Norrænu ráðuneytin svara því ekki hvað þeim þótti um afstöðu Íslands

Kjarninn er búinn að fá svör frá fjármálaráðuneytum Finnlands, Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs vegna máls Þorvaldar Gylfasonar, sem íslenska ráðuneytið sagði að væri of virkur í pólitík til að viðeigandi væri að hann ritstýrði fræðatímariti.

Norðurlöndin Mynd: Johannes Jansson/Norden.org
Auglýsing

Fulltrúar hvorki norska né danska fjármálaráðuneytisins, sem eiga sæti í stýrihópi norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review, vilja svara því hvað þeim hafi þótt um þá afstöðu sem íslenska fjármála- og efnahagsráðuneytið setti fram gagnvart Þorvaldi Gylfasyni, þegar hann til kom til tals sem mögulegur næsti ritstjóri tímaritsins.

Sænska ráðuneytið svarar því heldur ekki með beinum hætti, en í svari við fyrirspurn Kjarnans segir Jonas Norlin fulltrúi þess þó að fyrir sænska ráðuneytið hafi akademískur bakgrunnur og getan til þess að standa sig vel í starfi verið það sem skipti máli við val á nýjum ritstjóra.

Einnig, segir sænski ráðuneytismaðurinn, var horft til praktískra atriða eins og þess hvar einstaklingar væru búsettir, með tilliti til möguleika þeirra á að ferðast á milli norrænu landanna vegna starfsins.

Fulltrúi norska ráðuneytisins, Nathalie Berner Sørhaug, segir það eitt í svari til Kjarnans að norska ráðuneytið hafi ekki haft athugasemdir við það að Þorvaldur Gylfason yrði ritstjóri NEPR. „Við höfum ekkert meira að segja um þetta mál,“ bætir hún við.

„Einhverskonar misskilningur“ að Danmörk hafi lagst gegn Þorvaldi

Starfsmaður danska ráðuneytisins, Morten Krægpøth, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að danska fjármálaráðuneytið hafi ekki tekið neina afstöðu hvorki með að á móti Þorvaldi, heldur hafi hann einfaldlega lýst því yfir þegar afstaða Íslands lá ljós fyrir að best væri að finna kandídat í starfið sem öll löndin gætu fellt sig við. 

Auglýsing

Hann segir það „einhverskonar misskilning“ að Danmörk hafi lagst sérstaklega á sveif með Íslandi innan norræna stýrihópsins í afstöðu til Þorvalds, en það sagði Lars Calmfors hagfræðiprófessor og fyrrverandi ritstjóri fræðatímaritsins, sem átti sem slíkur sæti í stýrihópnum, í svari sínu til Kjarnans í síðustu viku.

Þá hafði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra lýst því yfir á Facebook-síðu sinni að Ísland hefði ekki verið eina landið innan stýrihópsins sem studdi ekki að Þorvaldur yrði ritstjóri þegar til kastanna kom. Danski fulltrúinn segir þvert á móti að Danmörk hafi ekki tekið sérstaka afstöðu gegn neinum kandídat í starfið nema þegar samþykkt var að ráða sænska prófessorinn Harry Flam, sem að lokum var fenginn til þess að ritstýra tímaritinu.

Finnar hleypa stjórnmálamönnum ekki nærri

Þegar hefur verið fjallað um afstöðu finnska ráðuneytisins til málsins. Markku Stenborg, fulltrúi Finnlands í stýrihópnum, sagði við Kjarnann að hann myndi ekki leyfa stjórnmálamönnum að hafa nokkur áhrif á stjórn tímaritsins, en hann er með það verkefni á sinni könnu í finnska ráðuneytinu. Hann sagði að hann persónulega myndi aldrei mismuna neinum á grundvelli pólitískra skoðana eða annarra skoðana.

„Að mínu mati er helsta hæfn­is­við­miðið að rit­stjór­inn sé fær um að finna réttu rann­sóknateymin og leiða skrif þeirra, svo úr verði hágæða gagn­reyndar greinar sem geti nýst við stefnu­mót­un,“ sagði Sten­borg og kom því jafn­framt á framfæri að Þor­valdur hefði litið út fyrir að vera mjög hæfur kandídat í starf­ið.

Kjarninn spurði öll norrænu ráðuneytin að því hvernig þau hefðu brugðist við afstöðunni sem Íslands setti fram í tölvupóstsamskiptum innan nefndarinnar og einnig hvort ráðuneytin myndu taka stjórnmálaskoðanir eða -þátttöku fræðimanna inn í myndina þegar þau væru að komast að niðurstöðu um hvort einhver væri heppilegur í starfið eður eigi. 

Finnska ráðuneytið sagði skýrt að það yrði ekki gert þar í landi, fulltrúi þess sænska þuldi upp þá matsþætti sem það horfði til og stjórnmálaskoðanir eða -þátttaka var ekki þar á meðal, en hvorki danska né norska ráðuneytið svaraði spurningunni.

Calmfors sagði hreinskiptar umræður hafa farið fram

Lars Calmfors hagfræðiprófessor hefur verið ómyrkur í máli um hvað honum þótti um þá afstöðu sem íslenska ráðuneytið setti fram innan nefndarinnar og sagði hann í viðtali við Kjarnann í síðustu viku að hreinskiptar umræður hefðu farið fram innan nefndarinnar eftir að afstaða Íslands varð ljós, þar sem hann sjálfur hefði komið því skýrt á framfæri að það væri óboðlegt að taka hvers konar pólitískar röksemdir með í reikninginn þegar verið væri að velja ritstjóra. Einnig hefðu fulltrúar annarra ríkja, sem hann tiltók ekki, lýst yfir óánægju með afstöðuna.

Auglýsing

Við sænska blaðið Dagens Nyheter sagði hann svo einnig að pólitísk afskipti af stjórn tímaritsins gætu rýrt trúverðugleika þess, en NEPR er ritrýnt fræðatímarit og hefur tekið fram á síðum sínum að þrátt fyrir að til þess hafi verið stofnað af Norrænu ráðherranefndinni séu efnistök þess ekki endilega endurspeglun á „skoð­un­um, álit­um, við­horfum eða með­mæl­um“ Norrænu ráðherranefnd­ar­inn­ar. Með öðrum orðum, að það sé óháð tímarit, þrátt fyrir að norræni stýrihópurinn ákveði í samráði við ritstjóra hvaða þema eigi að taka fyrir á hverju ári. 

Þetta rímar illa við orð fjármála- og efnahagsráðherra, sem hefur sagt að ekki sé hægt að líta á NEPR sem óháð fræðatímarit, heldur sé ritinu ætlað að styðja við stefnumótun norrænu ríkjanna í efnahagsmálum. 

Hann sagði í Facebook-færslu í síðustu viku að hann teldi að „sýn og áherslur“ Þorvalds Gylfasonar í efnahagsmálum gætu engan veginn stutt við stefnumótun ráðuneytis sem hann stýrði.

Enginn virðist vita eða vilja segja af hverju Þorvaldi var boðið starfið

Kjarninn leitaði eftir útskýringum á því af hverju Þorvaldi Gylfasyni var veitt starfstilboð af hálfu Anders Hedberg, starfsmanns Norrænu ráðherranefndarinnar, sem Þorvaldur sjálfur segir að hafi verið án allra fyrirvara.

Eins og fram hefur komið sagði þessi starfsmaður norrænu ráðherranefndarinnar við Kjarnann að öllum fyrirspurnum vegna málsins ætti að beina til norrænu fjármálaráðuneytanna, en frá þeim fást heldur ekki skýr svör þrátt fyrir tilraunir blaðamanns. 

Ráðuneytin virðast þó ekki standa í þeirri meiningu að starfstilboðið hafi verið fyrirvaralaust. Finnski fulltrúinn sagðist hafa tekið því þannig að hann teldi starfstilboðið hafa verið lagt fram með fyrirvara um samhljóða samþykki og íslensku og dönsku ráðuneytin segja það hreinlega misskilning að Þorvaldur hafi verið ráðinn.

Sænski fulltrúinn svarar því til að það hafi ekkert haft með stjórnsýsluna í kringum starfstilboðin að gera og það norska svarar ekki spurningunni, frekar en öðrum.

Lars Calmfors, sem sjálfur lagði Þorvald til í starfið, sagði við Kjarnann að hann teldi að starfsmaður Norrænu ráðherranefndarinnar hefði veitt Þorvaldi tilboð um að taka að sér starfið, áður en formleg ákvörðun hefði verið tekin í stýrihópnum, „með þær skilj­an­legu vænt­ingar að allir yrðu ánægðir með það.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá vígslu málverkanna í febrúar árið 2018. Síðan þá hafa þau ekki verið sýnd hlið við hlið.
Portrettmyndir Obama-hjónanna gera víðreist um Bandaríkin
Aðsóknarmet var slegið í National Portrait Gallery í Washington D.C. eftir að opinberar portrettmyndir Obama-hjónanna bættust í safneignina árið 2018. Nú eru myndirnar á leið í 11 mánaða reisu vítt og breitt um Bandaríkin.
Kjarninn 19. júní 2021
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Afnám leiguþaks gæti orðið Löfven að falli
Svíþjóð hefur, líkt og önnur lönd í Evrópu, reynt að sporna gegn hröðum leiguverðshækkunum með leiguþaki. Nú gæti farið svo að sænska ríkisstjórnin falli vegna áforma um að afnema slíkar takmarkanir fyrir nýbyggingar.
Kjarninn 18. júní 2021
Frá Akureyri.
Starfsfólki sagt upp á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri
Forseti ASÍ gagnrýnir hagræðingaraðgerðir sem bitna fyrst og fremst á starfsfólki að hennar mati. Heilsuvernd tók við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar í apríl á þessu ári.
Kjarninn 18. júní 2021
Kona gengur fram hjá minningarvegg um fórnarlömb COVID-19 í London.
Delta-afbrigðið á fleygiferð á Bretlandseyjum
Tilfellum af COVID-19 fjölgaði um 50 prósent í Bretlandi á einum mánuði frá 5. maí til 7. júní. Smitum af völdum Delta-afbrigðisins svokallaða fjölgaði um tæp 80 prósent milli vikna. Ný bylgja segja sumir en aðrir benda á að hún verði aldrei skæð.
Kjarninn 18. júní 2021
Komum erlendra ferðamanna til landsins fækkaði um 81 prósent milli 2019 og 2020.
Íslendingar eyddu minna á ferðalögum innanlands í fyrra heldur en árið 2019
Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna innanlands námu 122 milljörðum króna í fyrra og drógust saman um 14 prósent frá 2019. Hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst saman um rúmlega helming á tímabilinu, fór úr átta prósentum niður í 3,9 prósent.
Kjarninn 18. júní 2021
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar