Lögreglan

Minnisblöð Þórólfs: Frá tillögum til ráðlegginga

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur í tæplega tuttugu minnisblöðum sínum til heilbrigðisráðherra lagt til, mælt með og óskað eftir ákveðnum aðgerðum í baráttunni gegn COVID-19. En í því nýjasta kveður við nýjan tón: Mögulegar aðgerðir eru reifaðar en það lagt í hendur stjórnvalda að velja.

 Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur að tillögu sóttvarnalæknis ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars næstkomandi. Með takmörkun er átt við viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman og verða þeir óheimilir.“ Svohljóðandi tilkynning var birt á vef heilbrigðisráðuneytisins 13. mars, fyrir nákvæmlega fimm mánuðum síðan. Þó að rætt hafi verið um þennan möguleika allt frá því að fyrsta innanlandssmitið af nýrri kórónuveiru greindist hér 6. mars, var mörgum brugðið. Nýr veruleiki blasti við.

Nú, 212 dögum frá því samkomubann var sett á hér á landi í fyrsta skipti í áratugi, er það enn við lýði þó að það hafi tekið ýmsum breytingum. Við fórum úr fullkomnu samkomu- og ferðafrelsi yfir í samkomubann sem fyrst var takmarkað við 100 manns, svo 20, þá 50, síðan 200 og loks 500 áður en stigið var skref til baka og fjöldinn aftur takmarkaður við 100.

Áhættusvæði skilgreind

Á sama tíma hefur ýmislegt gengið á við landamæri Íslands. Fyrsta smitið greindist hér 28. febrúar og daginn eftir voru skíðasvæðin í Ölpunum skilgreind sem áhættusvæði og allir Íslendingar og aðrir búsettir hér sem þaðan komu beðnir að fara í sóttkví. Ítalía, Íran, Suður-Kórea og Kína fóru samtímis á þann lista og á tímabilinu 12.-18. mars bættust Þýskaland, Spánn og Frakkland við. Erlendir ferðamenn þurftu ekki að fara í sóttkví. 

Þann 19. mars varð sú breyting á að öll lönd og svæði heims voru skilgreind sem áhættusvæði og rúmum mánuði síðar var enn hert á reglum um sóttkví: Öllum sem komu til landsins frá há-áhættusvæðum var gert að fara í sóttkví. 

Þróun á skilgreindum áhættusvæðum varð svo með þeim hætti að um miðjan maí var ákveðið að taka Færeyjar og Grænland af listanum og um miðjan júlí bættust Danmörk, Finnland, Noregur og Þýskaland í þann hóp.

Auglýsing

Allar þessar aðgerðir, sem hvílir á stjórnvöldum að taka ákvarðanir um, eru byggðar á tillögum sóttvarnalæknis. Frá því hann sendi fyrsta minnisblað sitt til heilbrigðisráðherra 12. mars, þar sem hann lagði til að samkomubann yrði sett á, hefur hann sent mörg til viðbótar. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur í þessum minnisblöðum óskað eftir, lagt til, mælt með og hvatt til ákveðinna aðgerða og hingað til hefur verið farið að hans tillögum í hvívetna, hvort sem það snertir fjöldatakmarkanir eða ráðstafanir á landamærum landsins. 

En í nýjasta minnisblaði Þórólfs, sem hann sendi heilbrigðisráðherra á þriðjudag, hefur orðalagið breyst. Hann leggur til áframhaldandi aðgerðir innanlands en reifar hins vegar „nokkrar aðgerðir á landamærum sem komið hafa til umræðu,“ eins og það er orðað. Ekki eru því, eins og áður í hans minnisblöðum, settar fram ákveðnar tillögur hvað þetta varðar. Hann gefur hins vegar sitt fræðilega mat, byggt á sóttvarnarsjónarmiðum, á hverja og eina leið. 

Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis á miðvikudag ítrekaði Þórólfur þetta og sagði að í fréttum af minnisblaði hans hefði því verið haldið fram að hann hefði lagt til eða viljað sjá tvær sýnatökur og sóttkví á milli í 4-6 daga hjá öllum farþegum. „Þessi túlkun er ekki allskostar rétt því hið rétta er að ég lagði fram og reifaði nokkra kosti varðandi skimunina en taldi að út frá sóttvarnalegu sjónarmiði væri þessi kostur áhrifaríkastur. Það er ekki það sama og að ég hafi komið með tillögur um það eða viljað að það væri gert.“


Þórólfur og Svandís á blaðamannafundi í mars þegar tilkynnt var sú ákvörðun að setja á samkomubann.
Bára Huld Beck

Fyrir nokkrum dögum sagði Þórólfur í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 að fleiri þyrftu að koma að þessum málum til framtíðar. Hans sjónarmið snerust fyrst og síðast um sóttvarnir en málið væri líka pólitískt og efnahagslegs eðlis. 

Í nýjasta minnisblaðinu minnir hann aftur á þessa skoðun sína.  „Að mínu mati er nú svo komið að við stöndum frammi fyrir ýmsum möguleikum á sóttvarnaaðgerðum bæði á landamærum og innanlands sem miða að því að lágmarka áhættuna á því að hér brjótist út alvarlegur faraldur af völdum COVID-19. Þessar aðgerðir eru hins vegar mismunandi íþyngjandi fyrir íslenskt samfélag og íslenskan efnahag og því blasir við að mínu mati, að stjórnvöld verði að grípa til þeirra aðgerða sem að þeirra mati veldur sem minnstum samfélagslegum skaða að teknu tilliti til fjölda þátta er varða sóttvarnir, lýðheilsu almennt og samfélagsleg áhrif.“

Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 14 í dag, föstudag. Efni fundarins er: Skimun á landamærum – næstu skref.

Atburðarásin – tillögur og ákvarðanir

Minnisblöð sóttvarnalæknis frá upphafi faraldursins geyma ákveðna sögu um atburðarásina og ákvarðanatökuna. Innihald þeirra er áhugavert að rifja upp nú fimm mánuðum frá því samkomubann var sett á. Frá 12. mars til 11. ágúst hefur hann ritað ráðherra að minnsta kosti 16 minnisblöð með tillögum að aðgerðum í baráttunni gegn farsóttinni og öll byggja þau á sóttvarnalegum sjónarmiðum: Að lágmarka útbreiðslu veirunnar eins og frekast er unnt.


Auglýsing

Samkomubann – 100 manns

12. mars sendi sóttvarnalæknir fyrsta minnisblað sitt til heilbrigðisráðherra vegna faraldursins. Þá höfðu 122 greinst með COVID-19. Efnið var skýrt og áríðandi: „Sóttvarnalæknir að höfðu samráði við landlækni, ríkislögreglustjóra og formann farsóttarnefndar Landspítala óskar eftir því við heilbrigðisráðherra að gefin verði út fyrirmæli um samkomubann á Íslandi.“ 

Tillaga sóttvarnalæknis var eftirfarandi: Ráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að setja á samkomubann. Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd á milli manna verði yfir tveimur metrum. Þessi fyrirmæli ná til landsins alls.“

Þórólfur röktuddi tillögu sína með því að yfir tuttugu innanlandssmit hefur greinst. Fyrirliggjandi upplýsingar gæfu „sterkar vísbendingar um að veiran sé mjög smitandi og því sé umtalsverð hætta á útbreiddu samfélagslegu smiti“. 

Daginn eftir, 13. var tilkynnt að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefði „að tillögu sóttvarnalæknis ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars“. 


Blaðamannafundur þar sem tilkynnt var að samkomubann yrði sett á.
Stjórnarráðið

Samkomubann – 20 manns

21. mars, þegar sóttvarnalæknir sendir sitt annað minnisblað, höfðu 529 greinst með veiruna. Tíu lágu á Landspítalanum, þar af einn á gjörgæslu. „Einn einstaklingur hefur látist, líklega af sjúkdómnum, og var það erlendur ferðamaður,“ skrifar Þórólfur. Óskaði hann eftir því að gefin yrðu út ný fyrirmæli um samkomubann og nú um að aðeins tuttugu mættu koma saman. „Fyrirmæli um samkomubann munu hafa mikil áhrif á samfélagið en líklegt verður að telja að heilsufarsávinningur sem af þeim hlýst réttlæti þau áhrif,“ skrifaði Þórólfur.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins daginn eftir kom fram að að ráðherra hefði ákveðið að fara að tillögu sóttvarnalæknis, takmarka samkomur enn frekar en áður „vegna hraðrar útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu“. 


3. apríl er samkomubann framlengt. „Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja til 4. maí þær takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem áttu að falla úr gildi 13. apríl. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.“ 


Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á einum af fyrstu upplýsingafundunum í vetur.

Samkomubanni verði aflétt í skrefum

Tíu dögum síðar eða 11. apríl skrifar Þórólfur nýtt minnisblað og fer yfir stöðuna. „Í dag hafa alls 1.698 einstaklingar greinst með COVID-19 hér á landi en alls hefur 101 einstaklingur lagst inn á sjúkrahús, 29 á gjörgæsludeild, 16 einstaklingar þurft á aðstoð öndunarvéla að halda og átta látist. Nýsmitum hefur hins vegar farið fækkandi á undanförnum dögum og má telja víst að faraldurinn sé í rénun hér á landi.“

Lagði hann til að takmörkunum yrði aflétt í skrefum næstu mánuði en þó að hámarki við 2.000 manns „að minnsta kosti út ágúst“.

Í minnisblaðinu hamraði Þórólfur á mikilvægi sóttvarnaaðgerða: „Ég legg hins vegar áherslu á að áfram þarf að greina hratt einstaklinga með COVID-19, einangra sýkta, rekja smit og beita sóttkví á einstaklinga sem grunaðir eru um smit. Þessu þarf að viðhalda a.m.k. út árið 2020.“ Þá þyrfti jafnframt að viðhalda leiðbeiningum til einstaklinga um sóttvarnir.

Einnig fjallaði hann um mikilvægi þess að grípa til ráðstafana til að veiran kæmi ekki til landsins með ferðamönnum og minnti á að í gangi væri vinna starfshóps, sem hann skipaði, undir forystu ríkislögreglustjóra til að kanna hvernig slíkt mætti útfæra. „Þegar niðurstaða starfshópsins liggur fyrir er von á frekari tillögum frá sóttvarnalækni varðandi þær aðgerðir.“

Hann lagði svo til að frá og með 4. maí myndu 50 mega koma saman í stað tuttugu.


Auglýsing

Samkomubann – 50 manns

21. apríl tilkynnti heilbrigðisráðuneytið um breyttar reglur frá 4. maí og að það væri gert í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.


19. apríl sagði í minnisblaði Þórólfs til heilbrigðisráðherra: „Í dag er staðan sú að tekist hefur að mestu að ráða niðurlögum COVID-19 faraldursins hér á landi þannig að einungis nokkur tilfelli greinast hér daglega. Þetta hefur tekist með sameiginlegu átaki og samstöðu þjóðarinnar.“

Benti hann á að verkefnahópur um aðgerðir við landamærin hefði skilað sínum tillögum. „Sóttvarnalæknir telur mikilvægt að sem fyrst verði settar reglur í samræmi við tillögur verkefnahópsins. Lagt er til að undanþágur frá sóttkví eða útfærsla sóttkvíar verði í höndum sóttvarnalæknis og að reglurnar muni gilda til 15. maí 2020. Að þeim tíma liðnum verði reglurnar endurskoðaðar skv. tillögum frá sóttvarnalækni.“

22. apríl er reglum um sóttkví breytt „í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis“ og allir sem komu til landsins var skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu, en áður höfðu erlendir ferðamenn verið þar undanskyldir. 

4. maí er svo dagurinn sem beðið hafði verið eftir: „Á miðnætti tóku gildi nýjar reglur heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum,“ sagði í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. „Áfram gildir reglan um tveggja metra nálægðartakmörk hjá fullorðnum og gæta þarf að hreinlæti og sóttvörnum líkt og áður.“ 


Í byrjun júní náðist sá áfangi í baráttunni gegn kórónuveirunni að í sjö daga greindist ekkert nýtt smit innanlands.
Grafík: Hilmar Gunnarsson

Rýmkaðar ferðatakmarkanir

„Í dag eru öll lönd utan Íslands skilgreind sem há-áhættusvæði,“ skrifar Þórólfur í minnisblaði sínu 11. maí og öllum sem þaðan komi skylt að fara í 14 daga sóttkví. Staðan væri hins vegar sú að tekist hefði að ráða niðurlögum faraldursins þannig að „einungis stök eða engin tilfelli eru að greinast hér á degi hverjum“. Því væri ljóst að aflétta þyrfti ýmsum hömlum, m.a. hömlum á ferðamenn til landsins. „Á sama tíma þarf að tryggja eins og kostur er að COVID-19 sjúkdómurinn berist ekki hingað til lands en víðast hvar geisar faraldurinn í mun meira mæli en hér á landi.“

Lagði Þórólfur til að í nýjum reglum yrðu undanþáguheimildir fyrir einstaklinga og starfsmenn fyrirtækja og stofnanana frá sóttkví vegna ákveðinnar starfsemi og verkefna en í samræmi við leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir. 

15. maí tóku nýjar reglur um sóttkví og einangrun gildi, í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. „Kjarninn í breytingunni felst í því að skilyrði fyrir vinnusóttkví verða ekki lengur bundin við kerfislega eða efnahagslega mikilvæga starfsemi. Fyrst og fremst verður horft til þess að viðkomandi umgangist ekki aðra meðan á sóttkví stendur,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins.


Samkomubann – 200 manns og ný 2 metra regla

 „Í dag hafa alls 1.803 einstaklingar greinst með COVID-19 hér á landi en alls hafa 115 einstaklingar lagst inn á sjúkrahús, 30 á gjörgæsludeild, 18 einstaklingar þurft á aðstoð öndunarvéla að halda og tíu látist,“ skrifar Þórólfur í minnisblaði til ráðherra 20. maí. „Nýsmitum hefur hins vegar fækkað verulega á undanförnum dögum og hafa einungis fimm einstaklingar greinst sem af er maí.“

Benti hann á að fyrsta aflétting á samkomutakmörkunum virtist ekki hafa leitt til aukningar á tilfellum og lagði til að fjöldamörk yrðu hækkuð úr 50 í 200 og að tveggja metra reglan skyldi gilda samkvæmt nýrri skilgreiningu: „Hugmyndin er að sett verði regla sem er svipuð og regla er varðar aðgengi fatlaðs fólks að ýmissi þjónustu, þ.e. að gert sé ráð fyrir að einstaklingar, sérstaklega viðkvæmir einstaklingar, þurfi meira pláss eða aðrir og að einnig geti reglan verið val fólks. Þannig má fólk sitja eða standa þétt en bjóða þarf þeim sem það vilja að halda tveggja metra fjarlægð.“ 

22. maí er tillkynnt á vef ráðuneytisins að losað verði um takmarkanir 25. maí „í fullu samræmi við tillögur sóttvarnalæknis“.


Þórólfur og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hafa setið margan fundinn saman síðustu mánuði.
Lögreglan

Frekari losun ferðatakmarkana - landamæraskimun

1. júní sagði í minnisblaði sóttvarnalæknis að nokkur hundruð einstaklingar hefðu nýtt sér vinnustaðasóttkví (sóttkví B) sem leið inn í landið „án þess að smit hafi komið upp“. Staða COVID-19 faraldursins á Íslandi væri sú, að eitt eða engin tilfelli væru að greinast á dag og lítil merki væru um útbreitt samfélagslegt smit. 

Þórólfur fór ítarlega yfir möguleika á takmörkunum á komu ferðamanna og tillögur. Taldi hann mikilvægt að skimun á landamærastöðvum yrði hrint í framkvæmd til að fá reynslu á það fyrirkomulag á meðan ferðamannastraumur væri ekki mikill. „Ég legg til að stefnt verði að því að hefja skimun með PCR prófum á landamærum á Íslandi þ. 15. júní n.k. Stefnt verði að því að vinnan standi yfir í a.m.k. 6 mánuði með mögleika á endurskoðun á tímabilinu og að skimunin verði skilgreind sem sóttvarnarráðstöfun.“

Taldi hann ennfremur að vegna takmarkaðrar greiningargetu sýkla- og veirufræðideildar Landspítala væri mikilvægt að leita til Íslenskrar erfðagreiningar um aðstoð við greiningu sýna og upplýsingatæknimála „strax frá upphafi“. 

2. júní, sagði í tilkynningu fjögurra ráðuneyta að samkvæmt hagrænu mati sem unnið hefði verið að beiðni forsætisráðherra „yrðu efnahagslegar afleiðingar þess að viðhalda óbreyttu ástandi ferðatakmarkana gríðarlegar og rétt að draga úr þeim samhliða sóttvarnaaðgerðum.“  Einnig kom fram að heilbrigðisráðherra hefði ákveðið að fallast á tillögu sóttvarnalæknis um breytingu á reglum um komur ferðamanna til Íslands. „Komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní [...]. Að öðrum kosti þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví eins og verið hefur.“


Þórólfur á einum af þeim hundrað upplýsingafundum sem haldnir hafa verið.
Lögreglan

Samkomubann – 500 manns

8. júní er komið að enn einu minnisblaði sóttvarnalæknis og staðan í faraldrinum sögð sú að nýsmitum hafi fækkað verulega og að einungis níu hafi greinst í maí og það sem af væri júní.

Í minnisblaðinu lagði hann m.a. til að fjöldamörk færu úr 200 í 500 og að takmörkunum á fjölda gesta í sundlaugum og á líkamsræktarstöðvum verði aflétt. Heilbrigðisráðherra gerði þessar tillögur samdægurs að reglum sem giltu frá 15. júní.

8. júní var einnig birt tilkynning á vef fimm ráðuneyta um breytingar á reglum um komur ferðamanna til Íslands frá 15. júní í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. „Farið verður af stað með ýtrustu aðgát til þess að stofna ekki í hættu þeim árangri sem náðst hefur við að ná tökum á farsóttinni af völdum COVID-19.“ 


Litla hópsmitið

29. júní hafði hópsmit komið upp út frá íslenskum ferðamanni sem hafði greinst neikvæður í landamæraskimun. „Frá því að skimanir fyrir COVID-19 á landamærum voru teknar upp hafa um 17.500 ferðamenn komið hingað til lands og sýni tekin frá um 12.500 einstaklingum,“ sagði í minnisblaði sóttvarnalæknis þennan dag. „Virk smit hafa fundist hjá fjórum einstaklingum og hafa þeir verið settir í einangrun. Einn þessara einstaklinga sem kom frá Bandaríkjunum náði að smita fjóra. Þessi einstaklingur greindist ekki með veiruna við skimun á landamærum.“

Lagði hann til að haldið yrði áfram að skima á landmærum og að til greina kæmi að setja Íslendinga og ferðamenn búsetta hér á landi sem koma frá löndum með mikla áhættu á COVID-19, í sóttkví með möguleika á sýnatöku eftir 4-5 daga. „Hættan á smiti frá sýktum Íslendingi er margfalt meiri en frá smituðum erlendum ferðamanni vegna útbreiddara tengslanets,“ ítrekaði Þórólfur. 

Hann hafði rætt möguleikann á því að hækka hámarksfjölda þeirra sem koma mættu saman en lagði þarna til að honum yrði haldið óbreyttum eða við 500 manns. Sömuleiðis lagði hann til að afgreiðslutími skemmti- og veitingastaða yrði óbreyttur eða til kl. 23. „Áróður til almennings um einstaklingsbundnar sýkingavarnir verði efldur,“ stóð svo í einni tillögu Þórólfs. 


Ráðherrar á fundi í Safnahúsinu þar sem farið var yfir næstu skref í aðgerðum vegna farsóttarinnar.
Bára Huld Beck

Heimkomusmitgát

8. júlí lagði sóttvarnalæknir til að að embættið fengi heimild til að færa lönd af lista yfir áhættusvæði yfir á lista landa sem talin væru lág-áhættusvæði. Ferðamenn frá þeim lista yrðu svo undanþegnir sóttkví og skimun á landamærum. Einnig lagði hann til að frá 13. júlí færu Íslendingar sem búsettir væru erlendis sem og allt fólk búsett hér á landi í 4-5 daga „heimkomu-smitgát“ í kjölfar landamæraskimunar. Á meðan henni stæði ætti fólk að gæta ítrustu varúðar. „Boðið verður upp á nýtt skimunarpróf eftir 4-6 daga og losnar viðkomandi úr smitgátinni ef niðurstaðan verður neikvæð.“

Sýnataka tvö var komin til sögunnar.

Fjöldatakmarkanir áttu enn að miðast við 500 en afgreiðslutíma vínveitingastaða átti að endurskoða í lok júlí.

Heilbrigðisráðherra fór að tillögum sóttvarnalæknis og tóku reglurnar gildi 13. júlí. 

15. júlí greina utanríkis- og heilbrigðisráðuneyti frá því að sóttvarnalæknir hafi ákveðið að fjarlægja Danmörk, Noreg, Finnland og Þýskaland af lista yfir áhættulönd. „Þar af leiðandi munu ferðamenn sem koma frá þessum löndum verða undanþegnir sóttkví og skimunarkröfum sem eiga almennt við um farþega sem koma til Íslands.“Samkomubannið sem aldrei varð – 1.000 manns

Sóttvarnalæknir fór yfir stöðuna í minnisblaði sínu til ráðherra 17. júlí er mánuður var liðinn frá því að landamæraskimun hófst. Hann sagði að virk smit hefðu fundist hjá fjórtán einstaklingum og innanlandssmit frá þeim greinst hjá 11. Engin önnur innanlandssmit hefðu greinst frá miðjum júní. „Ég tel að skimanir á landamærum séu nú komnar í gott horf og hefur opnun landamæranna ekki leitt til aukningar á innanlandssmitum. Því tel ég tímabært að huga að frekari tilslökunum á takmörkunum innanlands.“

Lagði hann til að frá og með 4. ágúst mættu 1.000 manns koma saman í stað 500 og að frá og með þeim degi mættu skemmti- og vínveitingastaðir hafa opið til miðnættis.

Tíu dögum seinna var allt önnur stefna tekin. „Á undanförnum dögum hefur orðið sú breyting á faraldsfræði COVID-19 hér á landi að innflutt smit hafa greinst hér í vaxandi mæli og dreifing hefur orðið innalands,“ stendur í minnisblaði þann 27. júlí. Í ljósi þessa lagði sóttvarnalæknir til að fjöldatakmarkanir héldust óbreyttar til 18. ágúst og sömuleiðis afgreiðslutími vínveitingastaða. Líkt og áður fellst heilbrigðisráðherra á tillögur hans. 

Til baka

Tveimur dögum síðar sendi hann nýtt minnisblað. Nú var komið að því að stíga skref til baka. „Undanfarna 10-14 daga hafa komið upp veikindi vegna kórónaveiru meðal einstaklinga sem ekki hafa ferðast erlendis frá sjálfir og sem ekki hafa tengsl við innflutt tilfelli hér á landi í fyrsta sinn frá því að faraldur sem gekk hér í vor leið undir lok.“ 

Mælti hann með því að fjöldatakmörk yrðu aftur færð niður í 100 manns, að tveggja metra reglan yrði ekki lengur valfrjáls og að grímur yrðu notaðar þar sem henni yrði ekki við komið. 

„Smitin sem nú eru í gangi hafa að öllum líkindum, byggt á raðgreiningarmynstri, borist hingað til lands eftir að faraldur hér gekk yfir í vor og það þrátt fyrir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til við skimun á landamærum,“ skrifar Þórólfur og að þörf sé á að efla ráðstafanir á landamærum. Hann mælti með að tvöfaldri sýnatöku yrði beitt á alla sem hingað kæmu frá áhættusvæðum og myndu dvelja hér 10 daga eða lengur. 

Ef þessi ráðstöfun bæri ekki árangur og innlend smit kæmu upp tengd komufarþegum þyrfti að herða enn frekar aðgerðir og „hugleiða eftirfarandi kosti“:

1) Engin sýnataka á landamærum, 14 daga sóttkví fyrir alla sem koma frá áhættusvæði. „Þetta úrræði var áður notað vegna ferða frá áhættusvæðum frá upphafi faraldrar fram til 15. júní og er talið hafa átt stóran þátt í því að takmarka umfang faraldursins í vor.“

2) Engin sýnataka á landamærum, sóttkví í 5-7 daga fyrir alla þar sem sýni í veiruleit væri tekið á 5. degi, sóttkví aflétt ef það er neikvætt. 

Ákvörðun heilbrigðisráðherra var birt daginn eftir og var hún í samræmi við tillögurnar. 


Þórólfur slær á létta strengi á upplýsingafundi í vor.
Lögreglan

Í sínu nýjasta minnisblaði, dagsettu 11. ágúst, segir m.a. að þar sem ásókn í undanþágur frá sóttkví hafi verið allmikil sé ekki hægt að tala um að landið hafi verið lokað fram að 15. júní. „Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu vel einstaklingar héldu reglur í sinni sóttkví en engar sýkingar voru raktar til þessara einstaklinga.“

Þrátt fyrir umfangsmikla skimun ferðamanna væru komnar upp tvær hópsýkingar af völdum tveggja undirtegunda af veirunni – tegunda sem ekki höfðu fundist í landamæraskimun. 

Hann leggur í minnisblaðinu til áframhaldandi aðgerðir innanlands en reifar leiðir sem hafa verið í umræðunni um aðgerðir á landamærunum. 

Þórólfur hefur margoft sagt að það séu stjórnvöld – ekki hann – sem taki endanlegar ákvarðanir. Hingað til hafa stjórnvöld fylgt hans tillögum. En þó að mögulegar aðgerðir sem hann reifar í minnisblaðinu séu ekki eiginlegar tillögur er það þó ein sem hann telur áhrifaríkasta til að koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands: Að skima alla farþega á landamærum, krefja þá um 4-6 daga sóttkví og skima þá aftur að þeim tíma liðnum.

Sóttvarnasvið landlæknis, sem Þórólfur Guðnason fer fyrir, ber ábyrgð á því að veita ráðleggingar á sviði sóttvarna til stjórnvalda, almennings og annarra aðila sem koma að almannavörnum, gera viðbragsáætlanir í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og grípa til opinberra og einstaklingsbundinna aðgerða sem geta hindrað farsóttir í landinu. Í sóttvarnalögum stendur að ráðherra ákveði, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, hvort grípa skuli til sóttvarnaráðstafana.

Sú staðreynd að sérfræðingar en ekki stjórnmálamenn hafi verið í framlínunni við COVID-19 hér á landi hefur vakið athygli víða um heim. Sérfræðingar hafi lagt línurnar sem stjórnmálamennirnir svo fylgdu.

Ráðleggingar Þórólfs og álit á framhaldi aðgerða við landamærin liggja fyrir. En nú er komið að stjórnvöldum að velja. Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 14 í dag, föstudag. Efni fundarins er: Skimun á landamærum – næstu skref.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent