EPA

Önnur bylgja faraldurs í Singapúr

Fyrir mánuði síðan voru Singapúrar hylltir fyrir góðan árangur sinn í baráttunni gegn COVID-19. Þeir tóku mörg sýni, röktu smit af mikum móð og einangruðu sýkta. En svo dundu ósköpin yfir.

Met hafa verið slegin í Singapúr dag eftir dag undanfarna viku. Þetta eru þó ekki áfangar sem ber að fagna heldur skuggaleg aukning í fjölda smita af kórónuveirunni. Frá 17. mars hefur staðfestum smitum fjölgað úr 266 í rúmlega 8.000. Á laugardag, svo dæmi sé tekið, greindust 942 á einum sólarhring – í landinu sem fyrir einum mánuði var hyllt fyrir að ná betri tökum á útbreiðslunni en nokkuð annað.

Önnur bylgja faraldurs COVID-19 er skollin á. 

Auglýsing

Singapúr er borgríki á eyju í Suðaustur-Asíu. Íbúarnir eru um 5,7 milljónir sem búa þétt á svæði sem er á stærð við New York-borg.

Landið var eitt það fyrsta utan Kína til að greina smit af nýju kórónuveirunni. Þegar í stað var gripið til aðgerða sem fólust fyrst og fremst í því að greina marga, rekja smit og einangra sýkta. Þar sem Malasía er eina ríkið sem á landamæri að Singapúr var nokkuð einfalt mál að takmarka ferðir fólks yfir þau og koma í veg fyrir að ný smit bærust þá leiðina.

Einnig var strangt eftirlit viðhaft á flugvöllum. Einangrunardeildum var komið upp á sjúkrahúsunum. Þeir sem greinst höfðu með veiruna voru lagðir þar inn, hvort sem þeir sýndu einkenni eða ekki. Heilbrigðisstarfsfólk gætti ítrustu varúðar og almenningur var hvattur til að huga að sóttvörnum.

Með þessu móti tókst að halda sýkingum í lágmarki án þess að grípa til harðra aðgerða sem bitna myndu stórkostlega á efnahagslífinu. Skólar voru áfram opnir og sömuleiðis gengu verslun og viðskipti að mestu sinn vana gang. 

Gríðarlega mörg sýni voru tekin, einna flest miðað við höfðatölu í heiminum öllum. Hlutfallslega fá reyndust jákvæð. Singapúrar höfðu fundið leið sem virtist duga. Stjórnvöld töldu aðgerðir sínar hafa gagnast vel. „Í Singapúr viljum við að lífið haldi áfram með eðlilegum hætti,“ sagði Dale Fisher, forstöðumaður sóttvarnadeildar Háskólans í Singapúr, fyrir um mánuði síðan. „Við viljum að fyrirtæki, kirkjur, veitingahús og skólar séu opin. Svona lítur velgengni út.“

En svo dundu ósköpin yfir.

Fyrir um hálfum mánuði tók smitum að fjölga skarpt og á einni viku fjölgaði þeim um 160 prósent. Stjórnvöld hafa í kjölfarið neyðst til að breyta um taktík, grípa til harðari aðgerða, nánast allsherjar lokunar samfélagsins eins og mörg önnur ríki hafa reynt.

Hvað fór eiginlega úrskeiðis?

Yfirvöldum í Singapúr yfirsást stór þjóðfélagshópur í aðgerðum sínum: Farandverkamenn. Yfir 90 prósent smita sem greindust um helgina voru á meðal farandverkamanna sem búsettir eru í landinu, þangað komnir til að vinna í byggingargeiranum. Þeirra á meðal hafa blossað upp hópsýkingar enda búa þeir flestir við þröngan kost í svefnskálum. Um 300 þúsund verkamenn, af um milljón sem vinna í landinu, búa við slíkar aðstæður. Þeir sofa í kojum og eru um tuttugu saman í einu litlu herbergi.

Verkamennirnir eru flestir frá Indlandi, Bangladess og Kína. Hjá þessum hópi hefur mikill meirihluti allra smita greinst frá upphafi faraldursins. Í svefnskálunum þar sem þeir halda til utan vinnu er enda ekki hægt að halda öruggri fjarlægð milli manna eða ástunda félagsforðun svo nokkru nemi.

Hið sérstæða hótel í Singapúr, Marina Bay Sands, upplýst með þakkarorðum til heilbrigðisstarfsfólks.
EPA

Fyrstu smit meðal farandverkamannanna greindust í febrúar. Josephine Teo, atvinnumálaráðherra Singapúr, sagði snemma í apríl að þótt það væri alltaf hætta á smiti í svefnskálunum væri hún „ekkert öðruvísi en inni á heimilum okkar“. Yfirvöld segja að áður en að hópsýkingarnar brutust út hafi verið búið að grípa til aðgerða, m.a. loka svefnskálum og sameiginlegum rýmum.

Rachel Chhoa-Howard, starfsmaður mannréttindasamtakanna Amnesty International í Singapúr, segir hins vegar að ekki sé hægt að líkja aðstæðum í svefnskálunum við hefðbundin heimili. Ekki hafi verið tekið tillit til þess í upphafi faraldursins og niðurstaðan sé sú sem blasi við í dag.

Nú í apríl hafa verkamenn í sextán svefnskálum verið settir í einangrun. Þeir mega ekki yfirgefa skálana í tvær vikur. Einangrunarvistin er slæm. Híbýlin voru ekki hugsuð til dvalar allan sólarhringinn.

Auglýsing

Staðan í sumum öðrum löndum er ekki svo frábrugðin þeirri sem upp er komin í Singapúr. Önnur lönd eru einnig að glíma við aðra bylgju faraldursins. Japan er eitt þeirra. Borgríkið Hong Kong sömuleiðis. Þar hafði tekist að hefta útbreiðsluna en um leið og slakað var á aðgerðum blossuðu ný smit upp. Því hefur verið stigið skref til baka. Sem virðist ætla að skila tilætluðum árangri.

Fjöldi staðfestra smita í Suðaustur-Asíu hefur aukist hratt síðustu vikur. Sérfræðingar óttast að sá heimshluti gæti orðið miðpunktur faraldursins innan skamms.  

Tölur um staðfest smit segja auðvitað ekki alla söguna. Í Suðaustur-Asíu hafa yfir 85 prósent allra smita greinst í Malasíu og Singapúr, ríkjum þar sem almenn velmegun er hvað mest. Á Filippseyjum og í Indónesíu eru staðfest smit mun færri. Þar býr fólk þó þétt og mikil blöndun er landshluta á milli vegna þess að margir vinna langt frá heimilum sínum. 

„Staðreyndin er sú að tilfellum hefur fjölgað gríðarlega hér í Suðaustur-Asíu,“ segir Simon Tay, forstöðumaður sérfræðingahugveitunnar Squawk Box Asia, sem hefur aðsetur í Singapúr. Hann segir að stjórnvöld í þessum heimshluta verði að bregðast skjótt við. Sérstaklega sé brýnt að sýnatökum verði fjölgað til muna á Filippseyjum og í Indónesíu áður en allt fari á versta veg.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar