Mynd: Bára Huld Beck

Lokunarstyrkir, bónus til framlínufólks og fjölmiðlagreiðslur í aðgerðapakka 2.0

Lokunarstyrkir til fyrirtækja sem ríkið lét loka með boðvaldi, bónusgreiðslur til framlínustarfsmanna og óútfærðar styrkveitingar upp á 350 milljónir króna til einkarekinna fjölmiðla eru á meðal aðgerða sem mynda nýjasta pakka íslenskra stjórnvalda.

Lokunarstyrkir verða greiddir til fyrirtækja sem þurftu að loka vegna lögboðs stjórnvalda í tengslum við baráttuna við útbreiðslu COVID-19, einkareknir fjölmiðlar munu fá 350 milljónir króna í sértæka styrki sem enn á eftir að ákveða hvernig verður útdeilt og framlínustarfsmenn munu skipta með sér bónusgreiðslu upp á einn milljarð króna fyrir þeirra framlag í baráttunni sem nú stendur yfir, og hefur gert meira og minna í á annan mánuð. 

Ráðist verður í margháttaðar aðgerðir til að mæta stöðu námsmanna, meðal annars með sumarnámi og sumarstörfum, og í aðgerðir til að styðja við nýsköpun og sprotastarfsemi. 

Þetta er uppistaðan í aðgerðarpakka stjórnvalda númer 2.0. sem kynntur var af leiðtogum ríkisstjórnarflokkanna í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag. Þar sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, við lok kynningarinnar að „þetta verður ekki síðasti aðgerðarpakkinn.“

Stjórnvöld meta heildarumfang aðgerðanna sem nálægt 60 milljörðum króna.

Fyrsti hluti: Aðgerðir fyrir lítil fyrirtæki

Aðgerðapakki stjórnvalda númer tvö er þríþættur og mun kosta á bilinu nokkra tugi milljarða króna. Í fyrsta lagi er um stuðningspakka að ræða fyrir fyrirtæki. Í honum felst að fyrirtæki eða einyrkjar sem þurftu að loka starfsemi sinni vegna lögboðs stjórnvalda í tengslum við sóttvarnaraðgerðir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum munu geta fengið svokallaða lokunarstyrki. Styrkirnir verða í boði fyrir þau fyrirtæki sem geta sýnt fram á að minnsta kosti 40 prósent tekjufall og að þau séu með opinber gjöld í skilum. Hver aðili mun geta fengið allt að 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann en 2,4 milljóna króna styrk að hámarki en styrkirnir geta náð til allt að 14 þúsund fyrirtækja. Viðbúið er þó að einhver þeirra fyrirtækja muni ekki uppfylla skilyrði um tekjufall og skil á opinberum gjöldum. 

Auglýsing

Sérstök lán til lítilla fyrirtækja voru einnig kynnt til leiks. Til að teljast til slíkra fyrirtækja þarf að vera með tekjur undir 500 milljónum króna á ári. Lánin, sem munu njóta 100 prósent ríkisábyrgðar, standa einungis fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40 prósent tekjufalli til boða, sem er sama skilyrði og gildir fyrir hin svokölluðu brúarlán til stærri fyrirtækja sem kynnt voru til leiks fyrir mánuði síðan en hafa enn ekki komið til framkvæmda. Lánin til fyrirtækjanna verður hægt að sækja um með einföldum hætti á Island.is en þau verða sex milljónir krónur á hvert fyrirtæki. Heildarumfang lánanna eiga að geta orðið allt að 28 milljarðar króna í heild, að mati stjórnvalda. 

Fyrirtæki sem ættu að greiða tekjuskatta í ár, vegna hagnaðar í fyrra, munu geta að skilyrðum uppfylltum frestað þeim skattgreiðslum. Umfang þessarar aðgerðar er metin á tólf milljarða króna.

Þá verða einkareknir fjölmiðlar styrktir um 350 milljónir króna. Grunnur þeirrar upphæðar var fundinn út með því að skoða launakostnað og greidd tryggingargjöld fjölmiðla á síðasta ári og svo bætt við 50 milljónum króna. Enn á eftir að útfæra hvernig styrkirnir verði greiddir út en Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, verður falið að gera reglugerð um hvernig því verði háttað. Þótt hún fái víðtækar heimildir til að ákvarða skiptinguna þá eru sett ákveðin skilyrði. Ráðherranum er gert að líta meðal annars til kostnaðar við laun og verktakagreiðslur vegna miðlunar frétta og fréttatengds efnis. Ennfremur verði litið til þess að minni aðilar hljóti hlutfallslega meiri stuðning og að tiltekið hámark verði á stuðningi við einstaka aðila. Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem send var út eftir fundinn segir að gert sé ráð fyrir því að fjölmiðlar sæki um stuðning með formlegum hætti og stuðningurinn taki mið af launakostnaði fjölmiðla vegna fréttamiðlunar. Þak verður sett á fjárhæð styrkja til einstakra fjölmiðla, svo stuðningurinn nýtist bæði stórum og litlum miðlum.

Stjórnvöld segja að gripið sé til aðgerðanna til að styðja við fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Það þurfi að tryggja einkareknum fjölmiðlum sérstakan rekstrarstuðning „á yfirstandandi ári, en þeir hafa tapað miklum tekjum á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist.“

Annar hluti: Félagslegar aðgerðir

Í öðru lagi var kynntur félagslegur pakki. Í honum felst meðal annars að bjóða upp á sumarnám fyrir fólk sem stundar nám á  framhalds- og háskólastigi auk þess sem fjármunum verður veitt í að skapa sumarstörf fyrir námsmenn. Heilsugæsla verður efld, sérstaklega geðheilbrigðishluti hennar, og félagsleg úrræði, meðal annars stafræn úrræði, verða styrkt. Þá verður um 600 milljónum króna veitt í verkefni sem heitir íþrótta- og tómstundastarf barna. Auk þess verða nokkur hundruð milljónir krona settar í ýmis konar verkefni tengd viðkvæmum hópum. Innan þeirra marka falla til dæmis þolendur heimilisfobeldis, þeir sem eru í félagslegri einangrun og fleiri. 

Þá verður ráðist í sértækan stuðning við sveitarfélög með ýmsum hætti. 

Stóra breytan í þessum hluta snýst um að 1,5 milljarðar króna verða settir inn í svokallaðan fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem nýta á til að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk og lagfæra byggingar. Vert er þó að benda á að áætlað tekjufall Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er áætlað um 4,5 milljarðar króna þannig að staðan hans verður nettó neikvæð innan ársins 2020 vegna yfirstandandi ástands. 

Kynntar voru einskiptisgreiðslur til framlínustarfsmanna sem staðið hafa vaktina í baráttunni við COVID-19 undanfarnar vikur.

Þeir framlínustarfsmenn sem hafa staðið vaktina síðustu vikur munu skipta með sér einum milljarði króna.
Mynd: Landspítalinn/Þorkell Þorkelsson

Hún mun nema einum milljarði króna.

Þriðji hluti: Nýsköpun og sprotar

Í þriðja lagi verður ráðist í aðgerðir til að örva nýsköpun og sprotastarfsemi. Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar verða hækkaðar úr 20 í 25 prósent, en Kjarninn hefur heimildir fyrir því að þrýstingur hafi verið frá hagsmunasamtökum um að þær yrðu hækkaðar í allt að 50 prósent. Alls verður þakið á kostnaði sem má telja fram til frádráttar úr 600 í 900 milljónir króna.

Þá verður bætt við greiðslum í nýsköpunarsjóð námsmanna sem verða sérstaklega eyrnamerktar sprotafyrirtækjum.

Auglýsing

Framlög í Kríu frumkvöðlasjóð, íslenskan hvata­sjóð nýsköp­un­ar­drif­ins frumkvöðlastarfs sem kynntur var til leiks í lok nóvember í fyrra, verða hækkuð um 1,1 milljarð króna. Kría á að verða hvata­sjóður sem fjár­festir í vís­i­sjóðum (Venture Capital) og mun auka aðgengi að fjár­magni og tryggja sam­fellu í fjár­mögn­un­ar­um­hverfi frum­kvöðla og nýsköp­un­ar. Í gildandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem nú er orðin með öllu úr sér gengin, var gert ráð fyrir að samtals 2,5 milljarðar króna myndu fara í að fjármagna sjóðinn á næstu þremur árum. Auk þess verður heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í vísisjóðum aukin. Í dag mega þeir eiga allt að 20 prósent í slíkum sjóðum og þarf því aðkomu að lágmarki fimm lífeyrissjóða til að stofna vísisjóð. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála- iðnaðar og nýsköpunar, hafði boðað frumvarp sem átti að auka heimild lífeyrissjóða upp í 35 prósent í lok síðasta árs. Því er um aðgerð að ræða sem þegar hafði verið boðuð. Hún mun einnig leggja fram frumvarp um breytingar á logum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem felur í sér heimild til að geta endurgreitt viðskiptavinum ferðaþjónustufyrirtækja með inneignarnótu í stað peninga. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir stendur í ströngu þessa daganna. Stærstu málaflokkar hennar ráðuneytis eiga verulega undir högg að sækja vegna COVID-19.
Mynd: Bára Huld Beck

Þriðja frum­varpið kall­ast svo „frum­varp til laga um fjár­stuðn­ing til rekstr­ar­að­ila vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru“ og fjallar um beinu greiðslurnar til þeirra fyr­ir­tækja sem hafa þurft að loka vegna ákvarð­ana sem stjórn­völd hafa tekið til að berj­ast við útbreiðslu veirunn­ar. 

Þá voru afgreidd frum­vörp Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, um Mat­væla­sjóð og Þórdísar Kolbrúnar um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Aðgerðapakkinn var í kjölfar ríkisstjórnarfundarins kynntur fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna og svo fyrir forystufólki stjórnarandstöðunnar í gegnum fjarfundarbúnað á fundi sem hófst í kringum klukkan 13 síðdegis í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fær að stofna svokallaðan Matvælasjóð og 500 milljónir króna verða settir í það verkefni. Þá verða 250 milljónir króna settar í listamannalaun í viðbót við það sem ætlað var.

Kynnt í ríkisstjórn í morgun

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, kynnti þrjú ný frum­vörp á ríkisstjórnarfundi í morgun sem mynda grunninn af lögfestingu aðgerðanna. Hann fór auk þess yfir upp­færðar sviðs­myndir um efna­hags­horf­ur. Fyrstu tvö frum­vörpin eru ann­ars vegar band­ormur til að lög­festa þær aðgerðir sem kynntar voru í dag og hins vegar nýtt fjár­auka­laga­frum­varp svo hægt verði að fjár­magna þær aðgerðir.

Þriðja frum­varpið kall­ast svo „frum­varp til laga um fjár­stuðn­ing til rekstr­ar­að­ila vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru“ og fjallar um beinu greiðslurnar til þeirra fyr­ir­tækja sem hafa þurft að loka vegna ákvarð­ana sem stjórn­völd hafa tekið til að berj­ast við útbreiðslu veirunn­ar. 

Þá voru afgreidd frum­vörp Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, um Mat­væla­sjóð og Þórdísar Kolbrúnar um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Aðgerðapakkinn var í kjölfar ríkisstjórnarfundarins kynntur fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna og svo fyrir forystufólki stjórnarandstöðunnar í gegnum fjarfundarbúnað á fundi sem hófst í kringum klukkan 13 síðdegis í dag.

Árétting:

Í upphaflegri útgáfu stóð að greiðslur til framlínustarfsmanna ættu að einskorðast við þá sem hafa klæðst hlífðarbúnaði. Var þar stuðst við upplýsingar úr gögnum sem voru kynnt fyrir ýmsum fyrr í dag. Þessi takmörkun er þó ekki hluti af endanlegri útgáfu pakkans og skýringunni hefur verið breytt í takti við það.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar