Hvítir karlar fóru „á veiðar“ og skutu svartan pilt
„Það er svartur maður að hlaupa niður götuna,“ segir móður og másandi maður við neyðarlínuna. Nokkrum mínútum síðar liggur ungur karlmaður í blóði sínu á götunni. Hann hafði verið skotinn þrisvar.
Tveir hvítir karlmenn með byssur um hábjartan dag. Tveimur skotum er hleypt af. Ungum svörtum karlmanni blæðir út. „Sjálfsvörn,“ segja hvítu mennirnir. „Hann var úti að skokka,“ segir móðir unga mannsins. Skýrsla er tekin af hvítu mönnunum. Þeir segjast hafa grunað unga manninn um innbrot og því elt hann. Hann hafi svo ráðist á annan þeirra. Þetta er tekið gott og gilt. Þeir eru ekki handteknir.
Ekki fyrr en um sjötíu dögum síðar eftir að myndband er birt opinberlega. Myndband sem sýnir allt aðra atburðarás en þeir höfðu lýst í skýrslutöku.
Stefni á nám í haust
Í fyrra stóð hinn 25 ára Ahmaud Marquez Arbery á krossgötum í lífinu. Hann bjó enn í foreldrahúsum í smábænum Brunswick í Georgíu-ríki, hafði verið handtekinn fyrir búðarhnupl nokkrum árum áður og hlotið skilorðsbundinn dóm en ákvað að taka á honum stóra sínum og skrá sig í skóla. Hann vildi verða rafvirki. Honum fannst hann þó ekki alveg tilbúinn að setja á skólabekk og ákvað að bíða með nám þar til í haust.
Hann vildi vera í góðu formi. Og til að ná því markmiði fór hann nær daglega út að hlaupa. Hann hljóp yfirleitt sömu leiðina. Veifaði til nágrannanna er hann hljóp fram hjá húsunum í götunni, út úr hverfinu sínu og inn í það næsta, Satilla Shores.
Þetta gerði hann einmitt sunnudaginn 23. febrúar í ár. En sú ferð varð hans síðasta.
Satilla Shores og Brunswick eru í Glynn-sýslu. Um 70 prósent íbúa sýslunnar eru hvítir og meirihluti þeirra sem býr í Satilla Shores er sömuleiðis hvítur og flestir tilheyra milli- eða yfirstétt. Meirihluti 16 þúsund íbúa Brunswick er hins vegar svartur. Og tæplega 40 prósent búa við fátækt.
Svartur maður – hvítur bolur
„Svartur maður í hvítum stuttermabol“ fór inn í hús sem er í byggingu í Satilla Shores, segir maður sem hringir í neyðarlínuna, 911, þann 23. febrúar. Hann talar rólega.
„Og þú sagðir að einhver væri að brjótast þarna inn núna?“ spyr starfsmaður neyðarlínunnar.
„Nei, þetta er allt opið, verið að byggja [húsið]. Og núna er hann að hlaupa – þarna hleypur hann!“
„Hvað er hann að gera?“ spyr neyðarlínustarfsmaðurinn.
„Hann er að hlaupa niður götuna,“ svarar sá sem hringdi.
Starfsmaður neyðarlínunnar segist ætla að senda lögreglu á vettvang en að fyrst verði hann að fá að vita hvað maðurinn hafi gert af sér.
„Hann hefur náðst á myndavélar oft áður... þetta er viðvarandi mál hérna,“ svarar maðurinn og segir að undanfarið hefðu mörg innbrot verið framin í hverfinu.
Stuttu síðar hringir annar maður í neyðarlínuna. Annar starfsmaður svarar því símtali.
„911, hvernig get ég aðstoðað?“
„Ég er hérna í Santilla Shores,“ segir innhringjandinn, nokkuð andstuttur. „Það er svartur maður að hlaupa niður götuna.“
Starfsmaður neyðarlínunnar spyr hvar hann sé nákvæmlega. Sá sem hringdi veit það ekki en hrópar allt í einu: „Slepptu þessu! Andskotinn. Stoppaðu! Slepptu þessu!“
Stuttu síðar hrópar hann: „Travis!“
Svo svarar hann starfsmanninum ekki í fimm mínútur. Á upptökunni má heyra sírenuvæl áður en sambandið slitnar.
Á meðan á þessu símtali stendur eru feðgar á pallbíl að elta Amhaud Arbery. Faðirinn, hinn 64 ára gamli Gregory McMichael, og sonur hans, Travis McMichael reyna að króa Arbery af en hann breytir um stefnu. Að lokum tekst þeim að leggja pallbílnum í veg fyrir hann. Faðirinn stendur á pallinum og sonurinn er í bílstjórasætinu. Þegar lögreglan kemur á vettvang liggur Arbery í blóði sínu á götunni. Hann hafði verið skotinn þremur skotum og lést skömmu síðar af sárum sínum.
Nöfn þeirra sem hringdu í neyðarlínuna hafa ekki verið gerð opinber en fjölmiðlar, m.a. Guardian, telja að sá sem hringdi inn í seinna skiptið sé Gregory McMichael.
Lögreglan í Glynn-sýslu tók skýrslu af feðgunum. Sá eldri sagðist hafa séð mann fara inn í hús í götunni og hann hefði líkst manni sem grunaður væri um nokkur innbrot á svæðinu. Hann hringdi því í son sinn, þeir gripu byssur sínar, hoppuðu upp í pallbíl og hófu eftirför. Þeir hafi reynt að stöðva manninn og beðið hann að stoppa. Þeir hafi lagt bíl sínum nálægt manninum, sonurinn hafi farið út með byssu í hendi, en þá hafi maðurinn „ráðist með ofbeldi“ á soninn og reynt að ná af honum byssunni. Sonurinn hafi þá hleypt af og svo aftur skömmu síðar. Þetta var sjálfsvörn, sögðu feðgarnir.
Eftir skýrslutökuna fóru feðgarnir leiðar sinnar. Skömmu síðar komst saksóknari að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að ákæra þá. Málið vakti litla athygli utan svæðisins enda faraldur COVID-19 skollinn á og fjölmiðlar uppfullir af fréttum honum tengdum.
Móðir Ahmaud Arbery, Wanda Cooper-Jones, var hins vegar ekki á þeim buxunum að láta dauða sonar síns falla í gleymskunnar dá. Hann hafði verið myrtur. Hún var þess fullviss.
Það liðu enn einhverjar vikur þar til fjölmiðlar tóku við sér. En þá fóru þeir á fullt í að grafa í málinu. Fá afrit af lögregluskýrslunum, upptökur frá neyðarlínunni og úr öryggismyndavélum. Og loks myndband sem tekið var af eftirförinni. Myndband sem átti eftir að leiða til handtöku feðganna, mánuðum eftir að Ahmaud Arbery var skotinn til bana.
Fyrrverandi lögreglumaður
Gregory McMichael er fyrrverandi lögreglumaður í Glynn-sýslu. Hann starfaði sem rannsakandi á skrifstofu saksóknara í umdæminu þar til í maí í fyrra er hann lét af störfum sökum aldurs. Það var fyrrverandi kollegi hans sem tók af honum skýrslu og fyrrverandi yfirmaður hans, umdæmissaksóknarinn, sem fékk málið til skoðunar.
Fjórir saksóknarar
Sá angi málsins er kafli út af fyrir sig. Fjórir saksóknarar hafa verið fengnir að málinu eftir að hver þeirra á fætur öðrum varð að segja sig frá því vegna tengsla, m.a. við Trevor McMichael – manninn sem skaut Arbery til bana. Þeir höfðu meðal annars sagt að feðgarnir hefðu, eins og lög í Georgíu leyfa, ætlað að handtaka Arbery borgaralega, vegna gruns um að tengjast innbrotum, en við árás hans hefðu þeir skotið hann í sjálfsvörn. Engin ástæða væri því hvorki til að handataka þá né ákæra.
Gögn málsins,sem fjölmiðlar og síðar lögregluyfirvöld öfluðu, þykja nú benda til þess að atburðarásin hafi verið eftirfarandi:
Ahmaud Arbery fór út að hlaupa skömmu eftir hádegi 23. febrúar, klæddur stuttbuxum og hvítum bol. Hann veifaði nágranna sínum er hann hóf sinn venjubundna hring. Er hann kom út úr hverfinu sem hann bjó í ásamt móður sinni lá leiðin inn í Satilla Shores. Við eina götuna þar stendur hús í byggingu. Þar var engan að sjá. Hann staldraði við og fór svo inn.
Inni í húsinu leit hann í kringum sig í stutta stund og fór svo út aftur og hélt för sinni áfram. En þá þegar hafði nágranni hringt í lögregluna og sagt frá „svörtum manni“ í „hvítum stuttermabol“. Og þá þegar höfðu McMichael-feðgarnir stokkið upp í pallbílinn með byssurnar. Og þá þegar hafði annar nágranni, sem síðar átti eftir að verða handtekinn líka, ákveðið að leggja feðgunum lið við eftirförina.
Þeir eltu hann á bílnum og hrópuðu til hans. Þeir reyndu að króa hann af en hann snéri við. Feðgarnir komust aftur fyrir framan hann og hann hljóp hægra megin við bíl þeirra. Á meðan stígur Trevor McMichael út úr bílnum, vopnaður byssu. Arbury hljóp fram fyrir bílinn og það heyrðist skothvellur. Arbury og McMichael yngri tókust svo á og tveimur skotum til viðbótar var hleypt af. Og Arbury féll máttlaus til jarðar.
Þessi atburðarás er önnur en sú sem feðgarnir höfðu lýst í skýrslutöku. Myndband sem þriðji maðurinn, William Bryan, tók upp er hann lagði eftirförinni lið, sýnir árásina. Það var ekki birt opinberlega fyrr en 5. maí. Saksóknaranum, þeim þriðja sem hafði málið á sínu borði, fannst ekki enn tilefni til að handtaka feðgana og vildi fá kviðdóm til að skoða málið fyrst. Fjölskylda Arbery var á öðru máli.
Tveimur dögum síðar, þann 7. maí, voru feðgarnir handteknir og ákærðir fyrir morð og líkamsárás. Skömmu síðar var Bryan einnig handtekinn í tengslum við málið.
En það var bara byrjunin. Fleira en myndbandið af árásinni hefur komið í ljós.
Arbery fór vissulega inn í hið mannlausa hús í götunni í Satilla Shores. Með því var hann ekki að fremja lögbrot. Inni í húsinu hafði eigandinn komið upp öryggismyndavél. Á upptökunni sést Arbery líta í kringum sig og fara út stuttu síðar.
Var þessi ferð hans inn í húsið grunsamleg?
Á upptökunum, sem ná aftur til loka síðasta árs, sést að margir höfðu gert slíkt hið sama dagana og vikurnar á undan. Unglingar, börn og pör kíktu þar inn. Allt hvítt fólk. Á upptökunum má einnig sjá svartan mann fara þangað inn að kvöldi. Hann stal engu. Það hefur eigandi hússins staðfest. Engu hafi nokkru sinni verið stolið úr húsinu.
McMichael-feðgarnir sögðu í skýrslutöku, er þeir réttlættu eftirförina, að innbrot hefðu verið framin í hverfinu að undanförnu. Aðeins eitt innbrot var tilkynnt til lögreglunnar mánuðina áður en Arbery var skotinn. Þeir sögðu einnig að eigandi hússins hefði beðið þá að fylgjast með. Því neitar eigandinn staðfastlega.
Af hverju stoppaði Arbery ekki „og ræddi við“ mennina með byssurnar sem eltu hann á pallbílnum, fyrst hann hafði ekkert að fela?
Stöðugt áreiti
Fyrir utan að augljós ofsi var í feðgunum frá því að þeir stukku út í bíl með byssur má vísbendingu um þessa ákvörðun Arberys finna á öðru myndbandi sem birt hefur verið í fjölmiðlum og er nokkurra ára gamalt. Það er úr myndavél á búningi lögreglumanns í Glynn-sýslu sem sá Arbery í bíl í almenningsgarði og biður hann um skilríki. Lögreglumaðurinn fær að sjá þau og fær svo upplýsingar um að sakaskrá Arberys sé hrein. En Arbery er ekki skemmt. Hann spyr lögreglumanninn ítrekað hvað hann vilji sér. Af hverju hann sé að ónáða hann?
„Því þetta svæði er ekki til að neyta fíkniefna,“ svarar lögreglumaðurinn. Hann leitar svo að vopni á honum. Annar lögreglumaður kemur á vettvang og þeir vilja fá að leita í bíl Arberys. Þegar hann gengur í átt að bílnum grípur annar lögreglumaðurinn til rafbyssunnar og þeir segja honum að fara frá bílnum og taka hendurnar úr vösunum. Lögreglumaðurinn er þá þegar búinn að skjóta úr rafbyssunni en hún er biluð. Arbery er þá skipað að leggjast niður sem hann gerir. „Ég fæ einn frídag í viku og er að reyna að slappa hér af,“ segir hann. Lögreglan lætur þar við sitja og fer.
Fjölskylda hans segir myndbandið sína það áreiti sem svartir ungir menn verði stöðugt fyrir í Bandaríkjunum. Þeir séu álitnir glæpamenn hvert sem þeir fari.
Borgaraleg handtaka er lögleg í Georgíu. En henni á aðeins að beita þegar augljóst brot hefur verið framið. Henni er ekki ætlað að gefa borgurunum leyfi til að elta fólk sem ekkert hefur af sér gert og skjóta það. „Það er ekki hægt að halda því fram að um sjálfsvörn sé að ræða þegar þú átt sjálfur upptökin að átökunum,“ segir L. Chris Stewart, lögmaður móður Ahmaud Arbery Hann hefur margsinnis tekið að sér mál fjölskyldna ungra svartra manna sem skotnir hafa verið af lögreglu. Hann segir að á myndbandinu megi sjá feðgana fara „á veiðar“ sem endi með því að Ahmaud var skotinn þrisvar og lést. Faðir Ahmauds lýsir árásinni með svipuðum hætti og segir að sonur hans hafi verið „veiddur eins og dýr“.
Fordómarnir hríslast niður allt kerfið
Mál sem tengjast kynþáttafordómum lögreglumanna í Bandaríkjunum hafa fjölmörg ratað í fjölmiðla síðustu árin. Athyglin beinist í kjölfarið oft að einstaka lögreglumönnum eða embættum. Hinir kerfislægu og kerfisbundnu fordómar „ofar í trénu“, eins og Stewart orðar það, eru ekki upprættir. Hann segir að bréfaskipti lögreglumanna og starfsmanna embættis saksóknara afhjúpi þessa fordóma. „Ofar í trénu“ verði fordómarnir til, til dæmis við þjálfun lögreglumanna. Menningin hjá embættunum ýti svo enn frekar undir þá. Á meðan ekki er tekið á þeim sem sitja í trjákrónunni muni ofbeldi gagnvart svörtum halda áfram.
Lögreglan í Glynn-sýslu fékk þau skilaboð frá embætti saksóknara sama dag og Ahmaud Arbery var skotinn til bana að ekki væri þörf á því að handtaka feðgana. Það var ekki fyrr en myndbandið var birt að einhver hreyfing komst á málið. Sjötíu dagar liðu frá skotárásinni og þar til feðgarnir voru handteknir.
„Mér líður betur. Ég hef fengið von,“ sagði Wanda Cooper-Jones, móðir Ahmaud Arbery, eftir að mennirnir þrír voru handteknir. Vonina hafði hún misst. Það fyrsta sem hún frétti af dauða sonar síns var frá lögreglumanni sem sagði að hann hefði verið staðinn að innbroti, ráðist á annan mann og verið drepinn af eiganda hússins. Allar götur síðan hefur hún fengið misvísandi og rangar upplýsingar hvað málið og rannsókn þess varðar.
Ríkissaksóknarinn í Georgíu hefur ákveðið að hefja rannsókn á því hvernig lögregluyfirvöld og skrifstofa saksóknara í sýslunni tóku á málinu. Alríkislögreglan, FBI, er sögð rannsaka morðið sem mögulegan hatursglæp.