EPA

Önnur bylgja faraldurs í Singapúr

Fyrir mánuði síðan voru Singapúrar hylltir fyrir góðan árangur sinn í baráttunni gegn COVID-19. Þeir tóku mörg sýni, röktu smit af mikum móð og einangruðu sýkta. En svo dundu ósköpin yfir.

Met hafa verið slegin í Singapúr dag eftir dag und­an­farna viku. Þetta eru þó ekki áfangar sem ber að fagna heldur skugga­leg aukn­ing í fjölda smita af kór­ónu­veirunni. Frá 17. mars hefur stað­festum smitum fjölgað úr 266 í rúm­lega 8.000. Á laug­ar­dag, svo dæmi sé tek­ið, greindust 942 á einum sól­ar­hring – í land­inu sem fyrir einum mán­uði var hyllt fyrir að ná betri tökum á út­breiðsl­unni en nokkuð ann­að.

Önnur bylgja far­ald­urs COVID-19 er skollin á. 

Auglýsing

Singapúr er borg­ríki á eyju í Suð­aust­ur-Asíu. Íbú­arnir eru um 5,7 millj­ónir sem búa þétt á svæði sem er á stærð við New York-­borg.

Landið var eitt það fyrsta utan Kína til að greina smit af nýju kór­ónu­veirunni. Þegar í stað var gripið til aðgerða sem fólust fyrst og fremst í því að greina marga, rekja smit og ein­angra sýkta. Þar sem Malasía er eina ­ríkið sem á landa­mæri að Singapúr var nokkuð ein­falt mál að tak­marka ferð­ir ­fólks yfir þau og koma í veg fyrir að ný smit bær­ust þá leið­ina.

Einnig var strangt eft­ir­lit við­haft á flug­völl­um. Ein­angr­un­ar­deild­um var komið upp á sjúkra­hús­un­um. Þeir sem greinst höfðu með veiruna voru lagð­ir þar inn, hvort sem þeir sýndu ein­kenni eða ekki. Heil­brigð­is­starfs­fólk gætt­i ítr­ustu var­úðar og almenn­ingur var hvattur til að huga að sótt­vörn­um.

Með þessu móti tókst að halda sýk­ingum í lág­marki án þess að grípa til harðra aðgerða sem bitna myndu stór­kost­lega á efna­hags­líf­inu. Skól­ar voru áfram opnir og sömu­leiðis gengu verslun og við­skipti að mestu sinn vana ­gang. 

Gríð­ar­lega mörg sýni voru tek­in, einna flest miðað við höfða­tölu í heim­inum öll­um. Hlut­falls­lega fá reynd­ust jákvæð. Singapúrar höfð­u fundið leið sem virt­ist duga. Stjórn­völd töldu aðgerðir sínar hafa gagn­ast vel. „Í Singapúr viljum við að lífið haldi áfram með eðli­legum hætt­i,“ sagði Dale Fis­her, for­stöðu­maður sótt­varna­deildar Háskól­ans í Singapúr, fyrir um mán­uði síð­an. „Við viljum að fyr­ir­tæki, kirkj­ur, veit­inga­hús og skólar séu opin. Svona lítur vel­gengni út.“

En svo dundu ósköpin yfir.

Fyrir um hálfum mán­uði tók smitum að fjölga skarpt og á einni viku fjölg­aði þeim um 160 pró­sent. Stjórn­völd hafa í kjöl­farið neyðst til­ að breyta um taktík, grípa til harð­ari aðgerða, nán­ast alls­herjar lok­un­ar ­sam­fé­lags­ins eins og mörg önnur ríki hafa reynt.

Hvað fór eig­in­lega úrskeið­is?

Yfir­völdum í Singapúr yfir­s­ást stór þjóð­fé­lags­hópur í að­gerðum sín­um: Far­and­verka­menn. Yfir 90 pró­sent smita sem greindust um helg­ina voru á meðal far­and­verka­manna sem búsettir eru í land­inu, þangað komnir til að vinna í bygg­ing­ar­geir­an­um. Þeirra á meðal hafa blossað upp hóp­sýk­ingar enda búa þeir flestir við þröngan kost í svefn­skál­um. Um 300 þús­und verka­menn, af um milljón sem vinna í land­inu, búa við slíkar aðstæð­ur. Þeir sofa í kojum og eru um tutt­ugu saman í einu litlu her­bergi.

Verka­menn­irnir eru flestir frá Ind­landi, Bangla­dess og Kína. Hjá þessum hópi hefur mik­ill meiri­hluti allra smita greinst frá upp­hafi far­ald­urs­ins. Í svefn­skál­unum þar sem þeir halda til utan vinnu er enda ekki hægt að halda öruggri fjar­lægð milli manna eða ástunda félags­forðun svo nokkru ­nemi.

Hið sérstæða hótel í Singapúr, Marina Bay Sands, upplýst með þakkarorðum til heilbrigðisstarfsfólks.
EPA

Fyrstu smit meðal far­and­verka­mann­anna greindust í febr­ú­ar. Jos­ephine Teo, atvinnu­mála­ráð­herra Singapúr, sagði snemma í apríl að þótt það væri alltaf hætta á smiti í svefn­skál­unum væri hún „ekk­ert öðru­vísi en inni á heim­il­u­m okk­ar“. Yfir­völd segja að áður en að hóp­sýk­ing­arnar brut­ust út hafi verið búið að grípa til aðgerða, m.a. loka svefn­skálum og sam­eig­in­legum rým­um.

Rachel Chhoa-Howard, starfs­maður mann­rétt­inda­sam­tak­anna Am­nesty International í Singapúr, segir hins vegar að ekki sé hægt að líkja að­stæðum í svefn­skál­unum við hefð­bundin heim­ili. Ekki hafi verið tekið til­lit til þess í upp­hafi far­ald­urs­ins og nið­ur­staðan sé sú sem blasi við í dag.

Nú í apríl hafa verka­menn í sextán svefn­skálum verið sett­ir í ein­angr­un. Þeir mega ekki yfir­gefa skálana í tvær vik­ur. Ein­angr­un­ar­vistin er slæm. Híbýlin voru ekki hugsuð til dvalar allan sól­ar­hring­inn.

Auglýsing

Staðan í sumum öðrum löndum er ekki svo frá­brugðin þeirri sem ­upp er komin í Singapúr. Önnur lönd eru einnig að glíma við aðra bylgju far­ald­urs­ins. Japan er eitt þeirra. Borg­ríkið Hong Kong sömu­leið­is. Þar hafð­i ­tek­ist að hefta útbreiðsl­una en um leið og slakað var á aðgerðum blossuðu ný smit upp. Því hefur verið stigið skref til baka. Sem virð­ist ætla að skila tilætl­uðum árangri.

Fjöldi stað­festra smita í Suð­aust­ur-Asíu hefur auk­ist hratt ­síð­ustu vik­ur. Sér­fræð­ingar ótt­ast að sá heims­hluti gæti orðið mið­punkt­ur far­ald­urs­ins innan skamms.  

Tölur um stað­fest smit segja auð­vitað ekki alla sög­una. Í Suð­aust­ur-Asíu hafa yfir 85 pró­sent allra smita greinst í Malasíu og Singapúr, ríkjum þar sem al­menn vel­megun er hvað mest. Á Fil­ipps­eyjum og í Indónesíu eru stað­fest smit mun færri. Þar býr fólk þó þétt og mikil blöndun er lands­hluta á milli vegna þess að margir vinna langt frá heim­ilum sín­um. 

„Stað­reyndin er sú að til­fell­u­m hefur fjölgað gríð­ar­lega hér í Suð­aust­ur-Asíu,“ segir Simon Tay, for­stöðu­mað­ur­ ­sér­fræð­inga­hug­veit­unnar Squ­awk Box Asia, sem hefur aðsetur í Singapúr. Hann ­segir að stjórn­völd í þessum heims­hluta verði að bregð­ast skjótt við. ­Sér­stak­lega sé brýnt að sýna­tökum verði fjölgað til muna á Fil­ipps­eyjum og í Indónesíu áður en allt fari á versta veg.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar