Mynd: Bára Huld Beck

Allt að 330 milljarða tekjur munu ekki skila sér í þjóðarbúið 2020

Ferðamönnum sem heimsækja Íslands mun fækka um allt að 69 prósent í ár. Mikil óvissa er um það hvenær viðspyrna getur hafist en ganga má út frá því að starfsemi í ferðaþjónustu verði skert í allt að ár í viðbót hið minnsta. Þúsundir fyrirtækja eru tæknilega gjaldþrota og tugir þúsunda atvinnulausir.

Í dag hafa 150 lönd í heim­inum sett ein­hvers­konar skorður á ferða­lög og 50 lönd hafa algjör­lega lokað landa­mærum sínum fyrir ferða­mönn­um. Algjör óvissa er um hvenær þessum hömlum verður lyft og í hvers konar skref­um. Ástæðan er útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­dómn­um.

Eins og stendur eru tekjur fyr­ir­tækja sem starfa í ferða­þjón­ustu þó nær að öllu leyti horfnar og flestar sviðs­myndir sem teikn­aðar eru upp um þessar mundir reikna með að ferða­þjón­ustan muni búa við skerta starf­semi í allt að níu til tólf mán­uði til við­bót­ar. Hið minnsta.  

Áhrifin á Íslandi, sem hefur vaxið gríð­ar­lega hratt sem ferða­þjón­ustu­land, verða óum­flýj­an­lega ofsa­leg. Beint fram­lag ferða­þjón­ust­unnar til lands­fram­leiðslu árið 2018 var 8,6 pró­sent og í fyrra orsök­uðu tekur af erlendum ferða­mönnum 35 pró­sent af gjald­eyr­is­tekjum þjóð­ar­bús­ins.

Auglýsing

Í skýrslu sem KPMG hefur unnið með Ferða­mála­stofu og Stjórn­stöð ferða­mála eru birtar spár um hvaða áhrif hrunið í ferða­þjón­ustu vegna útbreiðslu kór­ónu­veirunnar muni hafa á tekju­öflun grein­ar­inn­ar. Þar er reiknað með að komur ferða­manna til Íslands muni drag­ast saman um 43 til 69 pró­sent á árinu 2020. Bjart­sýn­asta spáin gerir ráð fyrir að fjöldi erlendra ferða­manna sem komi hingað til lands verði rétt rúm­lega helm­ingur þess sem kom í fyrra, þegar þeir voru um tvær millj­ón­ir. Svart­sýn­asta spáin gerir ráð fyrir að erlendu ferða­menn­irnir verði ein­ungis 600 þús­und. 

Afleið­ingin af þessu er kolsvört: reiknað er með að gjald­eyr­is­tekjur drag­ist saman um 275 til 330 millj­arða króna. 

Til að setja þá tölu í sam­hengi þá skil­aði sjáv­ar­út­vegur íslenska þjóð­ar­bú­inu 260 millj­örðum króna í gjald­eyr­is­tekjur í fyrra og álf­ram­leiðsla, sem rekin er fyrir íslenska orku, 212 millj­örðum króna. Gangi spá KPMG eftir er höggið því sam­bæri­legt og að allar tekjur í sjáv­ar­út­vegi og þriðj­ungur af tekjum vegna álf­ram­leiðslu, myndu hverfa. 

Gangi svart­sýn­asta spáin eftir heildar vöru- og þjón­ustu­út­flutn­ingur íslenska þjóð­ar­bús­ins drag­ast saman um 25 pró­sent bara vegna sam­dráttar í tekjum ferða­þjón­ust­unn­ar.

Atvinnu­leysi á leið­inni upp í 17 pró­sent

Ferða­þjón­ustan er mann­afla­frek. Í jan­úar störf­uðu 23.300 manns í grein­inn­i. Veiru­far­ald­ur­inn og efna­hags­legar hlið­ar­verk­anir hans hafa skilað því að atvinnu­leysi hér­lendis er í hæstu hæð­um. Sam­tals voru um 38.600 ein­stak­lingar á atvinnu­leys­is­skrá í lok mars, þar af um 24.400 í minnk­uðu starfs­hlut­falli og á hluta­bót­um.

Ferðaþjónustan skilaði 35 prósent af gjaldeyristekjum íslenska þjóðarbúsins í fyrra. Í ár munu þær tekjur verða hverfandi.
Mynd: Bára Huld Beck

Um 43 pró­sent af þeim umsóknum sem Vinnu­mála­stofnun hefur borist um hluta­bætur eru frá frá geirum sem tengj­ast flug­rekstri og ferða­þjón­ust­u. 

Spár Vinnu­mála­stofn­unar gera ráð fyrir að hlut­fall atvinnu­lausra muni fara upp í 17 pró­sent í apr­íl­mán­uði og að fjöldi þeirra sem munu vera á hluta­bótum á meðan að það úrræði stendur til bóta, sem er út næsta mán­uð, verði nálægt 35 þús­und. Þeir laun­þegar muni koma frá allt að 6.500 fyr­ir­tækj­u­m. 

Verst er ástandið á Suð­ur­nesjum þar sem stór hluti starfa teng­ist flugi til og frá land­inu og ferða­þjón­ustu. Um 70 pró­sent íbúa Suð­ur­nesja sem eru í minnk­uðu starfs­hlut­falli starfa í þeim geir­um. Í lok mars var atvinnu­leysi á svæð­inu 14,1 pró­sent og gert er ráð fyrir að það auk­ist í 23 til 24 pró­sent í apr­íl. 

Vilja afskriftir og rekstr­ar­stuðn­ing

Ofan á tekju­brest­inn er staða ferða­þjón­ust­unnar sú að geir­inn er afar skuld­sett­ur. Áætl­aðar skuldir greina ferða­þjón­ustu án flugs voru sam­tals 248 millj­arðar króna á fyrsta árs­fjórð­ungi 2020, sam­kvæmt skýrslu KPM­G. 

Auglýsing

Þar segir að sam­kvæmt tölum Seðla­bank­ans hafi skuld­setn­ing grein­ar­innar við við­skipta­bank­ana þrjá – Lands­bank­ann, Íslands­banka og Arion banka – auk­ist um 84 pró­sent frá árs­byrjun 2016 á sama tíma og tekjur hefðu vaxið um þrjú pró­sent. „Veik­ing krón­unnar eykur svo skulda­vand­ann á meðan engar tekjur ber­ast þar sem þriðj­ungur lána er í erlendri mynt.“

Í skýrslu KPMG er bent á að í árs­lok 2019 hafi ferða­þjón­usta staðið undir um það bil 16 pró­sent af íslenskum vinnu­afli. Með­al­tal ferða­þjón­ustu­starfa í ríkjum OECD er 6,9 pró­sent.  Tjónið á Íslandi verði því mun meira en í öðrum hag­kerfum sem landið ber sig jafnan saman við. 

Þetta skilar því að rekstur fjöl­margra ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja er á leið­inni í gjör­gæslu. 

Í skýrslu KPMG er fjallað um þær mót­væg­is­að­gerðir sem ferða­þjón­ustu­geir­inn telur að nauð­syn­legt sé að grípa til. Þar segir að lyk­il­at­riði sé að tryggja rekstr­ar­sam­fellu en veik staða og há skuld­setn­ing geri flestum ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækjum erfitt að starfa við núver­andi aðstæð­ur. Það þurfi því að tryggja þessum félögum aðgang að fjár­magni án tafa. „Mikil skuld­setn­ing félag­anna felur í sér að ríkið mun þurfa, með einum eða öðrum hætti, að bera stórt hlut­fall af föstum rekstr­ar­kostn­aði þeirra félaga sem hafa for­sendur til að starfa í grein­inni til lengri tíma lit­ið.“

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mun kynna næsta efnahagspakka sinn eftir helgi, líklega á þriðjudag. Ferðaþjónustan vonast eftir miklum sértækum aðgerðum í sinn garð í þeim pakka.
mynd: Bára Huld Beck

Í ofaná­lag muni íslensk ferða­þjón­usta ekki geta reitt sig á inn­lenda ferða­menn í sama mæli og aðra þjóðir til að milda högg­ið. „Þjón­usta við inn­lenda ferða­menn vegur þungt í ferða­þjón­ustu margra nágranna­ríkja en á Íslandi er vægi inn­lenda mark­að­ar­ins lít­ið. Aukn­ing á inn­lenda mark­að­inum mun vega lítið sam­an­borið við sam­drátt í þjón­ustu við erlenda ferða­menn.“

Félög innan grein­ar­innar séu mörg hver ekki lengur sjálf­bær miðað við óbreyttan rekstur og við­bót­ar­skuld­setn­ingu. „Því er ólík­legt að eðli­leg við­bót­ar­fyr­ir­greiðsla og/eða end­ur­fjár­mögnun á haust­mán­uðum standi þeim til boða vegna skorts á veð­rými og slæmrar eig­in­fjár­stöðu. Þrátt fyrir mögu­leg „Brú­ar­lán“ eru félögin ekki gjald­fær til lengri tíma lit­ið, þau eru tækni­lega gjald­þrota og lána­stofn­unum ein­fald­lega óheim­ilt að lána þegar ekki er sýnt fram á að félag geti greitt lán til bak­a.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar