Mynd: Facebook-síða Icelandair

Almenningur þarf að koma Icelandair aftur í loftið

Algjör óvissa er um það hvenær Icelandair getur hafið eðlilega starfsemi að nýju. En engin óvissa er um að félagið þarf mikla fjárhagslega fyrirgreiðslu í nánustu framtíð ef það á að lifa af. Sú fyrirgreiðsla verður að uppistöðu að koma úr tveimur vösum, annars vegar úr íslenskum lífeyrissjóðum og hins vegar úr ríkissjóði. Eigendur beggja eru þeir sömu: Íslenskur almenningur.

 Það mun aldrei verða þannig að öll þessi starf­semi mun leggj­ast af.“ Þetta sagði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, um Icelandair í Kast­ljósi 23. mars síð­ast­lið­inn. Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra sagði í Bít­inu á Bylgj­unni í morgun að það væri „sam­fé­lags­leg nauð­syn að hér sé flug­fé­lag og ef á þarf að halda að ríkið stígi inn í það þá er það eitt­hvað sem ríkið á að ger­a.“

Þau tvö, og fleiri ráða­menn, hafa komið því skýrt á fram­færi að Icelandair sé mik­il­væg­asta fyr­ir­tæki lands­ins. 

Það er ekki ein­vörð­ungu vegna þess að það hefur flutt hingað til lands ferða­menn sem hafa skapað miklar gjald­eyr­is­tekjur á síð­ustu árum, heldur vegna þess að það er líka mik­il­væg lífæð vöru­flutn­inga til og frá land­inu. Ef Ísland, eyja með engar land­sam­göngur við nokk­urt annað land, ætlar að taka þátt í alþjóða­við­skiptum þá er það mat allra stjórn­mála­manna sem Kjarn­inn hefur rætt við und­an­farnar vik­ur, jafnt í stjórn og stjórn­ar­and­stöðu, að það verði að vera starf­rækt hér íslenskt flug­fé­lag.

Auglýsing

Icelandair er hins vegar í miklum vanda og lausnin á þeim vanda er ekki fyr­ir­sjá­an­leg. Félagið hefur verið í vand­ræðum um nokk­urra ára skeið. Það tap­aði 6,8 millj­örðum króna á árinu 2018, meðan ann­ars vegna mis­heppn­aðra ákvarð­ana sem teknar voru um breyt­ingar á leiða­kerfi og á sölu- og mark­aðs­starfi félags­ins. Icelandair tap­aði svo 7,1 millj­arði króna í fyrra, sem að mestu var rakið til kyrr­setn­ingar á Boeing 737 Max vélum sem félagið hafði keypt en gat ekki not­að. Sam­hliða þessum erf­ið­leikum hrundi mark­aðsvirði félags­ins. Í byrjun árs 2018 var gengi bréfa í félag­inu 14,75 krónur á hlut og mark­aðsvirðið tæpir 74 millj­arðar króna. Það hafði þá dreg­ist saman um tæp­lega 118 millj­arða króna frá því í apríl 2016, þegar það náði hámarki. Í byrjun árs 2019 var mark­aðsvirðið komið undir 50 millj­arða króna þrátt fyrir stóra hluta­fjár­aukn­ingu árið áður. 

Árið 2020 átti við­spyrnan að eiga sér stað. Mark­aðsvirðið í byrjun þess árs var tæpir 43 millj­arðar króna og hlut­hafar sem Kjarn­inn ræddi við á þeim tíma­punkti reikn­uðu ekki með að það gæti minnkað mikið meira. Á upp­gjörs­fundi Icelandair sem fór fram 7. febr­úar síð­ast­lið­inn, þar sem gerð var grein fyrir upp­gjöri síð­asta árs, sagði Eva Sóley Guð­björns­dótt­ir, fjár­mála­stjóri félags­ins, að Icelandair ætl­aði að „skila arð­bær­um og hag­­kvæm­um rekstri 2020.“

Svo kom kórór­un­veiru­far­ald­ur­inn og breytti öllu.

Tapið rúm­lega fjór­fald­að­ist milli ára

Icelandair Group tap­aði 30,1 millj­­arði króna á fyrstu þremur mán­uðum þessa árs. Það er rúm­lega tvisvar sinnum sam­eig­in­legt tap félags­ins á árunum 2018 og 2019, sem voru þó slæm rekstr­ar­ár. Það er rúm­lega fjórum sinnum hærri upp­hæð en Icelandair tap­aði á fyrsta árs­fjórð­ungi í fyrra. 

Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair Group.
Mynd: Skjáskot

Og það er fyr­ir­liggj­andi að Icelandair var í fullri starf­semi þorra þeirra mán­aða sem um ræð­ir. Helstu mark­aðir fóru ekki að lok­ast fyrr en eftir að Banda­ríkin greindu frá sínu ferða­banni 12. mars. Evr­ópa fylgdi svo í kjöl­far­ið. Mark­aðsvirði Icelandair fór undir 30 millj­arða króna í fyrsta sinn í átta ár snemma í mar­s. 

Við lokum mark­aða í gær var það rétt  yfir tíu millj­arðar króna. Og við­búið að ef ein­hver við­skipti verða með bréf félags­ins í dag þá munu þau leiða til lækk­unar á geng­in­u. 

Í upp­gjör­skynn­ing­unni í gær kom fram að ein­skiptis­kostn­aður Icelandair vegna áhrifa kór­ón­u­veirunnar á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins hafi numið 23,3 millj­­örðum króna. 

Við­búið er að hann verður enn meiri í nán­ustu fram­tíð. Félagið flaug lítið sem ekk­ert í apríl og það er með öllu óljóst hvenær vélar þess fara að ferja far­þega á ný milli landa. Laust fé Icelanda­ir, sem var 40 millj­arðar króna í lok mars, verður fljótt að þorna upp við þessar aðstæð­ur. 

Þegar búið að setja millj­arða í Icelandair

Fyrsta stóra efna­hags­að­gerð íslenskra stjórn­valda var hin svo­kall­aða hluta­bóta­leið, sem mynd­aði grunn­inn að þeim aðgerð­ar­pakka sem kynntur var í Hörpu 21. mars síð­ast­lið­inn. Í henni fólst að ríkið tók þátt í að greiða allt að 75 pró­sent af launum starfs­manna fyr­ir­tækja sem höfðu orðið fyrir miklu tekju­falli upp að vissu hámarki. Engin velkt­ist í vafa um að við hönnun á leið­inni þá var staða Icelandair höfð til hlið­sjón­ar. 

Auglýsing

Tveimur dögum eftir fund­inn í Hörpu sagði Icelandair upp 240 manns og 92 pró­sent eft­ir­stand­andi starfs­manna félags­ins, sem voru hátt í fjögur þús­und manns, voru sett á hluta­bóta­leið­ina. Með því var íslenska ríkið að taka á sig stærstan hluta af launa­greiðslum Icelanda­ir. 

Á þeim tíma var verið að von­ast til þess að hlut­irnir myndu skána og að ein­hverjar tekjur yrðu mögu­lega þegar liði á árið af ferða­þjón­ustu. Sú von dvín­aði hins vegar dag frá degi og er vart til staðar í dag. 

Það þurfti því meira til ef bjarga ætti Icelanda­ir.

Skyndi­leg við­bót sniðin að flug­fé­lag­inu

Í síð­ustu viku voru kynnt stór skref í þá átt. Fyrsta skrefið var að íslenska ríkið ákvað á þriðju­dag­inn 28. apríl að veita fyr­ir­tækjum sem orðið hafa fyrir umfangs­miklu tekju­tapi kost á því að sækja um stuðn­ing úr rík­­is­­sjóði vegna greiðslu hluta launa­­kostn­aðar á upp­­sagn­­ar­fresti. Þótt for­víg­is­menn rík­is­stjórn­ar­innar hafi kynnt áformin á blaða­manna­fundi sem hafði á sér svipað yfir­bragð og fund­irnir þar sem aðgerð­ar­pakki eitt og tvö voru opin­beraðir þá var sá munur á í þetta skiptið að ekk­ert frum­varp lá fyrir til að lög­leiða aðgerð­ina. Þá hefur ekk­ert kostn­að­ar­mat verið birt um hvað þessar stuðn­ings­greiðsl­ur, sem fela í sér greiðslur að hámarki 633 þús­und krónur á mán­uði í allt að þrjá mán­uði, muni kosta rík­is­sjóð. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti í síðustu viku þau áform ríkisstjórnarinnar að ætla að greiða hluta launa starfsfólks sumra fyrirtækja á uppsafnarfresti.
mynd: Bára Huld Beck

Dag­inn eftir sagði Icelandair Group upp 2.140 manns til við­bótar við þá 230 sem misstu vinn­una hjá félag­inu í lok mars. Þótt ekki liggi fyrir hversu dýrar þessar upp­sagnir verða rík­is­sjóði þá er búist við því að sá kostn­aður verði á milli sex og sjö millj­arðar króna. Sá kostn­aður kemur til við­bótar við þá millj­arða króna sem skatt­greið­endur voru þegar búnir að greiða í laun fyrir starfs­fólk Icelandair í gegnum hluta­bóta­leið­ina.

Ríkið til­búið í sam­tal ef ...

Næsta skref var að sam­þykkja á rík­­­­is­­­­stjórn­­­­­­­ar­fundi, sem fór fram að morgni 30. apr­íl, til­­­­lögu fjög­­­­urra ráð­herra, þar á meðal for­­­­manna allra stjórn­­­­­­­ar­­­­flokk­anna, um að ríkið væri til­­­­­­­búið að eiga sam­­­­tal um mög­u­­­­lega veit­ingu lána­línu eða ábyrgð á lánum til Icelandair Group. Það væri háð því að „full­nægj­andi árangur náist í fjár­­­­hags­­­­legri end­­­­ur­­­­skipu­lagn­ingu félags­­­­ins í sam­ræmi við þær áætl­­­­­­­anir sem kynntar hafa ver­ið, þar með talið að afla nýs hluta­fjár­.“ 

Sig­­­urður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra, sagði í Kast­­­ljósi það kvöldið að ábyrgðir rík­­­is­ins gætu hið minnsta numið yfir tíu millj­­­örðum króna. Heim­ildir Kjarn­ans herma að þær þurfi að verða umfram það til að telja. 

Enn síðar þennan dag birt­ist til­kynn­ing í Kaup­höll Íslands um að Icelandair Group ætl­aði að ráð­ast í hluta­fjár­aukn­ingu upp á 30 þús­und milljón hluti. Sú aukn­ing átti að skila allt að 29 millj­örðum króna í nýtt hluta­fé. Miðað við það er stefnt að því að selja hvern hlut á um 1,03 krónur á hlut. Gengi Icelandair við lok við­skipta þennan dag var 2,37 krónur á hlut. 

Auglýsing

Það átti því ekki að koma neinum á óvart að þegar opnað var á við­skipti með hluti í Icelandair Group á ný í gær­morgun þá hrundi verðið og fór niður fyrir tvær krónur á hlut. 

Gangi áformin um hluta­fjár­aukn­ingu eftir munu núver­andi hlut­hafar líka þynn­ast niður í 15,3 pró­sent eign­ar­hlut. Margir þeirra hafa auð­vitað notið þess að Icelandair Group greiddi miklar fjár­hæðir í arð um nokk­urra ára skeið. En verð­mæti hluta­bréfa þeirra mun að stóru leyti hverfa.

Þar verða fyrir mesta högg­inu ann­ars vegar stærsti ein­staki hlut­haf­inn í Icelandair Group, banda­ríski fjár­­­­­­­­­fest­ing­­­­­ar­­­­­sjóð­­­­­ur­inn PAR Capi­tal Mana­gement. Sá sjóður sér­hæfir sig í fjár­fest­ingum í flug­fé­lögum og er því í vanda víðar en á Íslandi. Hann kom inn í eig­enda­hóp Icelandair í hluta­fjár­aukn­ingu í apríl í fyrra þegar hann keypti 11,5 pró­sent á 5,6 millj­arðar króna. Sá hlutur er um  1,2 millj­arða króna virði í dag. Síðar bætti sjóð­ur­inn við sig hlutum og átti þegar mest var 13,5 pró­sent. 

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í Kastljósi í síðustu viku að ábyrgðir ríkisins gætu numið tíu milljörðum króna hið minnsta.
Mynd: Bára Huld Beck

Hins vegar mun höggið aðal­lega lenda á íslenskum líf­eyr­is­sjóð­um, sem eiga beint að minnsta kosti 43,6 pró­sent hlut í félag­inu og lík­ast til meira óbeint í gegnum fjár­fest­ing­ar­sjóði sem eru á meðal hlut­hafa. 

Rík­is­bankar gætu þurft að breyta skuldum í hlutafé

Hluta­fjár­aukn­ingin er meg­in­að­gerðin í fjár­hags­legri end­ur­skipu­lagn­ingu Icelanda­ir. Sam­hliða henni verður þó ráð­ist í að fá kröfu­hafa félags­ins til að breyta skuldum í hluta­fé. Alls námu vaxta­ber­andi skuldir Icelandair um 34 millj­örðum króna í lok mar­s. 

Á meðal þeirra sem Icelandair skuldar umtals­vert fé er rík­­is­­bank­inn Lands­­bank­inn. Léleg rekstr­­ar­n­ið­­ur­­staða Icelandair á árinu 2018 gerði það að verkum að skil­­málar skulda­bréfa sem félagið hafði gefið út voru brotn­­ir. Mán­uðum saman stóðu yfir við­ræður við skulda­bréfa­eig­end­­urna um að end­­ur­­semja um flokk­anna vegna þessa. Þær við­ræður skil­uðu ekki árangri og 11. mars 2019 var greint frá því að Icelandair hefði fengið lánað 80 millj­­ónir dala, þá um tíu millj­­arða króna, hjá inn­­­lendri lána­­stofnun gegn veði í tíu Boeing 757 flug­­­vélum félags­­ins, sem eru komnar nokkuð til ára sinna. Láns­fjár­­hæðin var nýtt sem hluta­greiðsla inn á útgefin skulda­bréf félags­­ins.

Því var verið að flytja hluta af fjár­­­mögnun Icelandair frá skulda­bréfa­eig­endum og yfir á banka í eigu íslenska rík­­is­ins vegna þess að ekki tókst að semja við þá. Hinn rík­­is­­bank­inn, Íslands­­­banki, hefur líka lánað Icelandair fé, en bein rík­­is­á­­byrgð er á starf­­semi beggja bank­anna í gegnum eign á hluta­­fé.

Landsbankinn lánaði Icelandair umtalsverðar fjárhæðir í fyrra og tók veð í Boeing 757 vélum félagsins.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í árs­hluta­reikn­ingi Icelandair kemur fram að Icelandair hafi þegar brot­ið  lána­skil­mála tveggja ótengdra lang­tíma­lána við lok síð­asta árs­fjórð­ungs. Í báðum til­fellum hafi lán­veit­endur frestað [e. wai­ver) því að nýta sér þá stöðu til að krefj­ast end­ur­greiðslu á lán­un­um.

Stærsti eig­and­inn selur sig niður

Til þess að Icelandair bjargist þurfa því ein­hverjir að leggja félag­inu til næstum 30 millj­arða króna í nýtt hluta­fé. Það er for­senda þess að ríkið bæti enn í umtals­verða rík­is­að­stoð til félags­ins. 

Við­mæl­endur Kjarn­ans telja ósenni­legt PAR Capi­tal Mana­gement, stærsti hlut­hafi Icelanda­ir, muni verða þar á með­al. Sjóð­ur­inn keypti hluti í íslenska flug­fé­lag­inu þegar MAX-krísan stóð sem hæst og að mati margra við­mæl­enda var sú inn­koma tengd því að halda Icelandair í við­skiptum við Boeing. Sú fjár­fest­ing er, líkt og áður sagði, að mestu töpuð og PAR hefur verið að selja sig niður í Icelandair síð­ustu vikur með miklu tapi. Alls hefur hlutur sjóðs­ins farið úr 13,5 pró­sent í 12,98 pró­sent frá því í byrjun apr­íl. Þetta er í fyrsta sinn síðan að PAR Capi­tal Mana­gement kom inn í eig­enda­hóp Icelandair sem sjóð­ur­inn selur hlut­i. 

Ekki eru sýni­legir margir einka­fjár­fest­ar, inn­an­lands eða erlend­is, sem hafa bol­magn eða vilja til að leggja til íslensku flug­fé­lagi í full­kominni rekstr­ar­ó­vissu tugi millj­arða króna. Því verið að treysta á íslenska líf­eyr­is­sjóða­kerfið að hlaupa undir bagga og leggja til féð.

Ekk­ert fyr­ir­liggj­andi um hverjir muni taka þátt

Alls óvíst er hins vegar að þeir muni hlaupa til. Líf­eyr­is­sjóð­irnir munu óhjá­kvæmi­lega tapa á ýmsum fjár­fest­ingum sínum vegna kór­ónu­veirunnar og fyr­ir­liggj­andi er að umtals­vert högg muni koma á inn­greiðslur í sjóð­ina vegna þess for­dæm­is­lausa atvinnu­leysis sem nú er á Íslandi, en 55 þús­und manns eru annað hvort atvinnu­lausir að öllu leyti eða að hluta. 

Auglýsing

Stefán Svein­björns­son, stjórn­ar­for­maður Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna, sem á tæp­lega tólf pró­sent í Icelandair og er stærstur eig­enda í líf­eyr­is­sjóða­hópn­um, sagði í fréttum Stöðvar 2 í síð­ustu viku að það þyrftu að vera „rekstr­ar­legar for­sendur fyrir því að það eigi að fara að fjár­festa í félagi eins og þessu sem og öðrum félögum sem sjóð­ur­inn hefur fjár­fest í. Þannig að þeir fjár­munir sem fara þar inn skili sér með við­un­andi ávöxtun miðað við þá áhættu sem verið er að taka.“ 

Ákveði líf­eyr­is­sjóð­irn­ir, sem eru í eigu lands­manna, að segja pass í hluta­fjár­aukn­ing­unni mun Icelanda­ir-­vanda­málið lenda í fangi sömu lands­manna með öðrum hætti. Það færið þá aftur yfir til rík­is­ins sem þyrfti þá að ákveða hvort að það ætti að leggja flug­fé­lag­inu til fjár­muni svo það lifi, eða að láta það deyja.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar