EPA

Borgirnar þagna

Margar stórborgir heims virðast nú mannlausar, eru eyðilegar. Það er varla nokkur sála á ferli. Mannlífið er horfið og þó að vorið sé að vakna víða í vesturheimi verður bið á því að við fáum að njóta þess með sama hætti og áður.

Múgur og margmenni. Mannmergð. Þröng á þingi. Ys og þys. Kraðak. Aragrúi. Herskari fólks.

Fjöldinn allur af borgum víðs vegar um heiminn þykir svo áhugaverður að þangað þyrpast milljónir manna ár hvert til þess eins að berja dýrðina augum. Dýrð borganna getur tekið á sig ýmsar og ólíkar myndir. Hún getur falist í frægum listasöfnum, stórkostlegum byggingum, spræku leikhús- og tónlistarlífi, framandi matargerð. Hún getur falist í sögunni, menningunni, hefðunum og siðunum.

Borgirnar eru svo margar – svo ólíkar. Svo hrífandi – svo lifandi. En það er fyrst og fremst eitt sem dregur okkur að þeim öllum: Fólkið.

Brosandi fólk. Hlæjandi fólk. Syngjandi fólk. Dansandi fólk. Fólk að vinna. Leiðast, faðmast, kyssast. Fólk að elda, borða, drekka. Lifa.

Fólkið er nú farið af götunum og torgin eru tóm. Leikhúsin og söfnin líka. Taktfast fótatak á steinlögðum stéttum hefur þagnað. Það er hljótt, enginn kliður.

Borgirnar virðast mannlausar, eru eyðilegar. Það er varla nokkur sála á ferli. Mannlífið er horfið og þó að vorið sé að vakna víða í vesturheimi verður bið á því að við fáum að njóta þess með sama hætti og áður.

En þetta er allt þarna enn þá. Allar glæsilegu byggingarnar, verslanirnar, barirnir og veitingahúsin, gosbrunnarnir, stytturnar og listilega byggðar brýrnar. Allt bíður þetta eftir því að lítil veira með krans um sig miðja missi þróttinn og gefist upp.

EPA

San Salvador innan um eldfjöllin

San Salvador er höfuðborg Mið-Ameríku ríkisins El Salvador. Borgin er nokkuð hátt yfir sjávarmáli og umkringd eldfjöllum. Þar var hart barist í borgarastyrjöldinni á síðari hluta 20. aldar en síðari ár hefur hún dregið að fjölda ferðamanna og er auk þess menningar- og fjármálakjarni landsins.

22. mars 2020: Hundruð dúfna sitja á Gerardo Barrios-torginu í  San Salvador. Í El Salvador hefur útgöngubann verið sett á.

EPA

Litasprengjan Barcelona

Loftslagið er svo blítt í spænsku borginni Barcelona. Og sandurinn á ströndunum svo mjúkur og hlýr. Auðugt listalíf og allar þessar guðdómlega fögru byggingar láta engan gest ósnortinn. Skringilegu húsin hans Gaudí lyfta andanum og þröngu göturnar í gamla miðbænum, þar sem fjölmörg veitingahús er að finna, eru eins og leikmynd í kvikmynd.

23. mars 2020: Boqueria-markaðurinn í Barcelona er mannlaus á tíunda degi allsherjarlokunar í borginni.

EPA

Lífið í og undir London

London, höfuðborg Bretlands, á sér tvö þúsund ára langa sögu og fortíðin er þar næstum því áþreifanleg. Áin Thames og brýrnar yfir hana hafa svo oft sést í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum að þeir sem heimsækja London í fyrsta sinn rata næstum því um hana. Lífið er svo ekki síst neðanjarðar. Lestarkerfi undir götunum og öllum sögufrægu byggingunum er rúmlega 400 kílómetrar að lengd.

23. mars 2020: Fjórar konur, líklega ferðamenn, með andlitsgrímur fyrir framan Eros-styttuna í Piccadilly Circus í London, daginn fyrir allsherjar útgöngubann. Barir, veitingahús, líkamsræktarstöðvar og fleira er nú lokað og allir eiga að halda sig heima.

EPA

Undur Dresden

Fyrir heimsstyrjöldina síðari var þýska borgin Dresden kölluð „skartgripaskrínið“ því þar var að finna fjölskrúðugt listalíf og glæstar byggingar. Í loftárásum stríðsins voru margar þeirra jafnaðar við jörðu og aðrar skemmdust mikið. Endurbætur stóðu í áratugi og ferðamenn koma þangað til að skoða sig um og njóta nálægðarinnar við Saxelfur, ána sem rennur um borgina.

22. mars 2020: Hjólreiðamaður fer yfir Bláa undrið, brú í Dresden, að kvöldlagi. Í Þýskalandi er fleiri en tveimur bannað að koma saman nema að þeir séu úr sömu fjölskyldunni.

EPA

Feneyjar: Drottning Adríahafsins

Allir þekkja nafnið Feneyjar, borgarinnar á Norðaustur-Ítalíu. Sérstaða hennar er mikil; hún teygir sig yfir fjölda lítilla eyja í Feneyjalóninu og á milli þeirra eru síki. Flestir íbúarnir ferðast milli borgarhluta með almenningsbátum en ferðamenn fara um borð í gondólana sem róið er um síkin og hafa löngum verið ímynd rómantíkur.

22. mars 2020: Gondólarnir í Feneyjum liggja við bryggjur. Vatnið í síkjunum er að verða tært eftir að ferðamönnum var meinað að koma þangað og það gruggast ekki lengur í kjölfari smábátanna vinsælu.

EPA

Manilla – paradís karókí-söngvarans

Höfuðborg Asíuríkisins Filippseyja er þekkt fyrir blómlegt næturlíf. Það eru karókí-barir á hverju götuhorni og enginn skammast sín fyrir að stíga þar á stokk. Hún er líka þekkt fyrir miklar umferðarteppur. Það vandamál er í augnablikinu úr sögunni.

24. mars 2020: Heimilislausir Filippseyingar fá skjól í íþróttahúsi í Manilla. Þingið hefur veitt forsetanum Rodrigo Duterte enn meiri völd vegna neyðarástandsins sem lýst hefur verið yfir í landinu.

EPA

Strandlíf og menning í Sydney

Það ættu allir að heimsækja áströlsku stórborgina Sydney að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni, segir á mörgum ferðasíðum á netinu. Hún er ekki aðeins þekkt fyrir óperuhúsið glæsilega og Hafnarbrúna sérstæðu heldur einnig fyrir fjörugt strandlíf. Eftir skoðunarferð um borgina er upplagt að setjast niður við hafið, sóla sig í stundarkorn eða fá sér drykk á næsta strandbar. Saga Sydney er líka áhugaverð. Það var þar sem kapteinn Cook kom að landi og landnám Breta í Ástralíu hófst.

22. mars 2020: Bondi-ströndin í Sydney er alla jafna þakin sóldýrkendum á þessum árstíma. Þangað koma líka margir til að baða sig í heitum sjónum, ganga eða skokka. Ströndinni hefur nú verið lokað og ýmis samkomubönn tekið gildi.

EPA

Framsýnin við völd í Curitiba

Curitiba í suðurhluta Brasilíu er meðal annars kunn fyrir einstakt borgarskipulag þar sem áhersla er lögð á græn svæði. Þar var miðbænum strax á sjötta áratugnum breytt í göngugötur. Borgaryfirvöld voru líka á undan sinni samtíð þegar kom að endurvinnslu og að hlúa að heimilislausum.

21. mars 2020: Prestur í Curitiba predikar yfir myndum af safnaðarbörnum sínum. Hann hvatti þau til að vera heima en að senda sér myndir í tölvupósti. Nú þegar hefur hann fengið yfir 170 þúsund myndir.

EPA

París er borg ástarinnar

París þarf vart að kynna. Íslendingar fara þar í þúsundatali ár hvert til að njóta menningar, lista og hinnar þekktu frönsku matargerðar. París hefur löngum verið kölluð borg ástarinnar og við Eiffel-turninn fagra eru bónorð (alla jafna) borin fram daglega.

23. mars 2020: Maður með plastpoka fyrir vitunum gluggar í bók við Eiffel-turninn í París. Í Frakklandi hafa útgöngubönn verið sett á.

EPA

Los Angeles er borg engla og drauma

Hún er kannski ekkert sérstaklega spennandi þegar kemur að arkítektúr en hin sólríka Los Angeles bætir það upp með ýmsum öðrum hætti. Tískuverslanir í löngum röðum á hverri götu höfða til sumra, ríkra manna hverfin til annarra en strendurnar til flestra. Los Angeles, borg englanna, er einnig oft kölluð borg draumanna enda er þar mekka kvikmyndaiðnaðarins í Bandaríkjunum að finna, sjálfa Hollywood.

21. mars 2020: Lítil umferð er á götum bílaborgarinnar Los Angeles eftir að ríkisstjórinn fyrirskipaði borgarbúum að halda sig heima.

EPA

Útsýnið í Lissabon

Lissabon, höfuðborg Portúgals, er stundum kölluð San Francisco Evrópu. Það þarf þó ekkert að tengja hana við aðra borg, hún er sérstök á sinn eigin hátt. Hún er hafnarborg og teygir byggðin sig upp í hæðir allt í kring. Veitingahúsin eru þekkt fyrir einstaka sjávarrétti og verðlagið er lágt miðað við aðrar evrópskar borgir. Lissabon er ein af þessum fullkomnu borgum til að njóta menningar, fara í gönguferðir og slappa af á ströndinni – allt í einni og sömu ferðinni.

22. mars 2020: Bráðabirgðasjúkrahúsi komið upp í Portúgal. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í landinu.

EPA

Katmandú við rætur Himalaja-fjalla

Katmandú, höfuðborg Nepals, er í um 1.300 metra yfir sjávarmáli. Hún er þó engu að síður í dal að nepölskum mælikvarða því allt umhverfis hana rísa Himalaja-fjöllin. Borgin er þekkt fyrir líflegar og litskrúðugar trúarsamkomur. Margar byggingar hennar eyðilögðust í jarðskjálftanum mikla árið 2015 en unnið hefur verið að endurbótum.

23. mars 2020: Maður gengur um annars tómar götur Katmandú. Neyðarástand ríkir og allt er lokað í að minnsta kosti sjö daga.

EPA

Bleiku kirsuberjatrén í Tókýó

Tókýó er höfuðborg Japans. Hún er ekki aðeins áhugaverð fyrir áhugafólk um tækni og vísindi heldur einnig þá sem unna fegurð náttúrunnar. Kirsuberjatrén með sínum fögru blómum draga margan ferðamanninn að á vorin. Þau eru ekki lengi í blóma, aðeins í um viku ár hvert.

22. mars 2020: Par lyftir barni sínu upp að blómstrandi kirsuberjatrjánum í Tókýó. Yfirvöld hafa hvatt gesti til að draga úr skoðanaferðum í hópum að trjánum fögru sem eru einmitt núna í miklum blóma. Vorboðinn ljúfi í austri.

EPA

New York, New York

New York er suðupottur fjölmenningar. Hvað sem þig langar að borða, hvað sem þig langar að sjá – New York mun ekki valda þér vonbrigðum. Hverfin fimm, sem öll hafa sín sérkenni, eru hvert útaf fyrir sig heimsóknarinnar virði. Skýjakljúfarnir gnæfa hátt til himins á Manhattan og byggingar sem áður voru þær hæstu í heimi, Empire State og Chyrsler-byggingin, virðast lágreistar í samanburðinum.

23. mars 2020: Hjólreiðamaður hjólar yfir Time Square í New York. Allri starfsemi í borginni hefur verið hætt nema þeirri sem telst brýn. Borgin er nú miðja faraldursins í Bandaríkjunum.

EPA

Sólskinsborgin Madrid

Veðrið er gott í Madrid, höfuðborg Spánar, allt árið um kring. Hún er spænsk í gegn og þangað fara ferðamenn til að kynnast hinni „raunverulegu“ spænsku menningu. Matargerð er þar í hávegum höfð og byggingar frá 15. öld bjóða upp á ferðalag aftur í tímann. Og aftur að veðrinu: Madrid er sólríkasta borg Evrópu, þar skín sú gula í yfir 300 daga á ári.

23. mars 2020: Starfsmaður hjúkrunarheimilis í Madrid gægist út á milli gluggatjaldanna. Spánverjar mega ekki fara út af heimilum sínum nema að brýna nauðsyn beri til.

EPA

Gestrisnin í Róm

Róm á Ítalíu er líkt og París í hugum margra sérlega rómantísk borg. Hún er ein sú elsta í Evrópu enda var hún í þúsundir ára miðpunktur heimsvelda hvers tíma. Sagan, listirnar, arkítektúrinn. Allt þetta lokkar forvitið fólk til sín. En það gera íbúar Rómar líka enda hafa kannanir sýnt að þeir eru meðal gestrisnustu borgarbúa Evrópu.

23. mars 2020: Mannlaus miðbær Rómar á Ítalíu. Lögreglu- og hermenn standa vörð um útgöngubönn sem sett hafa verið á. Ítalir eiga að halda sig heima og flest er lokað utan matvöruverslana og apóteka.

EPA

Mumbai er borg draumanna

Indverska borgin Mumbai er ein sú þéttbýlasta í heimi. Járnbrautin sem um hana liggur flytur alla jafna fleiri farþega á hvern kílómetra en allar aðrar járnbrautir í heiminum. Ferðamenn heimsækja Mumbai meðal annars til að verða vitni að hinni gríðarlegu mannmergð, þar sem ilmur af krydduðum mat og hróp og köll sölumanna renna saman í stórkostlega upplifun. En í henni fær náttúran líka að njóta sín og í Sanjay Gandhi-þjóðgarðinum fyllir blómaangan og fuglasöngur loftið. Þar búa líka tígrisdýr.

23. mars 2020: Íbúar fjölbýlishúss í Mumbai klappa og berja í potta og pönnur á svölum sínum. Forsætisráðherrann bað fólk að halda sig alfarið heima og þakka heilbrigðisstarfsfólki fyrir vel unnin störf klukkan fimm síðdegis alla daga með þessum hætti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiErlent