Mynd: Aðsend

Hoppuðu áfram eftir að heimsfaraldurinn skall á

Nýsköpunarfyrirtækið Kara Connect fékk óvæntan meðbyr þegar heimsfaraldurinn fór að geisa og ætlar að nýta sér aðstæðurnar til þess að vaxa hraðar en áætlað var. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Köru Connect ræddi við Kjarnann.

Nýsköpunarfyrirtækið Kara Connect er um nokkurt skeið búið að vera að reyna að segja fólki hver framtíðin verður. Það gekk hægt, en þó eitthvað. „Þetta var að skríða í gang,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Köru, en svo kom heimsfaraldurinn og eftirspurn eftir vöru fyrirtækisins stjórjókst.

Veflausnin Kara Connect gefur sérfræðingum á borð við sálfræðinga, náms- og starfsráðgjafa og talmeinafræðinga meðal annars færi á að bjóða upp á örugga fjarfundi. Fjöldi innskráninga í Köru sextánfaldaðist á milli mánaða, frá febrúar og þar til í mars.

„Við hoppuðum alveg massíft áfram,“ segir Þorbjörg og bætir við að margir kúnnar sem Kara Connect hafði þegar sett sig í samband við hafi stokkið af stað í að innleiða notkun lausnarinnar á sínum vinnustað. Einnig var nokkuð um „blindar skráningar“ frá viðskiptavinum bæði í Danmörku og í Belgíu frá notendum sem einfaldlega skráðu sig skyndilega inn í kerfið. Hið síðarnefnda kom sérstaklega á óvart, þar sem engin áhersla hafði verið lögð á að koma Köru á framfæri á belgíska markaðnum.

Ársmarkmið fyrirtækisins um vöxt náðust strax í mars og nú er staðan sú að Þorbjörg sjálf er komin út til Danmerkur að kynna Köru frekar fyrir skandinavíska markaðnum. 

„Við náðum þessu nokkuð hratt og þar af leiðandi langar okkur að teikna upp nýjan vaxtarás og athuga hvað við getum farið langt áfram núna næstu tvö árin, athuga hvort við getum ekki bara hlaupið hraðar en við áætluðum,“ segir Þorbjörg.

Auglýsing

Fyrirtækið var þegar komið með nokkurn fjölda kúnna hér á landi og þeim hefur farið fjölgandi undanfarnar vikur. Þorbjörg segir að áhuginn hafi verið til staðar hjá tengiliðum þeirra innan fyrirtækja og stofnana, en þegar faraldurinn skall á hafi svo orðið nauðsynlegt fyrir marga sérfræðinga að bjóða upp á þjónustuna sína rafrænt.

„Það voru kannski öfl í fyrirtækjunum sem höfðu bara ekki viljað setja tíma í þessar breytingar, en þarna bara varð að gera það,“ segir Þorbjörg og bætir við að innleiðingarferlið hafi gengið mjög hratt fyrir sig. Núna er að farið róast um og fást starfsmenn Köru Connect þessa dagana við það að kenna nýjum kúnnum betur á kerfið.

Enginn tilbúinn að fara aftur í gamla farið

Þorbjörg segir að þrátt fyrir að sóttvarnaráðstafanir hamli því ekki lengur að sérfræðingar hitti skjólstæðinga sína augliti til auglitis sé notkun tækninnar komin til að vera.

„Við heyrum alveg að það eru allir tilbúnir til þess að halda þessu áfram. Það er enginn sem segir að þeir ætli að fara aftur í gamla farið. Fólk sá alveg ótrúlega marga kosti og áttaði sig kannski ekki á því fyrr en það settist um kvöldið með rauðvínsglasið, hvað það var búið að græða mikinn tíma. Það hverfur fullt af hlutum, sem hjálpar sérfræðingunum sem við erum að sinna mjög mikið,“ segir Þorbjörg.

Hún segir flesta sérfræðinga á borð við þá sem Köru Connect er ætlað að þjóna eiga það sammerkt að vera yfirbókaða og hafa í mörgu öðru að snúast bara að veita sérfræðiþjónustu sína.

„Mikill tími fer í að bíða eftir fólki eða hjálpa þeim að koma inn eða bjóða þeim vatn og kaffi. Það er mikið álag á þessu fólki og þetta er mikilvægasta fólkið okkar í kerfinu. Nú sjá margir að það er rof í deginum hjá þeim,“ segir Þorbjörg.

Kara virkar í raun eins og rafræn skrifstofa fyrir sérfræðinga sem eru að vinna með viðkvæmar upplýsingar.
Mynd: Kara Connect

Hún segir þó að það sé öruggt að fólk muni halda áfram að hittast á fundum og í viðtölum, en sérfræðingar geti nýtt sér Köru Connect til þess að stytta leiðir og sinnt skjólstæðingum sem að öðrum kosti komist ekki til viðtals, sumir af því að þeir búi langt í burtu en aðrir af því að þeir treysti sér ekki til þess að koma. 

Nefnir Þorbjörg sem dæmi að fjarviðtöl geti verið kostur fyrir þá sem þurfa að sækja sér geðheilbrigðishjálp en glími við slíka vanlíðan að þeir treysti sér ekki til þess að koma á staðinn. 

„Tæknin getur hjálpað þessu fólki talsvert við að byggja upp traust og hittast svo kannski eftir þrjá eða fjóra fjarfundi. Þetta er okkar grundvallarhugmyndarfræði, að reyna að bæta aðgengi að hjálp með tækninni,“ segir Þorbjörg.

Á meðal fyrirtækja og stofnana sem þegar nýta sér Köru Connect eru SÁÁ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og fjölskylduhjálp Akureyrarbæjar. Á meðan að faraldurinn geisaði bættust fleiri við, til dæmis Vinnumálastofnun sem er með veflausnina í innleiðingarferli hjá sér.

Barna- og unglingageðdeild Landspítala er einnig að notast við Köru og segir Þorbjörg að það þyki henni sérstaklega vænt um, þar sem skjólstæðingarnir þar séu algjörlega á heimavelli þegar kemur að notkun tækninnar.

Eru að skoða hvaða erlendu markaðir passa

Kara Connect er á sínu fimmta starfsári, en árið 2015 hóf teymið sem stofnaði fyrirtækið að byggja öruggan hugbúnað fyrir viðkvæm samtöl á milli sérfræðinga og skjólstæðinga þeirra. Þorbjörg segir að heljarinnar þróunarvinna með styrkjum frá bæði Tækniþróunarsjóði og fagfjárfestum liggi að baki veflausninni, sem fór fyrst í loftið í lok árs 2017. Í þeirri þróunarvinnu reyndist Tækniþróunarsjóður öflugur bakhjarl.

Auglýsing

Ákveðnum áfanga var svo náð hjá fyrirtækinu síðasta haust, þegar Kara Connect komst í gegnum síu landlæknisembættisins varðandi öryggismál, þar sem miklar kröfur eru gerðar. Svo miklar að fyrirtækið hefur tekist á um það við landlæknisembættið um hvort að þær séu of miklar. En það hafðist.

„Síðan höfum við bara verið að kynna þetta fyrir sálfræðingum, námsráðgjöfum í skólum, sveitarfélögum og talmeinafræðingum. Þetta er allt fólk sem vinnur öðruvísi vinnu en læknar, þetta eru persónuleg samskipti yfir lengri tíma, á meðan læknar hitta þig bara í fimm til tíu mínútur. Við erum að einbeita okkur að þessum stéttum, sem hitta skjólstæðinga sína reglulega,“ segir Þorbjörg.

Unnið hefur verið að því að byggja inn í forritið biðlistakerfi, greiðslukerfi og yfirsýn yfir sögu skjólstæðingsins, auk fjarviðtalsþjónustunnar. Kara Connect virkar því í dag í raun eins og rafræn skrifstofa fyrir þá sem eru að vinna með viðkvæmar upplýsingar.

Þorbjörg segir Köru Connect ætla að nýta sér óvænta meðbyrinn sem faraldurinn veitti þeim til þess að reyna að vaxa hraðar en áætlað var. Áætlunin var alltaf að fara með vöruna til útlanda en það gæti verið tækifæri núna til þess að sækja fyrr og hraðar inn á erlenda markaði en ef allt væri eðlilegt í heiminum.

„Við fengum annan Tækniþróunarsjóðsstyrk fyrir áramót og ætlum að nýta hann til þess að byggja aðeins hraðar upp. Þess vegna er ég komin til Danmerkur og við erum að skoða fleiri markaði núna, hvaða markaðir passa. Skandinavar eru komnir svolítið langt í stafrænu umhverfi, en þeir eru ekkert frekar en á Íslandi farnir að innleiða mjög mikið,“ segir Þorbjörg.

Ábending ritstjóra: Til að gæta fulls gegnsæis er rétt að nefna að Hallbjörn Karlsson, eiginmaður Þorbjargar, er hluthafi í Kjarnanum. Vogabakki ehf., félag sem hann á helming í, á 4,67 prósent hlut í útgáfufélagi Kjarnans.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal