EPA

Hryllingurinn á hjúkrunarheimilunum

Það er undirmannað. Varnarbúnaður er af skornum skammti eða einfaldlega ekki fyrir hendi. Heimsóknarbanni hefur verið komið á til verndar íbúunum en það þýðir einnig að umheimurinn fær lítið að vita hvað gengur á innandyra.

Þegar sjúkraliðinn Deborah mætti til vinnu á hjúkrunarheimilið Parker Jewish Institute í New York í lok mars var hún kvíðin. Hún vissi að tilfellum COVID-19 í borginni og ríkinu öllu hefði fjölgað hratt og að ríkisstjórinn Andrew Cuomo hafði varað við því að hið versta væri enn eftir. Hann hafði einnig varað við því að hlífðarbúnaður væri af skornum skammti og að hætta væri á að heilbrigðisstarfsfólk eins og hún sjálf myndi smitast af veirunni.

En Deborah gat þó ekki ímyndað sér hversu slæmt ástandið á hjúkrunarheimilinu var orðið í raun og veru. Samstarfsfólk hennar hafði klætt sig í ruslapoka þar sem engir hlífðargallar voru til og höfðu ekki nauðsynlegar grímur fyrir vitunum. Á heimilinu dvelja meðal annars gyðingar sem flúðu helförina í Evrópu. Málið hefur því vakið mikla athygli í samfélagi gyðinga um allan heim.

Smit höfðu komið upp meðal íbúanna, m.a. vegna þess að sjúklingar af sjúkrahúsum höfðu verið fluttir þangað, og margir starfsmenn smituðust í kjölfarið. Einhver varnarbúnaður var útvegaður, m.a. hanskar og grímur, en ekkert í líkingu við það sem þurfti til. Smituðum hélt áfram að fjölga næstu vikurnar. Og dauðsföllunum sömuleiðis. Í fyrradag höfðu 53 látist vegna COVID-19. 

Auglýsing

Hinn átakanlegi veruleiki sem íbúar og starfsmenn á Parker-hjúkrunarheimilinu búa við er ekkert einsdæmi. Þetta ástand ríkir einnig á öðrum heimilum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, á Spáni,  Ítalíu og víðar.

Bresk stjórnvöld hafa nú ákveðið að birta daglega tölur um fjölda látinna á öldrunarheimilum í landinu eftir að ljóst var að hún var komin yfir 4.300 og neyðarástand skapast á slíkum heimilum í Wales og á Englandi. Ýmislegt bendir til að faraldurinn hafi fellt mun fleiri í Bretlandi en opinberar tölur sýna, sérstaklega í hópi íbúa öldrunarheimila.

„Þetta var hryllilegt,“ segir hjúkrunarfræðingur, sem starfar á stærsta hjúkrunarheimili New Jersey, eftir að lögreglan fann sautján lík í geymslu á heimilinu stuttu eftir páska. Heimilið er einkarekið og þar býr aldrað fólk, sumt heilabilað eða með geðsjúkdóma.  Hjúkrunarfræðingurinn lýsir því að hafa þurft að flytja sjúka milli herbergja og deilda án varnarbúnaðar. Ekki var gætt að almennu hreinlæti heldur.

Eftir að lögreglan kom með birgðir af hlífðarfatnaði var starfsfólki tilkynnt að ekki væri til nóg fyrir alla. Og andlitsgrímurnar varð það að þvo og nota aftur og aftur. Hjúkrunarfræðingurinn smitaðist svo sjálfur af COVID-19 eins og margir samstarfsmenn hans.

Starfsmaður á hjúkrunarheimili á Spáni að störfum er faraldurinn stóð sem hæst þar í landi.
EPA

Á hjúkrunarheimili í Brooklyn í New York var ástandið orðið svart þegar í byrjun apríl. Forstjóri heimilisins sendi út neyðarkall: „Það eru meira en fimmtíu sjúklingar hér á víð og dreif um bygginguna og við höfum nær engan varnarbúnað,“ skrifaði hann til borgaryfirvalda. „Við getum engan veginn komið í veg fyrir útbreiðslu við þessar aðstæður.“

Það er óljóst hversu margir hafa dáið á hjúkrunarheimilum í Bandaríkjunum vegna COVID-19. Slíkum tölum er ekki haldið miðlægt saman enn sem komið er og borgirnar og ríkin gefa þær heldur ekki alltaf út. Yfir tíu þúsund íbúar og starfsmenn á öldrunarheimilum hafa látist í þeim 23 ríkjum sem gefa slíkar upplýsingar. Í dag hafa að minnsta kosti 3.500 íbúar öldrunarheimila í New York-ríki einu saman dáið vegna sjúkdómsins. 

Hryllingssögur hafa einnig komið frá hjúkrunarheimilum í Kanada. Á einu slíku í Montreal létust yfir þrjátíu á nokkrum vikum. Flest starfsfólkið hætti að mæta í vinnuna og gamla fólkið fékk hvorki vott né þurrt og varð að gera þarfir sínar í rúmið. Nokkrir höfðu dottið fram úr rúmum sínum og einhverjir dáið án þess að líkin væru fjarlægð. „Það sem gerðist á Residence Herron er augljóst dæmi um allt sem er að þegar kemur að umönnun aldraðra,“ segir Moira Davis, dóttir manns sem lést á heimilinu. 

Íbúi á hjúkrunarheimili í Tékklandi fylgist með starfsmanni út um gluggann.
EPA

Hjúkrunarheimili eru ekki sjúkrahús. Starfsfólkið þar er ekki þjálfað í að bregðast við óvæntum atburðum á borð við faraldur. Þar eru ekki gjörgæsludeildir og öndunarvélar. Þegar farsótt geisar þurfa heimilin utanaðkomandi aðstoð og aðföng – og leiðbeiningar um nauðsynlegt verklag.

„Það er búið að banna heimsóknir sem verndar [íbúana] en kemur einnig í veg fyrir að umheimurinn komist að því hvað er í gangi,“ skrifaði Andrew Stein, fyrrverandi borgarráðsfulltrúi í New York, í Wall Street Journal í gær um ástandið á öldrunarheimilum í Bandaríkjunum. Stein barðist ötullega fyrir lagabreytingu á áttunda áratugnum sem átti að tryggja betri umönnun og skylda þá sem ráku heimilin til að greiða í sameiginlega sjóði til að mæta áföllum af ýmsu tagi.

Hann segir að stjórnvöldum hafi yfirsést sá stórkostlegi vandi sem fyrirséð var að gæti komið upp á hjúkrunarheimilum. Vandi þeirra hafi verið mikill fyrir. Þar sé undirmannað og sóttvörnum almennt ekki sinnt eins og þyrfti. Veikleikarnir komi svo skýrt í ljós í faraldrinum sem nú geisar. „Það er tímabært að framkvæma rannsóknir og setja á strangari löggjöf til að tryggja aðstæður aldraðra þeirra síðustu æviár.“

Auglýsing

Fljótlega eftir að faraldur COVID-19 braust út í Kína var ljóst að hann lagðist þyngst á eldra fólk og þá sem hefðu undirliggjandi sjúkdóma. „Og það var ljóst öllum þeim sem þekkja til bandarískra hjúkrunarheimila að þessar stofnanir gætu ekki verndað skjólstæðinga sína,“ skrifar Richard Mollot, forstöðumaður frjálsu félagasamtakanna Long Term Care Community Coalition, í New York Times.

Samtök hans vinna að því með margvíslegri fræðslu og vitundarvakningu að bæta lífsgæði og umönnun aldraðra. Stein segir að bandarísku hjúkrunarheimilin bjóði hættunni heim, ekki aðeins sé mikil hætta á því að íbúarnir veikist af COVID-19 heldur einnig að þeir verði vanræktir vegna ástandsins. Sýkingarhætta sé mikil á mörgum heimilanna, þar deyi um 380 þúsund íbúar árlega vegna sýkinga. Rannsóknir hafi sýnt að hreinlæti sé þar oft ábótavant.

Sífellt fleiri heimili séu einkarekin og þó að talsmenn þeirra haldi öðru fram skýrist fjölgunin af því að reksturinn, sem byggir m.a. á framlögum úr sameiginlegum sjóðum, er arðbær. Stein bendir að lokum á að þótt heimilin fái fé frá hinu opinbera beri þeim ekki skylda til að nýta það til innkaupa á hlífðarfatnaði fyrir starfsfólkið eða til að ráða fleira fólk. „Faraldur er náttúruafl sem ekki er hægt að koma í veg fyrir. En eftir vanrækslu á hjúkrunarheimilum til margra ára eru milljónir íbúar þeirra óvarðir gegn faraldrinum. Hægt hefði verið að komast hjá mörgum dauðsföllum. Mörgum mannslífum hefði verið hægt að bjarga ef við hefðum krafist meira af þessum fyrirtækjum og þeim sem setja þeim reglur.“

Það segir sýna sögu um ástandið á öldrunarheimilum í Bandaríkjunum að ríkisstjóri New York varð að gefa út sérstaka tilskipun um að stjórnendur slíkra stofnana ættu skilyrðislaust að láta ættingja vita ef aldraðir ástvinir þeirra greinast með COVID-19. Þá skal líka láta ættingja vita ef ástvinurinn deyr. Aðstoðarmaður hans sagði tilskipunina nauðsynlega því ekki hefði verið farið að tilmælum um þessa upplýsingagjöf.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiErlent