Bára Huld Beck

Kanna hvaða áhrif COVID-19 faraldurinn muni hafa á borgina og íbúa hennar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur að Reykjavíkurborg hafi úr mjög sterkri stöðu að spila varðandi komandi þrengingar vegna COVID-19 faraldursins en hann segir að samstaðan skipti nú miklu máli því margir óvissuþættir séu til staðar varðandi ástandið.

Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri Reykja­vík­ur­borgar kynnti þá grein­ing­ar­vinnu sem farið hefur fram hjá neyð­ar­stjórn Reykja­vík­ur­borgar á borg­ar­ráðs­fundi í fyrra­dag, en sér­stök umræða var á fund­inum um hættu­stig almanna­varna vegna COVID-19 að beiðni borg­ar­stjóra. Til­gangur grein­ing­ar­vinn­unnar er, sam­kvæmt Degi, und­ir­bún­ingur fyrir þá áætl­un­ar­gerð sem þarf til þess að bregð­ast við efna­hags- og fjár­hags­legum áhrifum af COVID-19.

„Þar er teymi undir for­ystu fjár­mála­stjóra, Hall­dóru Kára­dótt­ur, og var það sett niður strax vegna þess að við vit­um, þátt fyrir að við vitum ekki allt um far­ald­ur­inn, að bæði far­ald­ur­inn sjálfur og við­brögðin við honum munu hafa víð­tækar og nei­kvæðar efna­hags­legar afleið­ingar í för með sér um allan heim, ekki síst í sam­fé­lagi sem byggir eins mikið á ferða­þjón­ustu og hið íslenska. Það má eig­in­lega segja að fyr­ir­séð sé að fyrstu áhrifin verða á ferða­þjón­ust­una og í tengdum greinum – en einnig geta verið áhrif af nauð­syn­legum tíma­bundnum sótt­varn­ar­að­gerð­um. Þetta áfall á hag­kerfið kemur inn í stöðu þar sem vart hefur orðið við kóln­un, eins og við höfum rætt hér og ræddum í tengslum við fjár­hags­á­ætlun seint á síð­asta ári,“ sagði Dagur á fund­in­um. 

Fram kom á glærum, sem borg­ar­stjóri birti um leið og hann kynnti málið í borg­ar­stjórn, að neyð­ar­stjórnin hefði falið teym­inu undir for­ystu fjár­mála­stjóra að hefja nauð­syn­lega grein­ingu til að und­ir­búa ákvarð­anir og áætl­ana­gerð. Sér­stakur starfs­hópur yrði enn fremur skip­aður til þess að skipu­leggja frek­ari við­brögð Reykja­vík­ur­borgar við efna­hags­legum afleið­ingum COVID-19 far­ald­urs­ins á þeim grunni.

Upp­færa fjár­hags­á­ætlun fyrir næstu 3 til 5 ár

Verk­efni starfs­hóps­ins er að meta mögu­leg skamm­tíma- og lang­tíma efna­hags­á­hrif far­ald­urs­ins á rekstur og fjár­hag borg­ar­inn­ar. Að lista upp og greina mögu­legar mót­væg­is­að­gerðir og að vinna efna­hags­lega við­bragðs­á­ætl­un. Þá mun starfs­hóp­ur­inn gera aðgerð­ar­á­ætlun sem tryggir órofna þjón­ustu og starf­semi Reykja­vík­ur­borg­ar.

Hóp­ur­inn mun jafn­framt greina og meta áhrif aðgerða hins opin­bera og leggja drög að við­brögðum borg­ar­innar og gera áætlun um mark­aðsá­tak eftir að far­aldr­inum lýk­ur. Þá mun hann upp­færa fjár­hags­á­ætlun borg­ar­innar fyrir næstu þrjú til fimm ár.

Dagur sagði að um far­aldra af þessu tagi og nýjar veirur sem kynntar eru til sög­unnar hefði verið sagt að það eina sem hægt er að slá föstu væri að það er óvissa. „Óvissa um hvernig hún er, hvernig hún þró­ast og hvort að þetta verði einn far­aldur eða bylgjur og svo fram­veg­is. Og þess vegna skiptir mjög miklu máli að binda sig ekki við ein­hverja eina spá eða álit ein­hverra, hversu vísir eða spakir þeir geta verið um að hlut­irnir muni þró­ast í ein­hverja ákveðna eina átt, heldur verður að gera sér grein fyrir öllum þeim mögu­legum sviðs­myndum sem munu koma upp varð­andi áhrif á fjár­mál og efna­hags­mál og öðrum þræði búa sig undir allt sem gæti ger­st,“ sagði borg­ar­stjór­inn.

Birgir Þór Harðarson

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar hefur því hlutverki að gegna að samhæfa aðgerðir og grípa til neyðarráðstafana þegar neyðarástand skapast til að forgangsraða lögbundinni þjónustu, samfélagslega mikilvægri starfsemi, tryggja almannaheill og lágmarka hugsanlegan samfélagslegan skaða.

Neyðarástand getur skapast þegar öryggi og innviðum samfélagsins er ógnað, svo sem vegna náttúruvár, þegar umhverfi og heilsu er ógnað og þegar tæknivá eða annars konar hættuástand skapast.

Á neyðarstigi er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum og verja grunnstoðir í þjónustu borgarinnar til að halda uppi nauðsynlegustu starfsemi. Borgarstjóri fer ásamt borgarráði með framkvæmdastjórn borgarinnar. Fagsvið, skrifstofur og fyrirtæki borgarinnar bera hvert í sínu lagi ábyrgð á þeirri þjónustu sem þau veita. Á neyðarstigi viðbragðsáætlana er neyðarstjórn borgarinnar virkjuð. Að öðru leyti helst stjórnskipulag borgarinnar óbreytt og ber hver stjórnandi ábyrgð á sínum starfsvettvangi/sinni starfsstöð samkvæmt hefðbundnu skipulagi.

Neyðarstjórn hefur heimild til að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun í neyðartilfellum enda sé um slík tilfelli að ræða að afgreiðsla þeirra þoli enga bið. Borgarráð veitir aðrar nauðsynlegar heimildir vegna sérstakra fjárútláta og er á neyðarstigi í viðbragðsstöðu þar sem nauðsynlegt getur verið að kalla til aukafundar.

Heimildir: Reykjavíkurborg

Mark­miðið ekki að „spá“ fyrir um rétta fram­tíð

Sam­kvæmt Degi var fyrsta verk­efni teymis neyð­ar­stjórn­ar­innar að teikna upp þessar sviðs­myndir til þess að gefa inn­sýn inn í hvernig hag­kerfið gæti þró­ast á kom­andi miss­erum og hvaða áhrif það hefði á borg­ar­sjóð. Mark­mið sviðs­mynd­anna væri ekki að „spá“ fyrir um rétta fram­tíð heldur að átta sig á því hvaða drif­kraftar væru ráð­andi og hvaða aðgerðir þyrfti að vera búið að grípa til.

Dagur benti á að þetta hefði borgin einnig gert í og eftir hrunið 2008.

„Það sem við vitum og á í raun við um allar sviðs­mynd­irnar sem við erum að gera er að það er ljóst að efna­hags­leg áhrif af kór­ón­u-far­aldr­inum verða veru­leg. Hér var sagt að fólk gerði sér kannski ekki grein fyrir því hversu alvar­legt þetta yrði, hversu alvar­legt höggið fyrir efna­hags­lífið – og ég tek undir það. Það sem ég heyri innan úr atvinnu­líf­inu varð­andi upp­sagnir og bráða­að­gerð­ir, það hve lausafé er að þorna fljótt upp hjá fyr­ir­tækjum í ferða­þjón­ust­unni en líka fleirum, að það er af stærð­argráðu sem við erum ekki alveg búin að ná utan um. En þetta er umtals­vert,“ sagði Dag­ur.

Hins vegar væri óljóst hversu lang­vinn þau áhrif yrðu. „Við vitum að þau verða mikil en hversu lang­vinn vitum við ekki.“

Reynsla af efna­hags­á­föllum í tengslum við far­sóttir erlendis gæfi til kynna að snöggur við­snún­ingur gæti vel átt sér stað en borgin þyrfti þó líka að vera við­búin því að við­snún­ing­ur­inn tæki lengri tíma.

Verður að koma til móts við fólk í krappri stöðu

Dagur sagði enn fremur að sam­staða skipti miklu máli og að í raun hefði borgin úr mjög sterkri stöðu að spila. „En hún verður auð­vitað ekki sterk ef við spilum þessu úr hönd­unum á okk­ur. Þannig að við þurfum líka að gæta ábyrgðar og vera á traustum grunni. Það er það sem er óþægi­legt í stöð­unni; við vitum ekki allt um stöð­una í atvinnu­líf­inu – það er verið að kort­leggja það – þó við vitum grunn­stærð­irnar í fjár­málum hins opin­bera. Það sem við vitum hins vegar er að rík­is­stjórn og Alþingi hafa verið ein­huga um að grípa til afger­andi aðgerða til þess að fleyta atvinnu­líf­inu í gegnum þetta. Það skiptir veru­legu máli og það skiptir líka veru­legu máli að koma til móts við fólk í krappri stöðu, bæði þá sem gætu misst vinn­una en líka hina sem geta orðið fyrir tekju­falli. Og síðan þessa fjöl­mörgu ein­yrkja og fólk sem treystir á í raun við­burði eða annað slíkt sem urðu fyrir þessu fyrsta höggi ásamt ferða­þjón­ust­unn­i,“ sagði Dag­ur.

Hann telur einnig skipta miklu máli að þegar ástandið byrjar að batna að borgin verði til­búin með áætl­anir til þess að auka eft­ir­spurn, hvort sem það sé í ferða­þjón­ustu eða á fjár­fest­ing­ar­hlið­inni, í menn­ing­ar­líf­inu eða borg­ar­líf­inu. „Þarna er borgin býsna sterk en svo er það hitt sem við fáum ekki um öllu ráðið – hvernig hlutir þró­ast í umheim­in­um. Hvort eft­ir­spurnin bragg­ast hratt í Evr­ópu, Amer­íku eða öðrum helstu við­skipta­lönd­um. Við erum, sér­stak­lega þegar kemur að ferða­þjón­ustu, háð því líka. Þannig að hafi það ein­hvern tím­ann gilt þá gildir það líka sann­ar­lega núna að heim­ur­inn er á sama báti hvað þetta varðar og hvernig úr þessu spil­ast. En við þurfum að vinna heima­vinn­una okkar og standa okkar vakt,“ sagði Dagur enn frem­ur.

Dagur bað um sérstaka umræðu um ástandið vegna COVID-19 á borgarstjórnarfundi í gær, 17. mars.
Bára Huld Beck

Erum rétt að átta okkur á umfang­inu

Þór­dís Lóa Þór­halls­dótt­ir, for­maður borg­ar­ráðs og borg­ar­full­trúi Við­reisn­ar, segir í sam­tali við Kjarn­ann að neyð­ar­stjórn Reykja­vík­ur­borgar sé búin að hitt­ast dag­lega síðan fyrir þar síð­ustu helgi – og jafn­vel tvisvar á dag.

Hún segir að neyð­ar­stjórnin sé að skoða hvaða áhrif far­ald­ur­inn muni hafa á fólk, fyr­ir­tæki og stofn­anir í borg­inni. Farið verður yfir málið á borg­ar­ráðs­fundi á morgun og segir Þór­dís Lóa að mik­il­vægt sé að eiga sam­tal á dýpt­ina. „Þetta er langt ferða­lag sem við erum að fara í og erum við á fyrstu stigum þess að átta okkur á umfang­inu. Eins og sótt­varna­læknir og yfir­lög­reglu­þjónn segja þá erum við í fyrsta fasa í þessu ferða­lag­i,“ segir hún.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Mynd: Bára Huld Beck

Engar töfra­lausnir til staðar

Þór­dís Lóa telur að í því sam­bandi séu engar töfra­lausnir við því ástandi sem upp er komið og framundan er. Hún segir enn fremur að það sé ágætis sam­staða í borg­ar­stjórn og að áherslan sé á að taka vel á þeim mál­efnum sem fyrir framan þau eru og að vinna hratt og vel.

„Mér finnst að allir í borg­ar­stjórn ættu að sýna ábyrgð og vilja til að tala saman um málið af yfir­veg­un. Við ættum að fara að for­dæmi sótt­varna­læknis og leyfa vís­ind­unum og fræð­unum að teyma okkur áfram. Við erum öll um borð í þessu skipi hvort sem við viljum það eða ekki. Við eigum því að berj­ast saman að halda því á flot­i,“ segir hún.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar