dag, getum við dregið upp mynd af því hverjar horfurnar eru í nánustu framtíð.“

Drangajökull er eini jökull Vestfjarða.
Wikipedia

David segir að vísindamenn hafi dregist að norðurslóðum til þessara rannsókna, „ekki aðeins af því að jöklarnir eru táknmynd loftslagsbreytinga, heldur einnig vegna þess að breytingarnar eru meira en tvöfalt hraðari á norðurslóðum en á nokkru öðru svæði á plánetunni. Af þeim sökum eru loftslagsbreytingar þar miklu sýnilegri en annars staðar.“  

David er í hópi vísindamanna sem hefur einbeitt sér að því að rannsaka fornloftslag Íslands. Síðustu sex árin hefur hann rannsakað Drangajökul. Í fyrsta hluta rannsóknarinnar, sem fólst í því að skoða setlög í vötnum umhverfis jökulhettuna, sýndi hann fram á að Drangajökull hvarf fyrir um 9000 árum og myndaðist svo aftur fyrir um tvö þúsund árum.

Hitastig helsti áhrifavaldurinn

Þar sem hitastig er lykiláhrifavaldur þegar kemur að íslensku jöklunum var dregin sú ályktun af gögnunum að hitastigið hefði líklega verið hærra fyrir 9000 árum en það er í dag. David og aðrir sem að rannsókninni komu áttuðu sig á því að með því að finna út hversu miklu hlýrra var þá en nú væri hægt að veita dýrmæta innsýn í framtíð Drangajökuls. „Svo spurningin varð hversu mikið hlýrra var þá en nú?“

Jökulvatn af Drangajökli.
Visit Westfjords

Til að svara þeirri spurningu skoðaði David nánar setlögin og í það skiptið með því að greina frumuhimnubrot úr fornum bakteríum og þörungum. Þetta var gagnlegt því að frumuuppbygging baktería og þörunga aðlagast og breytist í takti við hitastig. Með þessu móti er því hægt að afla gagna um hitastig á þeim svæðum þar sem þessar lífverur hafa búið í fyrndinni. Með aðstoð loftslagslíkana var svo lagt mat á hversu hlýtt þurfi að vera til að bræða Drangajökul.

Rannsókn Davids og félaga er einstök að ýmsu leyti og í henni voru samtvinnaðar aðferðir margra sviða vísindanna. Þannig var til dæmis stuðst við jöklasögu, setlagafræði og jarðefnafræði. „Þverfagleg vinna rannsóknarhópsins gerði honum kleift að fara óhefðbundnar leiðir og taka á flóknum og mikilvægum spurningum um breytingar á loftslagi framtíðarinnar,“ segir David.

Í mörgum rannsóknum á fornloftslagi hefur verið notast við annað hvort leifar baktería eða þörunga til að svara spurningum en það hefur ekki áður verið gert samtímis. „Vísindamenn eru enn að læra hvernig hægt er að nota þessar aðferðir og því getur þessi samþætta vinna okkar fært okkur eitt skref áfram.“

Helsta niðurstaða rannsóknarinnar var sú að fyrir um 9000 árum, er Drangajökull hvarf, var meðalhiti á norðvestur hluta Íslands um 2,2 gráðum hærri en hann er í dag. Miðað við spár um hlýnun á Íslandi næstu árin verður sama hitastigi náð árið 2050 og þar með er hægt að áætla að um það leyti muni jökullinn vera horfinn eða um það bil að hverfa.

Viðbragðstíminn um 10-100 ár

En hversu nákvæmar eru þessar niðurstöður og hvaða þættir gætu helst haft áhrif á þróunina?

„Einn helsti óvissuþátturinn er hversu hratt Drangajökull getur bráðnað,“ segir David. „Fyrir meira en níu þúsund árum, áður en forveri Drangajökuls hvarf, var hlýnunin mun hægari en hún er í dag og þá gat jökullinn brugðist hægt og rólega við. Ef hitastig myndi hækka um 2,2 gráður á morgun myndi það ekki þýða að Drangajökull hyrfi á morgun. Fyrir lítinn jökul sem þennan þá er viðbragðstíminn á bilinu tíu til hundrað ár svo það gæti verið sá tími sem það tæki hann að hverfa.“

Hins vegar, segir David, sýna niðurstöður óháðra jöklalíkana svipaða niðurstöðu, „svo líklega er okkar mat ekki fjarri lagi“.

Drangajökull er fimmti stærsti jökull landsins og er um 200 ferkílómetrar að stærð.
Háskóli Íslands

David segir að hægt sé að vissu leyti að yfirfæra niðurstöður rannsóknanna á Drangajökli á aðra íslenska jökla og jökla annars staðar í heiminum. „Hitastig er aðal áhrifavaldur íslenskra jökla og því væri hægt að nota þessi gögn um staðbundið hitastig í öðrum líkönum. Fyrri líkön byggðu á gögnum úr Norður-Atlantshafi og Grænlandi. Hins vegar þá endurspegla þau ekki endilega loftslagið á Íslandi. Með því að setja þessi nýju hitagögn inn í önnur líkön gætum við betur séð framtíðarþróun annarra íslenskra jökla.“

Við slíkar rannsóknir verður þó að hafa í huga að hafstraumar umhverfis Ísland gera það að verkum að hitastig á norðvestur hluta landsins er lægra en á suðurhluta þess. Því er ekki fullvíst að gögnin sem aflað var við Drangajökul endurspegli hita fyrri árþúsunda við Vatnajökul, svo dæmi sé tekið. 

Nokkrir óvissuþættir

Því væri mjög dýrmætt að gera sambærilegar setlagarannsóknir annars staðar á Íslandi. Ýmsir aðrir þættir geta einnig haft áhrif á aðra jökla. Því stærri sem jöklar eru þeim mun hægar hopa þeir. Að auki geta aðrir óvissuþættir, svo sem eldgos, einnig haft áhrif, til dæmis hvað varðar þróun Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls.  „Til að gera langa sögu stutta, það á enn eftir að gera margar áhugaverðar rannsóknir,“ segir David.

Fjöldi vísindamanna hefur lagt stund á rannsóknir á Drangajökli og nágrenni síðustu ár og áratugi.
Náttúrufræðistofnun Íslands

Hann bendir á að staðbundnar rannsóknir sem þessar gefi nærsamfélögum gríðarlega mikilvægar upplýsingar þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga. „Rannsóknir sem ná til stórra landsvæða hafa ekki sömu áhrif og þegar þú getur sagt fólki að jökullinn í sveitinni þeirra muni hverfa eftir ákveðinn tíma eða að hitastig muni hækka ákveðið mikið. Þannig getum við undirbúið okkur betur fyrir það sem koma skal.“

Sjónir vísindamanna hafa beinst að að Drangajökli í auknum mæli undanfarin ár. Jarðfræðingar hafa notað margvíslegar aðferðir, meðal annars rannsakað setlög og aldursgreint jökulgarða, til að skoða sögu jökulsins síðustu tíu þúsund ár. Þær rannsóknir hafa þó aðeins sýnt hvernig jökullinn hefur breyst að stærð. 

Niðurstaðan styður við eldri rannsóknir

Nýlega hafa verið gerð reiknilíkön sem notuðust við þessar upplýsingar til að meta hversu hlýtt var þegar íshettan bráðnaði. Sú rannsókn náði hins vegar aðeins til ákveðinna tímabila. „Með nýju hitafarsgögnunum okkar gátum við metið hitabreytingar sjálfstætt, óháð jöklagögnunum, sem var mjög þarft. Niðurstöður okkar eru svo sambærilegar þeim sem fengust út úr jökullíkönunum sem styður því við meginniðurstöður okkar.“

Með rannsókninni var hægt að setja fram samfelld gögn um þróun hitastigs á svæðinu. „Þetta hefur vantað til rannsókna á fornloftslagi á Íslandi og ég held að við höfum nú gert þetta í fyrsta skipti með mikilli vissu.“

Drangajökull dregur nafn sitt af Drangaskörðum.
Ólafur Már Björnsson

En er hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að Drangajökull hverfi á næstu áratugum?

David telur svo ekki vera. „Jafnvel þótt við drögum úr losun koltvísýrings á morgun og náum kolefnishlutleysi þá mun losun okkar í dag vera áfram í andrúmsloftinu í áratugi. Þetta þýðir að við erum alltaf að horfa til að minnsta kosti 1,5 gráða hækkun á hitastigi til ársins 2100. Og af því að áhrifin á norðurslóðum eru margfalt meiri en annars staðar þá mun hlýnun á Íslandi verða til þess að mjög ólíklegt er að það sé nokkuð hægt að gera til að bjarga Drangajökli.“

Tæki til stefnumótunar

Hins vegar segir David að það að vita hvenær hann hverfur gefi stjórnvöldum færi á að bregðast við og móta stefnu til framtíðar út frá þeim upplýsingum. Það eigi sérstaklega við þá sem tengjast fyrirhuguðum vatnsaflsvirkjunum. „Auðvitað er raforkan nauðsynleg, en nú þarf að meta kostnað við byggingu virkjana og bera saman þann tíma sem mögulegt verður að afla orkunnar.“  

Þetta er vegna þess að hið augljósa blasir við: Ef jökull bráðnar hætta jökulár að renna frá honum og jökulvötn hverfa sömuleiðis.

Þrjár virkjanir eru fyrirhugaðar í nágrenni Drangajökuls: Austurgilsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og Hvalárvirkjun. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent