EPA

Önnur bylgja faraldurs í Singapúr

Fyrir mánuði síðan voru Singapúrar hylltir fyrir góðan árangur sinn í baráttunni gegn COVID-19. Þeir tóku mörg sýni, röktu smit af mikum móð og einangruðu sýkta. En svo dundu ósköpin yfir.

Met hafa verið slegin í Singapúr dag eftir dag und­an­farna viku. Þetta eru þó ekki áfangar sem ber að fagna heldur skugga­leg aukn­ing í fjölda smita af kór­ónu­veirunni. Frá 17. mars hefur stað­festum smitum fjölgað úr 266 í rúm­lega 8.000. Á laug­ar­dag, svo dæmi sé tek­ið, greindust 942 á einum sól­ar­hring – í land­inu sem fyrir einum mán­uði var hyllt fyrir að ná betri tökum á út­breiðsl­unni en nokkuð ann­að.

Önnur bylgja far­ald­urs COVID-19 er skollin á. 

Auglýsing

Singapúr er borg­ríki á eyju í Suð­aust­ur-Asíu. Íbú­arnir eru um 5,7 millj­ónir sem búa þétt á svæði sem er á stærð við New York-­borg.

Landið var eitt það fyrsta utan Kína til að greina smit af nýju kór­ónu­veirunni. Þegar í stað var gripið til aðgerða sem fólust fyrst og fremst í því að greina marga, rekja smit og ein­angra sýkta. Þar sem Malasía er eina ­ríkið sem á landa­mæri að Singapúr var nokkuð ein­falt mál að tak­marka ferð­ir ­fólks yfir þau og koma í veg fyrir að ný smit bær­ust þá leið­ina.

Einnig var strangt eft­ir­lit við­haft á flug­völl­um. Ein­angr­un­ar­deild­um var komið upp á sjúkra­hús­un­um. Þeir sem greinst höfðu með veiruna voru lagð­ir þar inn, hvort sem þeir sýndu ein­kenni eða ekki. Heil­brigð­is­starfs­fólk gætt­i ítr­ustu var­úðar og almenn­ingur var hvattur til að huga að sótt­vörn­um.

Með þessu móti tókst að halda sýk­ingum í lág­marki án þess að grípa til harðra aðgerða sem bitna myndu stór­kost­lega á efna­hags­líf­inu. Skól­ar voru áfram opnir og sömu­leiðis gengu verslun og við­skipti að mestu sinn vana ­gang. 

Gríð­ar­lega mörg sýni voru tek­in, einna flest miðað við höfða­tölu í heim­inum öll­um. Hlut­falls­lega fá reynd­ust jákvæð. Singapúrar höfð­u fundið leið sem virt­ist duga. Stjórn­völd töldu aðgerðir sínar hafa gagn­ast vel. „Í Singapúr viljum við að lífið haldi áfram með eðli­legum hætt­i,“ sagði Dale Fis­her, for­stöðu­maður sótt­varna­deildar Háskól­ans í Singapúr, fyrir um mán­uði síð­an. „Við viljum að fyr­ir­tæki, kirkj­ur, veit­inga­hús og skólar séu opin. Svona lítur vel­gengni út.“

En svo dundu ósköpin yfir.

Fyrir um hálfum mán­uði tók smitum að fjölga skarpt og á einni viku fjölg­aði þeim um 160 pró­sent. Stjórn­völd hafa í kjöl­farið neyðst til­ að breyta um taktík, grípa til harð­ari aðgerða, nán­ast alls­herjar lok­un­ar ­sam­fé­lags­ins eins og mörg önnur ríki hafa reynt.

Hvað fór eig­in­lega úrskeið­is?

Yfir­völdum í Singapúr yfir­s­ást stór þjóð­fé­lags­hópur í að­gerðum sín­um: Far­and­verka­menn. Yfir 90 pró­sent smita sem greindust um helg­ina voru á meðal far­and­verka­manna sem búsettir eru í land­inu, þangað komnir til að vinna í bygg­ing­ar­geir­an­um. Þeirra á meðal hafa blossað upp hóp­sýk­ingar enda búa þeir flestir við þröngan kost í svefn­skál­um. Um 300 þús­und verka­menn, af um milljón sem vinna í land­inu, búa við slíkar aðstæð­ur. Þeir sofa í kojum og eru um tutt­ugu saman í einu litlu her­bergi.

Verka­menn­irnir eru flestir frá Ind­landi, Bangla­dess og Kína. Hjá þessum hópi hefur mik­ill meiri­hluti allra smita greinst frá upp­hafi far­ald­urs­ins. Í svefn­skál­unum þar sem þeir halda til utan vinnu er enda ekki hægt að halda öruggri fjar­lægð milli manna eða ástunda félags­forðun svo nokkru ­nemi.

Hið sérstæða hótel í Singapúr, Marina Bay Sands, upplýst með þakkarorðum til heilbrigðisstarfsfólks.
EPA

Fyrstu smit meðal far­and­verka­mann­anna greindust í febr­ú­ar. Jos­ephine Teo, atvinnu­mála­ráð­herra Singapúr, sagði snemma í apríl að þótt það væri alltaf hætta á smiti í svefn­skál­unum væri hún „ekk­ert öðru­vísi en inni á heim­il­u­m okk­ar“. Yfir­völd segja að áður en að hóp­sýk­ing­arnar brut­ust út hafi verið búið að grípa til aðgerða, m.a. loka svefn­skálum og sam­eig­in­legum rým­um.

Rachel Chhoa-Howard, starfs­maður mann­rétt­inda­sam­tak­anna Am­nesty International í Singapúr, segir hins vegar að ekki sé hægt að líkja að­stæðum í svefn­skál­unum við hefð­bundin heim­ili. Ekki hafi verið tekið til­lit til þess í upp­hafi far­ald­urs­ins og nið­ur­staðan sé sú sem blasi við í dag.

Nú í apríl hafa verka­menn í sextán svefn­skálum verið sett­ir í ein­angr­un. Þeir mega ekki yfir­gefa skálana í tvær vik­ur. Ein­angr­un­ar­vistin er slæm. Híbýlin voru ekki hugsuð til dvalar allan sól­ar­hring­inn.

Auglýsing

Staðan í sumum öðrum löndum er ekki svo frá­brugðin þeirri sem ­upp er komin í Singapúr. Önnur lönd eru einnig að glíma við aðra bylgju far­ald­urs­ins. Japan er eitt þeirra. Borg­ríkið Hong Kong sömu­leið­is. Þar hafð­i ­tek­ist að hefta útbreiðsl­una en um leið og slakað var á aðgerðum blossuðu ný smit upp. Því hefur verið stigið skref til baka. Sem virð­ist ætla að skila tilætl­uðum árangri.

Fjöldi stað­festra smita í Suð­aust­ur-Asíu hefur auk­ist hratt ­síð­ustu vik­ur. Sér­fræð­ingar ótt­ast að sá heims­hluti gæti orðið mið­punkt­ur far­ald­urs­ins innan skamms.  

Tölur um stað­fest smit segja auð­vitað ekki alla sög­una. Í Suð­aust­ur-Asíu hafa yfir 85 pró­sent allra smita greinst í Malasíu og Singapúr, ríkjum þar sem al­menn vel­megun er hvað mest. Á Fil­ipps­eyjum og í Indónesíu eru stað­fest smit mun færri. Þar býr fólk þó þétt og mikil blöndun er lands­hluta á milli vegna þess að margir vinna langt frá heim­ilum sín­um. 

„Stað­reyndin er sú að til­fell­u­m hefur fjölgað gríð­ar­lega hér í Suð­aust­ur-Asíu,“ segir Simon Tay, for­stöðu­mað­ur­ ­sér­fræð­inga­hug­veit­unnar Squ­awk Box Asia, sem hefur aðsetur í Singapúr. Hann ­segir að stjórn­völd í þessum heims­hluta verði að bregð­ast skjótt við. ­Sér­stak­lega sé brýnt að sýna­tökum verði fjölgað til muna á Fil­ipps­eyjum og í Indónesíu áður en allt fari á versta veg.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar