Litla stúlkan með sérstæðu augun
Myndir af Madelaine McCann eru enn á ný komnar á forsíður blaða, þrettán árum eftir að hún, þá tæpra fjögurra ára, hvarf sporlaust í Portúgal. Í þýskri borg situr karlmaður í fangaklefa grunaður um að hafa rænt henni og skaðað – maður sem hefur ítrekað gerst sekur um kynferðisbrot.
Hún væri orðin 17 ára. Rétt rúmlega. Líklega farin að hlakka til háskólanáms á næsta ári. Jafnvel að skoða námsskrárnar, máta við sig hin og þessi starfsheiti. Ætti hún að verða læknir eins og foreldrarnir? Eða eitthvað allt annað?
En Madeleine McCann er ekki að fara í háskóla. Hún hvarf tæplega fjögurra ára gömul og lést líklega skömmu síðar. Litla stúlkan með sérstæðu augun fékk ekki að vaxa úr grasi og verða að ungri konu.
Enn einu sinni eru farnar að birtast fréttir um bresku stúlkuna sem hvarf í maí árið 2007 er hún var með foreldrum sínum og systkinum í fríi í strandbæ í Portúgal. Þetta var rétt fyrir fjögurra ára afmælisdaginn hennar. Harmleikurinn um hvarf Madeleine McCann hefur verið fréttaefni allar götur síðan. Fyrstu árin á hverjum einasta degi. Sjaldnar árin á eftir en þó í bylgjum. Það hefur stöðugt verið leitað að barninu. Margir hafa legið undir grun um að hafa rænt henni.
Stundum hefur lögreglan talið sig komna á sporið. Stundum hefur fólk talið sig sjá hana, jafnvel í öðrum heimsálfum. Þá hafa fjölmiðlarnir tekið við sér, rifjað upp málið, rætt við rannsakendur, ættingja og stundum þá sem sérhæfa sig í samsæriskenningum af öllu tagi. Var ekki eitthvað grunsamlegt hvað foreldrarnir sýndu litlar tilfinningar? Eru þau ekki líklegir gerendur? Það voru jú breskir foreldrar sem hentu líki ungs sonar síns í ruslagám í Portúgal nokkrum árum fyrr. Og hvað var þetta fólk að hugsa að skilja börnin eftir ein í hótelherberginu?
Foreldrarnir hafa fyrir löngu verið hreinsaðir af öllum grun. En þau hafa aldrei hætt að vekja athygli á hvarfi dóttur sinnar.
Snemma í júní síðastliðnum dró enn á ný til tíðinda: Lögregluyfirvöld greindu frá því að þýskur fangi lægi nú undir grun um aðild að hvarfi Madeleine. Þýska lögreglan sagðist rannsaka málið sem morð og ganga út frá því að stúlkan væri látin. „Við munum aldrei gefa upp vonina um að Madeleine finnist á lífi,“ sögðu foreldrar hennar, Kate og Gerry McCann í kjölfarið. „En hver sem niðurstaðan verður þá þurfum við að vita hvað kom fyrir hana og finna frið.“
Kate og Gerry hafa leitað dóttur sinnar í þrettán ár. Fyrir jafnmörgum árum stóðu þau daglega á tröppum íbúðar í Praia da Luz í Portúgal og báðu alla um aðstoð. Höfðu einhverjir séð hana? Stúlkuna með ljósa, slétta hárið og depilinn í hægra auganu? Var mannræninginn að hlusta? Vildi hann vera svo vænn að skila dótturinni?
Það kann vel að vera að hinn 43 ára Christian Brückner, sem situr nú í fangelsi fyrir kynferðisbrot, hafi verið að hlusta. Hann bjó í Portúgal á árunum 1995-2007, í nágrenni við sumardvalastaðinn þar sem Madeleine og fjölskylda voru í fríi. Hann hefur einnig verið dæmdur fyrir barnaníð – oftar en einu sinni. Sautján brot eru á sakaskrá hans. Þýska lögreglan segir hann þekktan fyrir innbrot í sumarhús og hótel og sölu fíkniefna í bæði heimalandinu og Portúgal en þangað hafði hann flúið aðeins átján ára gamall til að komast hjá því að fara í fangelsi.
Afskipti lögreglunnar af honum hófust er hann var unglingur. Árið 1994 var hann dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barni, tilraun til kynferðisbrots gegn barni og fyrir að hafa viðhaft kynferðislega tilburði fyrir framan barn. En þar með er ekki öll saga hans sögð.
Hann hefur einnig verið dæmdur fyrir brot gegn aldraðri konu. Sú var 72 ára árið 2005 er Brückner réðst á hana á heimili hennar við ströndina í Lagos í Portúgal. Árásin var mjög grimmileg. Brückner braust inn í húsið, batt gömlu konuna, barði hana með barefli og nauðgaði henni. Portúgalska lögreglan hóf rannsókn en hætti henni ári síðar. Það var ekki fyrr en í fyrra, fjórtán árum eftir nauðgunina, að Brückner var sakfelldur fyrir ofbeldið og dæmdur til sjö ára fangelsisvistar. Þá var fórnarlamb hans orðið 86 ára gamalt.
Við réttarhöldin greindu vitni frá því að Brückner hefði stært sig af því að brjótast inn á gististaði ferðamanna í Portúgal til að stela verðmætum. Eitt vitnið sagðist hafa séð hann fara inn um glugga á sumarhúsi.
Í meira en aldarfjórðung flutti Brückner fram og til baka milli Þýskalands og Portúgal – oft til að komast undan réttvísinni. Á þeim tíma sem McCann-fjölskyldan var í fríi í Portúgal og daginn sem Madeleine hvarf, er hann talinn hafa verið þar. Hann starfaði sem þjónn en var alltaf blankur og í leit að betur launaðri vinnu. Þá átti hann sendibíl og einnig gamlan jagúar. Sá bíll er meðal gagna í málinu nú.
Lundúnalögreglan segist fyrst hafa fengið ábendingu um Brückner árið 2017 er hún óskaði enn einu sinni eftir upplýsingum um málið – tíu árum eftir hvarfið. Nafn hans er þó talið hafa komið inn á borð lögreglunnar í Þýskalandi nokkrum árum fyrr eða árið 2013 í kjölfar sjónvarpsþáttar um málið sem sýndur var þar í landi.
Þýska lögreglan telur að Madeleine sé látin en hefur ekki gefið upp hvaða sannanir hún hafi fyrir því. Breska lögreglan hefur þó ekki gefið út slíka yfirlýsingu og segir málið enn rannsakað sem mannrán.
Nú situr Brückner reyndar í varðhaldi í þýsku borginni Kiel. Og dómur hans fyrir nauðgunina hrottalegu er í endurskoðun að kröfu lögfræðinga hans sem segja að hann hafi verið framseldur frá Ítalíu til Þýskalands vegna annars brots en hann var svo ákærður fyrir. Slíkt segja þeir ekki samræmast framsalsreglum Evrópudómstólsins.
Eftir að fram kom í byrjun júní að Brückner væri grunaður um aðild að hvarfi Madeleine fóru þýska og portúgalska lögreglan enn einu sinni að leita að frekari vísbendingum. Í Portúgal var til að mynda leitað í gömlum brunnum í nágrenni sumardvalarstaðarins Praia da Luz. Ekki hefur verið gefið upp hvort sú leit skilaði einhverjum árangri.
Í gær var svo hafist handa við leit í skóglendi skammt utan Hanover í Þýskalandi. Ekki hefur heldur verið gefið upp hvort sú leit hafi skilað einhverju.
Litla stúlkan með sérstæðu augun er enn ófundin.
Margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna fjölmiðlar um allan heim segja enn í dag fréttir af hvarfi Madeleine McCann. Því á hverju ári hverfa tugþúsundir barna. Líklega mörg hundruð þúsund. Við fáum hins vegar aðeins fréttir af örfáum þeirra. Aðallega hvítum börnum á Vesturlöndum. Fréttir um að þau hafi horfið, að þeirra sé leitað og að þau hafi fundist. Stundum heil á húfi. En stundum látin. Og stundum spyrst ekkert til þeirra framar.
Þær eru því óteljandi, harmsögurnar af börnunum sem hverfa. Þær eru hins vegar fæstar sagðar opinberlega.
Hvert þessara barna á sér ástvini sem syrgja. En þeir hafa ekki allir sömu fjárráð og sama aðgang að fjölmiðlum og læknahjónin Kate og Gerry McCann. Og þar að auki að breskum fjölmiðlum sem eru þekktir fyrir uppslátt og tilfinningaþrungnar fyrirsagnir. Sagt er að yfirmenn hjá Sky News, sem áttu alltaf í góðu sambandi við McCann-hjónin, hafi fyrirskipað að slá ætti frétt af hvarfi litlu stúlkunnar upp í öðrum hverjum fréttatíma eða svo.
Ástæðurnar fyrir því að mál Madeleine McCann hefur ratað oftar í fjölmiðla en nokkurs annars horfins barns, eru eflaust jafnmargar og spurningarnar sem hafa vaknað vegna hvarfs hennar.
Hvorki þær né öll fjölmiðlaumfjöllunin breyta því þó að ekkert hefur spurst til lítillar stelpuhnátu sem sofnaði sæl og eflaust rjóð í kinnum í sumarfríi á sólarströnd fyrir þrettán árum.
Greinin er byggð á fréttum og fréttaskýringum margra fjölmiðla, m.a. Guardian, New York Times, BBC og CNN.