Þegar drottningin ræskti sig

Að ræskja sig hefur sjaldnast annan tilgang en að hreinsa kverkaskít. Þegar Margrét Þórhildur Danadrottning ræskti sig á fundi með forsætisráðherra Dana árið 1993 var tilgangurinn þó annar og hafði afdrifaríkar afleiðingar í dönskum stjórnmálum.

Margrét Þórhildur Danadrottning.
Margrét Þórhildur Danadrottning.
Auglýsing

Eins og flestum er líklega kunnugt átti Margrét Þórhildur Danadrottning merkisafmæli sl. fimmtudag, 16. apríl. Varð áttræð. Öll hátíðahöld sem ráðgerð höfðu verið víða í Danmörku, af þessu tilefni, voru blásin af vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina. Sjónvarpsstöðvarnar, DR og TV2 voru báðar með fjölbreytta dagskrá bróðurpartinn úr afmælisdeginum þar sem rifjað var upp fjölmargt úr ævi drottningarinnar og fjölskyldunnar á Amalienborg, í máli og myndum. Þar er af nógu að taka enda hefur drottningin og fjölskylda hennar verið vinsælt umfjöllunarefni fjölmiðla um áratugaskeið. 

Þótt margir lýstu vonbrigðum með að viðburðir vegna tímamótanna féllu niður nefndu ýmsir sem rætt var við í blöðum og ljósvakamiðlum að það gæfist brátt annað tækifæri til að samgleðjast drottningunni. 15. janúar árið 2022 verða nefnilega liðin fimmtíu ár síðan Margrét Þórhildur varð þjóðhöfðingi Danmerkur. Sérstök lagabreyting sem gerð var árið 1953 heimilaði að hún yrði þjóðhöfðingi að föður hennar, Friðrik IX, gengnum. Hefði sú breyting ekki verið lögfest hefði Knútur, yngri bróðir Friðriks föður Margrétar Þórhildar, tekið við krúnunni. 

Breytt hlutverk þjóðhöfðingjans 

Margrét Þórhildur var tæplega 32 ára þegar faðir hennar lést. Hún var að miklu leyti óskrifað blað þótt danska þjóðin þekkti auðvitað vel til hennar. Hún hafði fimm árum fyrr gifst Frakkanum Henrik, sem eftir giftinguna fékk titilinn prins. Þau eignuðust tvo syni, krónprinsinn Friðrik, fæddan 1968, og ári síðar Jóakim.

Í tíð Friðriks IX (1899 – 1972) föður Margrétar Þórhildar, breyttist hlutverk þjóðhöfðingjans mikið. Afskipti konungs af stjórnmálum urðu langtum minni en áður hafði tíðkast, stjórn ríkisins var ekki lengur í hans höndum. Danskir sagnfræðingar hafa gjarna orðað það svo að þjóðhöfðinginn væri eins konar öryggisventill en jafnframt sameiningartákn þjóðarinnar, hvað sem pólitíkinni liði. 

Auglýsing
Friðrik IX var vel liðinn af þegnum sínum. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á sjómennsku, gegndi herþjónustu í flotanum og þar eignaðist hann vini til lífstíðar. Þótti alla tíð alþýðlegur og gerði ekki mannamun. Keðjureykti, og bölvaði af minnsta tilefni „svo manni þótti nóg um“ sagði drottningin í viðtali í danska sjónvarpinu, DR, fyrir nokkrum árum.

Ingiríður drottning (1910 – 2000) móðir Margrétar Þórhildar naut mikillar virðingar og vinsælda meðal Dana. Það kom í hennar hlut að breyta mörgum aldagömlum siðum hirðarinnar og færa þá til nútímalegra horfs. Ingiríður var dóttir Gústafs IV Adolfs Svíakonungs (1882 – 1973) og fyrri eiginkonu hans Margrétar af Connaught (1882 – 1920) og þekkti því vel til hirðlífsins. 

Vikulegir fundir með forsætisráðherra

Þótt Margrét Þórhildur hafi ekki bein afskipti af stjórnmálum hefur hún alla tíð fylgst vel með. Einu sinni í viku kemur forsætisráðherrann á fund hennar á Amalienborg þar sem „farið er yfir málin“ eins og sumir þeirra níu sem gegnt hafa embætti forsætisráðherra í tíð Margrétar Þórhildar hafa komist að orði. Hvað fram fer á þessum fundum er „tveggja tal“ sagði Mette Frederiksen nýlega í viðtali. Þegar kosningar nálgast leitar forsætisráðherra samþykkis þjóðhöfðingjans varðandi þingrof og kjördag. Að kosningum loknum ræða formenn flokka, sem fengið hafa fulltrúa kjörna, við drottninguna (kallað dronningerunde) um hverjum skuli falin stjórnarmyndun. Þetta er svipað fyrirkomulag og hér á Íslandi. 

Í Danmörku er kjörtímabilið fjögur ár, en sú staða getur komið upp að stjórnin „springur“ og þá getur forsætisráðherra óskað eftir því, við drottningu, að þing verði rofið og boðað til kosninga. Svo getur það gerst að forsætisráðherra gangi á fund drottningar og biðjist lausnar en leggi jafnframt til að ekki verði boðað til kosninga. 

Tamílamálið  

Einn mesti skandall (skandale) danskrar stjórnmálasögu, að minnsta kosti á síðari tímum, er hið svokallaða Tamílamál. 

Árið 1986 komu um það bil 3 þúsund Tamílar til Danmerkur frá Sri Lanka. Þeir voru að flýja átök í heimalandinu. Lögum um útlendinga hafði tveimur árum fyrr verið breytt í Danmörku og í kjölfarið fjölgaði flóttafólki sem leitaði til Danmerkur. Á þessum tíma var við völd í Danmörku fjögurra flokka stjórn (Firkløverregeringen) undir forystu Poul Schlüter formanns Íhaldsflokksins. Poul Schlüter.

Miklar umræður urðu á þessum tíma í danska þinginu, Folketinget, um hverjir teldust flóttamenn og hverjir ekki. Sumarið 1987 undirrituðu stríðandi öfl á Sri Lanka friðarsamkomulag (hið fyrsta af nokkrum) og í kjölfar þess hóf danski dómsmálaráðherrann, Erik Ninn-Hansen, undirbúning þess að senda Tamílana til baka til Sri Lanka. Sem lið í þessari áætlun kom dómsmálaráðuneytið í veg fyrir að Tamílarnir fengju dvalarleyfi og afgreiddu þess vegna ekki  beiðnir þeirra um fjölskyldusameiningu. Þingkosningar fóru fram í september 1987 en stjórn Schlüter sat áfram, og Erik Ninn-Hansen var áfram dómsmálaráðherra. Ekki hafði enn verið tekin ákvörðun um heimsendingu Tamílanna og þess vegna áttu þeir rétt á, og ítrekuðu, fyrri beiðni um fjölskyldusameiningu.

Dómsmálaráðherrann Erik Ninn-Hansen skipaði embættismönnum sínum, með leynd, að stöðva afgreiðslu þessarar beiðni. 

Schlüter reynir að bjarga í horn 

Eftir að Danska flóttamannahjálpin hafði spurst fyrir, og eftir kvartanir frá nokkrum úr hópi Tamílanna, ákvað Hans Gammeltoft-Hansen, nýskipaður Umboðsmaður þingsins, að skoða málið. Það var árið 1988. Í ársbyrjun 1989 hillti undir að skýrsla umboðsmanns yrði tilbúin og forsætisráðherrann hafði grun um að hún yrði ekki neinn skemmtilestur fyrir dómsmálaráðaherrann Erik Ninn-Hansen. 10. janúar 1989 tilkynnti Poul Schlüter að Erik Ninn-Hansen myndi hætta sem dómsmálaráðherra en yrði forseti þingsins. Í lok mars kom svo skýrsla umboðsmanns, og hún var áfellisdómur yfir Erik Ninn-Hansen. 

Miklar umræður urðu í þinginu og fjölmiðlar fjölluðum vart um annað dögum saman. 25. apríl 1989 flutti Poul Schlüter ræðu í þinginu, þar sem hann sagði að dómsmálaráðherrann og ríkisstjórnin bæru ábyrgð á Tamílamálinu, málið væri upplýst og reyndi að fullvissa þingmenn um að í Tamílamálinu hefði engu verið leynt. Ræða þessi hefur æ síðan verið kölluð Gólftepparæðan vegna orðavals forsætisráðherrans „der er ikke fejet noget ind under gulvtæppet“. Þingmenn sættu sig ekki við þessi málalok og í október 1989 samþykkti þingið að svipta Erik Ninn-Hansen forsetastólnum í þinginu. 

Nokkru síðar var sýndur í sjónvarpinu þáttur um embættisfærslur Erik Ninn-Hansen og í kjölfarið samþykkti meirihluti þingmanna að fram skyldi fara rannsókn á störfum hans. Þess má geta að þingkosningar fóru fram í Danmörku 1988 og líka árið 1990. Stjórn Poul Schlüter hélt velli í báðum þessum kosningum en eftir kosningarnar 1990 hafði fækkað mjög í stjórnarflokkaliðinu og auk Íhaldsflokksins átti einungis Venstre flokkurinn aðild að stjórninni sem naut stuðnings flokka af hægri vængnum.

Hornslet rannsóknin og afsögn Poul Schlüter

Hópur undir stjórn hæstaréttardómarans Mogens Hornslet hóf rannsóknarvinnu sína 10. júlí 1990 og skýrslan var birt 14. janúar 1993. Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að fyrrverandi dómsmálaráðherra, Erik Ninn-Hansen, hefði vísvitandi brotið lög. H.P.Clausen eftirmaður hans í dómsmálaráðuneytinu hefði reynt að villa um fyrir umboðsmanni og rannsóknarnefndinni og fleiri þingmenn voru ennfremur gagnrýndir í skýrslunni. 

Auglýsing
Poul Schlüter forsætisráðherra hefði að minnsta kosti einu sinni sagt nefndinni ósatt og mikið ósamræmi í svörum hans. Hann tilkynnti síðar þennan sama dag, 14. Janúar 1993 að hann myndi biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Þá höfðu þeir flokkar sem stutt höfðu stjórnina lýst yfir að sá stuðningur væri ekki lengur fyrir hendi.  

Drottningin hlustaði en ræskti sig svo

Fylgi Íhaldsflokksins hafði dalað nokkuð í kosningunum 1988 og 1990 og Poul Schlüter óttaðist áframhaldandi fylgishrun. Hann taldi að staða flokksins yrði sterkari ef hann yrði áfram í stjórn, fram að kosningum, en þær yrði að halda eigi síðar en 1994. Þegar Poul Schlüter gekk á fund Margrétar Þórhildar og tilkynnti um afsögn stjórnarinnar kom hann jafnframt með uppástungu um framhaldið. Hún var sú að fela Uffe Ellemann-Jensen formanni Venstre og utanríkisráðherra í fráfarandi stjórn að taka við stjórnartaumunum en auk Venstre myndi Íhaldsflokkurinn eiga aðild að stjórninni. Poul Schlüter hafði kannski gert sér í hugarlund að flokkarnir sem snúið höfðu baki við stjórninni myndu styðja hana fram að kosningum ári síðar. Á það reyndi þó ekki því þegar hann hafði sleppt orðinu varð andartaks þögn en síðan ræskti Margrét Þórhildur sig, án þess þó að segja neitt. Poul Schlüter, sem þekkti drottningu vel, skynjaði að henni hafði ekki hugnast uppástunga hans um stólaskiptin og sú hugmynd var þar með úr sögunni. Hún fól stjórninni hinsvegar að sitja áfram, sem starfsstjórn. 

Sósíaldemókratar, undir forystu Poul Nyrup Rasmussen voru lang stærsti flokkurinn á þingi, hafði 69 þingmenn, Íhaldsflokkurinn átti 30 þingmenn og Venstre 29.  

Niðurstaðan varð sú að við tók fjögurra flokka stjórn undir stjórn Poul Nyrup Rasmussen, sú stjórn sat fram að kosningum 1994. Stjórn undir forystu Poul Nyrup Rasmussen var við völd fram til ársins 2001.

Eftirmál   

11. júní 1993 ákvað danska þingið að mál Erik Ninn-Hansen færi fyrir Landsdóm (Rigsretten) sem dæmir í málum þar sem ráðherrar eiga í hlut. Dómur féll tveimur árum síðar, Erik Ninn-Hansen hlaut fjögurra ára fangelsisdóm, skilorðsbundinn. Málið varð til að eyðileggja pólitískan frama nokkurra þingmanna, þar á meðal H. P. Clausen sem margir höfðu talið að ætti framtíðina fyrir sér í stjórnmálum. 

Poul Schlüter sagði af sér formennsku í Íhaldsflokknum árið 1993 og hætti þingmennsku árið 1994. Hann var kjörinn til setu á Evrópuþinginu sama ár og sat þar til ársins 1999 en hætti þá beinum afskiptum af stjórnmálum. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar