„Skrautleg súpa“ í Mývatni
Sjaldgæf sjón. Skrautleg súpa og meiriháttar málningarblanda. Þetta eru orð sem starfsmenn Náttúrurannsóknarmiðstöðvarinnar við Mývatn nota um óvenjulegt sjónarspil í vatninu.
Það skortir ekki rannsóknarefnin hjá Náttúrurannsóknarmiðstöðinni við Mývatn. Fyrir helgi upphófst mikið sjónarspil við suðurströnd vatnsins er mýflugur og mýpúpuhýði rak í stórum stíl að bakkanum og blandaðist blábakteríumori.
„Úr varð meiriháttar málningarblanda þar sem gulir og grænir litir morsins blönduðust gráum og bláleitum litum kítíns,“ segir á Facebook-síðu rannsóknarmiðstöðvarinnar. „Sumt af morinu var að leysast upp og þá kemur fram túrkisblár litur sem stafar af óteljandi örsmáum lofthylkjum sem morbakteríurnar hafa í sér en losna úr frumunum. Hægur straumur við bakkann hrærði þessu öllu varlega saman í röndótta sveipa. Sjaldgæf sjón.“ Í annarri færslu segir að þegar „kynstrin öll af smágerðu mýi“ kviknuðu í Mývatni og blandaðist blábakteríumorinu hafi orðið til „hin skrautlegasta súpa“.
Þá vakti starfsfólk rannsóknarmiðstöðvarinnar einnig athygli á því að við eyjuna Slútnes í Mývatni var vatnið litað blábekteríumori. „Það vekur athygli að litur morsins er brúnn sunnan við eyna en grænn norðan við hana. Það bendir til að tvær mismunandi tegundir baktería mori vatnið að þessu sinni. Það skortir ekki rannsóknarefnin!“
Að ýmsu er að hyggja í rannsóknum við náttúruperluna Mývatn og sem dæmi var í vikunni gerð tilraun til að telja álftir á vatninu með dróna. Samkvæmt talningu reyndust þær að minnsta kosti 423 í einum hópi á Ytriflóa.
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (RAMÝ) er vísindastofnun á vegum umhverfisráðuneytisins, byggð á lögum um verndun Mývatns og Laxár og hefur verið starfrækt síðan 1974. Hún fæst við rannsóknir á náttúru og sögu Mývatns og Laxár og vatnasviðs þeirra með það höfuðmarkmið að skilja náttúrufarsbreytingar og sjá þær fyrir og stuðla þannig að verndun svæðisins. Stöðin er í gamla prestseturshúsinu á Skútustöðum.
Mývatn og Laxá og vatnasvið þeirra er lífríkt og fjölbreytt vatnakerfi á eldvirku rekbelti á mörkum tveggja jarðskorpufleka og á sér enga hliðstæðu á jörðinni. Svæðið nýtur sérstakrar verndar með lögum og alþjóðasamningi. Það laðar að sér fjölda ferðamanna og fóstrar jafnframt mikið mannlíf sem nýtir náttúruauðlindir þess. Náttúra svæðisins tekur umtalsverðum breytingum, m.a. vegna jarðfoks, eldvirkni, námuvinnslu, jarðhitanýtingar, ræktunar, breytinga á búfjárbeit, samgöngumannvirkja og annarrar mannvirkjagerðar.
Náttúrurannsóknastöðin leitast við að standa í fremstu röð í rannsóknum á vistfræði vatns og lífríki vatna og vöktun þeirra. Hún stefnir að því að rannsóknir á hennar vegum standist alþjóðlegar kröfur og rannsóknaniðurstöður birtist í viðurkenndum vísindaritum. Vegna þess gildis sem langtímagögn um ástand vatns og lífríkis þess hefur fyrir rannsóknir og ráðgjöf safnar stöðin og heldur til haga slíkum gögnum. Gagnasafn stöðvarinnar nær nú aftur til ársins 1975 og er með þeim lengstu í heiminum um ástand lífríkis í stöðuvatni.