Gabriel Rutenberg

Hægt að læra margt af hælisleitendum og flóttafólki í COVID-19 faraldri

Innflytjendur og hælisleitendur eiga það til að gleymast þegar áföll ríða yfir samfélög og þrátt fyrir að aðstæður einstaklinga innan þessara hópa séu oft og tíðum ólíkar þá eiga þeir jafnan mikið sameiginlegt. Kjarninn náði tali af sálfræðingi sem unnið hefur með þessum hópum en hún segir að nú á tímum COVID-19 þurfi að huga sérstaklega að þeim og að það sé gert með því að sýna samstöðu og samkennd.

Samfélög heimsins hafa þurft að takast á við einstakar áskoranir í kjölfar COVID-19 faraldursins sem nú geisar. Enginn hefur farið varhluta af áhrifum hans en þó er ljóst að hann mun reyna misjafnlega á mismunandi hópa. 

Hælisleitendur og flóttafólk koma iðulega úr erfiðum aðstæðum og nú þegar faraldurinn er í hámarki má ætla að ástandið muni reyna einstaklega mikið á þessa hópa. Einnig er það einkar krefjandi fyrir innflytjendur þar sem upplýsingagjöf til þeirra er oft ábótavant af hinum ýmsu ástæðum. En hvernig hefur ástandið farið í hælisleitendur og flóttafólk – og þá sem gengið hafa í gegnum meira á lífsleiðinni en margur annar?

Kjarninn spjallaði við Ölmu Belem Serrato um þessi málefni en hún er sálfræðingur sem búið hefur hér á landi í 10 ár. Hún er frá Mexíkó og er gift íslenskum manni og hefur því einnig reynslu af því að vera útlendingur á Íslandi. Í Mexíkó starfaði hún á gjörgæslu og bjó hún um tíma í Barselóna á Spáni en þar vann hún á læknastofum og sjúkrahúsi – sem og í fjölskylduráðgjöf. 

Auglýsing

Alma hefur unnið mikið með innflytjendum og hælisleitendum og telur hún að kerfið sé að mörgu leyti gott hér á landi hvað þessa hópa varðar en sumir þeirra hælisleitenda sem hún hefur sinnt koma úr mjög flóknum aðstæðum. 

Innflytjendur yfir höfuð með mikla aðlögunarhæfni

Fyrir COVID-19 faraldurinn var líf margra hælisleitenda flókið og oft erfitt. „Sumir koma frá mjög erfiðum aðstæðum og hef ég til að mynda haft skjólstæðinga frá hættusvæðum sem síðan hafa komið hingað. Sumir þeirra þurftu að takast á við ýmiss konar krefjandi hluti áður en þeir komu hingað til lands – og sérstaklega konur og börn. Margir hafa nú þegar þurft að ganga í gegnum ýmsar þjáningar,“ segir Alma. 

Nú þegar COVID-19 faraldurinn gengur yfir þá eykst óöryggið enn meira. „Fólk er samt svo ótrúlega seigt. Innflytjendur eru líka yfir höfuð með mikla aðlögunarhæfni en það hafa rannsóknir einmitt sýnt. Þeir geta aðlagað sig alls konar nýjum aðstæðum og breytingum – oft mun betur en aðrir. Þeir sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu á borð við hælisleitendur eru mjög þrautseigir og sterkir. Og á vissan hátt lifa þeir alltaf við óvissuástand. Í þannig ástandi eru þeir ekki hamingjusamir eða sáttir við lífið og þurfa þeir sífellt að eiga við líkamlega og sálræna kvilla sem fylgja því að vera í þeirra stöðu. En aftur á móti gefast þeir ekki upp. Þetta er sterkasta fólkið,“ segir Alma. 

Hún segir enn fremur að þeir sýni mikla ákveðni – jafnvel þegar þeir halda að þeir hreinlega þoli ekki meira álag. 

Alma segir að innflytjendur séu yfir höfuð með mikla aðlögunarhæfni, það hafi rannsóknir sýnt. Þeir geti aðlagað sig alls konar nýjum aðstæðum og breytingum – oft mun betur en aðrir.
Mannlíf/Ivan

Vilja taka þátt í samfélaginu

„Ég get þó sagt frá því að sumir hælisleitendur sýna nú merki þunglyndis. Algeng einkenni eru áhugaleysi, ánægjuleysi og minni áhugahvöt, sektarkennd, pirringur, reiði, svartsýni, vonleysi, kvíði, orkuleysi og einbeitingarerfiðleikar. Klínískt þunglynd manneskja getur átt erfitt með að sinna einföldustu hlutum, eins og að fara í sturtu eða eitthvað þvíumlíkt. Hælisleitendur aftur á móti vilja vinna og læra. Þeir vilja taka þátt í samfélaginu og skipta máli. En stundum verður þetta fólk auðvitað þreytt,“ segir hún. 

Alma bendir á að fólk innan samfélags innflytjenda hafi ólíkar þarfir. Þá sé hægt að skipta því í þrjá meginhópa. Í fyrsta lagi séu það innflytjendur sem eiga auðveldara með að aðlagast en í þeim hóp er oft fólk frá Evrópu. Einnig sé auðveldara að komast inn í samfélagið þegar fólk er gift innfæddum, eins og í hennar tilfelli. Annar hópurinn samanstandi af fólki sem á erfiðara með þessa aðlögun. Þá sé erfiðara fyrir fólk að fá vinnu, til að mynda vegna tungumálaörðugleika, eða að fá kennitölu. Þá sé engin tenging inn í samfélagið sem auðveldi aðlögunina. Í viðkvæmasta hóp innflytjenda séu síðan hælisleitendur og flóttafólk. Allir þessir hópar hafa ákveðnar áskoranir og stundum eru þær svipaðar í eðli sínu, að hennar sögn. 

Henni finnst mikilvægt að benda á að þrátt fyrir að fólk í fyrsta hópnum eigi auðveldast með að aðlagast íslensku samfélagi þá geti það þó reynt á. Ekki megi gleyma því. Hún segir að þá séu erlendar konur í mesta áhættuhópnum – þær séu í sérstaklega erfiðri stöðu nú á COVID-19 tímum. Og þrátt fyrir að vera ekki í stöðu sem flóttamaður eða hælisleitandi þá geti aðstæður verið mjög erfiðar, ekki megi gera lítið úr þeim – sérstaklega þegar um heimilisofbeldi er að ræða. 

Mikið álag á fólki

Varðandi það ástand sem nú er uppi vegna COVID-19 faraldursins og áhrif hans á hælisleitendur þá segir Alma að sumum í þessum hópum líði mjög illa. „Þegar þeir kannski héldu að nú væri loksins komin ró í aðstæður þeirra þá kemur eitthvað svona upp á. Og ekki bara þessi sjúkdómur, það er svo margt sem getur gerst í þeirra lífi.“ 

Hún segir að hælisleitendur og þeir sem hafa gengið í gegnum erfiða hluti viti þó eitt: Að þeir geti komist í gegnum þetta ástand. Þeir þurfi þó ennþá meiri aðstoð frá samfélaginu til að takast á við allt þetta – þeir þurfi á athygli að halda.

Auglýsing

„Þegar þetta ástand byrjaði var flókið fyrir alla að nálgast upplýsingar, hjálp og stuðning. Og hvað þá fyrir hælisleitendur eða þá sem eru í viðkvæmasta hópnum hvað þetta varðar. Sumir tala enga ensku og þá getur reynst erfitt að fóta sig. Þau kunna þar af leiðandi ekki að panta sér tíma hjá lækni og þeir vita til dæmis ekki hvernig á að hafa samband við kennara barnanna þeirra. Skrítnir tímar kalla á þetta óöryggi en þetta á við um innflytjendur sem og hælisleitendur. Þetta getur valdið miklu álagi á fólk.“

Kaótískt í byrjun faraldurs

Alma segir að upplýsingaflæðið hér á landi til innflytjenda og hælisleitenda hafi ekki verið nægilega gott í byrjun faraldurs en það fari batnandi. „Ég tel að margir standi sig vel i að deila upplýsingum með útlendingum en í byrjun faraldursins fannst mér þetta allt saman vera heldur kaótískt fyrir alla – við vissum ekki við hverja við áttum að tala eða hvert við áttum að fara. Ástandið var betra fyrir Íslendinga eða þá sem tala góða ensku. Viðkvæmir hópar innflytjenda voru útilokaðir,“ segir hún. 

Hún segir að margir hafi verið hreinlega hræddir og áhyggjufullir og spiluðu tungumálaörðugleikar þar stóran þátt. „Ég þekki marga sem óttast það að kerfið muni gleyma þeim. Þeir geta með engu móti skipulagt líf sitt – og þetta var líka áður en veiran kom til sögunnar. En þetta ástand sem nú er uppi eykur á þennan ótta. Óttann við að gleymast.“

Hælisleitendur á Íslandi.
Bára Huld Beck

Verðum að sýna skilning

Það sem samfélagið þarf að gera, að mati Ölmu, er að sýna samstöðu og styðja við þá sem eru í erfiðri stöðu. „Ég held að það sé það sem við þurfum að gera núna. Við þurfum að sýna skilning. Hælisleitendur eru baráttufólk en það hefur séð ýmsa hluti sem við hin getum ekki einu sinni ímyndað okkur. Þetta ástand getur ýft upp gömul sár og áföll.“

Hún telur að með því að sýna samstöðu og samkennd sé hægt að vera til staðar fyrir alla – og sérstaklega þá sem þurfa mest á því að halda. „Við getum talað um þessa viðkvæmu hópa út frá efnahagssjónarmiði og sem tölur í samfélaginu en þetta fólk er líka með tilfinningar eins og aðrir. Við megum ekki gleyma því.“

Alma segir að með tímanum fari fólk undir miklu álagi að sýna líkamlega einkenni. Mikil bæling og erfiðleikar geti orsakað það. „Það eru ekki einungis andlegir erfiðleikar sem opinberast í erfiðum aðstæðum heldur einnig líkamlegir.“ Nú sé gríðarlega mikilvægt að veita fólki andlegan stuðning til þess að koma í veg fyrir ennþá verra ástand eftir að COVID-19 gengur yfir. 

Getum lært svo mikið með því að hlusta

Ef hælisleitendur eða innflytjendur í erfiðri stöðu fá þann stuðning sem þeir þurfa á að halda þá segist Alma vera mjög bjartsýn á að þeir komi eins vel út úr ástandinu eins og hægt sé. Hún bendir á að samkvæmt rannsóknum þá sé þessi hópur gríðarlega ákveðinn og viljugur til að bæta líf sitt, eins og áður segir. Fólk þurfi einungis að fá tækifæri til þess. Og ef það fær þessi tækifæri hér á Íslandi segist Alma vera viss um að það nái að blómstra. 

„Við getum lært svo mikið af þessu fólki sem samfélag. Við getum lært af þrautseigju þeirra og áhugahvöt. Við verðum að hlusta á það sem það segir með opnum hug,“ segir hún. Enn fremur sé eðlilegt að upplifa alls konar tilfinningar í kringum þetta ástand. En hún segist vera mjög vongóð að Íslendingar, sem og allir aðrir sem hér búa, eigi eftir að komast sem best í gegnum þetta tímabil ef við sem samfélag sýnum þessa samstöðu og samkennd. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal