Mynd: Úr safni. kaupthing lux

Rannsókn á Lindsor-málinu í Lúxemborg lokið og því vísað til saksóknara

Tæpum tólf árum eftir að aflandsfélagið Lindsor Holding fékk lán frá Kaupþingi til að kaupa verðlítil skuldabréf, meðal annars af starfsmönnum bankans í Lúxemborg, er rannsókn á málinu lokið þar í landi. Ákvörðun um hvort fjórir einstaklingar verði ákærðir er yfirvofandi.

Rannsóknardómari í Lúxemborg hefur lokið rannsókn sinni á Lindsor-málinu svokallaða og sent niðurstöður hennar til saksóknara, tæpum tólf árum eftir að hinn íslenski banki Kaupþing, sem er miðpunktur málsins, féll og atburðirnir sem málið snýst um áttu sér stað. Það gerði hann með formlegri ákvörðun sem dagsett 24. júlí. Sá mun nú leggja mat á niðurstöðuna og, telji hann tilefni til, senda ákæru til dómstóla í Lúxemborg. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá saksóknaraembætti Lúxemborgar frá því í gær sem Kjarninn hefur fengið senda. Tilkynningin hefur verið töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum í Lúxemborg líkt og sjá má hér, hér og hér

Lindsor-­málið snýst um 171 millj­ónir evra lán sem Kaup­þing veitti félagi sem heit­ir Lindsor Holding Corporation og er skráð til heim­ilis á Tortóla-eyju. Lánið var veitt 6. októ­ber 2008, sama dag og ­neyðarlög voru sett á Íslandi og Geir H. Haarde, þáver­andi for­­sæt­is­ráð­herra, bað guð að blessa Ísland. Þann dag lán­aði Seðla­­banki Íslands líka Kaup­­þingi 500 millj­­ónir evra í neyð­­ar­lán.

Auglýsing

Lánið til Lindsor var aldrei borið undir lána­nefnd Kaup­þings. Það var notað til að kaupa skulda­bréf af Kaup­þingi í Lúxemborg, ein­stökum starfs­mönnum þess banka og félagi í eigu vild­ar­við­skipta­vinar Kaup­þings.

Þegar Kaup­þing féll þremur dögum eftir kaupin á bréf­unum var ljóst að Lindsor gat ekki greitt lánið til baka, enda eina eign félags­ins verð­litlu skulda­bréfin sem félagið hafði keypt á yfir­verði þremur dögum áður. Engar trygg­ingar voru veittar fyrir lán­inu og tap kröfu­hafa Kaup­þings vegna þess því umtalsvert. Þeir sem seldu bréfin los­uðu sig hins vegar undan ábyrgðum og, ef grun­semdir rannsakenda eru rétt­ar, tryggðu sér um leið mik­inn ágóða. 

Fjórir sem yrðu sóttir til saka

Kjarninn greindi frá því 9. júlí síðastliðinn, og hafði eftir Diane Klein, talskonu dómsmálaráðuneytis Lúxemborgar, að aðstoðarsaksóknari sem vinnur að málinu teldi afar líklegt að ákæra verði lögð fram gagnvart einhverjum þeirra grunuðu í málinu. Í fréttatilkynningunni frá saksóknaraembættinu sem send var út í gær kemur fram að á meðan að rannsóknin stóð yfir hafi fimm einstaklingar  haft stöðu grunaðra. Fjórir af þeim verða ákærðir, samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar, ef ákæra verður gefin út. Ekki er greint frá því um hvaða fjóra einstaklinga er að ræða. 

Dómskerfið í Lúxemborg er ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast. Ákveði saksóknari að gefa út ákæru þá er hún send til svokallaðs „council chamber“ héraðsdómsstigs Lúxemborgar sem mun taka ákvörðun um hvort að málið fái efnismeðferð eða verði vísað frá. Sakborningar í málinu munu á þeim tímapunkti fá tækifæri til að setja fram varnir í málinu. 

Þeir sem eru grun­aðir um lög­brot í mál­inu, fyrr­ver­andi helstu stjórn­endur Kaup­þings og vild­ar­við­skipta­vinur þeirra, hafa ávallt harð­neitað að nokkuð sak­næmt hafi átt sér stað í mál­inu.

Málið sagt „afar flókið“

Í fréttatilkynningu saksóknaraembættisins í Lúxemborg er farið yfir feril málsins. Þar segir að í lok apríl 2010 hafi fjármálaeftirlitið í Lúxemborg gert saksóknaraembættinu þar í landi viðvart um málið. Það hefur líkast til gerst í kjölfar þess að um Lindsor og tengd viðskipta var fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið sem kom út um það leyti. 

Formleg rannsókn hófst svo 8. apríl 2011 á margskonar mögulegum efnahagsbrotum, meðal annars fjársvikum og peningaþvætti. 

Í tilkynningunni segir að málið hafi reynst afar flókið, sérstaklega vegna þess að það hafi haft bæði íslenskan og alþjóðlegan anga. 

Auglýsing

Tvívegis voru réttarbeiðnir sendar til íslenskra yfirvalda, í september 2013 og í desember 2016. Í síðara skiptið komu raunar þrír rannsakendur í málinu til Íslands og óskuðu formlega atbeina héraðssaksóknara við rannsókn málsins. Í kjölfarið yfirheyrðu þeir Íslendinga sem tengjast málinu. Einn þeirra sem kom hingað til lands er rannsóknardómarinn sem þá stýrði rannsókninni, Ernest Nilles. Nýr rannsóknardómari hefur síðan tekið við málinu, og lokið rannsókninni. 

Í fréttatilkynningunni sem send var út í gær þá er íslenskum kollegum saksóknaraembættisins þakkað sérstaklega fyrir frábæra samvinnu. 

Kjarninn fjallaði með afar ítarlegum hætti um Lindsor-málið í fréttaskýringu sem birtist 9. júlí 2020. 

Lestu meira:

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar