EPA

Fimm misvísandi skilaboð Donalds Trump – og nokkur til

Við höfum stjórn á þessu. Algjöra stjórn. Takið því bara rólega, þetta mun hverfa. Þetta mun hverfa fyrir kraftaverk. Leiðtogi hins vestræna heims gerði frá upphafi lítið úr faraldrinum og sendi misvísandi og röng skilaboð til þjóðarinnar.

Það er 22. jan­ú­ar og árið er 2020. Joe Kernen, frétta­maður CNBC, tekur við­tal við Don­ald Trump ­Banda­ríkja­for­seta á ráð­stefn­unni í Davos eftir að fyrsti Banda­ríkja­mað­ur­inn greinist ­með nýju kór­ónu­veiruna.

Kernen: Eru ein­hverjar áhyggjur af heims­far­aldri á þessum tíma­punkti?

Trump: Nei, alls ekki. Og við höfum algjöra stjórn á þessu. Þetta er ein mann­eskja sem var að koma frá Kína og við höfum algjör­lega stjórn á þessu. Þetta verður allt í lagi.

Þetta var í fyrsta skipti sem for­seti Banda­ríkj­anna tjáði sig opin­ber­lega um COVID-19, far­sótt­ina skæðu sem hafði þá þegar lamað hag­kerfi Hubei-hér­aðs og fleiri svæða í Kína og greinst í fjórum öðrum lönd­um. Veiran lét fyrst á sér kræla í borg­inni Wuhan og fyrsta dauðs­fallið af hennar völdum var stað­fest í byrj­un jan­ú­ar.

Trump hélt hins ­vegar sínu striki og gerði lítið úr hætt­unni næstu vikur og mán­uði. Allt var  í himna­lagi.

Fyrsti ­Banda­ríkja­mað­ur­inn greind­ist með COVID-19 í Was­hington-­ríki. Það átti svo eft­ir að verða auga far­ald­urs­ins þar í landi en í dag hefur veiran greinst í öll­u­m ­ríkjum lands­ins og í morgun höfðu að minnsta kosti 217 lát­ist af völdum henn­ar.

Sama dag og Trump tjáði sig í fyrsta skipti um kór­ónu­veiruna skrif­aði Tom Frieden, ­fyrr­ver­andi for­stjóri Mið­stöðvar sjúk­dóma­varna í Banda­ríkj­un­um, grein þar sem stóð: „Við verðum að læra – og það hratt – um hvernig útbreiðslan verð­ur.“

Sögðu sýna­tökur nauð­syn­legar

Margir ­sér­fræð­ingar til við­bótar tjáðu sig um málið strax í jan­úar og vör­uðu við aðsteðj­and­i hættu. Þeir bentu flestir á nauð­syn þess að und­ir­búa umfangs­mikla sýna­töku. „Bregð­um­st við núna til að koma í veg fyrir far­aldur í Banda­ríkj­un­um,“ skrif­aðu tveir ­fyrr­ver­andi ráð­gjafar Trumps, Luci­ana Borio og Scott Gott­lieb, í grein í Wall Street Journal. „Ef heil­brigð­is­yf­ir­völd ná ekki að hægja á útbreiðsl­unni sem ­fyrst þá gæti veiran sýkt fleiri þús­undir manna til við­bótar um allan heim, ­truflað flug­sam­göngur og drekkt heil­brigð­is­kerf­um, og það versta af öllu – heimt fleiri manns­líf.“

En þetta virt­ist ekki bíta á for­set­an­um. Þann 24. jan­úar skrif­aði hann á Twitt­er: „Þetta mun allt fara vel.“ Nokkrum dögum síðar deildi hann fals­frétt á Twitt­er-­síð­u sína þar sem fram kom að fyr­ir­tækið John­son & John­son væri byrjað að þró­a ­bólu­efni. Og nokkrum dögum eftir það flutti hann ræðu í Michig­an-­ríki og sagð­i: „Við erum með góða stjórn á þessu. Vanda­málið er mjög lítið hér í land­inu – að­eins fimm [hafa greinst með veiruna]. Og allt þetta fólk er að jafna sig.“

Donald Trump hefur ítrekað það á blaðamannafundum síðustu mánuði að ekkert sé að óttast.
EPA

Sama dag lýsti Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­unin (WHO) yfir neyð­ar­á­standi vegna far­ald­urs­ins. Þá höfðu tæp­lega 8.000 smit verið stað­fest í heim­in­um.

Sól­ar­hring ­síðar hafði tónn­inn breyst hjá for­set­an­um. Hann til­kynnti að fólk sem væri að koma frá Kína yrði almennt ekki hleypt inn í land­ið. Und­an­tekn­ing var þó á þessu sem dró veru­lega úr gagn­sem­inni. Banda­ríkja­mönnum sem höfðu verið í Kína var til dæmis leyft að koma heim. Og þó að aðgerðin hefði verið nokkuð rót­tæk ­sagð­ist Trump enn rólegur yfir þessu öllu sam­an. „Sko, við höfum lokað fyrir að þetta komi frá Kína. Við eigum í gríð­ar­lega miklu sam­bandi við Kína, sem er mjög jákvætt. Okkur kemur vel saman við Kína, okkur kemur vel saman við Rúss­land, okkur kemur vel saman við önnur lönd.“

Þegar þarna var komið höfðu tæp­lega 15 þús­und manns í heim­inum greinst með veiruna.

Vorið mun laga allt

Áfram hélt Trump að gera lítið úr vand­an­um. Hann hélt því ítrekað fram á fundum og í við­tölum að vand­inn myndi bráð­lega hverfa. „Það virð­ist vera að í apr­íl, þú veist, fræði­lega séð, þegar það verður aðeins hlýrra, þá mun þetta fyr­ir­ ­krafta­verk hverfa.“

Síð­ustu daga ­febr­úar sagði hann: „Við höfum algjöra stjórn á þessu“ og að þeir sem hefð­u ­sýkst í Banda­ríkj­unum væru á bata­vegi og að sumir hefðu náð fullri heilsu.

Þegar fjár­mála­mark­að­ir tóku að hrynja var þó eins og hann tæki loks á mál­inu af meiri alvöru. Hann ­byrj­aði þó að því að saka fjöl­miðla um að hafa valdið fári á mörk­uðum og ítrek­að­i að allt myndi „hverfa einn dag­inn, þetta er eins og krafta­verk, þetta mun hverfa“.

Síð­asta dag ­febr­ú­ar­mán­aðar sagði hann svo að bólu­efni yrði til­búið „mjög hratt“ og „mjög fljót­lega“. Í byrjun mars sagði hann svo: „Ég hef ekki nokkrar áhyggj­ur“ og „þetta mun hverfa. Verið bara róleg. Þetta mun hverfa“.

Trump ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi 11. mars og tilkynnti ferðabann frá Evrópu. Hann bað fólk að þvo sér vel um hendurnar.
EPA

Und­an­farna daga má segja að Trump hafi vaknað af Þyrni­rós­ar­svefn­in­um. 11. mars setti hann á ferða­bann frá flestum löndum Evr­ópu og nokkrum dögum síðar var hann far­inn að biðla til fólks að vera heima hjá sér, lofa fjár­hags­að­stoð til fyr­ir­tækja sem ættu í brýnum vanda og fleira í þeim dúr.

Á sama tíma voru yfir­völd í mörgum ríkjum að grípa til harðra aðgerða; loka skólum og ­sam­komu­stöð­um, m.a. veit­inga­húsum og bör­um. Þá var komið annað hljóð í strokk­inn og Trump sagði: „Ég upp­lifði þetta sem heims­far­aldur löngu áður en að þetta var kallað heims­far­ald­ur. Það eina sem þú þurftir að gera var að horfa til ann­arra landa.“

Eins og sjá má af þess­ari sam­an­tekt voru skila­boðin frá Don­ald Trump, for­seta ­Banda­ríkj­anna, lengst af þau að ekk­ert væri að óttast, yfir­völd hefðu stjórn á öllu. Fyrir krafta­verk myndi veiran hverfa.

Hann gerð­i ekki aðeins lítið úr hætt­unni heldur hélt hann oft fram hlutum sem eiga við ­lítil ef nokkur rök að styðj­ast.

Hér verða tínd til fimm mis­vísandi skila­boð for­set­ans sem gætu, þegar litið verður í bak­sýn­is­speg­il­inn, hafa haft mikil áhrif á útbreiðsl­una.

Sýna­tök­ur standa öllum til boða

Snemma í mars­mán­uði sagði Trump að sýna­taka vegna nýju kór­ónu­veirunnar gengi „mjög vel“ og að „allir þeir sem þurfa að fara í próf geta gert það“. Hann sagði prófin „full­kom­in“ og „fal­leg“.

Þetta ­reynd­ist ekki rétt hjá for­set­an­um. Ekki gátu allir sem vildu látið taka sýni og ­reyndar höfðu prófin verið gölluð að ein­hverju leyti og gefið falskar ­nið­ur­stöð­ur. Einn helsti sér­fræð­ingur Banda­ríkj­anna í lýð­heilsu sagði að skimun ­fyrir veirunni í land­inu hefði brugð­ist. „Kerfið getur ekki tek­ist á við það ­sem við þurfum núna – og það sem þið vilj­ið. Þetta er að bregð­ast. Þetta er að bregð­ast. Við skulum horfast í augu við það,“ sagði Ant­hony Fauci er hann mætt­i ­fyrir þing­nefnd í síð­ustu viku. „Sú hug­mynd að allir geti fengið [próf] auð­veld­lega á sama hátt og önnur lönd eru að gera þetta, við erum ekki und­ir­búin fyrir það. Finnst mér að við ættum að vera það? Já. En við erum það ekki.“

Er Trump lýsti svo yfir neyð­ar­á­standi í land­inu fyrir viku sagði hann að það væri „alls ekki“ þörf á því að allir færu í sýna­töku. „Og þetta mun líða hjá,“ bætti hann við.

Á sama tíma brýndi fram­kvæmda­stjóri Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­un­ar­innar enn og aft­ur ­fyrir þjóðum heims að nauð­syn­legt væri að taka sýni úr öllum þeim sem mögu­lega væru með sjúk­dóm­inn. Mik­il­vægt væri að ein­angra alla sem væru sýkt­ir.

Veiran mun hverfa fyrir krafta­verk

Trump hef­ur ít­rekað sagt að yfir­völd hafi stjórn á far­aldr­inum og spáð því að hann mun­i hverfa eins og fyrir krafta­verk. Á sama tíma og tugir manna höfðu greinst í lok ­febr­úar sagði hann að til­fellin væru „ná­lægt því að vera eng­in“. Og bætti við: „Við erum að fara tölu­vert nið­ur, ekki upp.“ Skólar ættu þó að und­ir­búa sig, „svona til örygg­is“. Hann teldi að engum skólum þyrfti að loka.

Þremur vik­um ­síðar höfðu yfir 10 þús­und manns í Banda­ríkj­unum greinst með veiruna í öll­u­m ­ríkjum lands­ins. Lýð­heilsu­sér­fræð­ing­ur­inn Fauci sagði við þing­nefnd­ina í síð­ustu viku: „Sann­leik­ur­inn er sá að þetta á eftir að versn­a.“

Kór­ónu­veiran er svipuð venju­legri inflú­ensu

Nokkrum sinnum á síð­ustu vikum hefur Trump haldið því fram að nýja kór­ónu­veiran væri ­svipuð árs­tíða­bund­inni inflú­ensu­veiru. Þann 9. mars skrif­aði hann á Twitt­er: „Í ­fyrra þá dóu 37.000 Banda­ríkja­menn vegna venju­legrar flensu. Að með­al­tali deyja 27.000 til 70 þús­und á ári [úr inflú­ens­u]. Engu er þá lokað og lífið og efna­hag­ur­inn hefur sinn vana­gang. Hugsið um það!“

Fram­kvæmda­stjóri WHO hefur sagt að miðað við far­ald­ur­inn hingað til sé dán­ar­tíðnin mögu­lega um 3,4%. Í venju­legum inflú­ensu­far­aldri sé dán­ar­tíðnin vel innan við 1%.

Trump seg­ir að þarna fari fram­kvæmda­stjór­inn með rangt mál, þetta séu „fals­aðar töl­ur“.

Sér­fræð­ing­ar ­segja að rangar stað­hæf­ingar sem þessa séu hættu­legar því þetta sendi þau skila­boð til fólks að lítil hætta sé á ferðum og að það þurfi ekki að gera sitt til að stöðva útbreiðsl­una.

Bólu­efni er handan við hornið

Í fyrst­u viku mars hélt Trump því fram að bólu­efni við veirunni yrði búið til fljótt og ör­ugg­lega. Sagð­ist hann hafa heyrt að það yrði til­búið „á innan við mán­uð­u­m“.

Lækn­ir­inn Fauci, sem fer fyrir ofnæm­is- og smit­sjúk­dóma­mið­stöð Banda­ríkj­anna, segir að klínískar próf­anir á bólu­efni séu hafnar en að til að gæta fyllsta öryggis mun­i þær standa yfir í ár. Hann segir að þróun bólu­efna taki alltaf tíma og í þessu til­felli væri verið að tala um 12-18 mán­uði.

„Haldið bara ró ykk­ar. Þetta mun líða hjá,“ sagði Trump um svipað leyti.

Vor­veður mun ­drepa veiruna

For­set­i ­Banda­ríkj­anna hefur líka haldið því fram að mögu­lega hverfi veiran og þar með­ far­ald­ur­inn þegar veður taki að hlýna í vor. Þannig sé því farið með­ in­flú­ens­una. „Það er kenn­ing um það að í apríl þegar það hlýn­ar, sagan seg­ir okk­ur, að það geti drepið veiruna,“ sagði Trump á blaða­manna­fundi í febr­ú­ar. Hann end­ur­tók þetta nokkrum sinnum í kjöl­far­ið.

Lýð­heilsu­sér­fræð­ing­ur­inn Fauci segir að eng­inn viti hvernig veiran muni hegða sér með hlýrra veðri. „Við ­getum vonað að þegar hlýni muni draga úr [far­aldr­in­um] en við getum ekki geng­ið út frá þeirri álykt­un.“

Bruce A­ylward, sér­fræð­ingur hjá WHO, segir að í þessu til­viki sé „ekki hægt að stóla á móður nátt­úru“.

Sér­fræð­ing­ur ABC frétta­stöðv­ar­innar í heil­brigð­is­mál­um, lækn­ir­inn Jenni­fer Asthton, segir að engin krist­als­kúla sé til staðar til að spá fyrir um þetta. „Ég segi alltaf að í lækn­is­fræði og vís­indum verðum við að byggja allt á stað­reynd­um, ekki ótta, og á sönn­un­um, ekki til­finn­ing­um.“ 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar