EPA

Þýsku leiðinni svipar til þeirrar íslensku – margir greinst en dánartíðni enn lág

Þrátt fyrir að staðfestum smitum fjölgi hratt í Þýskalandi og að 239 hafi látist þar í landi úr COVID-19 hafa yfirvöld boðist til að taka við ítölskum og frönskum sjúklingum. Dánartíðni er lægri í Þýskalandi en mörgum löndum.

Samkvæmt upplýsingum rannsóknarstofnunar Johns Hopkins hafa rúmlega 511 þúsund smit af nýju kórónuveirunni verið staðfest í heiminum. Flest greind smit eru í Kína, þá á Ítalíu og svo í Bandaríkjunum. Langflest dauðsföll hafa orðið á Ítalíu eða 8.215. Næstflest eru dauðsföllin á Spáni og eru þau orðin tæplega þúsund fleiri en í Kína.

Í Þýskalandi hafa verið staðfest tæplega 44 þúsund smit og 239 dauðsföll. Í gær, miðvikudag, voru fimmtíu dauðsföll rakin til COVID-19 og er það langmesti fjöldi á einum degi hingað til.

Þýskir stjórnmálamenn hafa sagt faraldurinn „mestu áskorun“ landsins frá síðari heimsstyrjöld. Þar hefur verið gripið til harðra aðgerða og mega ekki fleiri en tveir koma saman séu þeir ekki úr sömu fjölskyldu. Veirufræðingar vona að þetta muni hægja á útbreiðslunni en árangurinn mun þó ekki sjást strax. 

Sextán sambandslönd mynda Þýskaland og hafa nokkur síðustu daga boðist til að taka við sýktum einstaklingum frá nágrannaríkjunum, m.a. Ítalíu og Frakklandi. Segja heilbrigðisyfirvöld sambandslandanna að á meðan aðstæður leyfi vilji þau gjarnan fá til sín erlenda sjúklinga til meðferðar á sjúkrahúsum. Þannig vilja þau sýna samstöðu með öðrum löndum þar sem faraldurinn er skæðari. „Við viljum hjálpa með því að taka við sjúklingum frá Ítalíu,“ sagði Michael Müller, borgarstjóri í Berlín í útvarpsviðtali fyrr í vikunni.

Þegar hafa nokkrir franskir og ítalskir sjúklingar verið fluttir til Þýskalands.

Ástæðan fyrir því að þýsk yfirvöld eru að bregðast við með þessum hætti er að þrátt fyrir að mörg smit hafi greinst í landinu, með því mesta sem þekkist í heiminum, hafa dauðsföllin verið tiltölulega fá. Á Ítalíu er dánartíðni miðað við fjölda staðfestra smita um tíu prósent og í Frakklandi er hún um fimm prósent. En í Þýskalandi er hún hins vegar aðeins um 0,55 prósent, miðað við staðfestar tölur dagsins í dag. 

Einn á hjóli yfir brú í Dresden.
EPA

En hvernig má það vera? Hvaða aðferðum hafa Þjóðverjar beitt í faraldrinum?

Sérfræðingar í smitsjúkdómum segja að helsta skýringin felist í því að síðan fyrstu smitin voru greind í Þýskalandi hefur verið brugðist við með því að taka sýni, rekja og einangra fólk og setja í sóttkví. Þar er sem sagt notast við svipaðar aðferðir og íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa beitt. Þannig gefa tölur frá Þýskalandi mögulega sannari mynd af faraldrinum en mörg önnur lönd sem aðeins eru að taka sýni hjá þeim sem eru í viðkvæmustu hópunum, sýna einkenni eða teljast af öðrum ástæðum mögulega sýktir.

Sjúkrahús í Þýskalandi ráða því enn sem komið er vel við álagið. Ekki er hægt að slá því föstu að svo verði áfram enda breytast spár um útbreiðslu faraldursins þar dag frá degi líkt og hér á landi. Þýsk stjórnvöld vonast þó til að faraldurinn verði ekki jafn skæður og á Spáni og Ítalíu.

Staðfestum smitum fjölgaði hægt í fyrstu í Þýskalandi og því var smitrakning sem gripið var til nokkuð auðveld, segir Reinhard Busse, forseti heilbrigðisvísindadeildar Tækniháskólans í Berlín, í samtali við Washington Post. Frá upphafi var svo einangrun og sóttkví beitt kerfisbundið.

Aðallestarstöðin í Berlín er nær mannlaus.
EPA

Þá skiptir aldur þeirra sem hafa greinst einnig miklu sem og hversu fljótt þýsk yfirvöld gripu til aðgerða. En lykilatriðið hefur verið að taka sýni. Taka mjög mörg sýni.

Í Frakklandi eru dauðsföllin orðin rúmlega 1.300 af tæplega 26 þúsund sem greinst hafa með veiruna. Í Þýskalandi hafa tæplega 20.000 fleiri greinst og séu aðeins tölur um staðfest smit borin saman mætti ætla að faraldurinn sé útbreiddari í Þýskalandi. En fjöldi dauðsfalla í Frakklandi er mun meiri og því telja sérfræðingar að samfélagssmit þar sé útbreiddara en í Þýskalandi.

Vandað til verka í smitrakningu

Allt frá fyrstu tilfellum sem greindust röktu þýsk heilbrigðisyfirvöld smitin af vandvirkni og settu alla þá sem átt höfðu í samskiptum við hinn sýkta í sóttkví. Þar með tókst þeim að rjúfa smitkeðjur sem annars hefðu farið af stað. Í byrjun voru sömu greiningarviðmið notuð í Þýskalandi og á Ítalíu og víðar. Þeir sem voru að koma frá hááættusvæðum voru sendir í sýnatöku. Í byrjun mars var hins vegar gefið í hvað varðar sýnatökurnar í Þýskalandi. Fyrstu viku marsmánaðar voru 35 þúsund sýni tekin og í annarri vikunni voru þau um 100 þúsund.

Þetta eru sömu aðferðir og beitt hefur verið á Íslandi frá upphafi. Þær hafa að öllum líkindum gert það að verkum að færri hafi smitast en hætta var á. Síðustu tvo sólarhringa hafa um 60 prósent nýrra smita hér á landi greinst hjá fólki sem þegar er í sóttkví og hlutfallið var um 50 prósent dagana þar á undan. 

Auglýsing

Christian Drosten, veirufræðingur við Charité-sjúkrahúsið í Berlín, telur að greiningar- og rakningaraðferðirnar hafi veitt þýskum heilbrigðisyfirvöldum gott forskot í því að hemja útbreiðslu faraldursins. Hann segir þó of snemmt að fagna og að dánartíðnin muni hækka þegar líður að hámarki faraldursins. „Við verðum engin undantekning þegar að því kemur.“

Nú þegar nokkuð er liðið frá því að fyrstu smit voru greind í landinu hefur ekki tekist að halda smitrakningunni jafn ítarlega áfram og í fyrstu var gert. Þá hefur einnig reynst ómögulegt að taka sýni úr öllum þeim sem sækjast eftir því.

Samanburður ekki að fullu tímabær

Í Suður-Kóreu, sem er orðin ein helsta dæmisagan um áhrifaríkar aðgerðir gegn veirufaraldrinum, er dánartíðnin um 1,2 prósent eða nokkru hærri en í Þýskalandi. Enn eru tölurnar ekki sambærilegar þar sem faraldurinn braust fyrr út í Asíu. Yfirvöld í báðum löndunum brugðust þó bæði snemma við og með svipuðum aðferðum.

Líklega væri nær að bera Þýskaland saman við Noreg þar sem ríkin eru á svipuðum stað í faraldrinum. Í Noregi er dánartíðnin um 0,4 prósent.

Og svo er það aldur þeirra sem hafa greinst. Fyrstu tilfellin í Þýskalandi voru greind meðal ungs fólks sem var að koma heim úr fríi. Ungt fólk fær síður en það eldra alvarleg einkenni COVID-19 og er því ekki í jafnmikilli áhættu. Þetta telja faraldsfræðingar mögulega skýringu á lágri dánartíðni enn sem komið er. Það gæti hins vegar allt átt eftir að breytast.

Dánartíðnin enn ráðgáta

Dánartíðnin helst svo einnig í hendur við það hversu vel – eða illa – heilbrigðisþjónusta hvers lands er í stakk búin að takast á við faraldurinn. Þegar þykir ljóst að á Spáni og Ítalíu muni fleiri deyja vegna þess að sjúkrahús eru orðin yfirfull og því ekki hægt að sinna sjúklingum eins vel og best hefði verið á kosið. Einn mælikvarði er svo fjöldi gjörgæslurúma og öndunarvéla miðað við höfðatölu. Sé honum beitt er Þýskaland betur sett en flest ríki Evrópu.

En í faraldri sem þessum, þar sem brugðist er við með ólíkum hætti og þar sem enn er margt á huldu um útbreiðsluna, er varhugavert að fara í of mikinn samanburð á milli landa. „Í hreinskilni sagt þá vitum við enn of lítið,“ segir Richard Pebody, sérfræðingur hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. „Dánartíðnin er enn ráðgáta.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar