Landsvirkjun ætlar ekki í Austurgilsvirkjun

Landsvirkjun hefur ákveðið að undangenginni skoðun á fyrirhugaðri Austurgilsvirkjun að halda ekki áfram með verkefnið af sinni hálfu. Forsvarsmaður verkefnisins segir að næstu skref verði tekin eftir afgreiðslu rammaáætlunar.

Skjaldfannardalur við Ísafjarðardjúp og Drangajökull í baksýn. Bæirnir Laugaland (t.h.) og Skjaldfönn (t.v.) ásamt mögulegu stöðvarhúsi (gulur kassi ofarlega fyrir miðju).).
Skjaldfannardalur við Ísafjarðardjúp og Drangajökull í baksýn. Bæirnir Laugaland (t.h.) og Skjaldfönn (t.v.) ásamt mögulegu stöðvarhúsi (gulur kassi ofarlega fyrir miðju).).
Auglýsing

Landsvirkjun mun ekki koma að Austurgilsvirkjun sem fyrirhuguð er í Skjaldfannardal við Ísafjarðardjúp. Þetta er niðurstaða fyrirtækisins eftir að hafa skoðað aðkomu sína að verkefninu um hríð. Í tillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar, sem leggja á fram á þingi í þriðja sinn innan skamms, er lagt til að Austurgilsvirkjun fari í orkunýtingarflokk. Forsvarsmenn verkefnisins segja að beðið verði með að ákveða næstu skref þar til Alþingi hefur fjallað um og afgreitt áætlunina.

Í skriflegu svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Kjarnans segir að hagkvæmasta útfærslan af virkjuninni hafi reynst minni en áætlað var þegar fyrirtækið hóf skoðun á aðild að verkefninu.

Virkjunarverkefnið miðar að því að virkja rennsli áa undan Drangajökli. Þegar verkefnisstjórn rammaáætlunar fjallaði um virkjanakostinn á sínum tíma var miðað við að uppsett afl gæti orðið 35 MW og að framleiddar yrðu 228 gígawattstundir af raforku á ári.

Auglýsing

Hugmynd í skoðun frá 2014

Að baki verkefninu stendur Bjartmar Pétursson fiskútflytjandi og eigandi jarðarinnar Laugalands í Skjaldfannardal. Hann hóf skoðun á hugmyndinni vorið 2014 og leitaði til Orkustofnunar í lok þess árs. Orkustofnun hafði þá þegar skilað skýrslu um virkjanakosti til umfjöllunar í verndar- og orkunýtingaráætlun (3. áfanga rammaáætlunar), „en þar sem orkuöryggi á Vestfjörðum er ábótavant ákvað stofnunin að taka þessa hugmynd upp á sína arma sem sína eigin,“ segir í viðauka sem gerður var við skýrsluna og fjallaði um Austurgilsvirkjun.

Niðurstaða verkefnisstjórnarinnar var í framhaldinu sú að leggja til að virkjanahugmyndin færi í orkunýtingarflokk. Í rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun segir: Virkjunarkosturinn er inni á svæði sem er óbyggt víðerni samkvæmt lagalegri skilgreiningu, en samkvæmt niðurstöðum faghóps 2 hefði virkjun á svæðinu lítil áhrif á ferðamennsku, beit og veiði. Í ljósi framkominna gagna um gróðurfar, jarðfræði, fuglalíf, vatnalíf og menningarminjar á svæðinu er lagt til að virkjunarkosturinn verði í orkunýtingarflokki.

Tillaga lögð fram í þriðja sinn

Verkefnisstjórnin skilaði sinni vinnu til umhverfisráðherra í ágúst 2016. Í þingsályktunartillögu að rammaáætlun sem fyrst var lögð fram á þingi það ár og svo aftur 2017 var Austurgilsvirkjun í nýtingarflokki í samræmi við niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar. Vegna ólgu í stjórnmálunum og tíð ríkisstjórnarskipti af þeim sökum var tillagan hins vegar ekki afgreidd á Alþingi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hyggst nú á vorþingi leggja tillöguna fram óbreytta, þremur og hálfu ári eftir að verkefnisstjórnin skilaði sínum tillögum og tæpum sjö árum eftir að vinna hennar hófst.

Vondadalsvatn og Djúpi pollur

Samkvæmt skýrslu Orkustofnunar um Austurgilsvirkjun, sem verkefnisstjórnin fékk til að byggja sitt mat á, kom fram að virkjað yrði í Austurgilsá sem fellur í Selá í Skjaldfannardal. Þar sagði að virkjunin myndi nýta vatnsafl sem fengist úr Vondadalsvatni, Skeifuvatni og Djúpa polli. Ráðgert væri að meðalhæð inntakslóns í Vondadalsvatni yrði í 435 metra hæð yfir sjó. Þaðan yrði lögð 3,9 kílómetra löng vatnspípa að stöðvarhúsi við Selá. 

Yfirlitskort yfir Austurgilsvirkjun, sem sýnir vatnsvið, framkvæmdasvæði, stíflur, skurði, pípur og vatnaskil. Mynd: Úr skýrslu Orkustofnunar

Reiknað var með að nær allt jökulrennsli Selár færi í inntakslónið og jafnvel einnig rennsli jökulvatna á svæðum vestan Skjaldfannardals með frekari framlengingu skurða.

Skynsamlegt að eyða ekki peningum í glannaskap

Kristinn Pétursson, bróðir Bjartmars, ráðgjafi í orkumálum og fyrrverandi verkefnisstjóri Austurgilsvirkjunar, segir í samtali við Kjarnann að Landsvirkjun hafi skoðað aðkomu að fyrsta áfanga verkefnisins. Þær framkvæmdir sem þar hafi verið til skoðunar séu eingöngu á jörðinni Laugalandi sem er í eigu Bjartmars. Rannsóknarvinna hafi aðallega farið fram þar.

Spurður um stöðu verkefnisins nú þegar Landsvirkjun hefur gefið það frá sér segir Kristinn að enn sé stefnt að því að það verði að veruleika.

„En ég tel það grundvallaratriði að tillaga að rammaáætlun fari í gegnum þingið áður en farið verður að eyða meiri peningum í verkefnið,“ segir hann. „Annað væri glannalegt og ófagleg vinna að mínu mati. Skynsemin segir manni að það eigi enginn á Íslandi að eyða peningum í glannaskap lengur. Við eigum að vera búin að læra það.“

Langt ferli

Kristinn bendir á að vinna að virkjanaverkefnum taki langan tíma. Í þeim sé þörf á djúpri fagvinnu, meiri en gangi og gerist í mörgum öðrum greinum. Vinna þurfi að rannsóknum í langan tíma, jafnvel áratugi, áður en hægt sé að taka endanlegar ákvarðanir. „Svona verkefni eru tímafrekari en við héldum. Það er því skynsamlegt að bíða núna þar til [rammaáætlun] fer í gegnum þingið og eftir það er hægt að fara að skoða það af alvöru aftur í rólegheitunum.“

Spurður hvort til greina komi að reyna að fá einhverja aðra en Landsvirkjun að verkefninu segir Kristinn ekki tímabært að svara því. „Það á eftir að koma í ljós.“

Á óbyggðu víðerni

Austurgilsvirkjun færi inni á óbyggt víðerni líkt og fyrirhuguð Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í viðtali á mbl.is haustið 2017 að fyrirtækið hefði ákveðið að skoða aðkomu sína að Austurgilsvirkjun eftir að hún fékk góða umfjöllun í rammaáætlun. Farið hafi verið í viðræður við landeigendur og rannsóknir gerðar á svæðinu. „En þarna yrði farið inn á svæði sem ekki hefur áður verið virkjað og því yrðu umhverfisáhrifin umtalsverð,“ sagði Hörður.

Kortið sýnir mögulegar tengingar Hvalárvirkjunar og Austurgilsvirkjunar við meginflutningskerfi raforku í Kollafirði. Kort: Landsnet

Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun yrðu báðar langt frá meginflutningskerfi raforku. Forsenda fyrir framkvæmdunum er því tenging þeirra við raforkukerfið. Undanfarið hefur mest verið rætt um að flytja orkuna frá virkjununum að tengipunkti sem reistur yrði í Ísafjarðardjúpi. Þaðan yrði svo rafmagnið flutt með loftlínum yfir Kollafjarðarheiði og að Vesturlínu. Sá tengipunktur myndi gagnast bæði Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun sem og þriðju virkjuninni, Skúfnavatnavirkjun, sem fyrirhuguð er á þessum slóðum.

Þegar virkjanir á þessu svæði á Vestfjörðum komu fyrst fram var hugmyndin sú að tengja rafmagnið beint úr Djúpinu og inn á Ísafjörð, með loftlínum, jarðstrengjum og jafnvel sæstreng. Þannig myndi nást langþráð hringtenging rafmagns á stórum hluta Vestfjarða sem auka myndi raforkuöryggi á svæðinu til muna. Slík áform eru ekki lengur í forgangi heldur er nú horft til fyrrnefndrar tengingar yfir Kollafjarðarheiði og inn á meginflutningskerfið.

Tengipunktur ekki háður fleiri virkjunum

Í apríl á síðasta ári gaf Landsnet út skýrslu þar sem kostnaður við tengingar Hvalárvirkjunar var metinn. Samkvæmt henni munu tekjur Landsnets af því að flytja raforku frá virkjuninni standa undir framkvæmdum við fyrsta áfanga nýs tengipunktar í Ísafjarðardjúpi.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, sagði í samtali við mbl.is er skýrslan kom út að niðurstaða kostnaðargreiningarinnar væri ekki háð því að fleiri virkjanir yrðu reistar á þeim slóðum sem tengipunkturinn er fyrirhugaður, „en komi fleiri virkjanir inn, sem gæti orðið annar áfangi þessa verkefnis, mun það auðvitað skila meiri tekjum]...]“.

Tillaga að friðlýsingu Drangajökulsvíðerna

Frá því að verkefnisstjórn rammaáætlunar hóf umfjöllun sína um Austurgilsvirkjun og lagði til að hún færi í nýtingarflokk áætlunarinnar hefur ýmislegt dregið til tíðinda. Ferðamennska hefur blómstrað sem aldrei fyrr, svo dæmi sé tekið, og þá lagði Náttúrufræðistofnun til árið 2018 að Drangajökulssvæðið yrði friðlýst.

Í greinargerð með tillögunni kom fram að helsta ógn sem að svæðinu stafi sé möguleg virkjun vatnsafla. „Við gerum okkur fulla grein fyrir því að Hvalárvirkjun er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar og að umhverfismat á henni hefur farið fram. Einnig að Austurgilsvirkjun er í orkunýtingarflokki í tillögum að þriðja áfanga rammaáætlunar,“ sagði Trausti Baldursson, forstöðumaður vistfræði- og ráðgjafadeilar Náttúrufræðistofnunar, sem leiddi vinnu við tillögugerðina, í samtali við mbl.is. „En hlutverk okkar í þessu tilviki er að rannsaka og kortleggja náttúrufar og gera tillögur um vernd út frá því, óháð hagsmunum annarra. Því hlutverki erum við að sinna með þessum tillögum. Hvað svo verður um þær er í annarra höndum.“

Náttúrufræðistofnun hefur lagt til að Drangajökulsvíðerni verði friðlýst. Mynd: Wikipedia

Hópur þrjátíu landeigenda af átta jörðum í Árneshreppi sendu síðasta sumar frá sér yfirlýsingu þar sem röskun Drangajökulsvíðerna með þremur fyrirhuguðum vatnsaflsvirkjunum var andmælt. Hugmyndirnar sem um ræðir eru auk Austurgilsvirkjunar og Hvalárvirkjunar Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi. 

„Þessar stórkarlalegu virkjanahugmyndirnar eru fullkomin tímaskekkja í nútímasamfélagi,“ sagði í yfirlýsingunni sem send var til ráðherra og formanna stjórnmálaflokka. „Náttúruverndarsjónarmið njóta sífellt meira fylgis og óbyggð víðerni hafa öðlast viðurkenningu og vernd í lögum. Þessar virkjanahugmyndirnar eiga því að okkar mati heima í verndar- eða biðflokki rammaáætlunar, áratugsgamlar forsendur þeirra eru löngu úreltar. Allir sem kynna sér staðreyndir um raforkuöryggi á Vestfjörðum vita að þessar virkjanir hafa þar engin áhrif. Raforkan yrði seld hæstbjóðanda suður á land, líklega til gagnavera sem leita rafmyntar, s.s Bitcoin.“

Umhverfisstofnun hefur tillögu Náttúrufræðistofnunar að friðlýsingu Drangajökulsvíðerna enn til meðferðar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar