Fótbolti er kannski ekki það mikilvægasta á þessari stundu, þegar heilsuvá steðjar að samfélögum og efnahagshrun virðist handan við hornið. Þó er ljóst að það þarf að taka ýmsar ákvarðanir, til dæmis um hvort Liverpool verði enskur meistari. liverpool
Fótbolti er kannski ekki það mikilvægasta á þessari stundu, þegar heilsuvá steðjar að samfélögum og efnahagshrun virðist handan við hornið. Þó er ljóst að það þarf að taka ýmsar ákvarðanir, til dæmis um hvort Liverpool verði enskur meistari.

Verða meistarar krýndir í heimsfaraldri?

Kórónuveiran er búin að lama íþróttaheiminn og framhaldið er óljóst, eins og svo margt annað. Mótshaldarar eru í erfiðri stöðu og fjárhagslegt tjón íþróttafélaga verður fyrirsjáanlega mikið, bæði hér heima og erlendis.

Við lifum for­dæma­lausa tíma. Dag­legt líf víða um heim er að miklu leyti úr skorðum eða á leið úr skorð­um. Aðgerðir stjórn­valda and­spænis óþekktri ógn stig­magn­ast dag frá degi og eru nú dæmi þess að landa­mærum ríkja sé lok­að. Fréttir um nýjar aðgerð­ir, úrræði og leiðir til að hefta útbreiðslu kór­ónu­veirunnar ber­ast stans­laust og fréttir af efna­hags­legum hörm­ungum sem gætu jafn­ast á við hrun alþjóð­legra fjár­mála­mark­aða fyrir röskum ára­tug fylgja svo í kjöl­far­ið.

Ótaldar eru þá fregnir sem ber­ast af raski ann­arra þátta mann­lífs­ins sem eru minna mik­il­vægir en heilsa fólks og fjár­hags­leg heilsa sam­fé­laga, en mik­il­vægir þó fyrir marga. Íþrótta­heim­ur­inn er einn þess­ara þátta. Hann er í algjöru upp­námi og risa­stórt alheims­í­þrótta­hag­kerfið þá að sjálf­sögðu lík­a. 

Einnig fjár­hagur margra íslenskra íþrótta­fé­laga. Að ógleymdri helstu afþr­ey­ingu margra. Íþrótta­f­rétta­mað­ur­inn Gaupi kjarnar þetta ágæt­lega. Hvenær hafa íþrótta­á­huga­menn næst eitt­hvað að ríf­ast um?

Þró­unin hefur verið hröð und­an­farna rúma viku og nú er svo komið að það þykir vart frétt­næmt að hitt eða þetta íþróttaliðið sé komið í sótt­kví vegna stað­festra COVID-19 smita, ein­hverju keppn­is­haldi sé slegið á frest næstu vikur eða því slaufað alfarið þetta tíma­bilið í íþrótta­greinum þar sem tíma­bilið nær frá hausti til vors. Kór­ónu­veiran er búin að lama íþrótt­irnar og fram­haldið óljóst, eins og með svo margt ann­að.

Fjár­hags­legt högg fyrir íslensk íþrótta­fé­lög

Hér inn­an­lands varð það end­an­lega ljóst á föstu­dag að íþrótta­keppni yrði alfarið blásin af næstu fjórar vik­urn­ar. Þá til­kynnti Hannes Jóns­son for­maður KKÍ, í þætt­in­um Körfu­bolta­kvöldi á Stöð 2 Sport, að ekki yrði leik­inn körfu­bolti á Íslandi næstu fjórar vik­urn­ar. Ekk­ert annað stóð enda til boða eftir að til­kynnt var um sam­komu­bann, sem hefst á mið­nætti í kvöld. 

„Við vorum númer eitt, tvö og þrjú að bíða eftir því að fá þetta frá almanna­vörnum og sótt­varna­lækni, hvað við ættum að ger­a,“ sagði Hannes í þætt­in­um, en for­svars­menn KKÍ höfðu velt því fyrir sér hvort mögu­leiki væri að ljúka körfuknatt­leiks­tíma­bil­inu fyrir luktum dyr­um.

For­ysta sam­bands­ins hafði áður fengið gagn­rýni fyrir að stöðva ekki móta­hald sitt fyrr. Brynjar Þór Björns­son, leik­maður Íslands­meist­ara KR, gaf það út strax 5. mars að hann myndi ekki spila stór­leik gegn Stjörn­unni og skor­aði á KKÍ að slaufa öllu móta­haldi sínu strax. Fleiri töl­uðu með svip­uðum hætti.

Spennum belt­in! Ég á fjög­urra ára gamla dóttur sem er mik­ill spek­ingur og pæl­ari. Hún spyr mig gjarnan um alla heims­ins...

Posted by Finnur Freyr Stef­áns­son on Fri­day, March 6, 2020

Á þeim tíma­punkti höfðu innan við þrjá­tíu COVID-19 smit greinst á Íslandi og engin merki voru enn um sam­fé­lags­smit. Auk þess hafði deild­ar­keppnum ann­arra landa ekki verið aflýst. Körfuknatt­leiks­hreyf­ingin hvatti til þess að tekið yrði á mál­unum með ró, allt yrði gert sam­kvæmt ráð­legg­ingum yfir­valda.

Hið sama gerði hand­bolta­hreyf­ing­in, en bik­ar­helgi HSÍ fór fram með algjör­lega óbreyttu sniði í Laug­ar­dals­höll síð­ustu helgi. Karla­lið Stjörn­unn­ar, sem þar laut í lægra haldi gegn ÍBV í úrslita­leik, er nú komið í sótt­kví eftir að smit greind­ist hjá einum leik­manna. HSÍ ákvað á föstu­dag að fresta öllum leikjum ótíma­bund­ið, eftir að stjórn­völd til­kynntu um sam­komu­bann. 

Ljóst er að þetta allt saman verður mikið fjár­hags­legt áfall fyrir körfu­bolta- og hand­bolta­hreyf­ing­una á Íslandi. Efna­hagur flestra liða er við­kvæm­ur. Ef ein­ungis er horft á efstu deild karla í körfu­bolta, þá eru þar tólf lið, öll með erlenda atvinnu­menn á sínum snær­um. Sum jafn­vel með fjóra slíka, auk íslenskra leik­manna á laun­um. 

Stjarnan varð bikarmeistari í körfubolta 16. febrúar síðastliðinn fyrir troðfullri Laugardalshöll. Það verður langt í að fullar íþróttahallir sjáist aftur hérlendis.
Mynd: Stjarnan.is

Liðin spenna bog­ann hátt og von­ast eftir því að vel­gengni í úrslita­keppni og fullt hús áhorf­enda leik eftir leik skili nægi­legu fé til baka í gegnum miða­sölu til að tíma­bilið komi sóma­sam­lega út fjár­hags­lega.

Nú er óljóst hvort nokkur úrslita­keppni verður í efstu deildum karla og kvenna og 1. deild karla í körfu­bolt­an­um, en end­an­leg ákvörðun um það verður tekin mið­viku­dag­inn 18. mars í síð­asta lagi, sam­kvæmt tikynn­ingu sem stjórn KKÍ gaf út í gær. Búið er að slaufa keppni í öllum neðri deildum og yngri flokkum körfu­bolt­ans og þar verða engir deild­ar- eða Íslands­meist­arar krýndir þetta tíma­bil­ið.

Hvað er sann­gjarnt að ger­a? 

„Ef stjórn KKÍ ákveður að ljúka keppn­is­tíma­bil­inu 2019-2020 í tveimur efstu deildum karla og kvenna, mun stjórnin funda áfram og ræða hvort og þá hvernig lið verði flutt milli deilda. Ótíma­bært er að fara nánar út í það á þess­ari stund­u,“ segir í til­kynn­ingu KKÍ, sem er þannig í sömu stöðu og móts­hald­ar­arar í öðrum íþrótta­grein­um.

Hvað ef ekki verður hægt að klára deild­ina í vor? Verður efsta liðið þá krýnt lands­meist­ari? Hvað með lið sem eiga enn mögu­leika á að bjarga sér frá falli niður um deild? Verða þau felld?

Flækju­stigið í þessu öllu er hátt og ein­skorð­ast að sjálf­sögðu ekki við Ísland, eða bara hand­bolta og körfu­bolta. Í hinum stóra heimi eru skipu­leggj­endur allra íþrótta­móta að glíma við þessar sömu spurn­ingar og vita eflaust innst inni að engin ákvörðun er lík­leg til þess að falla vel í kramið hjá öll­um. Lítið virð­ist um nið­ur­negldar reglur um hvaða ákvarð­anir skuli taka, þegar heims­far­aldur smit­sjúk­dóms stöðvar leik. Það er spilað eftir eyr­anu.

Enda for­dæma­lausir tím­ar. Í Napolí á Ítalíu sungu stuðn­ing­menn í sótt­kví á heim­ili sínu saman í gær­kvöldi, knatt­spyrnu­liði borg­ar­innar til dýrð­ar.

Fer tit­il­tíma­bil Liver­pool í vaskinn? 

Flestar helstu íþrótta­deildir bæði vest­an­hafs og í Evr­ópu eru komnar í tíma­bundnar eða ótíma­bundnar pásur. Sem dæmi verður enska knatt­spyrnan í fríi þar til 3. apríl hið minnsta og ef til vill alveg þangað til í sept­em­ber, sam­kvæmt frétt breska blaðs­ins Independent frá því í gær. Hvað ger­ist? Verður hægt að krýna Liver­pool enska meist­ara? Vafi leikur á því.

Ef svo fer að enska deild­ar­keppnin verði blásin af án nið­ur­stöð­u, eins og sumir telja eðli­leg­ast,  mun það eflaust fara illa með sál­ar­líf stuðn­ings­manna liðs­ins, líka þeirra fjöl­mörgu sem eru hér á Íslandi.

Einar Matth­ías Krist­jáns­son, pistla­höf­undur á vef íslenskra Liver­pool-­stuðn­ings­manna, segir bölvun­ina sem hvílt hafi á Liver­pool und­an­farin 30 ár ekk­ert venju­lega, en þó toppi ekk­ert þetta tíma­bil.

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur vakið athygli fyrir skynsöm, vel ígrunduð og yfirveguð viðbrögð þegar hann hefur verið spurður út í kórónuveiruna undanfarnar vikur.
Mynd: EPA

„Ef allt er eðli­legt m.v. gang tíma­bils­ins er Liver­pool 1-2 vikum frá því að tryggja sér tit­il­inn í fyrsta skipti eftir 30 mjög löng ár og 74 ár af sam­felldum enskum fót­bolta. Það hefur ekki komið heims­far­aldur sem breiðst hefur svona hratt og víða út í yfir heila öld. Tíma­setn­ing COVID-19 gæti ekki verið neitt meira dæmi­gerð fyrir okkur sem höfum fylgst með Liver­pool und­an­farin 30 ár,“ rit­aði Einar í vik­unni, aug­ljós­lega áhyggju­full­ur.

Jürgen Klopp, knatt­spyrnu­stjóri Liver­pool, hefur vakið aðdáun margra fyrir að bægja frá sér spurn­ingum blaða­manna um kór­ónu­veiruna und­an­farnar vikur og segja fólki að í stóra sam­hengi hlut­anna skipti fót­bolti litlu máli. Fólk eigi að hlusta á sér­fræð­inga.

Hann ítrek­aði þessi skila­boð til stuðn­ings­manna Liver­pool í færslu á föstu­dag og upp­skar hrós fyrir frá Doktor Tedros, fram­kvæmda­stjóra Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­un­ar­innar WHO.

Spenn­andi fundur hjá UEFA á þriðju­dag

Þó íþróttir séu ekki það mik­il­væg­asta á þess­ari stundu, eru ákvarð­an­irnar sem þarf að taka samt sem áður mýmargar og flókn­ar. Neyð­ar­fundur verður hjá Knatt­spyrnu­sam­bandi Evr­ópu (UEFA) á þriðju­dag og þar ætla aðild­ar­þjóð­irnar að ræða sam­an, í gegnum fjar­fund­ar­bún­að, um hvernig megi leysa úr stöð­unni sem uppi er, í skugga kór­ónu­veirunn­ar.

Erlendir miðlar hafa eftir ónefndum heim­ild­ar­mönnum sínum af æðstu stöðum að búist sé við því að EM 2020 verði frestað til ýmist des­em­ber 2020 eða sum­ars­ins 2021 og öllum evr­ópu­keppnum félags­liða á þessu tíma­bili verði slaufað án nið­ur­stöðu.

Þá má slá því föstu að öllum lands­leikjum í mars og apr­íl, meðal ann­ars leik Íslands og Rúm­eníu í umspil­inu fyrir EM karla í knatt­spyrnu, verði frestað um óákveð­inn tíma, í sam­ræmi við leið­bein­ingar Al­þjóð­knatt­spyrnu­sam­bands­ins FIFA. 

Ótrú­legt en satt, þá er ekki enn búið að gefa þetta út form­lega. Þar sem UEFA er móts­hald­ar­inn verður ekk­ert gefið út um frestun umspil­s­leikj­anna fyrr en eftir fund þriðju­dags­ins. Vall­ar­starfs­menn á Laug­ar­dals­velli vinna því enn hörðum höndum að því að grænka grasið fyrir lands­leik­inn gegn Rúm­en­íu. Ekki virð­ist þó alveg allt íþrótta­lífið í upp­lausn. Eða hvað? Ólymp­íu­leik­arnir eiga að fara fram í Tókíó í sumar og sam­kvæmt yfir­lýs­ingum Shinzo Abe for­sæt­is­ráð­herra Jap­ans er þar er allt á áætl­un. 

„Við munum sigr­ast á útbreiðslu sýk­ing­ar­innar og halda Ólymp­íu­leik­ana án vanda­mála,“ sagði Abe á blaða­manna­fundi í gær, bjart­sýnn á þessum óvissu­tím­um.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar