Tómas Grétar Gunnarsson

Flaug 6.000 kílómetra yfir hafið og heim

Sástu spóa suð‘r í flóa í sumar? Ef hann er ekki þegar floginn til vetrarstöðvanna eru allar líkur á því að í þessum töluðu orðum sé hann að undirbúa brottför. Spóinn Ékéké kom hingað í vor. Flakkaði um landið í nokkrar vikur áður en hún flaug – beinustu leið – aftur til Vestur-Afríku. Ferðinni er heitið til hinnar sólríku Gíneu-Bissau þar sem hún mun að öllum líkindum halda til í vetur og baða sig upp úr hlýju Atlantshafinu. Ferðalagið hefur vakið undrun og aðdáun margra.

Hún ákvað að fljúga til Íslands í vor. Farsóttin breyttu engu þar um. Hún millilenti í Skotlandi, rétt tyllti þar niður fæti, áður en hún hélt ferðinni áfram. Eftir að hafa jafnað sig á flugþreytunni flakkaði hún landshluta á milli í sumar en flaug svo héðan á dögunum. Búin að skoða hvert náttúruundrið á fætur öðru – tína upp í sig ber og safna kröftum.


Flugið suður á bóginn tók fjóra daga og fjórar nætur. Henni kom líklegast ekki dúr á auga en ákvað að sleppa öllum millilendingum og halda beinustu leið til Vestur-Afríku. Þegar þangað var komið hafði hún lagt að baki um 5.000 kílómetra leið yfir úthafið og átti enn um þúsund kílómetra eftir til áfangastaðar: Hinnar sólríku Gíneu-Bissau. Þar sem Atlantshafið er mun hlýrra en við strendur Íslands. Þar sem er fullkomið að dvelja yfir veturinn. Langt frá frosti og snjó.


Hún heitir Ékéké. Og er spói.


Auglýsing

Ékéké þýðir einmitt spói á tungu heimamanna, fólksins sem hún deilir hinum frjósömu leirum Bijagós-eyjaklasans í Gineu-Bissau með á veturna, líkt og þúsundir annarra spóa. Þetta er þeirra staður að vetri. Að vori breiða þeir út vængina og fljúga í norðurátt.  


 „Megnið af spóum á Íslandi, sem eru talið er að séu um 40 prósent af öllum spóum heimsins, hafa vetursetur í Vestur-Afríku,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson fuglafræðingur sem hefur tekið að sér það hlutverk að fræða lesendur Kjarnans um hið merka langflug Ékéké og félaga hennar. Sumir þeirra hafa flogið um 19 þúsund kílómetra fram og til baka frá vori og þar til nú.


Ékéké er meðal þeirra spóa sem hafa verið merktir með nýjustu og tæknilegustu gerð af sendibúnaði á vetrarstöðvunum í Gínea-Bissau. Hún varð þar með hluti af alþjóðlega verkefninu Global Flyway Network (GFN) sem styrkt meðal annars er af hollensku samtökunum BirdLife Netherlands. Tilgangur verkefnisins er að fylgjast með farfuglum „í heimi sem er stöðugt að taka breytingum“ eins og það er orðað á heimasíðu GFN. Verkefnið er hins vegar ekki á ábyrgð íslenskra fuglafræðinga en Tómas, líkt og sjálfsagt fleiri kollegar hans hér á landi, fylgist spenntur með og deilir reglulega fréttum á Facebook af ferðum „íslensku“ spóanna sem sjá má í nánast í rauntíma á netinu. Í verkefninu er ýmsum gögnum safnað en aðeins hluta þeirra er deilt með almenningi – að minnsta kosti fyrst um sinn.


Tómas Grétar Gunnarsson fræðir börn um fugla. Hann er forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi.
Kristinn Ingvarsson/Háskóli Íslands

Meistaraverkefni Tómasar í háskólanum á sínum tíma fjallaði einmitt um spóa. Síðan eru liðin mörg ár en rannsóknir hans á þessum fugli, sem hefur orðið fjölmörgum skáldum að yrkisefni í gegnum tíðina, hafa þó haldið áfram. Í einu þeirra verkefna voru einmitt merktir spóar á Markarfljótsaurum. Þeir flugu á sínar vetrarstöðvar að hausti en komu, eins og spóa er siður, aftur til Íslands vorið eftir. Þá voru þeir handsamaðir og sendirinn, sem var langt í frá jafn tæknilegur og notaður er í GFN-verkefninu, tekinn og gögnin lesin.

Því vissi Tómas vel að íslensku spóarnir fljúga alla leið til Vestur-Afríku. Hann hafði meira að segja komist að því að spóar fljúga eitt lengsta samfellda flug allra fugla milli varp- og vetrarstöðva. Þeir stoppa yfirleitt ekki á leiðinni heldur halda sínu striki, jafnvel um 24 metra á sekúndu. Meðalhraðinn er um 16-18 m/s. Tómas skrifaði grein í vísindatímaritið Scientific Report ásamt fleirum árið 2016 þar sem niðurstöður rannsóknarinnar eru raktar.

Sendarnir sem Ékéké og félagar bera eru um 5 grömm að þyngd og eru rándýrir. Hver og einn kostar um hálfa milljón króna. En þeir hafa þegar sannað gildi sitt. Enn er sendir Ékéké að senda gögn, tæpum tveimur árum eftir að hann var festur á hana.


Þegar spóarnir voru merktir á Bijagós-eyjum var auðvitað ekki fyrirfram vitað hvert þeir myndu svo halda til að verpa. Þar sem margir kjósa að verpa hér á landi, líklega að jafnaði um 250 þúsund pör á ári, mátti þó gera ráð fyrir að einhverjir þeirra tækju flugið til Íslands.

Og sú varð raunin.

Þeir merktu spóar sem hingað komu í vor voru að sögn Tómasar „skemmtilega dreifðir um alla landshluta“. Einn hélt til fyrir austan, annar á Suðurlandi og einn á Snæfellsnesi. „En svo var það einn sem flakkaði um landið, miklu meira en við hefðum getað ímynda okkur.“

Flakkarinn ferðaglaði er hún Ékéke. Líklega er hún ungur kvenfugl sem var hér „í sínum fyrsta rúnti,“ eins og Tómas orðar það. Ékeke hefur að öllum líkindum ekki verpt. Miðað við ferðalagið sem hún var á í allt sumar hefur hún einfaldlega vart haft tíma til að liggja á eggjum, sem tekur um mánuð og að sinna svo ungauppeldi sem tekur annan til viðbótar.

Ékéké lenti á Vestfjörðum 11. maí. „Spóarnir vinna eftir strangri tímaáætlun,“ segir Tómas. „Þeir fara að hellast inn yfir Ísland fyrri hluta maí og verpa langflestir um mánaðamótin maí-júní. Ef varpið heppnast ekki þá eru mjög fáir sem reyna við það aftur. Þeir stoppa nefnilega í raun og veru stutt á Íslandi. Hefja sig flestir til flugs til vetrarstöðvanna í lok júlí eða byrjun ágúst.“

Ékéké fór hins vegar enn fyrr. Kannski af því að hún hafði ekkert meira hér að gera – ungalaus. Frjáls eins og ... já, fuglinn.


Tómas hefur rannsakað spóa í um aldarfjórðung.
Tómas Grétar Gunnarsson

Þá hafði hún farið víða um land. Frá Vestfjörðum til Vopnafjarðar. Frá Vopnafirði að Skjálfandaflóa. Þaðan inn í Svarfaðardal. Og svo aftur að Skjálfandaflóa.

Þetta flakk á henni, var hún í sífelldri makaleit í sumar?

„Það er erfitt að segja,“ svarar Tómas. „Sennilega var hún bara að skoða heiminn. Kannski að athuga hvar gott væri að verpa síðar. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta verður hjá henni á næsta ári. Þá ætti hún að setjast einhvers staðar að. Hvort það verður staður sem hún skoðaði í sumar eða einhver allt annar á eftir að koma í ljós.“

Spóar sækja alltaf í sömu vetrar- og varpstöðvar. Að vetri halda þeir flestir til í löndum Vestur-Afríku; Máritaníu, Senegal, Gambíu og Gínea-Bissau. Sumir fara alla leið til Fílabeinsstrandarinnar. „En í Gínea-Bissau kunna þeir greinilega mjög vel við sig,“ segir Tómas.

Á farflugi sínu lenda þeir stundum „í slagtogi“ með fuglum sem hafa aðrar vetrarstöðvar. En þeir eru átthagabundnir og þó að Ékéké hafi fyrst lent í Máritaníu er hún snerti jörð í Afríku fikraði hún sig fljótlega sunnar. Núna er hún í Gambíu, örlitla landinu milli Senegal og Gíneu-Bissau. Þar er fuglalífið einnig sérlega auðugt en átthagarnir kalla – vella jafnvel – og því eru allar líkur á því að Ékéké færi sig á leirurnar við Bijagós-eyjur fljótlega.

Spóinn hefur orðið mörgum að yrkisefni hér á landi. Eflaust er sömu sögu að segja um skáldin í Vestur-Afríku.
Tómas Grétar Gunnarsson

Tómas segir að ýmsar upplýsingar hafi þegar komið í ljós í tengslum við hollenska verkefnið. Flakk Ékéké um Ísland í sumar sé til dæmis meira en fræðingar áttu von á. „Hún var stöðugt á ferðinni og það kom okkur á óvart. Hún var að vísu ein á ferð og því lausari við. Við höfðum fyrirfram búist við að spóar væru almennt staðbundnari.“

Hann bendir þó á að kvenfuglarnir séu almennt mun hreyfanlegri en karlfuglarnir. Þar sem Ékéké sé ung skýri það líklega hversu leitandi hún var í sumar.

Fyrir brottför héðan frá Íslandi þyngja spóar sig um þriðjung. Troða sig út af berjum til að fá orku fyrir ferðalagið. „Í berjum eru fitusýrur sem hægt er að nota til að búa til fituforða,“ útskýrir Tómas. Svo er lagt í hann. Flogið beinustu leið yfir úthafið.

Ékéké flaug í fjóra daga og fjórar nætur. Í heild verður ferðalagið fram og til baka um 11 þúsund kílómetrar.


Fjölmargir vaðfuglar, meðal annars spóar, halda til á frjósömum eyrum Bijagós-eyja.
Wikipedia

Tómas segir ósennilegt að spóar leggi sig á þessu langflugi. Líklega taki þeir ekki „kríu“ eins og sumar aðrar fuglategundir geri. „Þeir fljúga „aktívu“ flugi, þurfa að blaka vængjunum allan tímann. Það eru aðrar tegundir, þær sem geta svifið á fluginu, sem geta tekið smá dúr.“

Hvernig heilsast spóum eftir þetta langflug?

„Þeir eru oft mjög þreyttir, rétt blaka vængjunum þegar þeir lenda og eru mjög horaðir,“ segir Tómas. „Þeir ganga talsvert nærri sér. En ekki meira en svo að þeir taka áhættuna.“

Spóar eru klókir að velja flugveður, fara yfirleitt af stað í meðvindi og geta valið flughæðina líka. Ef það er vont veður í 100 metra hæð hækka þeir sig jafnvel um hálfan kílómetra. Langflestir lifa langflugið af. Lífslíkur spóa eru háar milli ára, jafnvel um 90 prósent. „Þannig að þó að ferðalagið sé hættulegt og að það gangi nærri þeim þá er þetta eins og fyrir þjálfaðan maraþonhlaupara að hlaupa maraþon. Honum tekst að klára hlaupið, verður þreyttur á eftir en er fljótur að ná sér.“


Auglýsing

En para spóar sig fyrir lífstíð?

„Það er líklega ofsögum sagt að fuglar pari sig almennt fyrir lífstíð,“ svarar fuglafræðingurinn. Þeir halda vissulega oft tryggð við maka sinn þó að þeir séu aðskildir yfir vetrartímann. En það er lífsbjörgin sem drífur þá áfram. Það þýðir að ef annar fuglinn kemur fyrr til varpstöðva bíður hann ekki endilega eftir hinum. Hann kann að telja það vænlegra að velja sér nýjan. Tómas reynir að setja sig inn í hugsunargang fuglanna: „Ef þú kemur á undan maka síðasta árs þá veistu ekki hvort hann er dauður eða bara seinn á ferð. Þannig að þú hugsar: Á ég að taka sjensinn eða para mig við þennan sem virðist til í tuskið?“

Ýmsar sögur eru til af fuglum sem sagðir eru hafa bundist tryggðaböndum í fleiri ár.

„Bóndi sagði að hjá sér hefði alltaf verpt sama álftaparið. Það var í sjálfu sér rétt en á ákveðnu tímabili hafði verið skipt út öðrum makanum fjórum sinnum og hinum fimm sinnum,“ tekur Tómas sem dæmi. En alltaf verpti „parið“ á sama stað þó að einstaklingar sem parið stóð saman af hafi ekki ætíð verið hinir sömu. „Stundum verða skilnaðir jafnvel þótt báðir fuglarnir séu á lífi,“ bendir hann á. „Það gerist frekar þegar það er ófrjósemi. Ef illa gengur að koma upp ungum, líkt og gerist hjá svona langlífum fuglum, þá eru meiri líkur á skilnaði.“

En að öllu þessu sögðu bætir Tómas við: „Ef báðir fuglar snúa aftur til varpstöðvanna, alveg burtséð frá því hvenær þeir koma, þá eru um að bil 80 prósent líkur á því hjá spóum að þeir haldi sig við sama maka og árið áður.“

Spóinn kann vel við sig í íslenskri náttúru á sumrin. Hann vill hins vegar njóta hlýrra veðurs í Vestur-Afríku á meðan íslenski veturinn gengur yfir.
Tómas Grétar Gunnarsson

Það vill svo til að spóinn er uppáhaldsfugl Tómasar. „Ég á kannski ekki að eiga uppáhaldsfugl, verandi fuglafræðingur, en spóinn var fyrsta ástin, sá fyrsti sem ég fór að rannsaka að ráði og á því sérstakan stað í hjartanu.“

Þannig að það er ekki skrítið að þú fylgist spenntur með ferðalagi Ékéké og hinna spóanna?

„Ég er búinn að vera á refresh-takkanum í tölvunni til að uppfæra kortið sem sýnir ferðalag þeirra í allt sumar,“ segir Tómas og hlær létt að sjálfum sér þó að hér sé um blákalda staðreynd að ræða. „Ég er mjög spenntur að fylgjast með þessu.“

Og það eru fleiri. Íslendingar eru almennt margir áhugasamir um fugla og kunna vel að meta að sjá fréttir um þá fjölmiðlum. „Helst er það á vorin sem fjölmiðlar hringja og vilja heyra hvaða fuglar eru komnir og hvernig varpið gangi,“ segir Tómas. „Það eru færri sem eru uppveðraðir þegar langt er liðið á sumar og farfuglarnir okkar á förum. En það er ágætt að minna á að þeir bæði koma og fara. Og að ferðalagið getur verið langt.“

Fyrir áhugasama þá er hægt að fylgjast með ferðum spóanna hér. Athugið að til dæmis er hægt að velja ákveðinn spóa og sjá ferðir hans á ákveðnu tímabili. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal