EPA

Leita lífs og svara

Það er talað um slys. En á sama tíma liggur fyrir að spenna milli Ísraela og Hezbollah-skæruliða hefur aukist að undanförnu. Eiturgufur og ryk liggur enn yfir borginni fögru fyrir botni Miðjarðarhafs – París Miðausturlanda – og lífs er leitað í rústunum en einnig svara við því sem raunverulega gerðist.

Í borginni sem oft var kölluð París Miðausturlanda, hafa svo margar árásir verið gerðar, svo margar sprengjur verið sprengdar, að þegar jörð tók að skjálfa í gær, sveppaský að myndast og hljóðhimnur og rúður á stóru svæði að springa, voru fyrstu viðbrögð margra eðlilega: Hver ber ábyrgð á þessari árás?


Enn liggur svarið ekki að fullu fyrir en talið er hins vegar að í þetta skiptið hafi skæruliðar eða hryðjuverkamenn hvergi komið nærri heldur hafi neisti komist að gríðarlegu magni sprengjuefna sem geymt var ólöglega í vöruskemmu við höfnina í Beirút. Í borginni sem á sér yfir 5.000 ára sögu og er því ein sú elsta í heimi. Ef þetta reynist raunin átti sér í gær stað eitt mannskæðasta iðnaðarslys í stórborg sem um getur. Að minnsta kosti 100 eru látnir og þúsundir slasaðar. Svo margir meiddust að fjölmörgum hefur þurft að vísa frá yfirfullum sjúkrahúsunum. Tvö sjúkrahús skemmdust mikið og fréttir herma að þar hafi sjúklingar og starfsfólk látist. Engu að síður hafi læknar og hjúkrunarfræðingar streymt út á götur til að hlúa að slösuðum.


Auglýsing

 Útlit er fyrir að tala látinna eigi eftir að hækka og það jafnvel umtalsvert. Sjónarvottar segjast hafa séð fólk liggja í hrönnum undir braki bygginga sem hrundu – jafnvel í töluverðri fjarlægð frá upptökum sprengingarinnar sem var svo öflug að höggbylgja gekk yfir stórt svæði og eyðilagði allt sem í vegi hennar varð.


Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs hefur svo oft ratað í fréttir á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum síðustu áratugi að saga og fegurð höfuðborgar Líbanon, Beirút, og það litskrúðuga mannlíf sem þar hefur þrifist í aldir og fengið að blómstra á friðartímum, er líklega ekki það sem fyrst kemur upp í huga Íslendinga þegar fréttir berast nú þaðan af kröftugri og eyðileggjandi sprengingu.


Þessi fyrrum franska nýlenda, þar sem austrið og vestrið mætast í menningu, tísku og listum, varð til þess að Beirút hlaut gælunafnið París Miðausturlanda. Þar hafa hefðir og nýir straumar blandast í gegnum aldir og áratugi og þegar stríðandi fylkingar hafa lagt niður vopn hefur áköf sköpun vaknað af krafti. Borgarbúar hafa enda ítrekað þurft að byggja upp aftur – bæði byggingar og sál samfélagsins og þannig reynt að græða sárin sem mannskæð átök hafa valdið.


Í fyrstu frétt Breska ríkisútvarpsins í gær af sprengingunni í Beirút, sem skelfileg myndbönd höfðu þegar birst af á samfélagsmiðlum, var í annarri málsgrein minnt á að á föstudag verður kveðinn upp dómur yfir fjórum meðlimum Hezbollah sem ákærðir eru fyrir að bera ábyrgð á bílsprengju sem varð forsætisráðherra Líbanon, Rafik al-Hariri, að bana árið 2005. Spennustigið í borginni var því mikið. Og þegar gríðarleg sprengingin varð tengdu hana margir – meðal annars fjölmiðlar – við réttarhöldin yfir fjórmenningunum.


Enn loga eldar í Beirút. Enn er verið að grafa fólk – lifandi og liðið – út úr rústum húsa.


En hvað gerðist eiginlega?


Gríðarlegur kraftur myndaðist í sprengingunni.
EPA

Það sem fram hefur komið í fréttum er í stórum dráttum þetta:


Í vöruskemmum við höfnina í Beirút var geymt gríðarmikið magn af eldfimu efni, ammóníumnítrati, sem aðallega er notað í áburð en hefur einnig verið notað til sprengjugerðar. Talið er að um 2.700 tonn efnisins hafi verið geymd þar allt frá árinu 2014, þrátt fyrir að hafnaryfirvöld hafi ítrekað varað vð hættunni sem af því stafaði.


Í gærkvöldi varð fyrst minni sprenging og eldur kviknaði út frá henni. Sú síðari var mun kraftmeiri og sveppaský, líkt og fólk hefur séð á myndum af kjarnorkusprengingu, myndaðist og steig hátt upp í lofti. Svo myndaðist gríðarlega kraftmikil höggbylgja sem fór yfir alla borgina. Þegar kviknar í sprengiefni eins og ammóníumnítrat losna gös sem þenjast hratt út. Höggbylgjan sem þau skapa er því veggur af þéttu lofti. Bylgjan fer á margföldum hljóðhraða en þar sem borgarlandslagið, með alls konar byggingum af öllum stærðum og gerðum, verður á vegi hennar, getur hún breytt um stefnu og ýmist hægist á henni eða hraðinn eykst. Hún fer því ekki jafnt yfir allt eins og hægur vindur. Þetta verður til þess að sumar byggingar eyðileggjast en aðrar ekki.


Sprengingin var svo öflug að hún fannst á eyjunni Kýpur sem er í um 250 kílómetra fjarlægð. Bílar þeyttust upp í loftið, járnabrak úr húsum var snúið eins og leir og viðskiptahverfi borgarinnar skemmdist og einangraðist vegna braks. Hið rómaða hverfi veitingahúsa, bara og skemmtistaða við sjóinn er einnig stórskemmt. 


Hafnarsvæðið eins og það lítur út eftir spreninguna.
EPA

Þó að yfirvöld í Líbanon telji á þessari stundu að um slys hafi verið að ræða segja þau að einhverjir verði dregnir til ábyrgðar.


„Ég lofa ykkur því að þessar hamfarir munu ekki líða hjá án þess að einhver verði dreginn til ábyrgðar. Þeir sem bera ábyrgð munu þurfa að gjalda þess,“ sagði Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanons í gær. „Staðreyndir um hina hættulegu vöruskemmu, sem hefur verið þarna síðan 2014, verða dregnar fram í dagsljósið.“


Þau hugrenningatengsl sem sköpuðust við sprenginguna í gær, á milli skæruliðaárása og sprenginga, eiga sér einnig skýringu í því að spenna milli Ísraels og Hezbollah hefur verið að aukast á ný síðustu misseri. Hezbollah-liðar eru sagðir hafa yfir byggingum við höfnina að ráða og bandarísk yfirvöld hafa lengi sakað þá um að nota þá aðstöðu til að smygla vopnum til landsins. Sprengingar urðu einnig í vopnabúrum sjíta-skæruliða í Írak á síðasta ári. Írösk stjórnvöld hafa sakað Ísraela um að bera ábyrgð á þeim. Einnig hafa orðið sprengingar á hernaðarlega mikilvægum svæðum í Íran og í Washington Post kemur fram að írönsk stjórnvöld saki Ísraela einnig um að standa að baki þeim.


Bæði stjórnvöld í Ísrael og Hezbollah hafa vottað samúð sína vegna sprenginganna í Beirút. Hvorki Ísrael né Hezbollah hafa skellt skuldinni á einhvern. En Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lá ekki á skoðunum sínum og sagði að sprengingin væri „hræðileg árás“ og að yfirmenn hersins virtust telja að þarna hefði „einhvers konar sprengja sprungið“. Yfirmenn hersins hafa hins vegar gefið út opinberlega að þeir hafi ekki gert mat á því hvað gerðist.


Auglýsing

Litla Líbanon, landið fyrir botni Miðjarðarhafs sem tók á móti fleiri sýrlenskum flóttamönnum en nokkuð annað ríki heims fyrir utan Tyrkland, glímdi við efnahagsþrengingar áður en eyðileggingin og mannfallið mikla varð í gær. Þar hefur tilfellum af COVID-19 farið fjölgandi síðustu vikur. Sjúkrahúsin voru því undir miklu álagi fyrir. Í gær bættist svo ofan á allt saman rafmagnsleysi í borginni og fjarskiptasamband hefur verið slæmt síðustu klukkustundirnar.


Fjöldi fólks hefur misst heimili sín. Eiturgufur eru enn í andrúmsloftinu.  „Við þurfum að koma þeim slösuðu á sjúkrahús,“ sagði heilbrigðisráðherrann við fréttamenn í morgun. „En það er alvarlegur skortur á öllu.“


Starfsmenn Rauða krossins, sem er fyrirferðamikill í hjálparstarfi í landinu, hafa reynt að gera allt hvað þeir geta til að aðstoða þá sem á þurfa að halda. „Við höfum orðið vitni að gríðarlegum hamförum,“ sagði George Kettani, yfirmaður Rauða krossins í Líbanon, í morgun. „Fórnarlömbin eru um allt.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar