EPA

Ríkin sem (virðast) hafa náð tökum á útbreiðslunni

Þó að enn sé of snemmt að fullyrða hvaða aðgerðir hafi reynst best í baráttunni gegn útbreiðslu COVID-19 er ljóst að róttækar aðgerðir nokkurra Asíuríkja virðast hafa skilað árangri.

Nýja kórónuveiran gerði vart við sig í Hong Kong og Singapúr snemma á árinu. En innan við 200 tilfelli hafa nú greinst hjá hvoru ríkinu fyrir sig á meðan tíu sinnum fleiri hafa greinst í Frakklandi, Þýskalandi og á Spáni, þangað sem veiran barst mun síðar.

Fyrir þremur vikum höfðu aðeins þrjú tilfelli greinst á Ítalíu. Í dag eru þau yfir 17 þúsund. En í Suður-Kóreu, þar sem fyrstu tilfellin greindust á svipuðum tíma, hafa aðeins 67 dáið úr sjúkdómnum og mun færri greinst með veiruna.

„Þessi gríðarlegi mismunur sýnir að það skiptir máli hvernig stjórnvöld bregðast við þessari veiru,“ segir faraldsfræðingurinn Mike Ryan, yfirmaður neyðarmála hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, WHO. „Að vona það besta er ekki áætlun,“ segir Ryan. „Við erum enn á upphafsstigum þessa faraldurs.“ 

Það er ekki tilviljun að stjórnvöld í borgríkinu Hong Kong gripu til mjög róttækra aðgerða strax við upphaf faraldursins. Þau vilja ekki endurupplifa martröð SARS-faraldursins árið 2003 var. Um 8.000 manns sýktust þá og 774 létust, þar af 299 í Hong Kong.

SARS-faraldurinn lamaði mörg Asíuríki og sum þeirra, m.a. Hong Kong og Singapúr, ákváðu að undirbúa sig vel fyrir það sem koma skyldi í framtíðinni. „Í raun getum við litið á SARS sem æfingu,“ segir Jeremy Lim, háskólaprófessor í Singapúr, í viðtali við Time. Í kjölfarið hafi ýmsum umbótum verið komið á.

Taívan er einnig í hópi þeirra landa sem þykja hafa brugðist hratt og vel við er COVID-19 braust út. Það er þó of snemmt að fullyrða að þær aðferðir sem Taívan, Suður-Kórea, Hong Kong og Singapúr beittu hafi verið þær réttu en eins og er virðast þær þó hafa skilað þeim árangri að fáir hafa sýkst og fáir látist.

Engu að síður eiga öll þessi ríki rík tengsl við Kína þangað sem upptök faraldursins eru rakin. Til þeirra allra er til að mynda beint flug frá Wuhan, borginni þar sem veiran er fyrst talin hafa smitast úr leðurblöku í mann. 

Stórkostlegar hamfarir 

Í þessum ríkjum hefði veiran getað valdið stórkostlegum hamförum. Hún lét fyrst á sér kræla að ráði rétt fyrir kínverska nýárið, á þeim tíma er milljónir manna í Asíu eru á ferðalagi.

Á heimsvísu fjölgar smitum enn á hverjum degi en þeim er farið að fækka dag frá degi í þessum fjórum löndum og fleiri þar eru taldir hafa náð bata af veirusýkingunni en nú eru veikir af henni.

Lykillinn að þessum árangri hefur sem fyrr segir falist í mjög rót- og snemmtækum aðgerðum.

Hitaskanni notaður á flugvelli í Hong Kong.
EPA

Í Taívan búa 23 milljónir manna og strax við upphaf faraldursins í Kína voru allir sem flogið höfðu frá Wuhan rannsakaðir. Í byrjun febrúar höfðu Taívan, Hong Kong og Singapúr öll sett á ferðatakmarkanir frá meginlandi Kína jafnvel þótt WHO hefði sagt árangur af slíku takmarkaðan. Þessar aðgerðir kostuðu sitt, ríkin eru öll í miklum viðskiptum við Kína og ferðamenn sem þangað koma eru einnig langflestir frá Kína.

Sérstök farsóttanefnd, sem komið var á í Taívan eftir SARS-faraldurinn, vann náið með stjórnvöldum í landinu frá því að fyrstu fréttir af nýrri veiru bárust. Eftir miðjan janúar var búið að virkja viðbragðsáætlun í 124 liðum sem m.a. fól í sér aukið landamæraeftirlit og sértækar áætlanir fyrir skóla, vinnustaði og sjúkrahús.

Fyrirfram hafði verið búist við því að Taívan, sem er rétt undan ströndum meginlands Kína, myndi fara illa út úr faraldrinum og að þar yrðu smit einna flest í heiminum. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin og í dag hafa aðeins greinst þar 50 tilfelli.

Ökumenn bifhjóla í hlífðarfatnaði í Tapei, höfuðborg Taívan.
EPA

Ítölsk yfirvöld byrjuðu á því að taka sýni úr mjög mörgum en fækkuðu svo sýnatökum umtalsvert svo ekki þyrfti að greina þúsundir sýna. En þetta hefur orðið til þess að Ítalir vita ekki hvað er handan við hornið og hafa núna gripið til aðgerða sem ná til allrar þjóðarinnar, um 60 milljóna manna. Þær fela í sér samkomubönn, lokanir nær allra verslana utan apóteka og matvörubúða sem og lokanir skóla.

Í Suður-Kóreu hefur önnur nálgun verið tekin. Þar hafa verið tekin sýni hjá hundruðum þúsunda manna og hvert smit er rakið með sömu aðferðum og notaðar eru við glæparannsóknir lögreglunnar.

Faraldsfræðingar segja að þó að samanburðurinn sé ekki fullkominn bendi margt til þess að umfangsmikil sýnataka sé gott tæki í baráttunni gegn útbreiðslu veirunnar. Hafi stjórnvöld landa ekki tækifæri til að skima rækilega fyrir veirunni þurfi þau að grípa til almennra aðgerða til að hefta útbreiðsluna, m.a. með því að draga úr samneyti fólks.

Meðal fyrstu ríkja 

Borgríkið Singapúr, þar sem 5,7 milljónir manna búa, þótti líkt og Taívan sérlega útsett fyrir faraldrinum. Það var þriðja landið í heiminum þar sem veiran greindist og um miðjan febrúar voru tilfellin orðin yfir áttatíu og hvergi fleiri utan Kína.

Yfirvöld í Singapúr hafa lagt gríðarlega mikið á sig við að skima fyrir veirunni og rekja smit svo eftir hefur verið tekið. Strax við upphaf faraldursins var ákveðið að skima meðal allra þeirra sem hefðu flensulík einkenni. Smitrakningin er líka mjög öflug og tekur lögreglan meðal annars þátt í henni. Stjórnvöld miðluðu því svo grimmt til almennings að fara í ókeypis sýnatöku jafnvel þótt fólk hefði aðeins væg flensulík einkenni. Þá var sá sami hópur hvattur til að vera ekki á almannafæri.

Í gær höfðu greinst 178 tilfelli COVID-19 í landinu en ekkert dauðsfall er rakið til sýkingarinnar. „Singapúr hefur velt við öllum steinum,” sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, er hann hrósaði stjórnvöldum fyrir árangurinn.

Þar, líkt og í Suður-Kóreu, hafa stjórnvöld ríkar heimildir til að skoða persónuupplýsingar um borgarana, m.a. kreditkortareikninga, fjarskiptagögn og fleira, allt í nafni sóttvarna. Fáir gera athugasemdir enda alvanir afskiptum yfirvalda með þessum hætti. Þá eru brot á sóttkví tekin mjög alvarlega og varða háum sektum og jafnvel fangelsi.

Ekki er endilega viðbúið að íbúar vesturlanda myndu sætta sig við slíkt rof á friðhelgi einkalífsins. En líklegt er að sá angi viðbragða yfirvalda sem fellst í skoðun ýmissa persónuupplýsinga skýri aðeins hluta af þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við farsóttina skæðu.

Fjarlægðarmörk í Hong Kong

Í borgríkinu Hong Kong voru viðbrögðin hröð en nokkuð önnur en í Singapúr. Þar voru fljótt sett á fjarlægðarmörk sem fólk átti að halda sem og samkomubönn. Skólum var lokað og mjög margir vinna heima, sé þess nokkur kostur. Kirkjur, íþróttaleikvangar og kvikmyndahús hafa staðið tóm vikum saman. Í Hong Kong hefur aðeins greinst 131 smit.

Hong Kong varð illa úti í SARS-faraldrinum og fólk er mjög meðvitað um almennt hreinlæti, handþvott og aðrar sóttvarnir. Árstíðabundna inflúensan á meira að segja erfitt uppdráttar þar af þessum sökum.

Að koma skilaboðum til borgaranna með skýrum og yfirveguðum hætti virðist líka vera að gera sitt. Forsætisráðherra Singapúr, Lee Hsien Loong, er nokkuð fær í því. Í byrjun febrúar, þegar íbúar landsins þyrptust í verslanir til að hamstra mat flutti hann ávarp á öllum fjórum tungumálum ríkisins. „Ég vil tala við ykkur beint til að útskýra hvar við erum stödd og hvað gæti gerst,” sagði hann. Svo áhrifamikil voru orð hans að viðskipti í matvörubúðum fóru þegar aftur í eðlilegt horf.

Miklu hættulegri en inflúensa

Aðrir leiðtogar ríkja heims hafa tekið allt öðruvísi á málum og jafnvel gert lítið úr hættunni sem fylgir faraldrinum. Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði m.a. á Twitter fyrir nokkrum vikum að dauðsföll af hinni árstíðabundnu inflúensu væru fjölmörg í landinu á hverju ári. Það er rétt, en nýja kórónuveiran er hættulegri. Enginn er með ónæmi fyrir henni og ekki er hægt að bólusetja viðkvæma hópa. Dánartíðnin hingað til er mun hærri en í venjulegri flensu.

Forseti Suður-Kóreu hljóp einnig á sig er hann tilkynnti að það versta væri yfirstaðið þegar faraldurinn átti enn eftir að ná hámarki.

Reynslan kenndi mörgum Asíuríkjum að það beri að taka upplýsingar um yfirvofandi faraldur alvarlega, sérstaklega ef um nýja veiru er að ræða. Það skýrir viðbúnað þeirra og aðgerðir. Stjórnvöld í mörgum Evrópuríkjum sem og Bandaríkjunum höfðu mun lengri tíma til að undirbúa sig fyrir komu veirunnar en gerðu það þó ekki.

Almenn skimun hafin

Hér á landi er ekki vitað hvort að veiran hafi almennt breiðst út í samfélaginu en af þeim sem eru sýktir hafa langflestir smitast á skíðasvæðum í Ölpunum eða tengjast þeim ferðalöngum. Yfir þúsund manns eru í sóttkví. Viðbrögð íslenskra heilbrigðisyfirvalda hingað til eru talin hafa skilað góðum árangri en eftir að nokkur tilfelli greindust sem ekki er hægt að rekja til áhættusvæðanna í Ölpunum ákvað sóttvarnarlæknir að leggja til samkomubann frá og með miðnætti á morgun. Það felur í sér að samkomur fleiri en hundrað manna eru óheimilar.

Íslensk erfðagreining hefur hafið skimun meðal almennings. Sú rannsókn á eftir að leiða í ljós hvort að nýja kórónuveiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum hafi búið um sig í samfélaginu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar