Mynd: EPA

Versti dagur á Wall Street síðan á „Svarta mánudaginn“ árið 1987

Þrátt fyrir að bandaríski Seðlabankinn hefði lækkað vexti niður í nánast núll og heitið því að beita öllum sínum mætti til að örva efnahagslífið þá hrundi hlutabréfaverð í Bandaríkjunum í dag. Ný tegund af kreppu er staðreynd og gömlu meðölin virka ekki.

S &P 500 vísitalan bandaríska lækkaði um tólf prósent í dag, sem er mesta daglega lækkun hennar frá því í október 1987. Þann dag féll hún um 20 prósent og dagurinn hefur alla tíð síðan verið þekktur sem „Svarti mánudagurinn“. Lækkunin í dag því sú mesta sem átt hefur sér stað frá því að útbreiðsla veirunnar sem veldur kórónuveirunni fór að hafa áhrif á gengi markaða í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. 

Viðskipti voru stöðvuð í 15 mínútur þegar gengið hafði fallið um sjö prósent, líkt og reglur kauphallarinnar á Wall Street gera ráð fyrir. Það var í þriðja sinn á skömmum tíma sem sá varnagli, sem ætlað er að reyna að hægja á falli markaða, virkjast. Í þetta sinn hafði stöðvunin engin áhrif. Virði hlutabréfa hélt bara áfram að lækka.

Nasdaq vísitalan, sem er að mestu saman sett af tæknifyrirtækjum, lækkaði um 12,3 prósent sem er versti dagur hennar frá upphafi. Dow vísitalan lækkaði um 12,9 prósent. 

Reynt að bregðast við en gömlu meðölin duga ekki

Hrunið á Wall Street átti sér stað þrátt fyrir að bandaríski Seðlabankinn hefði lækkað vexti sína niður í nánast núll um helgina til að bregðast við hríðversnandi efnahagsástandi og hét því sömuleiðis að beita öllum mögulegum vopnum sem hann hefði til að takast á við stöðuna. Greiningaraðilar Í Bandaríkjunum telja bersýnilegt að venjulegu leiðirnar til að takast á við efnahagsleg högg, að auka aðgengi að fjármunum verulega, dugi einfaldlega ekki til þegar um efnahagslega kreppu vegna faraldar er að ræða. Það sé beinlínis í þágu þess markmiðs að hefta útbreiðslu veirunnar að valda efnahagslegum skaða með fordæmalausum aðgerðum, eins og að loka landamærum. Þar sem heilsa og líf sé tekið fram yfir hagnað sé augljóst að eftirspurnin muni ekki lagast þótt að neytendur og fyrirtæki fái aðgang að auknu fjármagni. 

Þróunin á Bandaríkjunum var ekki einsdæmi. Markaðir féllu um allan heim. Á Íslandi féll úrvalsvísitalan um 5,33 prósent og hefur alls lækkað um 18 prósent síðastliðinn mánuð. 

Minni framleiðni og olíuverð helmingast

Samkvæmt The New York Times var undanfari hrunsins á Wall Street í dag sá að fréttir bárust frá Kína, annars stærsta hagkerfis í heimi sem er lykilbreyta í framleiðslukeðju alþjóða efnahagskerfisins, um að verksmiðjuvirkni þar hefði dregist saman um 13,5 prósent í síðasta mánuði miðað við febrúarmánuð í fyrra. Alls dróst fjárfesting í Kína saman um 25 prósent í febrúar 2020, á meðan að landið var meira og minna lamað vegna baráttu þess við að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar, sem nú hefur borið verulegan árangur þar í landi á sama tíma og hún breiðist hratt um Evrópu og Norður-Ameríku. Þá bentu fyrstu tölur sem birtust um bandarískt efnahagslíf í mars til þess að þar væri að eiga sér stað verulegur samdráttur.

Heimsmarkaðsverð á olíu hélt líka áfram að hríðfalla og fór undir 30 dali á tunnu í dag, sem er lægsta verð fyrir síka í meira en fjögur ár. Heimsmarkaðsverðið á olíu hefur helmingast það sem af er ári, með tilheyrandi áhrif á virði olíufyrirtækja. Rót þeirrar lækkunar er tvíþætt, annars vegar mun minni eftirspurn, meðal annars vegna þess að flugferðir hafa að mestu verið aflagðar síðustu daga, og hins vegar vegna ákvörðunar Saudí-Arabíu að auka framleiðslu sína í stað þess að draga úr henni til að reyna að ná verðum aftur upp.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar