EPA

Fimm misvísandi skilaboð Donalds Trump – og nokkur til

Við höfum stjórn á þessu. Algjöra stjórn. Takið því bara rólega, þetta mun hverfa. Þetta mun hverfa fyrir kraftaverk. Leiðtogi hins vestræna heims gerði frá upphafi lítið úr faraldrinum og sendi misvísandi og röng skilaboð til þjóðarinnar.

Það er 22. janúar og árið er 2020. Joe Kernen, fréttamaður CNBC, tekur viðtal við Donald Trump Bandaríkjaforseta á ráðstefnunni í Davos eftir að fyrsti Bandaríkjamaðurinn greinist með nýju kórónuveiruna.

Kernen: Eru einhverjar áhyggjur af heimsfaraldri á þessum tímapunkti?

Trump: Nei, alls ekki. Og við höfum algjöra stjórn á þessu. Þetta er ein manneskja sem var að koma frá Kína og við höfum algjörlega stjórn á þessu. Þetta verður allt í lagi.

Þetta var í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna tjáði sig opinberlega um COVID-19, farsóttina skæðu sem hafði þá þegar lamað hagkerfi Hubei-héraðs og fleiri svæða í Kína og greinst í fjórum öðrum löndum. Veiran lét fyrst á sér kræla í borginni Wuhan og fyrsta dauðsfallið af hennar völdum var staðfest í byrjun janúar.

Trump hélt hins vegar sínu striki og gerði lítið úr hættunni næstu vikur og mánuði. Allt var  í himnalagi.

Fyrsti Bandaríkjamaðurinn greindist með COVID-19 í Washington-ríki. Það átti svo eftir að verða auga faraldursins þar í landi en í dag hefur veiran greinst í öllum ríkjum landsins og í morgun höfðu að minnsta kosti 217 látist af völdum hennar.

Sama dag og Trump tjáði sig í fyrsta skipti um kórónuveiruna skrifaði Tom Frieden, fyrrverandi forstjóri Miðstöðvar sjúkdómavarna í Bandaríkjunum, grein þar sem stóð: „Við verðum að læra – og það hratt – um hvernig útbreiðslan verður.“

Sögðu sýnatökur nauðsynlegar

Margir sérfræðingar til viðbótar tjáðu sig um málið strax í janúar og vöruðu við aðsteðjandi hættu. Þeir bentu flestir á nauðsyn þess að undirbúa umfangsmikla sýnatöku. „Bregðumst við núna til að koma í veg fyrir faraldur í Bandaríkjunum,“ skrifaðu tveir fyrrverandi ráðgjafar Trumps, Luciana Borio og Scott Gottlieb, í grein í Wall Street Journal. „Ef heilbrigðisyfirvöld ná ekki að hægja á útbreiðslunni sem fyrst þá gæti veiran sýkt fleiri þúsundir manna til viðbótar um allan heim, truflað flugsamgöngur og drekkt heilbrigðiskerfum, og það versta af öllu – heimt fleiri mannslíf.“

En þetta virtist ekki bíta á forsetanum. Þann 24. janúar skrifaði hann á Twitter: „Þetta mun allt fara vel.“ Nokkrum dögum síðar deildi hann falsfrétt á Twitter-síðu sína þar sem fram kom að fyrirtækið Johnson & Johnson væri byrjað að þróa bóluefni. Og nokkrum dögum eftir það flutti hann ræðu í Michigan-ríki og sagði: „Við erum með góða stjórn á þessu. Vandamálið er mjög lítið hér í landinu – aðeins fimm [hafa greinst með veiruna]. Og allt þetta fólk er að jafna sig.“

Donald Trump hefur ítrekað það á blaðamannafundum síðustu mánuði að ekkert sé að óttast.
EPA

Sama dag lýsti Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) yfir neyðarástandi vegna faraldursins. Þá höfðu tæplega 8.000 smit verið staðfest í heiminum.

Sólarhring síðar hafði tónninn breyst hjá forsetanum. Hann tilkynnti að fólk sem væri að koma frá Kína yrði almennt ekki hleypt inn í landið. Undantekning var þó á þessu sem dró verulega úr gagnseminni. Bandaríkjamönnum sem höfðu verið í Kína var til dæmis leyft að koma heim. Og þó að aðgerðin hefði verið nokkuð róttæk sagðist Trump enn rólegur yfir þessu öllu saman. „Sko, við höfum lokað fyrir að þetta komi frá Kína. Við eigum í gríðarlega miklu sambandi við Kína, sem er mjög jákvætt. Okkur kemur vel saman við Kína, okkur kemur vel saman við Rússland, okkur kemur vel saman við önnur lönd.“

Þegar þarna var komið höfðu tæplega 15 þúsund manns í heiminum greinst með veiruna.

Vorið mun laga allt

Áfram hélt Trump að gera lítið úr vandanum. Hann hélt því ítrekað fram á fundum og í viðtölum að vandinn myndi bráðlega hverfa. „Það virðist vera að í apríl, þú veist, fræðilega séð, þegar það verður aðeins hlýrra, þá mun þetta fyrir kraftaverk hverfa.“

Síðustu daga febrúar sagði hann: „Við höfum algjöra stjórn á þessu“ og að þeir sem hefðu sýkst í Bandaríkjunum væru á batavegi og að sumir hefðu náð fullri heilsu.

Þegar fjármálamarkaðir tóku að hrynja var þó eins og hann tæki loks á málinu af meiri alvöru. Hann byrjaði þó að því að saka fjölmiðla um að hafa valdið fári á mörkuðum og ítrekaði að allt myndi „hverfa einn daginn, þetta er eins og kraftaverk, þetta mun hverfa“.

Síðasta dag febrúarmánaðar sagði hann svo að bóluefni yrði tilbúið „mjög hratt“ og „mjög fljótlega“. Í byrjun mars sagði hann svo: „Ég hef ekki nokkrar áhyggjur“ og „þetta mun hverfa. Verið bara róleg. Þetta mun hverfa“.

Trump ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi 11. mars og tilkynnti ferðabann frá Evrópu. Hann bað fólk að þvo sér vel um hendurnar.
EPA

Undanfarna daga má segja að Trump hafi vaknað af Þyrnirósarsvefninum. 11. mars setti hann á ferðabann frá flestum löndum Evrópu og nokkrum dögum síðar var hann farinn að biðla til fólks að vera heima hjá sér, lofa fjárhagsaðstoð til fyrirtækja sem ættu í brýnum vanda og fleira í þeim dúr.

Á sama tíma voru yfirvöld í mörgum ríkjum að grípa til harðra aðgerða; loka skólum og samkomustöðum, m.a. veitingahúsum og börum. Þá var komið annað hljóð í strokkinn og Trump sagði: „Ég upplifði þetta sem heimsfaraldur löngu áður en að þetta var kallað heimsfaraldur. Það eina sem þú þurftir að gera var að horfa til annarra landa.“

Eins og sjá má af þessari samantekt voru skilaboðin frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, lengst af þau að ekkert væri að óttast, yfirvöld hefðu stjórn á öllu. Fyrir kraftaverk myndi veiran hverfa.

Hann gerði ekki aðeins lítið úr hættunni heldur hélt hann oft fram hlutum sem eiga við lítil ef nokkur rök að styðjast.

Hér verða tínd til fimm misvísandi skilaboð forsetans sem gætu, þegar litið verður í baksýnisspegilinn, hafa haft mikil áhrif á útbreiðsluna.

Sýnatökur standa öllum til boða

Snemma í marsmánuði sagði Trump að sýnataka vegna nýju kórónuveirunnar gengi „mjög vel“ og að „allir þeir sem þurfa að fara í próf geta gert það“. Hann sagði prófin „fullkomin“ og „falleg“.

Þetta reyndist ekki rétt hjá forsetanum. Ekki gátu allir sem vildu látið taka sýni og reyndar höfðu prófin verið gölluð að einhverju leyti og gefið falskar niðurstöður. Einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í lýðheilsu sagði að skimun fyrir veirunni í landinu hefði brugðist. „Kerfið getur ekki tekist á við það sem við þurfum núna – og það sem þið viljið. Þetta er að bregðast. Þetta er að bregðast. Við skulum horfast í augu við það,“ sagði Anthony Fauci er hann mætti fyrir þingnefnd í síðustu viku. „Sú hugmynd að allir geti fengið [próf] auðveldlega á sama hátt og önnur lönd eru að gera þetta, við erum ekki undirbúin fyrir það. Finnst mér að við ættum að vera það? Já. En við erum það ekki.“

Er Trump lýsti svo yfir neyðarástandi í landinu fyrir viku sagði hann að það væri „alls ekki“ þörf á því að allir færu í sýnatöku. „Og þetta mun líða hjá,“ bætti hann við.

Á sama tíma brýndi framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar enn og aftur fyrir þjóðum heims að nauðsynlegt væri að taka sýni úr öllum þeim sem mögulega væru með sjúkdóminn. Mikilvægt væri að einangra alla sem væru sýktir.

Veiran mun hverfa fyrir kraftaverk

Trump hefur ítrekað sagt að yfirvöld hafi stjórn á faraldrinum og spáð því að hann muni hverfa eins og fyrir kraftaverk. Á sama tíma og tugir manna höfðu greinst í lok febrúar sagði hann að tilfellin væru „nálægt því að vera engin“. Og bætti við: „Við erum að fara töluvert niður, ekki upp.“ Skólar ættu þó að undirbúa sig, „svona til öryggis“. Hann teldi að engum skólum þyrfti að loka.

Þremur vikum síðar höfðu yfir 10 þúsund manns í Bandaríkjunum greinst með veiruna í öllum ríkjum landsins. Lýðheilsusérfræðingurinn Fauci sagði við þingnefndina í síðustu viku: „Sannleikurinn er sá að þetta á eftir að versna.“

Kórónuveiran er svipuð venjulegri inflúensu

Nokkrum sinnum á síðustu vikum hefur Trump haldið því fram að nýja kórónuveiran væri svipuð árstíðabundinni inflúensuveiru. Þann 9. mars skrifaði hann á Twitter: „Í fyrra þá dóu 37.000 Bandaríkjamenn vegna venjulegrar flensu. Að meðaltali deyja 27.000 til 70 þúsund á ári [úr inflúensu]. Engu er þá lokað og lífið og efnahagurinn hefur sinn vanagang. Hugsið um það!“

Framkvæmdastjóri WHO hefur sagt að miðað við faraldurinn hingað til sé dánartíðnin mögulega um 3,4%. Í venjulegum inflúensufaraldri sé dánartíðnin vel innan við 1%.

Trump segir að þarna fari framkvæmdastjórinn með rangt mál, þetta séu „falsaðar tölur“.

Sérfræðingar segja að rangar staðhæfingar sem þessa séu hættulegar því þetta sendi þau skilaboð til fólks að lítil hætta sé á ferðum og að það þurfi ekki að gera sitt til að stöðva útbreiðsluna.

Bóluefni er handan við hornið

Í fyrstu viku mars hélt Trump því fram að bóluefni við veirunni yrði búið til fljótt og örugglega. Sagðist hann hafa heyrt að það yrði tilbúið „á innan við mánuðum“.

Læknirinn Fauci, sem fer fyrir ofnæmis- og smitsjúkdómamiðstöð Bandaríkjanna, segir að klínískar prófanir á bóluefni séu hafnar en að til að gæta fyllsta öryggis muni þær standa yfir í ár. Hann segir að þróun bóluefna taki alltaf tíma og í þessu tilfelli væri verið að tala um 12-18 mánuði.

„Haldið bara ró ykkar. Þetta mun líða hjá,“ sagði Trump um svipað leyti.

Vorveður mun drepa veiruna

Forseti Bandaríkjanna hefur líka haldið því fram að mögulega hverfi veiran og þar með faraldurinn þegar veður taki að hlýna í vor. Þannig sé því farið með inflúensuna. „Það er kenning um það að í apríl þegar það hlýnar, sagan segir okkur, að það geti drepið veiruna,“ sagði Trump á blaðamannafundi í febrúar. Hann endurtók þetta nokkrum sinnum í kjölfarið.

Lýðheilsusérfræðingurinn Fauci segir að enginn viti hvernig veiran muni hegða sér með hlýrra veðri. „Við getum vonað að þegar hlýni muni draga úr [faraldrinum] en við getum ekki gengið út frá þeirri ályktun.“

Bruce Aylward, sérfræðingur hjá WHO, segir að í þessu tilviki sé „ekki hægt að stóla á móður náttúru“.

Sérfræðingur ABC fréttastöðvarinnar í heilbrigðismálum, læknirinn Jennifer Asthton, segir að engin kristalskúla sé til staðar til að spá fyrir um þetta. „Ég segi alltaf að í læknisfræði og vísindum verðum við að byggja allt á staðreyndum, ekki ótta, og á sönnunum, ekki tilfinningum.“ 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar