Trump heldur fyrsta fundinn á slóðum fjöldamorðs
Donald Trump heldur í dag sinn fyrsta kosningafund frá því að faraldur kórónuveirunnar braust út. Fundurinn fer fram í borg sem á sér blóðuga fortíð er farið hefur hljótt í að verða heila öld.
Hann hefur boðað til kosningafundar í íþróttahöll og boðið þangað tæplega 20 þúsund manns á tímum farsóttar. Hann hefur boðað til kosningafundar í borg þar sem framið var fjöldamorð á svörtu fólki við upphaf þriðja áratugar síðustu aldar. Hann hefur boðað til fundarins á sama tíma og endaloka þrælahalds í Bandaríkjunum er minnst í flestum ríkjum landsins.
Hann er Donald Trump. Borgin er Tulsa í Oklahoma-ríki. Fjöldamorðið, sem í áratugi var talað um sem „kynnþáttaóeirðir“, hófst að kvöldi 31. maí árið 1921. Um ódæðið, sem er eitt það mannskæðasta í sögu ofbeldis gegn svörtum í Bandaríkjunum, hefur ekki verið mikið fjallað í sögubókum og fjölmiðlum.
Þar til nú. Er Donald Trump, sem sækist eftir endurkjöri sem forseti Bandaríkjanna, ákveður að halda sinn fyrsta kosningafund frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst, aðeins nokkrum götum frá þeim stað þar sem um 300 manns voru drepin á aðeins átján klukkutímum.
Það er ekki aðeins óttinn við að upp blossi hópsmit á fundarstaðnum sem hefur gert vart við sig heldur einnig við að fundurinn eigi eftir að magna enn frekar upp spennu í samfélaginu sem þegar hefur verið mikil eftir morðið á George Floyd.
En ákvörðun forsetans hefur einnig blásið lífi í kröfur um réttlæti vegna fjöldamorðsins sem framið var í hinu blómlega Greenwood-hverfi sem oft var kallað „svarta Wall Street“.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina, þegar aðskilnaðarstefna var enn við lýði víðsvegar um Bandaríkin, óx samtökum hvítra þjóðernissinna, m.a. Ku Klux Klan, fiskur um hrygg á ný. Árásir á svarta og skemmdarverk á eigum þeirra voru tíðar. Við upphaf þriðja áratugar síðustu aldar einkenndist borgin Tulsa af uppgangi vegna olíugróða. Þar bjuggu yfir hundrað þúsund manns. Aðskilnaður ríkti og flestir svartir íbúar borgarinnar, um 10 þúsund talsins, bjuggu í Greenwood og þar stunduðu margir þeirra blómleg viðskipti í hagkerfi sem var nær lokað vegna aðskilnaðarins.
Í lyftunni
Þann 30. maí árið 1921 var svartur piltur á táningsaldri, Dick Rowland, í vinnunni í miðborg Tulsa en þurfti að fara á salernið í öðru húsi þar sem vinnuveitandi hans hafði ekki klósett fyrir svarta líkt og reglur gerðu ráð fyrir. Hann fór því í Drexel-bygginguna og þar inn í lyftu. Lyftuvörðurinn Sarah Page, sem var einnig unglingur en hvít á hörund, er sögð hafa sakað Rowland um áreitni í lyftunni. Sumar fréttir þess tíma segja að hún hafi sakað hann um kynferðisofbeldi og slógu fjölmiðlar því upp á forsíðu. Lögreglan var kölluð til og að morgni 31. maí handtók hún Rowland.
Um kvöldið hafði múgur hvítra manna safnast saman fyrir utan dómshúsið þar sem Rowland var í haldi. Krafðist fólkið þess að lögreglustjórinn afhenti piltinn. Því var neitað og vegna æsingsins úti fyrir gættu margir lögreglumenn Rowlands á efstu hæð hússins. Seinna um kvöldið mætti hópur svartra manna á vettvang í þeim tilgangi að bjóða aðstoð við að gæta unglingspiltsins. Lögreglan vísaði þeim hins vegar frá. Síðar um kvöldið kom hópurinn aftur að dómshúsinu þar sem enn var óttast að æstur múgurinn myndi ná til Rowlands og taka hann af lífi án dóms og laga.
Fyrir slíku voru mörg fordæmi.
Svörtu mennirnir voru innan við hundrað. Heimildir herma að hinir hvítu hafi verið um 1.500. Í báðum hópum voru vopnaðir menn. Skotum var hleypt af og ringulreið ríkti. Ekki leið á löngu þar til þeir svörtu hörfuðu inn í hverfið sitt, Greenwood.
Sú saga var á kreiki um kvöldið að svartir íbúar Tulsa ætluðu sér að safna liði frá nágrannaborgum og bæjum. Viðbrögðin voru eftir því. Næstu klukkustundirnar komu margir hópar hvítra inn í hverfið. Þeir höfðu m.a. fengið vopn hjá yfirvöldum. Þar gengu þeir berserksgang og frömdu fjölmörg ofbeldisverk.
Í dögun þann 1. júní höfðu þúsundir hvítra streymt inn í Greenwood. Þeir rændu verslanir og heimili og brenndu byggingar á stóru svæði. Slökkviliðsmenn sem komu á vettvang greindu síðar frá því að þeim hafi verið hótað og byssum miðað á þá svo þeir urðu frá að hverfa.
Í nýlegri skýrslu sem unnin var af Rauða krossinum kemur fram að kveikt hafi verið í 1.256 húsum og 215 til viðbótar voru rænd. Meðal þeirra bygginga sem voru eyðilagðar voru skrifstofur tveggja dagblaða, skóli, bókasafn, spítali, kirkjur og hótel. Heimildir benda til þess að flugvélum hafi verið flogið yfir svæðið og úr þeim skotið og jafnvel sprengjum varpað.
Þjóðvarðlið var hvatt á vettvang en er það kom var uppþotið að mestu yfirstaðið. Um 6.000 manns voru hneppt í varðhald í búðum sem komið var upp í samkomuhúsum.
Seinna þann 1. júní hafði lögreglan tekið ákvörðun um að ákæra ekki Dick Rowland. Líklegast þótti að hann hefði hrasað eða stigið á fót lyftuvarðarins Page. Honum var sleppt úr haldi, hann yfirgaf Tulsa og hermt er að hann hafi aldrei snúið þangað aftur.
Fyrsta opinbera talan um mannfallið var 36. Þar af hefðu tíu hvítir fallið. Þetta var mikið vanmat og mögulega viljandi blekking. Í dag er talið að allt að 300 hafi fallið, aðallega svartir.
Fjöldamorðið í Tulsa var hvorki upphaf né endir ofbeldis gegn svörtum í Oklahoma-ríki. Þar átti enn eftir að herða á aðskilnaði og styrkur Ku Klux Klan óx á sama tíma. Þó að kveikjuna megi rekja til máls Dicks Rowlands var það ekki síður fyrirlitning hvítra á batnandi lífskjörum svartra í Greenwood sem var orsök uppþotsins.
Í áratugi var fjöldamorðsins vart minnst. Engar minningarathafnir voru haldnar og í raun var atvikið vísvitandi þaggað niður opinberlega.
Tulsa Tribune, dagblaðið sem að morgni 31. maí 1921 sló því upp á forsíðu að svartur piltur hefði beitt hvíta stúlku kynferðisofbeldi, fjarlægði forsíðuna úr gagnasöfnum sínum. Er sagnfræðingar ætluðu að kynna sér gögn borgaryfirvalda og lögreglunnar um málið kom í ljós að þau var hvergi að finna. Haugur af myndum sem lögreglan hafði viðað að sér á sínum tíma var sömuleiðis gufaður upp.
Það var ekki fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar, fimmtíu árum eftir atburðina, að fræðimenn fóru að grafast fyrir um hvað í raun og veru hafði gerst. Árið 1996 var í fyrsta skipti haldin opinber minningarathöfn um fórnarlömbin og minningarreitur í Greenwood afhjúpaður. Þetta sama ár var sett á laggirnar rannsóknarnefnd á vegum Oklahoma-ríkis til að fara í saumana á málinu. Átti nefndin, samkvæmt skipunarbréfi, að rannsaka „kynþáttaátökin í Tulsa“ eins og atburðurinn var þá ætíð kallaður. Fjórum árum síðar skilaði nefndin skýrslu og í henni kom fram að á bilinu 100-300 manns hefðu fallið og að yfir átta þúsund hefðu misst heimili sín á þeim átján klukkustundum sem árásin stóð yfir. Frá árinu 2000 hefur skólum í Oklahoma verið uppálagt að fræða nemendur um atburðina og árið 2004 var öllum skólum landsins gert að gera það. Í dag er talað um fjöldamorðið í Tulsa – ekki kynþáttaátökin.
COVID-19, sjúkdómurinn sem kórónuveiran veldur, er útbreiddur í Tulsa. Ný tilfelli í Tulsa-sýslu voru í gær hvergi fleiri hlutfallslega í öllu Oklahoma-ríki. Faraldurinn er enn í hámarki á þessum slóðum. Heilbrigðisyfirvöld í borginni hafa þess vegna biðlað til forsetans að fresta kosningafundinum. Á þá bón hefur ekki verið hlustað. Hins vegar munu allir þeir sem mæta á kosningafundinn skrifa undir skjal og staðfesta að þeir fari ekki í mál við kosningateymi Trumps smitist þeir á fundinum.
Trump og stuðningsmenn hans munu í dag standa á þeim slóðum þar sem fjöldamorðið var framið. Allt umhverfis íþróttahöllina þar sem forsetinn mun flytja ræðu og fá lófaklapp, áttu hræðilegir atburðir sér stað. Þar er m.a. að finna ómerktar grafir. Þar voru svartir hundeltir af hvítum æstum múg fyrir 99 árum, drepnir og líkin flutt í haugum í burtu áður en fjöldagrafir voru teknar. Sumum þeirra skolaði upp að árbökkum dagana á eftir.
Enginn var, hvorki fyrr né síðar, ákærður fyrir ofbeldisverkin. Enginn hefur, hvorki fyrr né síðar, verið dreginn til ábyrgðar. Ekki einu sinni borgaryfirvöld sem sannað þykir að hafi afhent múgnum vopn og litið svo undan á meðan blóðsúthellingarnar áttu sér stað.
En þetta kann að breytast. Á næsta ári verður öld liðin frá fjöldamorðinu. Og borgaryfirvöld eru farin, að minnsta kosti að einhverju leyti, að horfast í augu við fortíðina. Rannsóknarhópur hefur verið settur á stofn sem á að finna grafir fórnarlambanna og reyna að bera kennsl á þau. Þetta verkefni átti að hefjast fyrir nokkru en hefur frestast vegna faraldursins.
Kevin Stitt, repúblikani og ríkisstjóri Oklahoma, hefur boðið Trump í skoðunarferð um Greenwood áður en að kosningafundurinn hefst. Það hefur lagst illa í marga íbúana. Er mótmæli brutust út eftir morðið á George Floyd í Minneapolis vildi hann senda herinn á vettvang. Hann hefur svo ekki beinlínis tekið undir kröfur minnihlutahópa í landinu frá því hann varð forseti.
Það er ólíklegt að tilviljun hafi ráðið því að Trump heldur sinn fyrsta kosningafund í hundrað daga í Tulsa þar sem hundrað ár verða senn liðin frá blóðbaði. Hann hefur áður valið sér svið á stöðum sem vakið hafa sambærileg hughrif. Í kosningabaráttunni árið 2016 hélt hann fund í Milwaukee stuttu eftir að lögreglumaður hafði skotið svartan mann í bakið með þeim afleiðingum að hann lést. Í kjölfarið var mótmælt harðlega. „Ofbeldið, óeirðirnar og eyðileggingin sem hafa átt sér stað í Milwaukee er árás á rétt allra borgara til að búa við öryggi og til að búa við frið,“ sagði Trump af þessu tilefni, skammt frá þeim stað þar sem skotárásin var gerð.
„Við höfum áhyggjur af öllum þessu fólki sem er að koma til ríkisins og einnig af þeim sem verður fylgt inn í samfélagið okkar til að heimsækja menningarmiðstöðina í Greenwood. Það er eins og að bjóða þeim heim til okkar,“ hefur BBC eftir Therese Adunis. Afi hennar og amma lifðu ódæðin í Tulsa af og faðir hennar fæddist nokkrum mánuðum eftir þau.
Forstöðumaður menningarmiðstöðvarinnar, Mechelle Brown, segir að Greenwood og nágrenni sé heilagur staður í hugum margra. Brown átti einnig sæti í rannsóknarnefndinni sem skilaði skýrslu sinni um fjöldamorðin árið 2001. „Það er móðgun að [Trump] sé að koma hingað. Sérstaklega til staðar þar sem mögulega má finna fjöldagrafir og þar sem svartir flúðu á hlaupum til að reyna að bjarga lífi sínu.“