Mynd: EPA

Íþróttirnar eygja endurkomu

Þeir sem skipuleggja íþróttamót eru ekki í öfundsverðu hlutverki þessa dagana. Misjafnt er á milli landa hvenær leyfilegt verður að setja íþróttastarf aftur af stað, samhliða tilslökunum á samkomubönnum. Fjárhagslegir hagsmunir eru gríðarlega miklir.

Íþróttastarf hefur legið nær algjörlega niðri um heim allan frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar fór að breiðast hratt út í byrjun mars. Þó með örfáum undantekningnum, því enn er verið að stunda hópíþróttir í löndum á borð við Hvíta-Rússland og Túrkmenistan, þar sem leiðtogar hafa farið á skjön við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um fjöldasamkomur.

Willum Þór Willumsson leikmaður BATE frá Borisov í Hvíta-Rússlandi er þannig sennilega sá íslenski knattspyrnumaður sem sennilega er í bestu leikæfingunni um þessar mundir, en 761 áhorfandi mætti á Borisov-leikvanginn á miðvikudag þar sem Willum kom inn á sem varamaður í 2-0 bikarsigri gegn liði Slavia frá Mozyr.

Annars er lítið að gerast á íþróttasviðinu og helstu stofnanir íþróttaheimsins velta nú vöngum um það, rétt eins og flestir aðrir, hvenær lífið nálgist það að verða eðlilegt að nýju. En eins og með ferðamennskuna er alls óvíst hvenær atvinnuíþróttaheimurinn nær að fóta sig að nýju, enda eru íþróttir á hæsta stigi jú alþjóðlegar og krefjast þess að lið og einstaklingar fari þvert á landamæri til þess að etja kappi.

Í eðlilegu árferði safnast líka tugir þúsunda saman á leikvöngum til þess að fylgjast með leikjum og keppnum. Hvenær það verður aftur leyfilegt og hvenær fólk verður viljugt til að fara í slíka mannþröng til þess að að njóta afþreyingar eru einnig stórar spurningar, sem svör eru ekki til við eins og staðan er núna.

Auglýsing

Ólympíuleikunum í Tókíó hefur verið frestað til næsta sumars og sömuleiðis Evrópukeppninni í fótbolta og svo ótalmörgu öðru. Forsvarsmenn Alþjóðaólympíunefndarinnar hafa nýlega gefið það út að leikunum verði sennilega aflýst, frekar en frestað aftur, verði raunin sú að kórónuveirufaraldurinn muni enn hafa áhrif á næsta ári. 

Fróðleg samantekt um stöðu mála í helstu íþróttadeildum Bandaríkjanna birtist í Washington Post á föstudag. Þar vestra klóra menn sér í hausnum og reyna að átta sig á því hvernig hægt verði að taka upp þráðinn á ný, núna þegar rétt um tveir mánuðir eru síðan öllu var slegið á frest.

„Þetta er búið að vera erfitt. Ég væri að ljúga að þér ef ég segði þér að ég við værum með góða hugmynd. Þær eru bara misjafnlega slæmar,“ sagði einn háttsettur stjórnandi bandarískrar íþróttadeildar í samtali við blaðið.

Nú eru ríki Evrópu hægt og rólega að slaka á þeim samfélagslegu takmörkunum sem hafa verið í gildi, en víða á enn eftir að koma í ljós hvenær hægt verður að halda keppni áfram í atvinnuíþróttum fullorðinna í álfunni.

Evrópufótboltinn ræður ráðum sínum

Í Frakklandi, Hollandi og Belgíu hefur þegar verið gefist upp á því reyna að ljúka yfirstandandi keppnistímabilum í fótbolta, rétt eins og var ákveðið hér heima með alla keppni í þeim hópíþróttum sem stundaðar eru yfir vetrartímann, körfubolta, handbolta, blak og fleiri.

Í Frakklandi hafa allir íþróttakappleikir verið bannaðir þar til í september. Þar verða liðsmenn PSG krýndir landsmeistarar í knattspyrnu karla, þrátt fyrir að önnur lið hefðu tölfræðilega getað náð í skottið á þeim.

Á öðrum stöðum er stefnt að því að fótboltinn rúlli aftur af stað í sumar, þó að áhorfendurnir verði engir. Aðildarþjóðir evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, hafa fengið frest til 25. maí til þess að kunngjöra hvort þær muni halda leik áfram eða ekki. UEFA segist enn stefna að því að reyna að ljúka Evrópukeppnum félagsliða. 

Í Þýskalandi er gælt við að byrja aftur að spila fótbolta 16. maí, án áhorfenda, en þar hefur liðum verið heimilt að æfa saman frá því snemma í apríl. Engin ákvörðun liggur enn fyrir, en mjög svo skiptar skoðanir eru uppi uppi um það hvort réttlætanlegt sé að taka tugþúsundir COVID-19 sýna úr knattspyrnumönnum til þess eins að fótboltinn geti hafist á ný. Búist er við því að ríkisstjórn landsins taki málið fyrir á miðvikudag, 6. maí.

Auglýsing

 Í Sviss hefur fengist formlegt leyfi frá yfirvöldum til þess að hefja leik að nýju 8. júní og í Svíþjóð er stefnt að því byrja keppni í efstu deild 14. júní.

Á Ítalíu styttist í að íþróttafólk megi fara að æfa aftur og eintaklingsæfingar hjá leikmönnum einhverra liða í A-deildinni í fótbolta verða heimilar á morgun, mánudag, og ráðgert er að lið megi koma saman til æfinga á ný 18. maí. Vonir standa til þess að deildarkeppnin geti hafist á ný í júní, en þó hefur ekkert verið samþykkt í þeim efnum. 

Giuseppe Conte forsætisráðherra Ítalíu ræddi sérstaklega um stöðu fótboltans í sjónvarpsávarpi í síðustu viku og sagði að fyllsta öryggi yrði að tryggt svo hægt yrði að hefja leik að nýju. „Ég hef ástríðu fyrir fótbolta,“ sagði forsætisráðherrann og bætti við að honum hefði í upphafi þótt furðulegt að sjá veirufaraldurinn hafa lamandi áhrif á íþróttina, en að jafnvel eldheitustu stuðningsmenn neyddust nú til að viðurkenna að ekkert annað var í spilunum.

Spænska ríkisstjórnin hefur fallist á að liðka fyrir því að íþróttirnar geti farið aftur af stað og hafa atvinnuíþróttamenn leyfi til þess að stunda æfingar einir með þjálfara frá og með morgundeginum, en þó gæti orðið mismunandi á milli héraða hvernig hömlum verður lyft. Samkvæmt áætlunum spænskra stjórnvalda er mögulegt að keppni í La Liga muni hefjast á svokölluðu „fjórða stigi“ tilslakana á sóttvarnaráðstöfunum, sem gæti orðið í júní ef allt gengur eftir, en þó gætu aðstæður orðið mismunandi eftir héruðum landsins, sem áður segir.

„Project Restart“ í Englandi

Flest augu fótboltaáhugamanna hérlendis beinast að enska boltanum. Öll félögin í úrvalsdeildinni staðráðin í reyna að halda keppni áfram og klára mótið í sumar, fáist leyfi til þess frá yfirvöldum, en hvernig mögulegt verður að gera það er enn gjörsamlega á huldu. Vinnan er í gangi, undir heitinu „Project Restart“. 

Níutíu og tveir leikir eru enn eftir af deildinni sem félögin segjast vilja spila á sex vikum í sumar og markaðssetja herlegheitin öll sem fótboltaveislu. Rætt hefur verið um að 40 þúsund COVID-19 sýni þyrfti í heildina að taka úr leikmönnum, öðru starfsliði félaganna og fjölmiðlamönnum til þess að þetta gæti allt gengið upp.

Margt er til skoðunar, en félögunum var tjáð af forsvarsmönnum enska knattspyrnusambandsins á fjarfundi á föstudag að notast þyrfti við hlutlausa velli. Með því á að sporna við því að mikill fjöldi stuðningsmanna heimaliðsins safnist saman fyrir utan leikvangana er leikir fara fram. Þennan ráðahag vilja ekki öll liðin samþykkja, en framkvæmdastjóri Brighton steig fram í gær og sagði að þetta gæti hans lið ekki sætt sig við. Liðið á fimm heimaleiki í síðustu níu umferðunum, þar af fjóra gegn nokkrum að sterkustu liðum deildarinnar


Auglýsing

Síðan hafa leikmenn líka lýst yfir efasemdum um að það sé eitthvað vit í því að halda áfram keppni. Sergio Aguero, framherji Manchester City, sagði frá því, í samtali við sjónvarpsstöð í heimalandi sínu fyrir helgi, að „meirihluti leikmanna væri hræddur“ við að snúa aftur til vinnu og Glenn Murray leikmaður Brighton hefur talað á svipuðum nótum, auk þess sem hann spyr sig að því hvort réttlætanlegt sé að biðja breska heilbrigðiskerfið um að skaffa sjúkrabíl á hvern einasta leik, á meðan að álagið á spítölum landsins er mikið.

Búast má við því að línur skýrist töluvert í Englandi á fimmtudaginn, 7. maí, en þá ætlar breska ríkisstjórnin að kynna hvaða skref verða tekin til þess að lyfta samfélagslegum takmörkunum sem settar voru í sóttvarnaskyni í mars. Ríkisstjórnin er fylgjandi því að fótboltinn komist í gang sem fyrst, ekki síst til þess að lyfta lund almennings á þessum erfiðu tímum.

Ljóst er að í Bretlandi sem og annars staðar í heimi atvinnuíþrottanna er mikið í húfi fjárhagslega, enda tekjufallið nær algjört þegar ekkert er hægt að spila og ljóst að fjárhagsstaða margra liða er í uppnámi. Fótboltaleysið ytra hefur þannig afleidd áhrif sem teygja sig víða, meðal annars hingað til lands. Í fjárfestakynningu Símans vegna ársfjórðungsuppgjörs í liðinni viku sagði að engar áskriftartekjur myndu fást af Símanum Sport, sem sýnir enska boltann, í apríl og maí, en áskriftartekjurnar nema um 30 milljónum króna á mánuði.

Síminn hefur gefið það út að verði tímabilið ekki klárað verði farið fram á endurgreiðslu á hluta þess fjár sem fyrirtækið hefur greitt fyrir sýningarréttinn. Þrátt fyrir að Ísland sé örmarkaður er þar um töluverða fjármuni að ræða, en í heildina borguðu sjónvarpsstöðvar um heim allan 9,2 milljarða punda, andvirði tæplega 1.700 milljarða íslenskra króna, fyrir réttinn til þess að sýna enska boltann á yfirstandandi tímabili og næstu tveimur.

Ísland

Hér á landi er áætlað að koma keppnisíþróttum af stað í sumar. Á morgun geta liðsæfingar fullorðinna hafist á ný í sjö manna hópum og í fótboltanum verður það þannig að 28 leikmenn fá leyfi til þess að æfa á einum stórum fótboltavelli, í fjórum sjö manna hópum.

Víðir Reynisson segir að ljóst sé að smit í fótboltaliði í sumar gæti haft veruleg áhrif á mótahald.
Mynd: Lögreglan

Til þess að forðast smit er mikilvægt að það sömu sjö einstaklingarnir verði alltaf saman í hóp og tveggja reglan er enn í fullu gildi, samkvæmt því sem segir á vef Knattspyrnusambandsins. 

Búist er við því að æfingar geti orðið með eðlilegum hætti í lok þessa mánaðar eða byrjun þess næsta og svo er stefnt að því að hefja leik á Íslandsmótinu 13. júní. Þá verður vikið frá tveggja metra reglunni, sem almennt þarf að viðhafa í samskiptum fólks, til þess að sportið geti farið fram. Menn sem hafa ekki mátt faðma mæður sínar mánuðum saman munu þá grípa um hvorn annan í baráttu í vítateignum.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að ef upp kæmi smit í kjölfar fótboltaleiks í sumar gætu auðveldlega sextíu til sjö manns þurft að fara í sóttkví.

„Það er eitthvað sem ég held að félögin geri sér grein fyrir. Þetta er eitthvað sem myndi setja skipulag mótahalds í uppnám,“ sagði Víðir. Í öðrum löndum eru kollegar Víðis eflaust að segja það sama.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar