MYND:EPA

82 dagar í kosningar í sundruðum Bandaríkjunum

Joe Biden mælist með umtalsvert forskot á Donald Trump á landsvísu þegar minna en þrír mánuðir eru í bandarísku forsetakosningarnar. Hann er líka með yfirhöndina í flestum hinna mikilvægu sveifluríkja. En vika er langur tími í stjórnmálum og tæpar tólf vikur heil eilífð. Margt getur breyst og fordæmi eru fyrir því í sögunni. Kjarninn rýnir í kannanir um stöðu mála í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Næstu for­seta­kosn­ingar í Banda­ríkj­unum verða eftir 82 daga, eða 3. nóv­em­ber næst­kom­andi. Þær verða með óvenju­legu sniði og við for­dæma­lausar aðstæð­ur, þar sem heims­far­aldur geisar og fyr­ir­liggj­andi að stór hluti Banda­ríkja­manna mun ekki geta, eða ekki vilja, kjósa með því að mæta á kjör­stað. Mis­mun­andi er eftir ríkjum hvernig kosn­inga­fyr­ir­komu­lagi er hátt­að. En fyrir liggur að 76 pró­sent Banda­ríkja­manna mun geta kosið í með því að póst­leggja atkvæði sitt eða skila inn kjör­seðli sem er fylltur út ann­ars staðar en í kjör­klefa í þar til gerða kjör­kassa. 

Kosið er milli Don­ald Trump, full­trúa Repúblíkana­flokks­ins sem kjör­inn var for­seti Banda­ríkj­anna 2016, og Joe Biden, fram­bjóð­anda Demókra­ta­flokks­ins og fyrr­ver­andi vara­for­seta Barack Obama. Við hlið Trump á kjör­seðl­inum verður nafn vara­for­set­ans Mike Pence en Biden valdi í byrjun viku öld­unga­deild­ar­þing­mann­inn Kamala Harris sem vara­for­seta­efni sitt. Hún er þriðja konan í sög­unni sem teflt er fram sem vara­for­seta­efni og yrði sú fyrsta til að gegna emb­ætt­inu, ef hún og Biden sigr­a. 

Auglýsing

Kosn­ing­arnar eru að eiga sér stað á tíma þar sem klofn­ingur banda­rísku þjóð­ar­innar er greini­legri en lík­ast til nokkru sinni áður. Áferð fram­bjóð­end­anna er enda ger­ó­lík. Biden gerir út á að reyna að sam­eina sundraða þjóð á meðan að Trump, á sinn ein­staka hátt, elur á sundr­ungu með því að stilla nán­ast öllum málum upp í „við og þeir“ stöðu. Annað hvort fylgir fólk Trump, eða eru óvinir hans. Skiptir þar engu um hvort sé að ræða önnur þjóð­ríki, aðra stjórn­mála­menn eða sam­fé­lags­hópa innan Banda­ríkj­anna.

Þannig hefur hann stjórnað og þann val­kost leggur hann fyrir kjós­endur nú.

Biden með afger­andi for­skot á lands­vísu

Biden hefur lengi haft nokkuð afger­andi for­skot á Trump í skoð­ana­könn­unum þegar staðan á lands­vísu er skoð­uð. Sú staða teygir sig aftur fyrir þann tíma að fyrir lá að Biden yrði fram­bjóð­andi Demókrata. Sam­kvæmt FiveT­hir­tyEight, sem vigtar kann­anir og myndar úr þeim kosn­inga­spá, var Biden með 3,8 pró­sentu­stiga for­skot á Trump í lok febr­ú­ar. End­an­lega varð ljóst að Biden yrði mótherji sitj­andi for­seta í apríl síð­ast­liðn­um, og þá var auð­vitað COVID-19 far­ald­ur­inn skoll­inn á af fullum þunga og staðan mjög breytt. Í lok þess mán­aðar mæld­ist Biden með sex pró­sentu­stiga for­skot á lands­vís­u. 

Síðan þá hefur for­skotið mest farið upp í 9,6 pró­sentu­stig og mælist í dag 8,3 pró­sentu­stig.

Í byrjun viku var tilkynnt að Kamala Harris verði varaforsetaefni Joe Biden. Ef þau sigra þá yrði hún fyrsta konan til að setjast í það embætti.
Mynd: EPA

Þann vara verður þó að hafa á að FiveT­hir­tyEight mat stöð­una þannig á kjör­dag 2016 að 70 pró­sent líkur væru á því að Hill­ary Clinton myndi sigra og verða næsti for­seti Banda­ríkj­anna, en að líkur Trump væru 30 pró­sent. Og voru þó á meðal þeirra spálík­ana sem töldu líkar Trump einna best­ar.

Trump sigr­aði hins vegar í kosn­ing­unum með því að ná í 304 kjör­menn, en 270 þarf til að hljóta kjör, þrátt fyrir að hann hafi fengið 2,9 milljón færri atkvæði en Clint­on. Mun­ur­inn á þeim á lands­vísu varð á end­anum ein­ungis 2,1 pró­sentu­stig, Clinton í vil. Skoð­ana­kann­an­irnar voru því ekki að sýna rétta mynd af stöð­unni þá, og þeir sem fram­kvæma slíkar hafa farið í mikla sjálfs­skoðun á und­an­förnum árum til að bæta aðferð­ar­fræði sína.

Í dag er staðan þannig að vef­ur­inn telur 72 pró­sent líkur á sigri Biden en 28 pró­sent líkur á að Trump sitji annað kjör­tíma­bil. 

Á meðal þeirra spáa sem mest mark er tekið á er spá FiveT­hir­tyEight, líkt og 2016, sú sem gefur Trump einna mestar líkur á sigri. Sam­kvæmt kosn­inga­spá Economist eru líkur Trump til að mynda taldar ell­efu pró­sent, en að 89 pró­sent líkur séu á að Biden sigri.

Tryggt fasta­fylgi hjá Trump

Annar mæli­kvarði á stöðu Trump sem hægt er að styðj­ast við eru mæl­ingar á ánægju með störf hans. Sem stendur eru, sam­kvæmt FiveT­hir­tyEight, 54,5 pró­sent Banda­ríkja­manna óanægð með störf Trump, sem er mun meiri óánæg­kja en hún mæld­ist í apríl þegar óánægjan fór undir 50 pró­sent í fyrsta sinn í þrjú ár.

Alls segj­ast 41,8 pró­sent vera ánægð með störf Trump sem er nálægt með­al­tali hans á kjör­tíma­bil­inu, og gefur til kynna að hann eigi mjög tryggan grunn­hóp stuðn­ings­manna, svo­kallað „ba­se“, sem muni kjósa hann og styðja sama hvað. 

Stuðningur við Trump hjá kjarnanum í fylgishópi hans haggast lítið, sama hvað gengur á.
Mynd: EPA

Þegar mæl­ingar á stuðn­ingi við Trump eru bornar saman við stöðu fyrri for­seta þegar þeir höfðu setið jafn lengi og hann í emb­ætti kemur þó í ljós að sagan ætti ekki að stuðla að jákvæðni hjá for­set­anum um fram­hald­ið. 

Frá því að Harry S. Truman gegndi for­seta­emb­ætt­inu frá 1945 til 1954 hafa ein­ungis tveir for­setar mælst með minni stuðn­ing en Trump eftir 1.302 daga á for­seta­stóli. Þeir eru Jimmy Carter og George Bush eldri. Og þeir töp­uðu báðir bar­áttu sinni fyrir end­ur­kjöri.

Staðan í sveiflu­ríkj­unum Biden í vil

Á end­anum snýst for­seta­kjörið þó ekki endi­lega um hversu mörg atkvæði fram­bjóð­end­urnir ná í heilt yfir, heldur hvernig þau dreifast á ríkin 50. Líkt og áður sagði þarf ekki að fá flest atkvæði til að vinna, heldur flesta kjör­menn. Og þeir eru mis­mun­andi margir eftir ríkj­u­m. 

Í flestum þeirra er nokkuð meit­lað í stein hvor fram­bjóð­and­inn mun vinna. Það eru til að mynda engar líkur á að Trump muni vinna í stærsta ríki Banda­ríkj­anna, Kali­forn­íu, þar sem 55 kjör­menn eru í boði. Að sama skapi er nær öruggt að hann geti gengið að kjör­mönn­unum sem í boði eru í Okla­homa og Kent­ucky vís­um.

Trump sigr­aði 2016 með því að vinna með mjög litlum mun í svoköll­uðum sveiflu­ríkj­um. Þ.e. þeim þar sem mjótt er á mun­unum á stuðn­ingi við flokk­anna tvo og atkvæði óháðra geta ráðið úrslit­u­m. 

Árið 2016 vann Trump fjögur sveiflu­ríki með 1,2 pró­sentu­stigi eða minna. Um er að ræða Flór­ída (29 kjör­menn) og „ryð­belt­ið“ svo­kall­aða: Penn­syl­vaníu (20 kjör­menn), Wisconsin (tíu kjör­menn) og Michigan (16 kjör­menn). Ef Clinton hefði unnið í þessum ríkjum þá hefði hún fengið alls 307 kjör­menn og unnið örugg­lega. 

Auglýsing

Í ár eru mun fleiri ríki skil­greind þannig að það sé sam­keppni um að vinna þau. Að mati flestra grein­ing­ar­að­ila eru þau tólf tals­ins, þar með talin öll ofan­greind. Þar eru í boði 189 kjör­menn. Árið 2016 sigr­aði Trump í tíu af þessum tólf ríkjum og fékk 179 af kjör­mönnum þeirra. 

Nú gera spár ráð fyrir að Biden sigri í átta af ríkj­unum og fái 111 af kjör­mönn­unum sem eru í boði í þeim, en að Trump haldi fjórum ríkjum og fái 78 kjör­menn. Það sem meira er þá er for­ysta Biden nokkuð góð í flestum þeirra ríkja sem hann þykir lík­legur til að vinna, á meðan að for­skot Trump í ríkj­unum þar sem hann er með yfir­hönd­ina er lít­ið, sér­stak­lega í Georgiu og Ohio þar sem sam­tals 34 kjör­menn eru í boð­i. 

Í Texas, sem er með næst flesta kjör­menn á eftir Kali­forn­íu, alls 38 tals­ins, er Biden ekki langt á eftir Trump í könn­un­um, en meiri­hluti íbúa rík­is­ins hafa ekki kosið Demókrata í for­seta­kosn­ingum í 44 ár, eða síðan að Jimmy Carter sigr­aði þar naum­lega árið 1976.

Spálíkan Economist spáir því að Biden fái 348 kjör­menn, eins og staðan er nú, en Trump ein­ungis 190, eða 114 færri en í kosn­ing­unum 2016. 

Getur breyst hratt

Það er þó allt og snemmt að dæma Trump úr leik. Kosn­inga­bar­áttan á enn eftir að fara á fullt og fram­bjóð­end­urnir eiga til að mynda eftir að mæt­ast í kapp­ræðum þegar nær dregur kjör­degi. Frammi­staða þeirra þar gæti breytt stöð­unni, þótt sagan sýni að það sé sjaldn­ast þannig. 

John Kerry var með forskot á Georg W. Bush tæpum þremur mánuðum áður en kosið var á milli þeirra, en tapaði.
Mynd: EPA

Þá er auð­vitað í gangi heims­far­aldur og jákvæðar breyt­ingar á stöðu hans, og efna­hags­málum Banda­ríkj­anna sam­hliða, gætu styrkt Trump. Hann ætl­aði sér enda að gera efna­hags­mál og lítið atvinnu­leysi að sínum helstu kosn­inga­mál­um, áður en að COVID-19 kom til sög­unnar og leiddi af sér mesta efna­hags­sam­drátt í Banda­ríkj­unum í eitt hund­rað ár og fjölda­at­vinnu­leysi. 

Það hefur líka þrí­vegis gerst að sá for­seta­fram­bjóð­andi sem mæld­ist með for­skot á lands­vísu rúm­lega 80 dögum fyrir kosn­ingar hafi á end­anum fengið færri atkvæði en mót­fram­bjóð­andi sinn. Árið 1988 mæld­ist for­skot Mich­ael Dukakis á George Bush eldri að jafn­aði 5,6 pró­sentu­stig á þeim tíma­punkti. Árið 2004 var John Kerry með 2,5 pró­sentu­stiga for­skot á George W. Bush. Og sá síð­ar­nefndi mæld­ist með tíu pró­sentu­stiga for­skot á Al Gore árið 2000 en fékk á end­anum færri atkvæði, þrátt fyrir að næla sér í fleiri kjör­menn og verða kjör­inn for­set­i. 

82 dagar eru enda langur tími í póli­tík. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar