Verða meistarar krýndir í heimsfaraldri?
Kórónuveiran er búin að lama íþróttaheiminn og framhaldið er óljóst, eins og svo margt annað. Mótshaldarar eru í erfiðri stöðu og fjárhagslegt tjón íþróttafélaga verður fyrirsjáanlega mikið, bæði hér heima og erlendis.
Við lifum fordæmalausa tíma. Daglegt líf víða um heim er að miklu leyti úr skorðum eða á leið úr skorðum. Aðgerðir stjórnvalda andspænis óþekktri ógn stigmagnast dag frá degi og eru nú dæmi þess að landamærum ríkja sé lokað. Fréttir um nýjar aðgerðir, úrræði og leiðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar berast stanslaust og fréttir af efnahagslegum hörmungum sem gætu jafnast á við hrun alþjóðlegra fjármálamarkaða fyrir röskum áratug fylgja svo í kjölfarið.
Ótaldar eru þá fregnir sem berast af raski annarra þátta mannlífsins sem eru minna mikilvægir en heilsa fólks og fjárhagsleg heilsa samfélaga, en mikilvægir þó fyrir marga. Íþróttaheimurinn er einn þessara þátta. Hann er í algjöru uppnámi og risastórt alheimsíþróttahagkerfið þá að sjálfsögðu líka.
Einnig fjárhagur margra íslenskra íþróttafélaga. Að ógleymdri helstu afþreyingu margra. Íþróttafréttamaðurinn Gaupi kjarnar þetta ágætlega. Hvenær hafa íþróttaáhugamenn næst eitthvað að rífast um?
Íþóttir auðga lífið og tilveruna. Þegar ekkert er ì gangi þá er klárt að mikið er tekið frá okkur. Ekkert til að rífast um eða að fagna í bili. Allt hefur sinn tíma. Eina.
— Guðjón Guðmundsson (@gaupinn) March 14, 2020
Þróunin hefur verið hröð undanfarna rúma viku og nú er svo komið að það þykir vart fréttnæmt að hitt eða þetta íþróttaliðið sé komið í sóttkví vegna staðfestra COVID-19 smita, einhverju keppnishaldi sé slegið á frest næstu vikur eða því slaufað alfarið þetta tímabilið í íþróttagreinum þar sem tímabilið nær frá hausti til vors. Kórónuveiran er búin að lama íþróttirnar og framhaldið óljóst, eins og með svo margt annað.
Fjárhagslegt högg fyrir íslensk íþróttafélög
Hér innanlands varð það endanlega ljóst á föstudag að íþróttakeppni yrði alfarið blásin af næstu fjórar vikurnar. Þá tilkynnti Hannes Jónsson formaður KKÍ, í þættinum Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport, að ekki yrði leikinn körfubolti á Íslandi næstu fjórar vikurnar. Ekkert annað stóð enda til boða eftir að tilkynnt var um samkomubann, sem hefst á miðnætti í kvöld.
„Við vorum númer eitt, tvö og þrjú að bíða eftir því að fá þetta frá almannavörnum og sóttvarnalækni, hvað við ættum að gera,“ sagði Hannes í þættinum, en forsvarsmenn KKÍ höfðu velt því fyrir sér hvort möguleiki væri að ljúka körfuknattleikstímabilinu fyrir luktum dyrum.
Forysta sambandsins hafði áður fengið gagnrýni fyrir að stöðva ekki mótahald sitt fyrr. Brynjar Þór Björnsson, leikmaður Íslandsmeistara KR, gaf það út strax 5. mars að hann myndi ekki spila stórleik gegn Stjörnunni og skoraði á KKÍ að slaufa öllu mótahaldi sínu strax. Fleiri töluðu með svipuðum hætti.
Spennum beltin! Ég á fjögurra ára gamla dóttur sem er mikill spekingur og pælari. Hún spyr mig gjarnan um alla heimsins...
Posted by Finnur Freyr Stefánsson on Friday, March 6, 2020
Á þeim tímapunkti höfðu innan við þrjátíu COVID-19 smit greinst á Íslandi og engin merki voru enn um samfélagssmit. Auk þess hafði deildarkeppnum annarra landa ekki verið aflýst. Körfuknattleikshreyfingin hvatti til þess að tekið yrði á málunum með ró, allt yrði gert samkvæmt ráðleggingum yfirvalda.
Hið sama gerði handboltahreyfingin, en bikarhelgi HSÍ fór fram með algjörlega óbreyttu sniði í Laugardalshöll síðustu helgi. Karlalið Stjörnunnar, sem þar laut í lægra haldi gegn ÍBV í úrslitaleik, er nú komið í sóttkví eftir að smit greindist hjá einum leikmanna. HSÍ ákvað á föstudag að fresta öllum leikjum ótímabundið, eftir að stjórnvöld tilkynntu um samkomubann.
Ljóst er að þetta allt saman verður mikið fjárhagslegt áfall fyrir körfubolta- og handboltahreyfinguna á Íslandi. Efnahagur flestra liða er viðkvæmur. Ef einungis er horft á efstu deild karla í körfubolta, þá eru þar tólf lið, öll með erlenda atvinnumenn á sínum snærum. Sum jafnvel með fjóra slíka, auk íslenskra leikmanna á launum.
Liðin spenna bogann hátt og vonast eftir því að velgengni í úrslitakeppni og fullt hús áhorfenda leik eftir leik skili nægilegu fé til baka í gegnum miðasölu til að tímabilið komi sómasamlega út fjárhagslega.
Nú er óljóst hvort nokkur úrslitakeppni verður í efstu deildum karla og kvenna og 1. deild karla í körfuboltanum, en endanleg ákvörðun um það verður tekin miðvikudaginn 18. mars í síðasta lagi, samkvæmt tikynningu sem stjórn KKÍ gaf út í gær. Búið er að slaufa keppni í öllum neðri deildum og yngri flokkum körfuboltans og þar verða engir deildar- eða Íslandsmeistarar krýndir þetta tímabilið.
Hvað er sanngjarnt að gera?
„Ef stjórn KKÍ ákveður að ljúka keppnistímabilinu 2019-2020 í tveimur efstu deildum karla og kvenna, mun stjórnin funda áfram og ræða hvort og þá hvernig lið verði flutt milli deilda. Ótímabært er að fara nánar út í það á þessari stundu,“ segir í tilkynningu KKÍ, sem er þannig í sömu stöðu og mótshaldararar í öðrum íþróttagreinum.
Hvað ef ekki verður hægt að klára deildina í vor? Verður efsta liðið þá krýnt landsmeistari? Hvað með lið sem eiga enn möguleika á að bjarga sér frá falli niður um deild? Verða þau felld?
Flækjustigið í þessu öllu er hátt og einskorðast að sjálfsögðu ekki við Ísland, eða bara handbolta og körfubolta. Í hinum stóra heimi eru skipuleggjendur allra íþróttamóta að glíma við þessar sömu spurningar og vita eflaust innst inni að engin ákvörðun er líkleg til þess að falla vel í kramið hjá öllum. Lítið virðist um niðurnegldar reglur um hvaða ákvarðanir skuli taka, þegar heimsfaraldur smitsjúkdóms stöðvar leik. Það er spilað eftir eyranu.
Enda fordæmalausir tímar. Í Napolí á Ítalíu sungu stuðningmenn í sóttkví á heimili sínu saman í gærkvöldi, knattspyrnuliði borgarinnar til dýrðar.
Meravigliosa 💙#Napoli #COVIDー19 pic.twitter.com/BEkHJKR6ZR
— Remidi Kamal🇲🇦 (@RemidiKamal) March 14, 2020
Fer titiltímabil Liverpool í vaskinn?
Flestar helstu íþróttadeildir bæði vestanhafs og í Evrópu eru komnar í tímabundnar eða ótímabundnar pásur. Sem dæmi verður enska knattspyrnan í fríi þar til 3. apríl hið minnsta og ef til vill alveg þangað til í september, samkvæmt frétt breska blaðsins Independent frá því í gær. Hvað gerist? Verður hægt að krýna Liverpool enska meistara? Vafi leikur á því.
Ef svo fer að enska deildarkeppnin verði blásin af án niðurstöðu, eins og sumir telja eðlilegast, mun það eflaust fara illa með sálarlíf stuðningsmanna liðsins, líka þeirra fjölmörgu sem eru hér á Íslandi.
Einar Matthías Kristjánsson, pistlahöfundur á vef íslenskra Liverpool-stuðningsmanna, segir bölvunina sem hvílt hafi á Liverpool undanfarin 30 ár ekkert venjulega, en þó toppi ekkert þetta tímabil.
„Ef allt er eðlilegt m.v. gang tímabilsins er Liverpool 1-2 vikum frá því að tryggja sér titilinn í fyrsta skipti eftir 30 mjög löng ár og 74 ár af samfelldum enskum fótbolta. Það hefur ekki komið heimsfaraldur sem breiðst hefur svona hratt og víða út í yfir heila öld. Tímasetning COVID-19 gæti ekki verið neitt meira dæmigerð fyrir okkur sem höfum fylgst með Liverpool undanfarin 30 ár,“ ritaði Einar í vikunni, augljóslega áhyggjufullur.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur vakið aðdáun margra fyrir að bægja frá sér spurningum blaðamanna um kórónuveiruna undanfarnar vikur og segja fólki að í stóra samhengi hlutanna skipti fótbolti litlu máli. Fólk eigi að hlusta á sérfræðinga.
Hann ítrekaði þessi skilaboð til stuðningsmanna Liverpool í færslu á föstudag og uppskar hrós fyrir frá Doktor Tedros, framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO.
Thank you Jürgen Klopp and @LFC for your powerful message to the world. Put people's health first, reduce risks, care for the vulnerable and compassion: this is the @WHO way. We will win the fight against #COVID19 if we are working together. #coronavirushttps://t.co/h6uGF8ZiRJ
— Tedros Adhanom Ghebreyesus (@DrTedros) March 14, 2020
Spennandi fundur hjá UEFA á þriðjudag
Þó íþróttir séu ekki það mikilvægasta á þessari stundu, eru ákvarðanirnar sem þarf að taka samt sem áður mýmargar og flóknar. Neyðarfundur verður hjá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) á þriðjudag og þar ætla aðildarþjóðirnar að ræða saman, í gegnum fjarfundarbúnað, um hvernig megi leysa úr stöðunni sem uppi er, í skugga kórónuveirunnar.
Erlendir miðlar hafa eftir ónefndum heimildarmönnum sínum af æðstu stöðum að búist sé við því að EM 2020 verði frestað til ýmist desember 2020 eða sumarsins 2021 og öllum evrópukeppnum félagsliða á þessu tímabili verði slaufað án niðurstöðu.
Þá má slá því föstu að öllum landsleikjum í mars og apríl, meðal annars leik Íslands og Rúmeníu í umspilinu fyrir EM karla í knattspyrnu, verði frestað um óákveðinn tíma, í samræmi við leiðbeiningar Alþjóðknattspyrnusambandsins FIFA.
Ótrúlegt en satt, þá er ekki enn búið að gefa þetta út formlega. Þar sem UEFA er mótshaldarinn verður ekkert gefið út um frestun umspilsleikjanna fyrr en eftir fund þriðjudagsins. Vallarstarfsmenn á Laugardalsvelli vinna því enn hörðum höndum að því að grænka grasið fyrir landsleikinn gegn Rúmeníu.
Ekki virðist þó alveg allt íþróttalífið í upplausn. Eða hvað? Ólympíuleikarnir eiga að fara fram í Tókíó í sumar og samkvæmt yfirlýsingum Shinzo Abe forsætisráðherra Japans er þar er allt á áætlun.
„Við munum sigrast á útbreiðslu sýkingarinnar og halda Ólympíuleikana án vandamála,“ sagði Abe á blaðamannafundi í gær, bjartsýnn á þessum óvissutímum.