Vorið er komið víst á ný
Þeir belgja sig út, fullir tilhlökkunar. Ýfa svo á sér fjaðrirnar og syngja gleðibrag. Blómin stinga sér upp úr moldinni, springa út og svelgja í sig sólargeislana. Vorið ber með sér væntingar og þrá.
Náttúran á norðurhveli jarðar er að vakna eftir vetrarblund. Fjölskrúðug flóra milli fjalla og fjöru kastar gráleitum ham sínum og hjúpar landslagið líflegum litum. Fuglar sitja á greinum trjánna og syngja sinn fegursta söng.
Það er komið vor á ný.
Á hlaupum
Dhauladhar-fjallgarðurinn á Indlandi er hluti af Himalaya-fjöllunum. Þar er Hanuman Tibb hæsti tindurinn, tæplega 6.000 metra hár.Í sólbaði
Tveir otrar njóta sólarinnar á grænu almenningssvæði í miðborg Mílan á Ítalíu. Þeir hættu sér þangað þar sem fáir menn voru á ferli.
Á vappi
Gæsahópur á vappi á þýska verndarsvæðinu Wagbachniederung. Svæðið er mikilvægt varpland fugla en þar koma þeir einnig við á leið til annarra varpsvæða í Evrópu.
Um sólina og vorið
Blábrystingur syngur hástöfum á fuglaverndarsvæðinu í Wagbachniederung. Blábrystingur er af þrastaætt og á því fjarskylda ættingja hér á Íslandi.
Bleikur ofurmáni
Storkar spóka sig í skini bleiks ofurmána í Norður-Makedóníu. Árið 2020 er ríkt af ofurmánum og þetta er sá þriðji frá áramótum. Þá er tunglið nær jörðu en venjulega og virðist því stærra og bjartara.
Í blóma
Kirsuberjatrén í þýsku borginni Bonn standa nú í miklum blóma. Fegurðin er aðeins tímabundin því trén missa blóm sín á aðeins nokkrum dögum.
Stígur dans
Bandaríska ballerínan Abby Thomson dansar undir blómstrandi kirsuberjatrjám í Washington-borg. Kirsuberjatrén eru myndræn með eindæmum.