Af vef ferðamálaráðs Nýja-Sjálands

„Hart og fljótt“ reyndist árangursrík aðferð

„Þetta eru skilaboð til allra á Nýja-Sjálandi. Við reiðum okkur á þig. Þar sem þú ert núna verður þú að vera héðan í frá. [...] Það er líklegt að viðbúnaður á fjórða stigi verði í gildi í margar vikur.“ Þannig hljóðuðu skilaboð stjórnvalda landsins í mars, landsins sem nú hefur náð einstökum árangri í baráttunni gegn COVID-19.

Landamæri Nýja-Sjálands verða lokuð „í langan tíma“ þó að aðgerðir þar í landi gegn kórónuveirunni hafi skilað þeim árangri að ekkert smit hefur greinst tvo daga í röð og neyðarstigi hefur verið aflétt. Landamærin verða þó líklegast ekki lokuð allri heimsbyggðinni til lengdar því Jacinda Ardern, forsætisráðherra landsins, átti í dag fjarfund með áströlsku ríkisstjórninni þar sem ræddur var möguleiki á frjálsri för fólks án sóttkvíar á milli ríkjanna. Ardern segir að enn eigi eftir að skoða margt áður en að til framkvæmdar kemur. Bandalag sem þetta mun að hennar sögn hafa mikinn ávinning í för með sér en „við munum ekki opna landamærin fyrir öðrum ríkjum í langan tíma“.

Lokun landamæra Ástralíu og Nýja-Sjálands fyrir nánast öllum útlendingum var meðal aðgerða sem gripið var snemma til vegna COVID-19 faraldursins. Nú er farið að létta til og reynt að finna lausnir til að vinna á móti fyrirsjáanlegum efnahagsþrengingum.

Auglýsing

Ferðaþjónusta er ein helsta atvinnugrein Nýja-Sjálands og við hana starfa um tíu prósent alls vinnumarkaðarins í landinu. Hlutur greinarinnar í landsframleiðslu er um sex prósent. Árið 2018 var hlutur ferðaþjónustunnar á Íslandi um ellefu prósent af landsframleiðslu.

Síðustu ár hafa flestir sem heimsækja Nýja-Sjáland verið frá Ástralíu, Kína, Bandaríkjunum og Bretlandi. Ferðalög milli Nýja-Sjálands og Ástralíu á ný eru möguleg vegna „framúrskarandi aðgerða“ landanna tveggja á heimsvísu, segir Ardern.

Innan við 1.500 smit hafa greinst á Nýja-Sjálandi þar sem um 4,5 milljónir manna búa. Langflestum er batnað af sjúkdómnum. Tuttugu hafa látist. Í síðustu viku var ákveðið að aflétta ákveðnum takmörkunum sem settar höfðu verið á við upphaf faraldursins.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
EPA

Íbúar Ástralíu eru 25 milljónir. Þar af tæplega 7.000 tilfelli greinst og um hundrað manns látist vegna COVID-19. Mjög hefur hægt á útbreiðslunni og nokkur fylki hafa þegar slakað á aðgerðum sínum.

Aðgerðir stjórnvalda á Nýja-Sjálandi byggðu á því að bregðast „hart og fljótt“ við faraldrinum. Sú aðferðafræði virðist hafa skipt sköpum í því að ná faraldrinum niður og aflétta takmörkunum fyrr en gert hefur verið í mörgum öðrum löndum. Ardern vill þó vara landa sína við því að sofna á verðinum. Áfram verði að gæta varkárni. „Haldið stefnu,“ sagði hún á blaðamannafundi í gær. „Við höfum ekki efni á að eyðileggja allt okkar góða starf þegar við sjáum fyrir endann á ástandinu.“

Nítjánda mars var landamærum Nýja-Sjálands lokað. Öllum var bannað að ferðast til og frá landinu nema Nýsjálendingum sem þurftu að komast heim og heilbrigðisstarfsfólki.

Brimbrettafólk á leið á Bondi-ströndina í Sydney eftir að hún var opnuð á ný.
EPA

Þann 23. mars var viðbúnaður færður upp á þriðja sig og öllum fyrirtækjum sem ekki buðu nauðsynlega þjónustu lokað. Samkomubann var sett á og fjölmörgum viðburðum aflýst eða frestað. Einnig var innanlandsflug fellt niður. Tveimur sólarhringum síðar voru aðgerðir hertar enn frekar og viðbúnaður færður á fjórða stig, neyðarstig. Íbúum var gert að hitta aðeins þá sem þeir bjuggu með. Þær aðgerðir voru í gildi nokkrar vikur.

Í lok apríl var viðbúnaður aftur færður niður á þriðja stig og fólki leyft að hitta nána ættingja utan heimilis. Innanlandsferðalög eru heimil með takmörkunum og menntastofnanir og ákveðin fyrirtæki hafa hafið starfsemi að nýju.

Tekin verður ákvörðun um næstu skref þann 11. maí. Enn hefur ekki verið gert opinbert í hverju þau munu felast. Ardern segir að hefði ekki verið gripið til aðgerðanna hefðu ný tilfelli getað orðið um 1.000 á dag.  „Við munum aldrei vita hvað hefði gerst ef við hefðum ekki gripið til 4. stigs takmarkanna en við getum horft til annarra landa og séð þá hræðilegu stöðu sem þar hefur orðið,“ segir hún. „Með samanlögðum aðgerðum okkar hefur okkur tekist að forðast það versta.“

Ferðaþjónusta er mjög mikilvæg atvinnugrein bæði í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.
EPA

Nýsjálendingar hafa frá upphafi faraldursins tekið mörg sýni og bættu í er faraldrinum vatt fram. Þeir geta nú tekið um 8.000 sýni á dag sem er með því mesta miðað við höfðatölu í heiminum.

Stjórnvöld miðluðu upplýsingum reglulega og af hreinskilni til þjóðarinnar. Henni var m.a. sagt að það myndi taka harðar aðgerðir að minnsta kosti tvær vikur að skila árangri í fækkun smita. Þetta gerði það að verkum að auðveldara var fyrir fólk að sætta sig við takmarkanirnar.

Leiðbeiningar til almennings voru skýrar og byggðar á vísindum. „Flest allir Nýsjálendingar geta sagt nákvæmlega hver viðbrögð stjórnvalda við COVID-19 hafa verið en sömu sögu er ekki hægt að segja um íbúa margra annarra landa þar sem skilaboð stjórnvalda hafa verið ruglingsleg og óákveðin,“ segir nýsjálenskur heilbrigðisstarfsmaður í samtali við CNBC.

Auglýsing

Efnahagur Nýja-Sjálands líkt og annarra ríkja mun verða fyrir þungu höggi vegna faraldursins. Búist er við því að samdráttur þjóðarbúsins nemi að minnsta kosti sex prósentum á þessu ári.

Nýverið var samþykkt frumvarp á þingi sem á að auðvelda fyrirtækjum rekstur næstu mánuðina, m.a. í formi skattalækkana. Ardern og allir ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafa tekið á sig tímabundna 20 prósenta launalækkun.

Einhverja efnahagsbót verður að finna í opnun landamæranna milli Nýja-Sjálands og Ástralíu. Hafa forsætisráðherrar beggja landa lofað því að vinna eins hratt og mögulegt er svo þetta megi verða að veruleika sem fyrst. Það er þó ekki aðeins verið að hugsa um peninga inn í flutninga- og ferðaþjónustuna i þessu sambandi. Íþróttaviðburðir og keppnir milli landanna gætu verið á næsta leiti sem myndi létta lund margra. Þá á fólk í löndunum ættingja og vini handan landamæranna sem nú eru lokuð og gæti heimsótt þá á nýjan leik.

Heimsbyggðin fylgist með hvernig til tekst. Ef ferðabandalagið verður að veruleika gæti það orðið fyrirmyndin að öðrum slíkum annars staðar í veröldinni.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar