Aðsend mynd

Vann frá morgni til miðnættis er álagið var mest

Íbúar á Hrafnistu Laugarási í Reykjavík sýna því langflestir skilning að heimsóknarbann hafi verið sett á þeim til varnar. Margir þeirra eru orðnir virkari en áður í starfi sem boðið er uppá innan veggja öldrunarheimilisins sem hefur komið Huldu Birnu Frímannsdóttur, sjúkraliða sem þar starfar, ánægjulega á óvart.

Álag á starfsmenn Hrafnistu í Reykjavík jókst mikið í kjölfar heimsóknarbanns og smits starfsmanns sem þar kom upp. Hulda Birna Frímannsdóttir, sjúkraliði með tæplega fjögurra áratuga reynslu, segir íbúa öldrunarheimilisins flesta sýna ástandinu skilning. Þó að þeir hlakki til að hitta ættingja og vini vilji þeir að banninu verði aflétt hægt og rólega.

 „Ég hef það ágætt en ég hef reyndar verið að vinna rosalega mikið undanfarið,“ segir Hulda Birna í samtali við Kjarnann. Hún er í vinnunni en segist eiga nokkrar mínútur til að spjalla.

Hulda Birna er í fullri vinnu, tekur morgun-, kvöld- og helgarvaktir á víxl og næturvaktir ef á þarf að halda.

Hvernig eru vinnudagarnir þínir nú um stundir?

„Ég hef nú verið í töluvert meira en 100 prósent vinnu síðustu vikur. Og líklega síðustu mánuði.“

Nokkuð mikið álag var á Laugarási fyrir faraldur kórónuveirunnar og það jókst mikið eftir að ákveðið var að setja á heimsóknarbann til að vernda íbúana. Einn starfsmaður greindist svo með COVID-19 og í kjölfarið þurfti að setja íbúa á þeirri deild í einangrun og senda samstarfsmenn heim í sóttkví.

Auglýsing

Hulda er ekki bundin við eina deild í sínu starfi. Hún fer á milli deilda þar sem þörfin er mest hverju sinni. Þegar allir hjúkrunarfræðingarnir á deildinni þar sem smitið kom upp þurftu að fara í sóttkví og meirihluti annarra starfsmanna í aðhlynningu var Hulda Birna kölluð til starfa á henni. Hún er með framhaldsmenntun í hjúkrun aldraðra og starfar því á hjúkrunarvöktum. Hún tók því deildina að sér eins og hún orðar það.

„Í um viku var ég þarna meira og minna frá átta á morgnana til miðnættis,“ segir hún og hlær létt. Hún hafi því verið í 200 prósent vinnu þá daga. En hún vill ekki kvarta. „Góðu fréttirnar eru þær að enginn íbúi reyndist smitaður og enginn annar starfsmaður svo þetta fór allt saman eins vel og hægt var að hugsa sér.“

Eitt af þeim fjölmörgum verkefnum sem Hulda Birna hefur sinnt síðustu vikur er að taka sýni af íbúum til að ganga úr skugga um hvort þeir séu sýktir af COVID-19. Í nokkrum tilfellum hefur komið upp grunur um slíkt og þá eru íbúar settir í einangrun þar til niðurstaða fæst. Á meðan þurfa starfsmenn reglum samkvæmt að sinna þeim klæddir hlífðarfatnaði. „Ég hef tekið mörg sýni í þessu húsi undanfarið en þau hafa sem betur fer öll reynst neikvæð,“ segir Hulda Birna. Þá hafi hún þurft að klæðast gallanum heita og segist ekki getað ímyndað sér hvernig sé að vera í honum lengi í einu. „Ég myndi satt best að segja ekki vilja það.“

Hulda hefur tekið fjölmörg sýni meðal heimilisfólksins á Hrafnistu.
Aðsend

Hvað ertu búin að vinna lengi sem sjúkraliði?

Hulda Birna hlær og segir svo: „Það er nú varla að ég vilji segja það upphátt! En það er víst síðan 1983.“

Það gera hvorki meira né minna en 37 ár. Á þeim tíma hefur Hulda Birna aflað sér mikillar þekkingar og reynslu. Hún hóf störf sem sjúkraliði á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki á sínum tíma, fór því næst á sjúkrahúsið á Blönduósi og þar vann hún í tuttugu ár. Næstu tíu árin vann hún á öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Á sumrin fór hún stundum suður og vann á Hrafnistu í afleysingum svo hún þekkti starfsemina vel er hún hóf þar að fullu störf árið 2014. „Þegar ég sótti um starf á Hrafnistu í gegnum netið liðu að mig minnir ekki nema svona tuttugu mínútur. Þá var ég búin að fá svar og var spurð hvenær ég gæti byrjað.“

Fyrrverandi starfsmenn mættu til aðstoðar

Er faraldurinn skall á skapaðist auka álag á starfsmenn Hafnistu Laugaráss. Hulda Birna segir að starfsmenn hafi verið hvattir til að hitta sem fæsta utan vinnu – allt í nafni ítrustu sóttvarna. Það hafi sumum þótt erfitt þó að allir hafi farið eftir því eftir fremsta megni.

Annað slagið hafa svo alltaf einhverjir starfsmenn úr öllum starfsstéttum verið að detta tímabundið út vegna sóttkvíar. Til að létta álagið á deildinni sem lenti í sóttkví  var leitað til fyrrverandi starfsmanna og þeir beðnir að koma til aðstoðar. Töluverður hópur gerði það og fékk þá leyfi frá sinni föstu vinnu á meðan. „Það bjargaði ýmsu en þetta var engu að síður mikið púsluspil alla daga.“

Auglýsing

Í kjölfar heimsóknarbannsins segir Hulda Birna að meiri ró hafi færst yfir á öldrunarheimilinu. „Íbúarnir tóku þessu flest allir mjög vel. Þeir vissu að þetta var gert þeim til verndar.“

Sumir eiga þó erfitt með að skilja af hverju enginn komi í heimsókn, sérstaklega þeir sem eru með minnisglöp. Þá hefur starfsfólkið lagt sig fram við að róa viðkomandi, spjalla og hughreysta og reyna að útskýra stöðuna. „Allt þetta er stór hluti af starfi sjúkraliða,“ segir Hulda Birna.

Aðstandendur hafa einnig langflestir tekið heimsóknarbanninu vel og sýnt því skilning. „Þeir hringja og þakka okkur fyrir að hlúa að ástvinum sínum, að þeir séu öruggir hjá okkur og hrósa okkur fyrir að standa okkur vel við þessar skrítnu aðstæður.“

Nota spjaldtölvur til samskipta

Hulda Birna segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda ef kórónuveiran hefði fengið að leika lausum hala á öldrunarheimilinu. Þá hefði ástandið orðið skelfilegt.

Íbúarnir eru í samskiptum við sína nánustu í gegnum síma og rúmri viku eftir að heimsóknarbannið var sett á þá var farið að nota spjaldtölvur svo að þeir gætu séð ástvini sína í mynd. „Í dag eru margir aðstandendur að hafa samband við fólkið sitt í gegnum spjaldtölvu. Það gengur bara vel þó að gamla fólkinu finnist sumu skrítið að sjá ættingjana í svona ramma! En þetta hefur létt lundina hjá mörgum, ég sé það alveg.“

Hulda Birna gerir að sári.
Aðsend

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af andlegri heilsu íbúanna segir hún margt hafa breyst til hins betra í starfseminni sem dragi úr hættu á því. Sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar starfi nú til dæmis inni á deildum Hrafnistu. „Þeir eru bara orðnir hluti af starfsemi deildarinnar.“

Boðið sé upp á leikfimi, bíó, lestrarstundir og fleira. „Það er ánægjulegt að sjá að fullt af fólki er orðið virkt, tekur þátt í því starfi sem er í boði, fólk sem áður gerði það ekki.“

Hulda Birna segir það hafa komið sér á óvart hvað allt hafi gengið vel þrátt fyrir ýmsa hnökra og miklar breytingar vegna heimsóknarbannsins. „Þetta er auðvitað mikið inngrip í líf fjölda fólks, snýr lífi þeirra á hvolf. Svo það er aðdáunarvert að eldra fólkið í samfélaginu taki þessu öllu svona vel.“

Nú fer að nálgast sá dagur að heimsóknarbanni á öldrunarheimili verður aflétt í skrefum. Landlæknir segir að unnið sé að útfærslu á því í samstarfi margra stofnana. Hulda Birna finnur að íbúarnir eru farnir að hlakka til að geta hitt ættingja og vini utan Hrafnistu.

 „En hér tala margir um það að þetta þurfi að gerast hægt og rólega. Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðnar áhyggjur af því hvað muni gerast. Ég vona að það verði settur stífur rammi utan um þetta og þessu stýrt eins vel og hægt er til að halda áfram að verja þennan viðkvæma hóp.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal