EPA

Takmörkunum aflétt þótt Evrópa sé enn „í auga stormsins“

Búið er að dusta rykið af hillum bókabúða í Róm. Barnsraddir óma aftur í skólahúsum Danmerkur. Skref í átt að „venjulegu lífi“ hafa verið tekin í Evrópu. Svæðisstjóri WHO í álfunni segir næstu vikur tvísýnar. „Eitt er víst að þrátt fyrir vorveður stöndum við enn í auga stormsins.“

Hægt og bítandi eru mörg ríki heims að létta af takmörkunum á samkomum fólks. Bókabúðir hafa verið opnaðar á Ítalíu og börnin eru aftur mætt í skólann í Danmörku. Feta þessi ríki þar með í fótspor yfirvalda í Wuhan – borginni þar sem kórónuveiran á uppruna sinn. Á sama tíma hvetur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) til ítrustu varkárni og segir að „hið versta“ sé enn framundan.

Framundan eru óvissutímar, eins og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, hefur sagt. Það sem stjórnvöld reyna nú, hér heima og erlendis, er að finna jafnvægi á milli þess að vernda líf fólks og lifibrauð þess.

Það gæti reynst þrautin þyngri og þegar hafa lönd sem aflétt hafa takmörkunum stigið skrefin til baka. Önnur, sem héldu sig hafa náð góðum tökum á faraldrinum án mikilla takmarkana, hafa orðið að skipta um kúrs þegar önnur bylgja hefur skollið á af afli.

Auglýsing

WHO varar stjórnvöld við því að slaka á takmörkunum nema að hafa styrkt stoðir heilbrigðiskerfa landa sinna því aflétting gæti orðið til þess að faraldurinn blossi upp að nýju. Því verði að losa um tökin smám saman. Samkomubönn og félagsforðun hafa reynst árangursrík tæki og fólk verður að búa sig undir breyttan lífsstíl á meðan haldið verður aftur af útbreiðslu veirunnar, sagði Takeshi Kasai, einn umdæmisstjóra WHO, á blaðamannafundi sem fram fór á netinu í morgun. „Þar til bóluefni finnst verða aðferðir til að aðlagast faraldrinum hinn nýi veruleiki.“

En hvaða leiðir eru ríki heims að fara til að koma samfélögum í samt horf? Leiðirnar eru nokkuð misjafnar en þó virðast þær flestar miða að því að aflétta takmörkunum hægar en þær voru settar á.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur boðað afléttingu takmarkana í skrefum í landinu.
EPA

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, greindi frá því í gær að í næstu viku verður viðbúnaður vegna veirunnar færður niður um eitt stig. Það hefur í för með sér að skólar verða opnaðir á ný, sum fyrirtæki geta hafið starfsemi og veitingahús sömuleiðis en þó aðeins í heimsendingu.

Á Indlandi hefur allsherjar samkomubann verið framlengt til 3. maí. En í gær var því aflétt að hluta og gátu starfsmenn í ákveðnum atvinnugreinum farið aftur til vinnu, s.s. í landbúnaði og byggingariðnaði. Við þessar greinar starfa milljónir fátækustu íbúa Indlands.

Minni verslanir voru opnaðar á ný í Þýskalandi í gær. Þá hefst skólastarf smám saman frá 4. maí. Enn mega ekki fleiri en tveir hittast (utan fólks af sama heimili) og ákveðið hefur verið að íþrótta- og tónleikahús verði lokuð til 31. ágúst. Þjóðverjar hafa hafið umfangsmiklar mótefnamælingar til að reyna að komast að því hversu útbreidd veiran raunverulega var í samfélaginu. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir verða ákvarðanir um framhaldið teknar. 

Bókaunnendur í Þýskalandi hafa glaðst við opnun bókabúða þar í landi.
EPA

Stjórnvöld á Ítalíu voru þau fyrstu í Evrópu til að grípa til harðra aðgerða enda varð norðurhluti landsins snemma illa úti í faraldrinum. Í gær mátti opna bókabúðir í Róm á ný eftir tveggja mánaða allsherjar lokun í landinu. Félagsforðun margskonar er enn í gildi, fólk skal enn halda fjarlægð frá næsta manni og aðeins sex manns mega dvelja samtímis inni í hverri búð. Ekki verður gengið mikið lengra að sinni og flestar aðrar aðgerðir hafa verið framlengdar til maíloka. Yfirvöld ætla að fylgjast vel með hvernig tekst til í bókabúðunum áður en takmörkunum á öðrum þáttum samfélagsins verður aflétt í skrefum á næstu vikum.

Á Spáni er starfsmönnum verksmiðja og í byggingargeiranum nú heimilt að sækja vinnu á nýjan leik en þó aðeins í iðnaðarhverfum. Aðrar takmarkanir verða áfram í gildi til 9. maí. Spænsk börn hafa ekki getað farið út að leika sér vikum saman en þann 27. apríl er stefnt að breytingu þar á og þeim verður leyft að fara út en þó aðeins í stuttan tíma í senn.

Um miðjan apríl voru leik- og grunnskólar opnaðir á ný í Danmörku. Fimm vikur eru síðan gripið var þar til harðra aðgerða sem m.a. þýddi að nuddstofur, hárgreiðslustofur og fleiri fyrirtæki sem veita þjónustu í mikilli nánd var lokað. Þessi fyrirtæki geta nú opnað dyr sínar á ný fyrir kúnnum.

Á gangi með grímu í Napolí.
EPA

Leikskólar opnuðu í Noregi í byrjun vikunnar en börnin þurfa að vera í litlum hópum. Vonast er til að aðrir skólar verði opnaðir í sumarbyrjun. Hárgreiðslustofum var öllum lokað í Noregi en um næstu mánaðamót er stefnt að opnun þeirra.

Í Gana hefur þriggja vikna útgöngubanni verið aflétt á tveimur svæðum, m.a. í nágrenni höfuðborgarinnar Accra. Í Austur-Kongó er smám saman verið að aflétta lokunum og munu bankar, stórmarkaðir og sendiráð í höfuðborginni Kinshasa væntanlega verða opnuð í þessari viku.  

Í Suður-Kóreu, þar sem gripið var snemma til stífra takmarkana, stendur til að aflétta samkomubanni á stöðum á borð við kirkjur og bari. Félagsforðun skal þó stunda í að minnsta kosti tvær vikur til viðbótar. 

Líf og lifibrauð

Vísindamenn eru ekki á einu máli um hvernig sé best að bera sig að. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur bent á að engin „ein uppskrift“ sé til. Sumir vilja halda hörðum aðgerðum áfram um hríð svo að hraðar verði hægt að aflétta þeim þegar það verður tímabært.

Hjá stjórnmálamönnum vega efnahagslegu áhrifin hins vegar þungt. Í Evrópu er því spáð að atvinnuleysi muni tvöfaldast og tugir milljóna starfa í álfunni eru í hættu. Stjórnvöldum í Frakklandi og Bretlandi þykir enn ekki tímabært að aflétta takmörkunum á samkomum fólks og hafa slíkt ekki á stefnuskránni í bráð.

Forsætisráðherra Danmerkur spjallar við börn á fyrsta degi skólahalds eftir margra vikna samkomubann.
EPA

Þjóðverjar þykja hafa sýnt gott fordæmi í aðgerðum sínum. Þeir hafa, líkt og Íslendingar, tekið fjölmörg sýni, rakið smit og einangrað sýkta. Og nú telja þeir tímabært að vinda ofan af aðgerðum sínum. Angela Merkel kanslari hvetur þó til ítrustu varúðar. „Það væri synd og skömm ef við færum beint aftur á byrjunarreit,“ sagði hún á blaðamannafundi nýverið. „Við megum ekki verða kærulaus og skapa falska öryggistilfinningu. Við erum ekki enn komin á hápunkt faraldursins.“

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, sagði í gær að „hið versta“ væri enn framundan. „Við skulum koma í veg fyrir hörmungar. Þetta er veira sem margt fólk skilur ekki enn.“

Svæðisstjóri WHO í Evrópu, Hans Henri P. Kluge, segir að næstu vikur verði tvísýnar í álfunni. „Áhrif þessarar veiru hafa sett skugga á allt okkar líf. [...] Eitt er víst að þrátt fyrir vorveður stöndum við enn í auga stormsins.“

Auglýsing

Hann segir að faraldurinn eigi enn eftir að láta finna fyrir sér af fullum þunga í nokkrum Evrópulöndum. Á sama tíma fari smitum fækkandi í öðrum. Í öllum þeim er þó hætta á að veiran breiðist út á nýjan leik. „Það er bráðnauðsynlegt að við sofnum ekki á verðinum. En aðgerðir á borð við samkomubönn hafa áhrif á líf fólks og lífsviðurværi. Fólk spyr skiljanlega: Hversu lengi til viðbótar þurfum við að halda þetta út? Stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld verða að finna út hvenær og undir hvaða kringumstæðum við getum með öruggum hætti aflétt aðgerðum í skrefum.“

Enga töfralausn sé að finna. „Leiðin framundan er óviss og flókin. [...] Hegðun hvers og eins okkar mun að lokum ákveða hegðun veirunnar. Það mun þurfa þrautseigju og þolinmæði til, það er ekki hægt að stytta sér leið að eðlilegu ástandi.“

Tattústofur hafa verið opnaðar á ný í Þýskalandi.
EPA

Þegar komi að afléttingunni verði ákveðin skilyrði að vera til staðar, m.a. þau að sjúkrahús séu fær um sinna sínu hlutverki við að greina, einangra og sinna sjúkum, að smithættu á öldrunarheimilum og á almannafæri sé haldið í lágmarki og að vinnustaðir geti gætt að sóttvörnum s.s. með því að halda fjarlægð fólks á milli.

„Mitt helsta ráð sem toppar allt annað? Ef þú getur ekki tryggt að þessi skilyrði séu til staðar: Áður en slakað verður á takmörkunum – vinsamlega endurskoðaðu hug þinn.“

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar