EPA

Samkomubönn og félagsforðun virðast skila árangri

Ítalir eru ein elsta þjóð heims. Suður-Kóreumenn er í hópi þeirra yngstu. COVID-19 leggst þyngst á þá sem eldri eru og gæti þetta skýrt mismunandi dánartíðni milli landa. Á Ítalíu virðast dæmin sanna að samkomubönn skili árangri í baráttunni við veiruna.

Samkomubann tók gildi á Íslandi þann 13. mars. Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Við öll minni mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Yfir þrjú þúsund manns eru í sóttkví í heimahúsum um allt land og mega ekki eiga í nánum samskiptum við fólk utan heimilisins.

Þetta eru róttækar aðgerðir. En þær hafa þegar sýnt gildi sitt ef horft er til Ítalíu sem er nú miðja faraldursins í heiminum.

Á ensku er talað um „social distancing“ og átt við að fólk haldi fjarlægð sín á milli, heilsist til dæmis ekki með handabandi, faðmist eða kyssist. Bragi Valdimar Skúlason, íslenskufræðingur og bjartsýnismaður með meiru, hefur lagt til þrjár þýðingar á hugtakinu; félagsforðun, hópbeygur eða faðmflótti.

Félagsforðun er nauðsynleg nú um stundir vegna þess að COVID-19, sjúkdómurinn sem nýja kórónuveiran veldur, smitast á milli einstaklinga. Smitleið er snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og annar einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur mengast af dropum og viðkomandi ber þær svo upp að andliti sínu.

Smitum á Íslandi fjölgar dag frá degi og svokölluðum þriðja stigs smitum einnig. Þá eru dæmi um smit sem ekki hefur tekist að rekja til utanferða annars fólks. Þetta gefur vísbendingu um að hætta sé á að COVID-19 geti nú farið að smitast hraðar milli fólks en hingað til.

Maður á gangi um götu í ítölsku borginni Napolí.
EPA

En eru félagsforðun, samkomubann og sóttkví, að skila árangri?

Um miðjan febrúar var 38 ára karlmaður í smábænum Codogno í Norður-Ítalíu sá fyrsti til að greinast með nýju kórónuveiruna í landinu. Yfirvöld á svæðinu brugðust skjótt við og um 50 þúsund manns sem bjuggu í bænum og næstu bæjum var sagt að halda sig heima.

Aðgerðirnar náðu til borgarinnar Lodi sem er skammt frá Mílanó. Þar virðast þær hafa skilað góðum árangri því hægt hefur á útbreiðslu veirunnar, sérstaklega miðað við aðrar borgir og bæi sem gripu til sambærilegra aðgerða en mun síðar. Að hægja á útbreiðslunni kann að hljóma eins og frestun á vandanum. En svo er þó ekki. Þetta er meðal annars nauðsynlegt til að dreifa álagi á heilbrigðiskerfi yfir sem lengstan tíma.

Frá 24. febrúar tók smitum að fjölga hratt á öðrum stöðum á Ítalíu, m.a. borginni Bergamo. Á meðan yfirvöld í Lodi gripu til aðgerða var það ekki raunin í Bergamo. Þar voru engar takmarkanir settar – ekki fyrr en tveimur vikum síðar er stjórnvöld á Ítalíu ákváðu að einangra Lobardia-hérað sem bæði Bergamo og Lodi eru innan, þann 8. mars. 

Vísindamenn hafa einnig borið saman dánartíðni og aldurssamsetningu Ítalíu og Suður-Kóreu til að sýna fram á að afleiðingar faraldursins geti orðið mismunandi milli landa.

Dánartíðni á Ítalíu vegna veirusýkingarinnar er mjög há og kom það sumum í opna skjöldu. Ítalir eru taldir heilsuhraustir upp til hópa og búa flestir við góð kjör miðað við margar aðrar þjóðir. En ítalska þjóðin er ein sú elsta í heimi, 23,3% hennar er yfir 65 ára. Í Kína eru 12% þjóðarinnar yfir 65 ára.

Þetta bendir til þess að dánartíðni í löndum þar sem meðalaldur er hár verði meiri en í löndum þar sem hann er lágur enda eru aldraðir í einna mestri áhættu að fá alvarleg einkenni COVID-19.

Þá skiptir menning landa einnig máli, til dæmis hvað varðar samskipti milli kynslóða. Á Ítalíu er hefð fyrir því að kynslóðirnar eigi í nánum samskiptum. Afi og amma búa gjarnan inni á heimili barna sinna og barnabarna. Við þær aðstæður aukast að mati vísindamanna líkur á því að eldri borgarar komist í snertingu við sýkta einstaklinga.

Ítalir standa á svölunum heima hjá sér og hlusta á nágrannana syngja.
EPA

Við samanburð á faraldrinum á Ítalíu annars vegar og í Suður-Kóreu hins vegar kemur í ljós að flestir þeir sem smitast hafa í síðarnefnda ríkinu eru á aldrinum 20-29 ára. Á Ítalíu hafa fáir á þeim aldri greinst en það segir þó alls ekki alla söguna. Á Ítalíu hefur verið lögð áhersla á sýnatöku hjá fólki sem sýnir þegar einkenni á meðan Suður-Kóreumenn hafa tekið mun fleiri sýni og hjá öllum aldurshópum.

Rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar á dánartíðni mismunandi landa benda til þess að hún sé minni hjá þjóðum þar sem meðalaldurinn er lágur. Suður-Kórea er í þessum hópi.

Meðalaldur þjóða hækkar með aukinni velmegun. Þannig er meðalaldur vestrænna ríkja mun hærri en þeirra fátækari. Þetta gæti, að sögn vísindamanna, orðið til þess að draga úr áhrifum faraldursins í þeim löndum þar sem heilbrigðiskerfin eru hvað veikust, til dæmis í Afríku.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar