Kristinn Ingvarsson/Háskóli Íslands

Sóttvarnir þurfa að verða að venjum og „tvinnaðar inn í alla okkar tilveru“

„Í vor vorum við búin að ná góðum árangri, fögnuðum ærlega en gleymdum okkur svo. Við verðum að horfast í augu við það. Við slökuðum of mikið á. Það má ekki gerast aftur,“ segir Runólfur Pálsson forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala. Hann segist ekki sjá að hægt sé að loka landamærunum en að með skynsamlegri útfærslu skimunar ætti að takast að minnnka mjög hættuna á að smit berist inn í landið.

Þegar sautján innanlandssmit greindust á einum degi í síðustu viku olli það titringi meðal starfsfólks Landspítala. Eftir að hafa glímt við faraldurinn í vetur með árangri sem eftir var tekið, sem m.a. lýsti sér í færri dauðsföllum og færri innlögnum en víðast annars staðar, voru virk smit komin yfir hundrað á aðeins nokkrum dögum. „Þetta olli verulegum áhyggjum því þetta voru smit sem höfðu komið upp um verslunarmannahelgina,“ segir Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala og prófessor við Háskóla Íslands, í samtali við Kjarnann. Þó að fá innanlandssmit hafi greinst síðustu daga mun taka tíma að koma í ljós hvort að tekist hafi að koma í veg fyrir víðtækari útbreiðslu. „Í okkar litla samfélagi geta sveiflur milli daga verið umtalsverðar. Og þó að það sé ekki sami stígandi í greindum smitum og var í vetur, líkt og sumir óttuðust að myndi gerast núna, þá erum við alls ekki farin að fagna.“


Allir þeir sem greinast með COVID-19 eru í umsjá COVID-göngudeildar Landspítala. Starfsmenn hennar annast eftirlit með sjúklingunum og eftir atvikum meðferð. „Núna eru rúmlega 100 fullorðnir í eftirliti hjá okkur og um ellefu börn sem starfsfólk Barnaspítala Hringsins sinnir,“ segir Runólfur.


Um nokkurt skeið hafa daglega bæst við sjúklingar en síðustu daga hafa nokkrir útskrifast sem hafa náð bata samkvæmt ákveðnum skilmerkjum. „Þess vegna hefur sjúklingum í umsjá göngudeildarinnar ekki fjölgað eins mikið og annars hefði verið,“ bendir Runólfur á. Til þess að sjúklingur sé útskrifaður úr eftirliti þarf hann að hafa verið einkennalaus í sjö daga og að minnsta kosti fjórtán dagar þurfa að hafa liðið frá greiningu. Fylgst er vel með þróun einkenna, jafnvel  með daglegum símtölum, ekki síst vegna þess að dæmi eru um að þau geti versnað skyndilega og að hratt geti þurft að bregðast við.


Auglýsing

Runólfur segir að heilt yfir hafi starfsemi göngudeildarinnar gengið vel og verkefnin verið viðráðanleg það sem af er þessari bylgju faraldursins. „Það skýrist mest af því að stærsti hluti þeirra sem sýkst hafa að undanförnu er ungt fólk og að langflestir hafa haft væg einkenni.“


Því hefur eftirlit starfsfólks göngudeildarinnar fyrst og fremst farið fram í gegnum síma. Hringt er reglulega í sjúklingana og rætt við þá en þeir geta einnig alltaf hringt í starfsfólkið ef ástand þeirra breytist. Ef einkenni hins vegar versna verulega eru sjúklingarnir boðaðir til skoðunar á göngudeildinni. Síðustu vikur hafa fáir þarfnast þess. „Þannig að þrátt fyrir þennan fjölda smitaðra hefur umfang starfsemi deildarinnar ekki verið nærri því eins mikið og var í fyrstu bylgjunni í vetur.“


Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um hvort að það afbrigði veirunnar sem nú er að greinast hér á landi sé máttlausara en þau sem voru að greinast í vetur og að það skýri minni veikindi sýktra. Runólfur telur það ólíklegt. Mun líklegra sé að skýringin felist í aldurssamsetningu sjúklingahópsins. Ungt fólk veikist almennt ekki jafn alvarlega og það eldra og þeir sem eru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. Hins vegar séu þess dæmi og nú liggja til dæmis tveir ungir menn á sjúkrahúsi með COVID-19, annar þeirra á gjörgæsludeild. „En það að vera aldraður er ekki endilega ávísun á alvarleg veikindi. Um það sáum við líka dæmi í fyrri bylgjunni.“


Runólfur bendir líka á að fjöldinn sé ekki það mikill að hægt sé að draga of miklar ályktanir um veikindin almennt. Margir hafi greinst síðustu daga og þekkt sé að einkennin eigi það til að versna með tímanum, gjarnan um sjö til tíu dögum frá greiningu. „Það á því enn eftir að koma í ljós hvort að alvarleg einkenni koma fram hjá þessum sjúklingum.“


Runólfur segir að þó að enn vanti svör við fjölmörgum spurningum um COVID-19, um áhrif sjúkdómsins á líkama og sál, og að verið sé að reyna að fá svör við þeim með rannsóknum, hafi þegar mikil þekking skapast. „Við höfum lært mjög mikið frá því að þessi veira kom til sögunnar en mörgum spurningum er ósvarað – ekki síst hvað varðar langtímaafleiðingar sjúkdómsins.“
Þorkell Þorkelsson/Landspítali

Þau einkenni sem sjúklingarnir í þessari bylgju eru fyrst og fremst að sýna eru hálssærindi, vöðva- og beinverkir, slappleiki og höfuðverkur. Í fyrstu bylgjunni bar meira á hita, hósta og mæði.


Enn er ekki að fullu vitað hvað veldur því að sjúkdómurinn leggst mismunandi á fólk óháð aldri. „Það hafa komið fram tilgátur um hvort það ráðist af skammti smitefnis sem fólk fær í sig,“ segir Runólfur, „það er að segja ef að fólk fái mikið magn af veirunni í öndunarveginn þá auki það hættuna á alvarlegum veikindum.“ Ekki hafi enn verið sýnt fram á þetta með óyggjandi hætti. „Það eru líka vangaveltur um samspil veirunnar og viðbragða ónæmiskerfis líkamans.“


Hann bendir á að þeir sem veikjast hvað mest fá lungnabólgu og sýna merki um gríðarlega bólgusvörun í líkamanum. „Þau miklu ónæmisviðbrögð líkamans geta verið skaðleg og valdið vefjaskemmdum. En það er ekki enn vitað hvað það er sem gerir það að verkum að ónæmiskerfi sumra bregst svona kröftuglega við en annarra ekki.“


Það er áfall að greinast með COVID-19, nýjan sjúkdóm sem enn er margt á huldu um. Það er líka erfitt fyrir þá sem greinast að hugsa til þess að þeir hafi mögulega smitað aðra. Þetta er meðal þess sem starfsmenn göngudeildarinnar ræða við skjólstæðinga sína. „Okkar frábæru hjúkrunarfræðingar eiga oft löng símtöl við sjúklingana og reyna að veita þeim sálrænan stuðning. Þannig að þótt okkar markmið sé fyrst og fremst að fylgjast með framgangi sjúkdómsins hjá fólki þá reynum við að veita þessa aðstoð líka.“ Hann segir að þörf fyrir sálfræðiþjónustu sé eitt af því sem þurfi að skoða  vel í tengslum við þá þjónustu og það eftirlit sem veitt er í heimsfaraldri sem þessum og bendir á að verið sé að vinna stóra rannsókn á líðan fólks á tímum COVID-19 við Læknadeild Háskóla Íslands.


Runólfur segir að þó að enn vanti svör við fjölmörgum spurningum um COVID-19, um áhrif sjúkdómsins á líkama og sál, og að verið sé að reyna að fá svör við þeim með rannsóknum, hafi þegar mikil þekking skapast. „Við höfum lært mjög mikið frá því að þessi veira kom til sögunnar en mörgum spurningum er ósvarað – ekki síst hvað varðar langtímaafleiðingar sjúkdómsins.“


Það er áfall að greinast með COVID-19, nýjan sjúkdóm sem enn er margt á huldu um. Það er líka erfitt fyrir þá sem greinast að hugsa til þess að þeir hafi mögulega smitað aðra. Þetta er meðal þess sem starfsmenn COVID-göngudeildarinnar ræða við skjólstæðinga sína.
EPA

Þegar fólk er talið hafa náð bata og er útskrifað eftir legu á Landspítala eða úr eftirliti á COVID-göngudeildinni hefur starfsfólk spítalans þó áfram eftirlit með þeim sem veiktust mikið, m.a. þeim sem fengu lungnabólgu. Fyrirfram var talið líklegt að þessi hópur þyrfti sérhæft eftirlit til lengri tíma og í sumum tilvikum endurhæfingarmeðferð.


Það er hins vegar hlutverk heilsugæslunnar að veita öðrum þeim sem veiktust af COVID-19 þjónustu þurfi þeir á henni að halda, þ.e. þeim sem ekki veiktust alvarlega. „Við áttum ekki von á því að þeir sem fengu væg einkenni myndu glíma við mikil eftirköst af sjúkdómnum,“ segir Runólfur. „Það hefur komið í ljós að margir eru að fást við langtímaafleiðingar sem gera fólki erfitt fyrir, jafnvel svo erfitt að það getur ekki stundað vinnu.“


Langtímaeinkennin eru meðal annars mikið þrekleysi sem fólk finnur fyrir mörgum vikum eftir að það sýktist. Þá finnur fólk fyrir verkjum eða óþægindum í líkamanum og sumir finna fyrir auknum einbeitingarskorti.  „Fólk er að reyna sjálft að bæta sitt úthald, fara út að ganga og svo framvegis, en sumir verða gjörsamlega eftir sig í kjölfarið.“

Mjög áberandi hvað fólk er lengi að ná sér


Þekkt er að fólk getur verið lengi að ná sér að fullu eftir veirusýkingar. „En þetta er mjög áberandi eftir þessa tilteknu veiru. Þetta er mikilvægt að rannsaka svo hægt sé að finna meðferð og endurhæfingarúrræði sem koma að gagni.“


Af því að kórónuveiran er ný veira og COVID-19 nýr sjúkdómur var engin virk meðferð í boði fyrir sjúklingana sem greindust síðasta vetur. Ýmislegt var reynt, m.a. lyf sem síðar kom í ljós að gerðu líklegast ekki gagn. En rannsóknir hafa nú sýnt fram á gagnsemi veirulyfsins remdesivír hjá þeim sem veikjast alvarlega. Þá virðist lyfið dexametasón, sem er sykursteri, einnig geta hjálpað en það dregur úr bólgusvari líkamans.  „Í þessum faraldri höfum við getað nýtt okkur þær gríðarlegu framfarir sem hafa orðið í lækna- og lífvísindum. Það hefur verið hægt að framkvæma umfangsmiklar rannsóknir, jafnvel í samstarfi vísindahópa um allan heim, með skjótvirkari hætti en áður.“


Auglýsing

Runólfur segir að árangurinn hér á landi í baráttunni gegn faraldrinum í vetur og vor hafi náðst með gríðarlegu og samstilltu átaki. „Allt annað var nánast lagt til hliðar, ekki aðeins í heilbrigðisþjónustunni heldur samfélaginu almennt í því skyni að losa okkur við þessa veiru. En það gengur ekki til lengdar, það er varla hægt að halda samfélagi gangandi í eitt, tvö eða þrjú ár með þeim takmörkunum sem settar voru á í vetur. Við vitum ekkert hvenær við losnum alfarið við veiruna. Eina raunhæfa leiðin virðist vera bóluefni og miðað við þá getu sem við höfum í læknavísindum  þá gæti það birst fyrr en seinna.“


 En, segir Runólfur með áherslu, „öll heimsbyggðin mun þurfa bóluefni og hvenær við verðum búin að bólusetja nægilega stóran hluta þjóðarinnar svo að veiran nái ekki að dreifa sér lengur, vitum við ekkert hvenær verður.“


Horfa verði á hlutina í þessu ljósi og leita verði allra leiða til að láta samfélagið ganga þrátt fyrir að eiga á hættu að veiran birtist hér af og til. „Ég sé ekki að við getum lokað landamærunum. Það snýst ekki eingöngu um erlenda ferðamenn. Það þarf líka að hafa í huga þann mikla fjölda erlends starfsfólks sem þarf að komast til landsins árið um kring. Ég fæ ekki séð að við getum verið án þessa fólks. Svo eru Íslendingar líka á faraldsfæti. Með skynsamlegri útfærslu skimunar ættum við að geta minnkað mjög hættuna á að smit berist inn í landið“.


Á sama tíma þurfi að vera hægt að beita aðgerðum til að halda útbreiðslu hennar í skefjum. „Þrátt fyrir fréttir af hegðun og atferli landans síðustu vikur þá er ég samt bjartsýnn á það til lengri tíma litið að við sem þjóð getum náð árangri og komist vel frá þessum faraldri án þess að loka fyrir eða takmarka verulega stóra og mikilvæga þætti samfélagsins.“

Átaksnálgun ómöguleg árum saman


Til þess að svo megi verða þurfa að mati Runólfs áfram að vera til staðar kerfisbundnar aðgerðir, þ.e. skimun, einangrun, smitrakning og sóttkví, sem og reglur um umgengni við viðkvæma hópa svo sem aldraða, en einnig skýrar umgengnisreglur í skólum, innan íþróttahreyfingarinnar og á vinnustöðum.


„En fyrst og síðast skila einstaklingsbundnar smitvarnir árangri. Ég trúi ekki öðru en að þessi upplýsta þjóð átti sig á því að hún verði að hegða sér með ábyrgum hætti á meðan það er smit í samfélaginu eins og núna. Við þurfum öll að gera hvað við getum til að koma í veg fyrir að við smitumst og að við smitum aðra.“


Tveggja metra-reglan, handþvottur og sótthreinsun eru besta forvörnin. Runólfur telur að andlitsgrímur séu mikilvægar og að þær eigi fólk að bera þar sem 2 metra reglunni verður ekki viðkomið. Sá sem er smitaður en einkennalaus dreifir síður veirunni ef hann er með grímu. Að sama skapi getur gríma lágmarkað það veirumagn sem fólk fær í sig. „Sumir hafa talað um að það sé falskt öryggi að vera með grímu en ég tel að gríman sé ákveðin áminning til samborgarana að halda fjarlægð við þann sem hana ber.“


Ekki er að mati Runólfs hægt að beita átaksnálgun árum saman. Þessar kerfisbundnu aðgerðir og umgengnisreglur þurfi að verða að venjum og tvinnaðar inn í alla okkar tilveru þar til hættan er liðin hjá. Hann leggur til að þessu verði miðlað til ungs fólks í gegnum skólakerfið og íþróttahreyfinguna. „Þessi veira getur haft mjög alvarlegar afleiðingar og hver og einn verður að taka ábyrgð. Í vor vorum við búin að ná góðum árangri, fögnuðum ærlega en gleymdum okkur svo. Við verðum að horfast í augu við það. Við slökuðum of mikið á. Það má ekki gerast aftur.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal