Brynjúlfur Brynjólfsson

Flaug frá Hornafirði til Höfðaborgar

Hefur þú séð rósastara? Þennan með fagurbleika gogginn og bleika svuntu? En grátrönu? Suðausturland er eins og trekt inn í landið frá Evrópu og þar er hentugt að fylgjast með fuglum sem hingað flækjast sem og þeim sem koma árlega og auðga lífríkið okkar.

Tyrkjadúfa, rósastari, hringdúfa, víxlnefur, glitbrúsi og grátrana eru meðal þeirra fugla sem flækst hafa hingað til lands í sumar. Á vef Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands fuglar.is má nær daglega sjá stuttar fréttir um flækingana, hvar þeir hafa sést og stundum kyn þeirra. 

Þeir eru margir fuglaáhugamennirnir á Íslandi. Til marks um það má nefna fjölda þeirra sem líkar við Facebook-síðuna Íslenskar fuglategundir. Meðlimir hópsins eru um 14.600. Þar er deilt myndum af fuglum og augljóst að Ísland er ríkt af góðum ljósmyndurum sem hafa þolinmæðina sem þarf til að mynda fugla.

Brynjúlfur Brynjólfsson er einn af þeim. Binni, eins og hann er kallaður, er starfsmaður Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands og Náttúrstofu Suðausturlands, og fylgist vel með fuglalífinu á því svæði. Hann talar fallega um þessi dýr sem auðga lífríkið á Íslandi og gegna þar mikilvægu hlutverki og þá skiptir engu hvort að fuglinn sé stór og mikill ránfugl eða lítill spörfugl. 


Auglýsing

Fuglaathugunarstöðin var stofnuð árið 2005 á afmælisdegi Hálfdáns Björnssonar á Kvískerjum í Öræfum með það að markmiði að halda á lofti og áfram þeim merku náttúrurannsóknum sem hann stundaði allt frá  árinu 1940. „Hálfdán var þrettán ára gamall þegar hann fór að viða að sér upplýsingum um fugla,“ segir Brynjúlfur í samtali við Kjarnann. „Við á fuglaathugunarstöðinni erum ekki að gera nákvæmlega það sama og Hálfdán gerði en erum að byggja ofan á hans gögn með því að telja og merkja fugla.“

Hálfdán var bóndi og alþýðuvísindamaður, fæddur 14. mars árið 1927. Hann ritaði fjölda vísindagreina um plöntur, skordýr og fuglalíf. Hann lést 10. febrúar 2017, tæplega níræður að aldri.

Hálfdán og systkini hans á Kvískerjum vöktu áhuga margra sem þeim kynntust á íslenskri náttúru. Í þeim hópi er Björn Gísli Arnarson, „hinn starfsmaður“ Fuglaathugunarstöðvarinnar. Björn ólst upp á Reynivöllum í Suðursveit og hlaut hann ríkulegt náttúruppeldi hjá nágranna sínum, Hálfdáni á Kvískerjum.


Kríur hafa mikið flugþol og kría sem merkt var hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands fannst síðar í Höfðaborg í Suður-Afríku.
Erling Ólafsson/Náttúrufræðistofnun Íslands

En hvað er það nú eiginlega sem Fuglaathugunarstöðin á Suðausturlandi gerir?

Um 20. mars ár hvert setur Fuglaathugunarstöðin upp sérstök fuglanet í Einarslundi, trjálundi skammt innan við Höfn í Hornafirði. Þar eru gerðar staðlaðar merkingar á þeim fuglum sem koma í netin. Netin eru tekin niður í kringum 10. maí er varptíminn hefst. Netin eru uppi alla daga, að minnsta kosti frá um klukkan sex að morgni og fram yfir hádegi. Og þeirra þarf að vitja á klukkutíma fresti. Fuglarnir sem í þau koma eru merktir, mældir og sleppt svo aftur út í frelsið. 

Á klukkutíma fresti, spyr blaðamaður í forundran.

„Já, við skiptum þessu með okkur, ég og Bjössi. Þar sem við þurfum nú að vinna fyrir okkur þá getur þetta verið töluvert púsluspil en einhvern veginn tekst okkur að sinna þessu,“ segir Brynjúlfur. 

Netin eru svo aftur sett upp á tímabilinu 1. ágúst til 10. nóvember – alla daga sem veður leyfir. 

Á milli þess að vakta netin og á þeim tímabilum sem þau eru ekki uppi eru Brynjúlfur og Björn að merkja kríur, skúma og ýmsa mófugla þar sem þeir ná til þeirra. Að auki taka þeir að sér ýmis sérverkefni. Eitt þessara verkefni er unnið í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og snýst um að safna skógarmítlum af fuglum. „Skógarmítillinn stekkur á fuglana á þeirra vetrarstöðvum og fær svo far með þeim hingað til lands á vorin. Þetta gerist stuttu áður en þeir leggja af stað og þess vegna eru þessir mítlar ekki stórir þegar þeir koma til Íslands. Svo hoppar hann af fuglinum og reynir að finna sér einhvern annan hýsil þegar hann þarf á því að halda.“


Binni og Bjössi hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands setja upp net og merkja fugla í Einarslundi við Höfn í Hornafirði.
Brynjúlfur Brynjólfsson

En nóg um mítla. 

Spurður um hvernig fuglarnir á Suðausturlandi hafi það þetta sumarið segir Brynjúlfur að varp kríunnar virðist ganga vel – þar sem hún yfir höfuð verpi. „Aðal varp kríunnar hér er við Hala í Suðursveit og þar gengur allt vel. En það er aftur á móti ekkert varp að finna lengur við Jökulsárlón þar sem fyrir nokkrum árum var gríðarstórt varp.“

Hann segir að fyrir nokkrum árum hafi þar orpið yfir þúsund kríupör en að nú sé hægt að telja þau á fingrum annarrar handar. „Þegar við horfum til mó- og vaðfugla þá finnst mér það hafa minnkað síðustu árin hvað maður finnur af þeim. En það er auðvitað alltaf breyting á milli ára.“

Það sem geti skýrt þá miklu breytingu snýst að sögn Brynjólfs líklegast um framboð á æti. „Þetta snýst jú allt um mat.“  Þá geti mannanna verk einnig haft sitt að segja um afkomu fugla og annarra dýra. 

Kjóinn dafnar betur en áður

En sumir fuglar virðast hafa það býsna gott á Suðausturlandi þetta sumarið. „Eitt af því sem mér finnst jákvætt er að kjóa er að fjölga aftur eftir mikla lægð,“ segir Brynjúlfur, „en á meðan hefur skúmnum hrakað hrikalega síðustu ár og áratugi.“

Af spörfuglum er það að frétta að svo virðist sem maríuerlunni ætli að ganga vel í sínu varpi í sumar líkt og í fyrra. Skógarþröstum og þúfutittlingum hafði fækkað nokkuð en Brynjúlfur segir það ekki koma í ljós fyrr en í haust hvernig þetta sumar hafi reynst þeim. 


Brynjúlfi finnst skemmtilegast að mynda hrossagauka.
Brynjúlfur Brynjólfsson

En snúum okkur að flækingunum. Oft vekja þeir mikla athygli, sérstaklega ef þeir eru mjög fáséðir og jafnvel litskrúðugir. Þessir tveir athyglisverðu þættir eiga við um einn vinsælasta flæking sumarsins: Rósarstarann. 

„Annars hefur verið tiltölulega rólegt í sumar í flækingunum,“ segir Brynjúlfur en nefnir að í sveitinni sé nú að finna grátrönu og þá hafi hringdúfur sést og séu farnar að verpa hér. Þegar Brynjúlfur og Björn komast í tæri við flækinga merkja þeir þá líka, rétt eins og aðra fugla. 

Merkingar eru alþjóðlegar og þær eru stundaðar út um allan heim. Að ýmsu er hægt að komast með merkingunum, t.d. hverjar vetrarstöðvar fuglanna eru, hvar þeir verpa og hverjar farleiðir þeirra eru. „Það er jafnvel hægt að sjá hvað þeir eru lengi á farflugi,“ bendir Brynjúlfur á. Þessar upplýsingar eru gagnlegar að mörgu leyti, til að mynda þegar kemur að farsóttum á borð við fuglaflensur. „Það er alltaf verið að auka þekkinguna.“

Ef einhver úti í heimi finnur fugl sem merktur hefur verið af Fuglaathugunarstöð Suðausturlands eru upplýsingarnar sendar til Náttúrufræðistofnunar Íslands. „Við höfum fengið endurheimtur allt frá Höfðaborg í Suður-Afríku. Þar fannst kría sem við höfðum merkt. Ein kría frá okkur fannst síðar í Bandaríkjunum.“


Auglýsing

Einn fugl er Brynjúlfi sérstaklega hugleikinn og það er skúmurinn. „Skúmurinn er okkar fugl,“ segir hann og bendir á að Fuglaathugunarstöðin og Náttúrstofa Suðausturlands sinni því verkefni að fylgjast með afkomu hans – sem er orðin ansi slök og nú er hann kominn á válista. Erfitt sé að fullyrða hvað hafi valdið hruni í stofninum en ein kenningin er sú að skúmurinn hafi gert sér sjávarfang sem áður var hent af fiskibátum og út í sjó að góðu en að nú sé farið að nýta það miklu betur og það hafi áhrif á skúminn. 

Ertu á besta staðnum á landinu til að fylgjast með fuglum?

„Þú færð mig náttúrlega ekki til að segja nei,“ segir Brynjúlfur hlæjandi og bætir við: „Þar sem við erum nú líka að eltast við flækingsfugla þurfum við víst að fara víðar.“

En vissulega er Suðausturlandið sérstakt þegar kemur að fuglalífi. „Þetta svæði er eins og trekt inn á landið frá Evrópu en svo dreifast fuglarnir héðan. Að vera hér að skoða farfugla og flækingsfugla er mjög áhugavert en hér er minna að finna af varpfuglum heldur en víða annars staðar á landinu. Það er ekki langt frá fjöru og til jökuls, þannig að svæðið sem slíkt hentar vel til athugunar á fuglum.“


Bjúgnefjur á flugi. Fuglinn er í miklu uppáhaldi hjá Binna.
Brynjúlfur Brynjólfsson

En á Brynjúlfur uppáhaldsfugl?

Hann hugsar sig um í stutta stund áður en hann svarar. Finnst spurningin erfið. „Bjúgnefja er minn fugl enda hef ég fundið níu af þeim tíu sem sést hafa á landinu,” svarar hann loks. „Mér finnst nú einna skemmtilegast að taka myndir af hrossagaukum. Svo er alltaf gaman að finna fugla sem ekki hafa sést áður hér á landi eða eru sjaldgæfir, svo ég tali nú ekki um að finna nýja tegund fyrir Evrópu.” En það hafa þeir félagar Binni og Bjössi báðir gert.

Ef þú vilt fylgjast betur með starfi Binna og Bjössa hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands getur þú fylgst með starfi þeirra á Facebook og á vefnum Fuglar.is

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent