Persónuleg barátta Boris Johnson við kórónuveiruna
Samstarfsmenn Boris Johnson sögðu hann „kátan“, aðeins hafa „væg einkenni“ og áfram „stýra landinu“ jafnvel eftir að hann var lagður inn á sjúkrahús í byrjun vikunnar. Johnson er nú á gjörgæslu og fær súrefni til að hjálpa honum að ná andanum.
Kvíði vaknaði meðal Breta er fréttir bárust af því í byrjun viku að forsætisráðherrann Boris Johnson hefði verið lagður inn á gjörgæsludeild, alvarlega veikur af COVID-19. Hvort sem fólk hafði kosið hann eða ekki var flestum illa brugðið.
Það er eðlilegt. Þó að Johnson sé umdeildur stjórnmálamaður er hann sá sem hefur það hlutverk að leiða þjóðina á erfiðum tímum í heimsfaraldri. Hann er sá sem völdin hefur og þarf að taka erfiðar og flóknar ákvarðanir sem hafa áhrif á daglegt líf allra samborgaranna. Hann er leiðtoginn, í forystu, sterkur og hraustur – stoð almennings og stytta.
En stríð hans gegn veirunni er nú orðið mjög persónulegt. Þegar hann veiktist alvarlega rann ákveðinn sannleikur loks upp fyrir mörgum: Við erum öll á sama báti. Veiran spyr hvorki um stétt né stöðu.
Annað olli svo sumum kvíða. Hver átti að leysa hann af? Íhaldsflokkur Boris Johnson var kosinn til valda einmitt út af Boris Johnson. Hans persónu, hans stefnu.
Ekki hafa allir verið á eitt sáttir um viðbrögð Johnsons við faraldrinum. Í fyrsta lagi þótti hann taka seint við sér. Í öðru lagi ollu skilaboð hans ruglingi og stundum ótta. Það gerðist t.d. þegar hann sagði í sjónvarpsviðtali í byrjun mars að „ein kenningin“ væri sú að „kannski ætti fólk að bjóða veirunni vangann“ – leyfa faraldrinum að hafa sinn gang og „fara um samfélagið án þess að grípa til margra strangra aðgerða“.
Fjölmiðlar gripu orð hans á lofti, töluðu við faraldsfræðinga sem sögðu að til að ná hjarðónæmi þyrfti jafnvel sextíu prósent þjóðarinnar að smitast. Og þegar það hlutfall komst í umræðuna voru margir fljótir að reikna út mögulega dánartíðni.
Blaðamannafulltrúi forsætisráðuneytisins viðurkenndi sólarhring eftir viðtalið við Johnson að orðalag hans hefði verið óheppilegt. Í kjölfarið var ákveðið að boða daglega til blaðamannafunda þar sem farið var ítarlega í gegnum aðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins.
Yfirvöld hófu að taka sýni af miklum móð þó að fljótt færi sýnatakan í þann farveg að rannsaka aðeins þá sem veikastir voru. Viðkvæmir hópar voru hvattir til að halda sig heima sem og þeir sem sýndu einhver flensulík einkenni.
Smám saman voru aðgerðir hertar til að reyna að hefta útbreiðsluna. 24. mars ávarpaði Johnson þjóð sína alvarlegur í bragði: „Ég verð að gefa bresku þjóðinni mjög einfaldar leiðbeiningar: Héðan í frá verðið þið að halda ykkur heima“. Hann undirstrikaði nauðsyn aðgerðanna með því að segja að ef ekki tækist að hefta útbreiðslu faraldursins og að margir myndu veikjast „mun heilbrigðiskerfið ekki ráða við álagið – sem þýðir að fleiri gætu látist, ekki aðeins vegna kórónuveirunnar heldur annarra sjúkdóma“.
Aðeins nokkrum dögum síðar, föstudaginn 27. mars, greindi Johnson frá því á Twitter að hann hefði greinst með veiruna. Hann sagðist vera í einangrun á heimili sínu að Downingstræti 10. Ráðherrann sagðist hfa fundið fyrir vægum einkennum daginn áður og því hafa verið ráðlagt að fara í sýnatöku. Einkennin væru enn væg; þurr hósti og hiti. Og hann ítrekaði í þessu sögulega ávarpi sínu að hann myndi halda áfram að sinna embættisskyldum sínum, hann væri áfram leiðtogi bresku þjóðarinnar.
Daginn eftir, laugardaginn 28. mars, sagði viðskiptaráðherrann Alok Sharma við fjölmiðla: „Ég vil að það sé alveg á hreinu að forsætisráðherrann er með lítil einkenni, hann er algjörlega að stjórna aðgerðum.“
Mánudaginn 30. mars hélt Johnson ríkisstjórnarfund í gegnum fjarfundarbúnað. Fjölmiðlar höfðu eftir heimildum að hann hefði hóstað mikið á fundinum og átt erfitt með að tala lengi í einu.
Johnson birti þann 1. apríl önnur skilaboð til þjóðar sinnar á Twitter og hvatti alla til að vera heima. Þó að hann væri veikur væri hann í sambandi við sitt fólk í ríkisstjórninni. „Ég er þess fullviss að við munum sigrast á þessu saman,“ sagði hann.
Fimmtudagurinn 2. apríl rann upp og fjölmiðlar spurðu áfram út í heilsu forsætisráðherrans. Enn voru svörin þau að hann væri með væg einkenni. Johnson birtist svo síðdegis í dyrum Downingstrætis 10 og klappaði heilbrigðisstarfsfólki lof í lofa. Margir tóku eftir því að hann virtist þjáður og þróttlaus. Til stóð að einangrun hans lyki daginn eftir.
Á föstudeginum, 3. apríl, var hins vegar ljóst að Johnson yrði að vera áfram í einangrun enda var hann með hita. Í skilaboðum á Twitter sagðist hann hafa það betra en að samkvæmt ráðleggingum lækna yrði hann áfram í einangrun. Áfram sagðist hann sinna skyldum sínum. Síðdegis leiddi hann fjarfund ráðherra og embættismanna um viðbrögð við faraldrinum.
Daginn eftir greindi kona hans, Carrie Symonds, frá því að hún væri með einkenni COVID-19 en á batavegi. Symonds er ófrísk. Sama dag greindu fjölmiðlar frá því að Johnson „neitaði að hætta að vinna“ og að hann hefði því ekki fengið næga hvíld frá því að hann veiktist.
Sunnudaginn 5. apríl sagði Matt Hancock heilbrigðisráðherra að Johnson hefði það ágætt. „Við höfum talað við hann alla daga, nokkrum sinnum á dag. Hann er í góðum höndum. En hann er enn með hita. Hann er að vinna. Hann er kátur.“
Um kvöldið flutti Elísabet drottning sjónvarpsávarp. Hún ræddi um börn og aðskilnað fólks á tímum veirunnar og lauk ávarpi sínu á því að segja: „Við munum hittast á ný“.
Bretar vörpuðu öndinni léttar, hvatningarorð hennar hittu í mark. Drottningin sem man tímana tvenna, virtist bjartsýn.
En drottningin hafði varla fyrr sleppt orðinu en tilkynning barst frá forsætisráðuneytinu: Boris Johnson hafði verið lagður inn á sjúkrahús þar sem einkenni hefðu verið viðvarandi frá því að hann greindist með COVID-19 tíu dögum fyrr.
Blaðafulltrúi forsætisráðuneytisins sagði daginn eftir, mánudaginn 6. apríl, að Johnson væri kátur og að hann væri enn að vinna úr sjúkrarúminu. Spurður hvort að ráðherrann væri með lungnabólgu var svarið: Ef ástand hans breytist munum við segja frá því.
Í tísti sem birtist á Twitter-reikningi Johnsons síðdegis kom fram að hann væri enn með einkenni „og ég er í sambandi við teymið mitt og við berjumst áfram gegn veirunni og að tryggja öryggi allra“.
Utanríkisráðherrann Dominic Raab sagði á blaðamannafundi að Johnson stjórnaði enn landinu. Hann viðurkenndi þó að hann hefði ekki talað við forsætisráðherrann í tvo daga.
Um kvöldið kom tilkynning frá ráðuneytinu: Ástand Johnsons hafði versnað og að því hafi hann verið fluttur á gjörgæsludeild. Dominic Raab tæki við hluta embættisverka hans tímabundið.
Í gær kom fram að Johnson væri ekki í öndunarvél en þyrfti á súrefni að halda. Í morgun var hann enn á gjörgæsludeild.
Íhaldsflokkur Johnsons hafði í síðustu viku notið aukins fylgis í skoðanakönnunum – á pari við það fylgi sem flokkurinn naut í tíð Margaret Thatcher í Falklandseyjastríðinu.
Sjúklingar eru lagðir inn á gjörgæslu þegar ástand þeirra er alvarlegt. Eins og nafnið ber með sér er algjört og stöðugt eftirlit með þeim sjúklingum sem þar þurfa að dvelja. Sjúklingar gætu þurft á súrefni að halda, líkt og Johnson er nú sagður fá, en einnig getur að því komið að fólk sé sett í öndunarvél. Að jafna sig eftir gjörgæslumeðferð tekur tíma. Daginn sem fólk gengur þaðan út er það ekki stálslegið heldur þarf mögulega á endurhæfingu að halda. Að ná upp fullu starfsþreki getur tekið marga mánuði.
COVID-19 leggst þungt á öndunarfæri fólks svo það getur átt erfitt með að ná andanum. Þó að aldraðir séu taldir í einna mestri hættu á að veikjast alvarlega af sjúkdómnum eru dæmi um að ungt fólk geri það líka. Johnson er 55 ára. Ekki er vitað hvar hann smitaðist.
Bretar hafa ekki heyrt rödd Johnsons í nokkra daga. Í staðinn hefur Dominic Raab sem leysir hann af, komið fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum. Almenningur í Bretlandi þekkir hann lítið. Hann hefur ekki enn tekið að fullu við valdataumunum. Hann mun ekki hitta drottninguna, líkt og siður er að forsætisráðherrar geri reglulega, og hann hefur ekki vald til að ráða og reka ráðherra, svo dæmi séu tekin.
Á blaðamannafundi í gær sagðist Raab trúa því að Johnson muni snúa aftur til starfa innan skamms. „Ef eitthvað má fullyrða um Boris Johnson þá er það að hann er baráttujaxl.“