MYND:EPA

82 dagar í kosningar í sundruðum Bandaríkjunum

Joe Biden mælist með umtalsvert forskot á Donald Trump á landsvísu þegar minna en þrír mánuðir eru í bandarísku forsetakosningarnar. Hann er líka með yfirhöndina í flestum hinna mikilvægu sveifluríkja. En vika er langur tími í stjórnmálum og tæpar tólf vikur heil eilífð. Margt getur breyst og fordæmi eru fyrir því í sögunni. Kjarninn rýnir í kannanir um stöðu mála í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum verða eftir 82 daga, eða 3. nóvember næstkomandi. Þær verða með óvenjulegu sniði og við fordæmalausar aðstæður, þar sem heimsfaraldur geisar og fyrirliggjandi að stór hluti Bandaríkjamanna mun ekki geta, eða ekki vilja, kjósa með því að mæta á kjörstað. Mismunandi er eftir ríkjum hvernig kosningafyrirkomulagi er háttað. En fyrir liggur að 76 prósent Bandaríkjamanna mun geta kosið í með því að póstleggja atkvæði sitt eða skila inn kjörseðli sem er fylltur út annars staðar en í kjörklefa í þar til gerða kjörkassa. 

Kosið er milli Donald Trump, fulltrúa Repúblíkanaflokksins sem kjörinn var forseti Bandaríkjanna 2016, og Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins og fyrrverandi varaforseta Barack Obama. Við hlið Trump á kjörseðlinum verður nafn varaforsetans Mike Pence en Biden valdi í byrjun viku öldungadeildarþingmanninn Kamala Harris sem varaforsetaefni sitt. Hún er þriðja konan í sögunni sem teflt er fram sem varaforsetaefni og yrði sú fyrsta til að gegna embættinu, ef hún og Biden sigra. 

Auglýsing

Kosningarnar eru að eiga sér stað á tíma þar sem klofningur bandarísku þjóðarinnar er greinilegri en líkast til nokkru sinni áður. Áferð frambjóðendanna er enda gerólík. Biden gerir út á að reyna að sameina sundraða þjóð á meðan að Trump, á sinn einstaka hátt, elur á sundrungu með því að stilla nánast öllum málum upp í „við og þeir“ stöðu. Annað hvort fylgir fólk Trump, eða eru óvinir hans. Skiptir þar engu um hvort sé að ræða önnur þjóðríki, aðra stjórnmálamenn eða samfélagshópa innan Bandaríkjanna.

Þannig hefur hann stjórnað og þann valkost leggur hann fyrir kjósendur nú.

Biden með afgerandi forskot á landsvísu

Biden hefur lengi haft nokkuð afgerandi forskot á Trump í skoðanakönnunum þegar staðan á landsvísu er skoðuð. Sú staða teygir sig aftur fyrir þann tíma að fyrir lá að Biden yrði frambjóðandi Demókrata. Samkvæmt FiveThirtyEight, sem vigtar kannanir og myndar úr þeim kosningaspá, var Biden með 3,8 prósentustiga forskot á Trump í lok febrúar. Endanlega varð ljóst að Biden yrði mótherji sitjandi forseta í apríl síðastliðnum, og þá var auðvitað COVID-19 faraldurinn skollinn á af fullum þunga og staðan mjög breytt. Í lok þess mánaðar mældist Biden með sex prósentustiga forskot á landsvísu. 

Síðan þá hefur forskotið mest farið upp í 9,6 prósentustig og mælist í dag 8,3 prósentustig.

Í byrjun viku var tilkynnt að Kamala Harris verði varaforsetaefni Joe Biden. Ef þau sigra þá yrði hún fyrsta konan til að setjast í það embætti.
Mynd: EPA

Þann vara verður þó að hafa á að FiveThirtyEight mat stöðuna þannig á kjördag 2016 að 70 prósent líkur væru á því að Hillary Clinton myndi sigra og verða næsti forseti Bandaríkjanna, en að líkur Trump væru 30 prósent. Og voru þó á meðal þeirra spálíkana sem töldu líkar Trump einna bestar.

Trump sigraði hins vegar í kosningunum með því að ná í 304 kjörmenn, en 270 þarf til að hljóta kjör, þrátt fyrir að hann hafi fengið 2,9 milljón færri atkvæði en Clinton. Munurinn á þeim á landsvísu varð á endanum einungis 2,1 prósentustig, Clinton í vil. Skoðanakannanirnar voru því ekki að sýna rétta mynd af stöðunni þá, og þeir sem framkvæma slíkar hafa farið í mikla sjálfsskoðun á undanförnum árum til að bæta aðferðarfræði sína.

Í dag er staðan þannig að vefurinn telur 72 prósent líkur á sigri Biden en 28 prósent líkur á að Trump sitji annað kjörtímabil. 

Á meðal þeirra spáa sem mest mark er tekið á er spá FiveThirtyEight, líkt og 2016, sú sem gefur Trump einna mestar líkur á sigri. Samkvæmt kosningaspá Economist eru líkur Trump til að mynda taldar ellefu prósent, en að 89 prósent líkur séu á að Biden sigri.

Tryggt fastafylgi hjá Trump

Annar mælikvarði á stöðu Trump sem hægt er að styðjast við eru mælingar á ánægju með störf hans. Sem stendur eru, samkvæmt FiveThirtyEight, 54,5 prósent Bandaríkjamanna óanægð með störf Trump, sem er mun meiri óánægkja en hún mældist í apríl þegar óánægjan fór undir 50 prósent í fyrsta sinn í þrjú ár.

Alls segjast 41,8 prósent vera ánægð með störf Trump sem er nálægt meðaltali hans á kjörtímabilinu, og gefur til kynna að hann eigi mjög tryggan grunnhóp stuðningsmanna, svokallað „base“, sem muni kjósa hann og styðja sama hvað. 

Stuðningur við Trump hjá kjarnanum í fylgishópi hans haggast lítið, sama hvað gengur á.
Mynd: EPA

Þegar mælingar á stuðningi við Trump eru bornar saman við stöðu fyrri forseta þegar þeir höfðu setið jafn lengi og hann í embætti kemur þó í ljós að sagan ætti ekki að stuðla að jákvæðni hjá forsetanum um framhaldið. 

Frá því að Harry S. Truman gegndi forsetaembættinu frá 1945 til 1954 hafa einungis tveir forsetar mælst með minni stuðning en Trump eftir 1.302 daga á forsetastóli. Þeir eru Jimmy Carter og George Bush eldri. Og þeir töpuðu báðir baráttu sinni fyrir endurkjöri.

Staðan í sveifluríkjunum Biden í vil

Á endanum snýst forsetakjörið þó ekki endilega um hversu mörg atkvæði frambjóðendurnir ná í heilt yfir, heldur hvernig þau dreifast á ríkin 50. Líkt og áður sagði þarf ekki að fá flest atkvæði til að vinna, heldur flesta kjörmenn. Og þeir eru mismunandi margir eftir ríkjum. 

Í flestum þeirra er nokkuð meitlað í stein hvor frambjóðandinn mun vinna. Það eru til að mynda engar líkur á að Trump muni vinna í stærsta ríki Bandaríkjanna, Kaliforníu, þar sem 55 kjörmenn eru í boði. Að sama skapi er nær öruggt að hann geti gengið að kjörmönnunum sem í boði eru í Oklahoma og Kentucky vísum.

Trump sigraði 2016 með því að vinna með mjög litlum mun í svokölluðum sveifluríkjum. Þ.e. þeim þar sem mjótt er á mununum á stuðningi við flokkanna tvo og atkvæði óháðra geta ráðið úrslitum. 

Árið 2016 vann Trump fjögur sveifluríki með 1,2 prósentustigi eða minna. Um er að ræða Flórída (29 kjörmenn) og „ryðbeltið“ svokallaða: Pennsylvaníu (20 kjörmenn), Wisconsin (tíu kjörmenn) og Michigan (16 kjörmenn). Ef Clinton hefði unnið í þessum ríkjum þá hefði hún fengið alls 307 kjörmenn og unnið örugglega. 

Auglýsing

Í ár eru mun fleiri ríki skilgreind þannig að það sé samkeppni um að vinna þau. Að mati flestra greiningaraðila eru þau tólf talsins, þar með talin öll ofangreind. Þar eru í boði 189 kjörmenn. Árið 2016 sigraði Trump í tíu af þessum tólf ríkjum og fékk 179 af kjörmönnum þeirra. 

Nú gera spár ráð fyrir að Biden sigri í átta af ríkjunum og fái 111 af kjörmönnunum sem eru í boði í þeim, en að Trump haldi fjórum ríkjum og fái 78 kjörmenn. Það sem meira er þá er forysta Biden nokkuð góð í flestum þeirra ríkja sem hann þykir líklegur til að vinna, á meðan að forskot Trump í ríkjunum þar sem hann er með yfirhöndina er lítið, sérstaklega í Georgiu og Ohio þar sem samtals 34 kjörmenn eru í boði. 

Í Texas, sem er með næst flesta kjörmenn á eftir Kaliforníu, alls 38 talsins, er Biden ekki langt á eftir Trump í könnunum, en meirihluti íbúa ríkisins hafa ekki kosið Demókrata í forsetakosningum í 44 ár, eða síðan að Jimmy Carter sigraði þar naumlega árið 1976.

Spálíkan Economist spáir því að Biden fái 348 kjörmenn, eins og staðan er nú, en Trump einungis 190, eða 114 færri en í kosningunum 2016. 

Getur breyst hratt

Það er þó allt og snemmt að dæma Trump úr leik. Kosningabaráttan á enn eftir að fara á fullt og frambjóðendurnir eiga til að mynda eftir að mætast í kappræðum þegar nær dregur kjördegi. Frammistaða þeirra þar gæti breytt stöðunni, þótt sagan sýni að það sé sjaldnast þannig. 

John Kerry var með forskot á Georg W. Bush tæpum þremur mánuðum áður en kosið var á milli þeirra, en tapaði.
Mynd: EPA

Þá er auðvitað í gangi heimsfaraldur og jákvæðar breytingar á stöðu hans, og efnahagsmálum Bandaríkjanna samhliða, gætu styrkt Trump. Hann ætlaði sér enda að gera efnahagsmál og lítið atvinnuleysi að sínum helstu kosningamálum, áður en að COVID-19 kom til sögunnar og leiddi af sér mesta efnahagssamdrátt í Bandaríkjunum í eitt hundrað ár og fjöldaatvinnuleysi. 

Það hefur líka þrívegis gerst að sá forsetaframbjóðandi sem mældist með forskot á landsvísu rúmlega 80 dögum fyrir kosningar hafi á endanum fengið færri atkvæði en mótframbjóðandi sinn. Árið 1988 mældist forskot Michael Dukakis á George Bush eldri að jafnaði 5,6 prósentustig á þeim tímapunkti. Árið 2004 var John Kerry með 2,5 prósentustiga forskot á George W. Bush. Og sá síðarnefndi mældist með tíu prósentustiga forskot á Al Gore árið 2000 en fékk á endanum færri atkvæði, þrátt fyrir að næla sér í fleiri kjörmenn og verða kjörinn forseti. 

82 dagar eru enda langur tími í pólitík. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar