EPA

Krítískur tími í Evrópu – kúrfan sveigist upp á ný

Hvert sem litið er í Evrópu er staðan nánast sú sama: Tilfellum af COVID-19 hefur fjölgað síðustu vikur. Ríkin hafa sum hver gripið til staðbundnari takmarkana en í vetur í von um að þurfa ekki að skella í lás að nýju. „Við getum gleymt veirunni en veiran mun ekki gleyma okkur,“ segir helsti sérfræðingur Belgíu í smitsjúkdómum.

Við gerðum þetta í vetur og við getum gert þetta aftur, hefur Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagt síðustu daga eftir að tilfellum af COVID-19 fór að fjölga. En hvað þarf að gerast svo að við getum gert þetta aftur? Stóra áskorunin er sú að fá fólk, sem ferðaðist innanhúss um páskana en með ferðagjöf í vasanum innanlands í sumar, til að setja í bakkgír og fara á stað sem var þegar orðinn því fjarlægur. 

Við erum ekki ein. Mörg lönd í Evrópu eru að glíma við fjölgun tilfella af COVID-19 eftir að hafa náð góðum tökum á útbreiðslunni fyrr á árinu. Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi um helgina að allar þjóðir Evrópu utan þriggja hefðu slakað á sínum aðgerðum. „Og almenningur hefur líka slakað á sínum smitvörnum. Og þessi veira, hún bara kemur upp þegar það gerist.“ 

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) flokkar ríki heims niður eftir því hvort hún metur að um hópsýkingar (e. Clusters of cases) sé þar að ræða eða samfélagssmit (e. Community transmission). Á Íslandi er að áliti stofnunarinnar nú samfélagssmit í gangi sem þýðir að upptök sýkinga eru ekki að fullu kunn.


Auglýsing


Á síðustu tveimur vikum hafa yfir 35 þúsund ný tilfelli af COVID-19 greinst á Spáni. Yfir helmingur hefur greinst á þremur svæðum; í Katalóníu, Argón og Madrid. Hins vegar eru 580 hópsmit í gangi í landinu. „Ég vil ekki einu sinni hugsa um það,“ segir Sara Gayoso, læknir á El Escorial-sjúkrahúsinu í nágrenni Madridar, við dagblaðið Guardian, spurð hvernig hún myndi taka tíðindum um annan skæðan faraldur. „Við myndum augljóslega gera allt sem við gætum en við erum enn svo þreytt að ég er ekki viss um að við hefðum úthaldið til að fara í gegnum þetta allt aftur. Ef það verður önnur bylgja eins og sú fyrsta þá yrði það hörmulegt.“

Nægar birgðir af hlífðarfatnaði

Þó að tilfellum hafi fjölgað síðustu vikurnar er ástandið á sjúkrahúsum gjörólíkt því sem það var í vetur. Að auki er víða allt til staðar sem skortur var á í mars og apríl. Nægar birgðir eru til af hlífðarfatnaði og öndunarvélum á El Escorial-sjúkrahúsinu, svo dæmi séu tekin. 

Juan Camilo Meza, svæfingalæknir á sjúkrahúsi í nágrenni Barcelona, tekur í sama streng. Hann segir allar aðstæður og búnað nú betri en í vetur. 

Líkt og á Íslandi er það ungt fólk sem oftar en það eldra er að greinast með COVID á Spáni þessar vikurnar. Að sama skapi eru margir einkennalausir að greinast með sjúkdóminn. Meza segir það hafa verið fyrirséð að sýkingum myndi fjölga á ný. Það sem hann voni og trúi sé að önnur bylgja verði viðráðanlegri en sú fyrsta. 


Spænska konungsfjölskyldan vill setja gott fordæmi í sóttvörnum.
EPA

Í Frakklandi hefur tilfellum einnig fjölgað upp á síðkastið. Á laugardag greindust 2.200 manns með veiruna sem er metfjöldi síðan að takmörkunum á samkomum og ferðalögum var aflétt í júní. Hafði smitum þá fjölgað daglega um skeið. Þar hafa yfir 30.300 manns dáið vegna sjúkdómsins. 

Fyrir helgi, þegar tilfellum í landinu hafði fjölgað um 33 prósent á einni viku, sendu hjálparsamtökin Læknar án landamæra frá sér tilkynningu þar sem minnt var á að Frakkland væri „ekki ónæmt fyrir stjórnlausri uppsveiflu faraldursins“.

Vegna þróunarinnar hefur Emmanuel Macron foreti boðað neyðarstjórn saman í vikunni. „Við viljum ekki þurfa að endurupplifa það sem við gengum í gegnum áður,“ segir hann. Hann minnti á að margir heilbrigðisstarfsmenn hefðu sýkst af COVID í upphafi faraldursins og að skortur hafi verið á hlífðarbúnaði og sýnatökupinnum. Nú væru allir reynslunni ríkari og fólk vissi almennt hvernig það ætti að forðast smit eins og frekast er unnt. „Við þurfum öll að sýna auðmýkt, passa okkur og vera eftirtektarsöm.“


Auglýsing

Yfirvöld margra Evrópuríkja eru varfærin þegar kemur að því að setja nafn á aukningu tilfella. Talað er um hópsmit – sjaldnast faraldur eða aðra bylgju. Stærstu samtök lækna í Þýskalandi, Marburger Bund, segja hins vegar engum blöðum um það að fletta að þar í landi sé skollinn á ný bylgja. „Við erum þegar í annarri bylgju sem rís lóðrétt upp,“ segir formaður samtakanna, Susanne Johna.

Þýski efnahagsráðherrann segir þróunina ógnvekjandi en í síðustu viku greindust yfir 1.000 ný tilfelli á dag – þrjá daga í röð. „Við verðum að fletja kúrfuna á ný og snúa þessari þróun við,“ sagði hann í gær. „Þetta snýst um heilsu fólks, um að börn geti farið aftur í skólann og einnig um efnahagshorfur okkar. Við verðum að komast hjá annarri lokun samfélagsins.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, talaði á sambærilegum nótum í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær. Hann sagði að lífsgæði fælust ekki síst í því að geta haldið skólum opnum og að menningar- og listalíf gæti blómstrað. 


Mótmælt fyrir utan höfuðstöðvar matvælaframleiðandans Tönnies í Þýskalandi. Hópsmit hafa komið upp í sláturhúsum og verksmiðjum fyrirtækisins.
EPA

Þegar stjórnvöld Evrópuríkja fóru að aflétta takmörkunum í maí og júní var lögð áhersla á að slíkar afléttingar myndu aðeins halda áfram svo lengi sem ný tilfelli væru fá dag frá degi. Þetta átti einnig við um yfirvöld á Íslandi sem afléttu takmörkunum í varfærnum skrefum. Skref var svo stigið til baka síðasta dag júlímánaðar er tilfellum hafði fjölgað hratt.

 Sérfræðingar í lýðheilsu telja að mörg ríki standi nú við brún annarrar bylgju og að þau muni fara fram af hengifluginu ef ekki verði skerpt á takmörkunum. Það hafa þegar stjórnvöld margra ríkja gert. Reyna að þreifa sig áfram í þessum nýja veruleika. Danir hafa frestað fyrirhugaðri afléttingu. Á Írlandi hafa reglur verið hertar á þeim svæðum þar sem hópsmit hafa komið upp og víða eru ferðamenn flokkaðir á græna og rauða lista eftir því hvaðan þeir eru að koma og þá hvort þeir þurfi að fara í skimun við landamærin eða í sóttkví. 

Mun takast að koma í veg fyrir stórkostlega útbreiðslu?

Eitt af því sem sérfræðingar hafa áhyggjur af og nefnt hefur verið á upplýsingafundum almannavarna og landlæknis er það sem á ensku er farið að kalla social distancing fatigue, nokkurs konar uppgjöf í garð sóttvarnareglna á borð við 2 metra fjarlægðarmörk. Víða er talað um að erfiðara sé nú en í vetur að fá fólk til að hlíta slíkum reglum. Það geti aftur orðið til þess að smit breiðist hraðar út. „Í hvert skipti sem slakað er á takmörkunum og fólk fer að umgangast annað fólk meira þá mun tilfellum fjölga á ný,“ segir Nathalie MacDermott, sérfræðingur í smitsjúkdómum við King’s College í London í ítarlegri samantekt Time um stöðu faraldursins. „Spurningin er hins vegar hvort það tekst að fylgjast með þessum nýju smitum og koma í veg fyrir öldu af þeim.“

Annað sem sérfræðingar lærðu í faraldrinum í vetur er að ef COVID-19 nær sér á strik þá getur hann breiðst út á gríðarlegum hraða. Fljótlega mun koma í ljós hvort ríkjum Evrópu takist að koma í veg fyrir að það gerist. 


Líf fólks hefur breyst stöðugt síðustu mánuði. Eftir innilokun samkomu- og ferðatakmarkana streymdi það út á götur. Nú gæti það þurft að draga sig í hlé að nýju.
EPA

Ýmsar ástæður eru fyrir því að tilfellum er að fjölga á ný. Ein gæti verið sú að takmörkunum á ferðalögum hafi verið aflétt of snemma. Í áhættumati Evrópusambandsins, sem birt var snemma í júlí og vitnað er til í fréttaskýringu Time, segir að samfélagssmit hafi enn verið í gangi í flestum löndum álfunnar þegar tilslakanir hófust. Það þýðir að smit var enn það útbreitt að yfirvöld gátu ekki rakið ný tilfelli til upprunans. Hins vegar hafði verulega hægt á nýjum smitum dag frá degi. 

Á Íslandi var staðan góð. Í maí og júní liðu oft margir dagar, jafnvel vika, án þess að ný smit greindust. Á þeim tíma þurftu allir ferðamenn sem hingað komu, jafnt íslenskir sem erlendir, að fara í tveggja vikna sóttkví. Þann 15. júní gátu þeir svo valið um að fara í sýnatöku við landamærin í stað sóttkvíarinnar. Nokkru síðar var ákveðið að fjölga löndum á lista yfir „örugg lönd“ og taldi sá listi þá m.a. Þýskaland, Danmörku, Grænland og Færeyjar. 

Stöðug endurskoðun

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur alltaf sagt að allar aðgerðir hér séu í stöðugri endurskoðun, m.a. hvaða lönd teljast áhættusvæði og ekki. Spurður hvort að það komi til álita að krefjast tveggja vikna sóttkvíar allra ferðamanna á ný svarar hann: „Við höfum alltaf sagt að að skimanir á landamærum séu í sífelldri endurskoðun samkvæmt þeim niðurstöðum sem þaðan koma. Ég hef líka sagt að ég telji að núverandi fyrirkomulag hafi sannað gildi sitt í því að lágmarka áhættuna á því að veiran komi aftur hingað inn.“


Auglýsing

Dánartíðni í Evrópu meðal sýktra er lægri nú en í vetur sem skýrist líklega af aldurssamsetningu smitaðra. Því þarf ekki að fylgja neinn sérstakur léttir til lengdar að ungt fólk sé í meirihluta sýktra því það getur vissulega smitað það eldra. Verandi oft með engin eða lítil einkenni þrátt fyrir sýkingu getur það ofan á allt saman óafvitandi smitað marga. „Það er erfitt að halda veirunni aðeins meðal yngsta hluta þjóðarinnar,“ segir veirufræðingurinn Steven van Gucht, sem er helsti ráðgjafi belgískra stjórnvalda í faraldrinum. 

Ekki mistök að ræða um mögulega veikingu veirunnar

Þetta er einnig staðan á Íslandi: Flestir þeir sem sýkst hafa síðustu daga og vikur eru fólk undir þrítugu. Og alvarleg veikindi létu fyrst í stað lítið á sér kræla. Þórólfur velti því upp hvort að skýringin væri sú að veiran væri veikari nú en áður. Er ungur maður, rétt rúmlega þrítugur, varð alvarlega veikur af COVID-19 og lagður inn á gjörgæsludeild, taldi Þórólfur ljóst að þetta hefði verið óskhyggja. Ekkert benti til þess að veiran væri ekki eins skæð núna og áður. „Það að ræða og velta fyrir sér hvort veiran sé eitthvað veikari núna en áður eru ekki mistök að mínu mati,“ segir Þórólfur við Kjarnann. „Við þurfum stöðugt að spyrja spurninga og leita svara. Það eru ekki mistök að mínu mati.“

Veiran gleymir engu

Í Belgíu hefur sú leið verið farin að undanförnu, líkt og í Hollandi, að herða takmarkanir en þó aðeins á vissum stöðum eða svæðum. Árangurinn af þeim aðgerðum á eftir að koma í ljós að fullu en vísbendingar eru um að þær séu að hafa jákvæð áhrif. „Stóra hættan er sú að fólk sé búið að fá upp í kok á kórónuveirunni,“ segir smitsjúkdómasérfræðingurinn Gucht. „Það er skiljanlegt og mér líður líka þannig. En vandinn er sá að við getum gleymt veirunni en veiran mun ekki gleyma okkur.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar